Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 218/2012

Fimmtudaginn 15. janúar 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. nóvember 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 13. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 21. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir og viðbótargögn kærenda bárust með bréfi 7. mars 2012.

Með bréfi 11. mars 2013 voru viðbótargögn kærenda send umboðsmanni skuldara og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1955 og 1961. Þau bjuggu áður ásamt syni sínum á unglingsaldri í eigin 130 fermetra einbýlishúsi að D götu nr. 15 í sveitarfélaginu E en eignin hefur nú verið seld með samþykki umboðsmanns skuldara. Að sögn kærenda fluttist búsetan að stórum hluta í annað sumarhúsa þeirra í sveitarfélagið F þegar einbýlishúsið var selt.

Kærandi B starfar hjá X ehf. Kærandi A er í námi en starfar auk þess við kennslu. Sameiginlegar ráðstöfunartekjur kærenda eru 429.618 krónur á mánuði.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til ársins 2006. Þá hafi sumarhús þeirra brunnið en þau hafi ekki fengið tjónið bætt. Hafi þau þá flutt inn tvö ósamsett sumarhús og byggt. Ráðgert hafi verið að selja annað húsið til að afla fjár en það hafi ekki selst. Hafi þetta dregið út getu kærenda til að standa við aðrar skuldbindingar sínar. Þá hafi þau minnkað við sig íbúðarhúsnæði en nýja húsnæðið hafi reynst haldið leyndum göllum sem kostnaðarsamt hafi verið að bæta úr. Einnig hafi tekjur kæranda A dregist saman.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 67.802.315 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2005 til 2009 í tengslum við fasteignakaup.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með greinargerð umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. maí 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því fór hann þess á leit við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í greinargerð umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar nema hluta fjármuna samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir eða frá 3. desember 2010. Á þessum tíma hefðu þau átt að geta lagt fyrir á bilinu 2.031.840 krónur til 2.738.513 krónur. Samkvæmt upplýsingum um stöðu innlánsreikninga kærenda frá upphafi greiðsluskjóls nemi sparnaður á tímabilinu 315.729 krónum. Einnig kom fram í greinargerðinni að kærendur leigðu tvö sumarhús sín út til ferðamanna en þau hefðu ekki upplýst umsjónarmann um hverjar tekjur þeirra af þessari starfsemi væru þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi. Kærendur hefðu heldur ekki upplýst umsjónarmann um í hvaða formi rekstur sumarhúsanna væri.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 14. maí 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bárust skýringar kærenda með tölvupósti 21. maí sama ár. Þau hafi greint frá því að kauptilboð hefði borist í fasteign þeirra að D götu nr. 15 í sveitarfélaginu E og óskað eftir fundi með starfsmanni umboðsmanns skuldara. Fundurinn fór fram 23. maí. Hafi kærendum verið leiðbeint um nauðsyn þess að koma haldbærum gögnum um útgjöld þeirra undanfarin misseri til embættisins. Gögn bárust frá kærendum 3. október 2012. Hafi það verið yfirlit úr töflureikni vegna heimilisbókhalds en kærendur kváðust hafa sent bókhaldið til endurskoðanda síns undangengið vor.

Með bréfi til kærenda 6. nóvember 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála endurskoði ákvörðun umboðsmanns skuldara þeim í hag. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða greiðslugetu sína ekki hafa verið eins mikla og umboðsmaður skuldara telji og því hafi þau ekki getað lagt til hliðar þá fjárhæð sem embættið geri ráð fyrir. Þar vegi þungt að ekki hafi verið tekið tillit til þess að kærendur hafi haft veruleg útgjöld af tveimur sumarhúsum í þeirra eigu en rekstur sumarhúsanna hafi rýrt greiðslugetu kærenda umtalsvert. Hafi útgjöldin fyrst og fremst verið til að halda verðgildi eignanna í hámarki. Þessu til viðbótar hafi kærandi A ekki haft þær tekjur sem skipaður umsjónarmaður geri ráð fyrir. Einnig hafi kærendur verið að greiða upp lán sem þau hafi tekið í nafni sonar síns. Frá upphafi hafi þau gert grein fyrir því að þau myndu greiða af þessu láni hvað sem öðru liði enda hafi kærendur ekki ætlað að láta son sinn og fjölskyldu hans líða fyrir fjárhagsvanda sinn.

Kærendur telja að þau hafi lagt fyrir kærunefndina gögn er sýni ótvírætt að útgjöld þeirra hafi verið umtalsvert hærri en umboðsmaður hafi áætlað. Einnig álíta þau að nefnd gögn rökstyðji þá skoðun þeirra að þau hefðu undir engum kringumstæðum getað lagt fyrir þá fjárhæð sem umboðsmaður telji þau hafa svikist um.

