Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 239/2012

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. desember 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 7. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. mars 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 20. ágúst 2013. Svar barst með bréfi 2. september 2013.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1946 og 1948. Þau eru gift og búa í eigin 98 fermetra íbúð að D götu nr. 39 í sveitarfélaginu E.

Kærandi A rekur X ehf. og fær jafnframt atvinnuleysisbætur. Kærandi B er í hlutastarfi á skrifstofu og fær að auki greiddar atvinnuleysisbætur. Útborgaðar tekjur kærenda eru alls 412.637 krónur á mánuði að meðaltali miðað við staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra janúar til júní 2012.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis og erfiðleika í rekstri X ehf. sem er félag kæranda A.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 47.696.797 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga sinna á árunum 2005 til 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. mars 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 27. ágúst 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Væri umsjónarmanni ekki annað fært en að endursenda málið til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. Nánar tiltekið greindi umsjónarmaður frá því að kærandi A hefði skuldað virðisaukaskatt að fjárhæð 2.165.493 krónur. Hann hefði samið við embætti tollstjóra um greiðslu skuldarinnar á grundvelli laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 með útgáfu skuldabréfs til fimm ára. Umrætt skuldabréf félli úr gildi ef greiðsluaðlögunarsamningur kæmist á og þar með myndi samkomulag um greiðsludreifingu á kröfunni falla niður og vörsluskattskuldin koma í veg fyrir að greiðsluaðlögunarsamningur kæmist á.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 5. september 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni barst svar kærenda með bréfi 19. september 2012. Hafi þau talið að engin virðisaukaskattskuld væri til staðar þar sem tollstjóri hefði samþykkt útgáfu skuldabréfs á grundvelli fyrrgreindra laga nr. 24/2010. Jafnframt hafi kærendur vísað til athugasemda með frumvarpi til laganna þar sem segi að lagt sé til að rekstraraðilum sem fyrst og fremst séu í tímabundnum greiðsluvandræðum verði gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011 án frekari viðurlaga. Einnig telji kærendur að þar sem skuldabréfi sé jafnan lýst sem einhliða, óskilyrtri, skriflegri viðurkenningu á peningaskuld, hafi annar kærenda viðurkennt skuld sína við tollstjóra með undirritun skuldabréfsins. Í málinu geti því ekki bæði verið um að ræða kröfu ríkissjóðs á hendur kærendum samkvæmt skuldabréfi, sem sé í skilum, og kröfu tollstjóra vegna vangoldins virðisaukaskatts. Skattskuldin hafi verði gerð upp að fullu með skuldabréfinu og lögformlegt greiðsluuppgjör á virðisaukaskattskuldinni hafi átt sér stað. Einnig segi í bréfinu að þar sem skuldabréfið teljist ekki til skuldbindingar vegna refsiverðrar eða skaðabótaskyldrar háttsemi eigi ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. ekki við í málinu. Kæmist umboðsmaður skuldara þó að þeirri niðurstöðu að d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við í málinu myndi fjárhæð skuldarinnar einungis nema um 5% af heildarskuldum kærenda. Því væri ekki unnt að líta svo á að þau hefðu bakað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag þeirra, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009.

Með bréfi til kærenda 5. desember 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 5. desember 2012 verði felld úr gildi og að umsókn þeirra um að leita greiðsluaðlögunar með samningi við kröfuhafa verði samþykkt.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé því haldið fram að kærendur eigi ekki rétt til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kærandi A hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag kærenda með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu vegna virðisaukaskattskuldar. Þessu hafni kærendur enda liggi fyrir að engin virðisaukaskattskuld sé fyrir hendi hjá kæranda A eftir að hann gaf út skuldabréf til tollstjóra vegna vanskila á opinberum gjöldum. Hafi skuldabréfið verið gefið út á grundvelli 5. gr. laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 vegna virðisaukaskattskuldar kæranda A sem þá hafi numið 1.859.721 krónu. Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum 24/2010 segi orðrétt: „Í frumvarpinu er lagt til að rekstraraðilum sem fyrst og fremst eru í tímabundnum greiðsluvandræðum verði gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum þann 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011 án frekari viðurlaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Standist viðkomandi aðili þau skilyrði verða vanskilin sett á skuldabréf til fimm ára með verðbótum en án vaxta. Vonir standa til að slíkt úrræði geti hjálpað lífvænlegum fyrirtækjum yfir versta hjallann og þar með tryggt þeim ákveðið rekstraröryggi næstu mánuði.“

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segi meðal annars að fyrir liggi að kærandi A gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Þessu hafni kærendur enda sé ljóst að kærandi A sæti ekki frekari viðurlögum af hálfu ríkisvaldsins þar sem uppgjör hans á þeim vörslusköttum sem um ræði hafi farið fram með skuldabréfi. Ekki sé hægt að fallast á þau rök umboðsmanns skuldara að þar sem skuldin hafi í upphafi stofnast vegna refsiverðrar háttsemi kæranda A skuli það nú girða fyrir möguleika beggja kærenda til að leita greiðsluaðlögunar.