Kærendur lýsa yfir mikilli óánægju með framgöngu umboðsmanns skuldara og skipaðs umsjónarmanns í málinu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingarnar verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki greiðsluaðlögunar 14. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 20 mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og tekjuyfirlitum byggðum á upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá byrjun árs 2011 og út septembermánuð 2012 í krónum:

 

Launatekjur að frádregnum skatti 7.772.690
Barnabætur 2011 65.190
Vaxtabætur 2011 600.000
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 225.702
Barnabætur 2012 (útgreiddar) 42.484
Samtals 8.706.066


Mánaðarlegar meðaltekjur 435.303

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 435.303 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Ætla megi að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 283.723 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað nóvembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.031.580 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 151.579 krónur á mánuði í 20 mánuði og fyrrgreint meðaltal heildartekna.

Kærendur hafi tilgreint fjárútlát vegna ræstinga og annars rekstrarkostnaðar við útleigu á sumarhúsum í þeirra eigu. Af framlögðu yfirliti yfir heimilisbókhald megi enn fremur ráða að kærendur hafi haft nokkrar leigutekjur af sumarhúsunum. Við töku ákvörðunar sé þó einungis byggt á upplýsingum um tekjur af staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra enda hafi kærendur hvorki skilað gögnum um leigutekjur sínar af sumarhúsunum né sé gert ráð fyrir útgjöldum af rekstri húsanna.

Einnig hafi kærendur borið því við að kostnaður við heimilisrekstur þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um en slíkar fullyrðingar hafi kærendur ekki stutt með fullnægjandi gögnum. Hvorki verði talið að fyrirliggjandi yfirlit úr heimilisbókhaldi kærenda veiti tæmandi skýringar á því hvers vegna þeim hafi ekki tekist að rækja skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. né að yfirlitin séu þess eðlis að þau sýni fram á öll fjárútlát kærenda á meðan á greiðsluskjóli hefur staðið.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður einungis notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og hægt sé að færa sönnur á með gögnum.

Samkvæmt því sem að ofan greini þyki ljóst að kærendur hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum og öðrum launum í greiðsluskjóli.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem fyrir liggi í málinu á þeim tíma er ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn og sé það í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt við töku stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu þegar ákvörðun var tekin. Þar sem umræddar upplýsingar hafi ekki verið fyrirliggjandi við töku ákvörðunarinnar hafi þær ekki afturvirk áhrif á gildi hennar.

Ekki þyki fært að miða útgjöld kærenda við hærri fjárhæðir en byggja megi á með gögnum og framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Þá verði ekki séð að þær upplýsingar sem kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu en frásögn kærenda um aukin útgjöld sé auk þess ekki studd gögnum.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 5. maí 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fór hann þess jafnframt á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 6. nóvember 2012.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.031.580 krónur á fyrstu 20 mánuðum greiðsluskjóls en samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi þau átt að leggja til hliðar fjármuni frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 3. desember 2010. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 151.579 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Í greinargerð umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. maí 2012, þar sem lagt er til að heimild til greiðsluaðlögunar verði felld niður, kemur fram að umsjónarmaður telji að kærendur hefðu átt að getað lagt til hliðar á bilinu 2.031.840 krónur til 2.738.513 krónur. Er hærri talan miðuð við uppgefin laun kærenda en lægri talan við óstaðfesta fullyrðingu kærenda um að laun kæranda A hafi verið lægri en gögn umboðsmanns skuldara bendi til.

Kærendur kveðast hafa haft mun minna fé aflögu en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir. Þau tilgreina enga fjárhæð í því sambandi en segja annars vegar að útgjöld vegna rekstrar fasteigna þeirra hafi verið meiri en umboðsmaður hafi áætlað og hins vegar að þau hafi verið að greiða af láni sem sonur þeirra hafi tekið fyrir þau.

Máli sínu til stuðnings leggja kærendur fram ýmis gögn vegna útgjaldanna samkvæmt neðangreindri útgjaldatöflu, þar á meðal:

 