Þegar litið sé til orðalags d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og umfjöllunar um ákvæðið í greinargerð með lögunum liggi beinlínis fyrir að ekki skuli túlka ákvæðið með rýmri hætti en efni standi til. Því verði að túlka ákvæðið kærendum í hag enda óumdeilt að engin vanskil séu til staðar vegna opinberra gjalda. Það leiði einnig af lge. að túlka eigi lögin með hagsmuni skuldara að leiðarljósi enda séu þau sett með það að markmiði að greiða úr skuldavanda einstaklinga.

Hugtakið skuldabréf sé skilgreint þannig að um sé að ræða einhliða, óskilyrta og skriflega viðurkenningu á peningaskuld. Þar sem kærandi A hafi viðurkennt skuld við innheimtumann ríkissjóðs með skuldabréfi verði að telja að fyrir liggi lögformlegt greiðsluuppgjör á virðisaukaskattskuld án þess að frekari viðurlaga verði krafist af hálfu tollstjóra. Þetta megi sjá þegar litið sé til almennra leiðbeininga vegna skuldabréfsins en þar segi meðal annars orðrétt: „Í kjölfar móttöku skuldabréfsins verður skattkrafan færð úr innheimtukerfi ríkissjóðs og skuldbreytt í kröfu skv. skuldabréfi.“ Þannig liggi fyrir að engin skattkrafa sé á hendur kæranda A.

Þegar litið sé til fyrrnefndra laga nr. 24/2010 megi jafnframt sjá að vilji löggjafans hafi staðið til þess að einstaklingar gætu nýtt sér úrræði þeirra laga samhliða lge. Í þessu sambandi sé vísað til 2. mgr. 1. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 165/2010 um breytingu á lögum nr. 24/2010 sem hljóði svo: „Einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, geta sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum þessum vegna vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Hafni umboðsmaður skuldara umsókn einstaklings um greiðsluaðlögun skal umsókn samkvæmt þessari málsgrein afgreidd í samræmi við 1. mgr.“ Með engu móti sé hægt að líta þannig á að bæði séu fyrir hendi krafa gagnvart nefndu skuldabréfi og skattkrafa hjá innheimtumanni ríkissjóðs þar sem skuldinni hafi verið breytt í skuld samkvæmt skuldabréfi sem sé í skilum.

Í ákvörðun sinni vísi umboðsmaður skuldara til athugasemda við ákvæði f-liðar 1. mgr. 3. gr. lge. en embættið telji ákvæðið styðja þá skýringu að fara beri með skuldabréf sem gefin séu út samkvæmt lögum 24/2010 með sama hætti og vörsluskattskuldir við skýringu lge. Að mati kærenda geti þessi skýring ekki staðist enda ekki lengur um vörsluskattskuld að ræða. Því verði að skýra ákvæði 1. mgr. 3. gr. lge. í samræmi við það ráðandi lögskýringarsjónarmið að lagaákvæði beri að skýra í samræmi við orðanna hljóðan. Þegar litið sé til orðalags 1. mgr. 3. gr. lge. megi sjá að þar sé aðeins talað um kröfur vegna vangoldins virðisaukaskatts.

Kærendur telji að umboðsmaður skuldara verði að miða vanskil vörsluskatta við það tímamark er ákvörðun sé tekin þegar metið sé hvort heimila eigi greiðsluaðlögun. Það sé því ekki mögulegt að líta svo á að vörsluskattskuld sé til staðar þegar skil hafi verið gerð á henni með útgáfu skuldabréfs. Ef vörsluskattskuld teldist fyrir hendi við þessar aðstæður væri jafnræðis ekki gætt meðal þeirra sem búnir séu að greiða vanskil og stæðu í skilum og annarra umsækjenda um greiðsluaðlögun sem stæðu í skilum með opinber gjöld. Væri slíkt brot á jafnræðisleglum 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þurfi eftirtalin skilyrði að vera uppfyllt til að