Tegund útgjalda Fjárhæð í krónum Sýnt fram á með
Skólagjöld 2011 85.199 Yfirlit í töflureikni
Skólagjöld 2012 28.500 Yfirliti úr heimabanka
Skólagjöld 2012 10.500 Greiðsluseðill
Tryggingar 2011 og 2012 285.004 Yfirlit í töflureikni
Brunatrygging hesthúss 2012 4.458 Vátryggingaskírteini
Fjölskyldutrygging 2012 20.000 Vátryggingaskírteini
Ábyrgðartrygging bifreiðar 103.926 Vátryggingaskírteini
Byggingavara v/húsa 2011 525.310 Yfirlit í töflureikni
Brunatrygging sumarhúsa 2012 58.302 Vátryggingaskírteini
Rafmagnsvinna 2011 70.000 Kvittun
Auglýsingar 2011 61.424 Yfirlit í töflureikni
Kostnaður v/húsa og sumarhúsaleigu 2012 342.751 Reikningsyfirlit banka
Orkuveita Reykjavíkur des. 2010 - 2012 296.777 Reikningsyfirlit
HS-veitur nóv. 2010 - júlí 2012 251.288 Yfirlit
Rarik 2012 - mars 2013 567.289 Reikningsyfirlit
Orkusalan des. 2010 - jan. 2013 236.161 Reikningsyfirlit
Lóðaleiga sumarhús/hesthús 2011 136.458 Yfirlit úr heimabanka
Lóðaleiga sumarhús/hesthús 2012 152.625 Greiðsluseðill
Fasteignagjöld 2011 215.449 Yfirlit í töflureikni
Fasteignagjöld 2012 251.608 Reikningsyfirlit
Greiðsla af láni sonar sept. - des.  2010 142.305 Greiðsluyfirlit banka
Greiðsla af láni sonar 2011 728.807 Greiðsluyfirlit banka
Greiðsla af láni sonar jan. - okt. 2012 642.085 Greiðsluyfirlit banka
Samtals 5.216.226  

 

Frá því að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var móttekin hjá umboðsmanni skuldara 3. desember 2010 og þar til skipaður umsjónarmaður lagði til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana 5. maí 2012 liðu 17 mánuðir. Greiðsluskjól kærenda hafði á hinn bóginn staðið yfir í 23 mánuði þegar umboðsmaður skuldara ákvað að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um laun kærenda á tímabilinu janúar 2011 og út september 2012 eða alls í 21 mánuð.

Samkvæmt launaupplýsingum ríkisskattstjóra og skattframtölum, sem eru meðal gagna málsins, hafa tekjur kærenda verið eftirfarandi á fyrstu 21 mánuði greiðsluskjóls í krónum:

 

Nettótekjur A  2011 1.229.115
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 2011 102.426
Nettótekjur B 2011 3.205.525
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 2011 267.127
Nettótekjur alls 2011 4.434.640
Mánaðartekjur alls að meðaltali 2011 369.553


Nettótekjur A  jan. - sept.2012 951.007
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali jan. - sept. 2012 105.667
Nettótekjur B jan. - sept. 2012 2.387.043
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali jan. - sept. 2012 265.227
Nettótekjur alls jan. - apríl 2012 3.338.050
Mánaðartekjur alls að meðaltali jan. - apríl 2012 370.894


Nettótekjur alls jan. 2011 - sept. 2012 7.772.690
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali jan. 2011 - sept. 2012 370.128

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður einungis notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji í útreikningum sínum á greiðslugetu skuldara. Framfærsluviðmiðið er miðað við almennan heimilisrekstur en í því er, auk útgjalda við kaup á matvælum, meðal annars gert ráð fyrir rafmagni, hita, fasteignagjöldum og tryggingum af íbúðarhúsnæði skuldara. Ekki eru fyrir hendi heimildir til að greiða af lánum eða reka aðrar fasteignir en íbúðarhúsnæði fyrir fjölskylduna. Því liggur fyrir að kærendum hefur verið óheimilt að greiða stóran hluta þess sem þau hafa samkvæmt framangreindri útgjaldatöflu þeirra greitt á tíma greiðsluskjóls.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt framansögðu og uppgefnar tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi í krónum á tímabilinu janúar 2011 og út september 2012:

 

Nettótekjur alls jan. 2011 - sept. 2012 7.772.690
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali jan. 2011 - sept. 2012 370.128
Mánaðarleg útgjöld skv. ákvörðun umboðsmanns 283.723
Lagt til hliðar á mánuði 86.405
Alls sparnaður jan. 2011 - sept. 2012 1.814.507

 

Þegar litið er til þeirra tölulegu upplýsinga sem fram koma hér að framan má sjá að miðað við uppgefnar tekjur kærenda og framfærslukostnað samkvæmt 16. gr. lge. hefðu þau átt að geta lagt til hliðar alls 1.814.507 krónur á fyrsta 21 mánuði greiðsluskjóls. Sparnaður þeirra var þó aðeins 315.729 krónur.

Samkvæmt þessu og miðað við gögn málsins telur kærunefndin ekki hjá því komist að miða við að kærendur hefðu átt að geta lagt til hliðar  1.814.507  krónur á fyrrgreindu tímabili. Fellst kærunefndin því á sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta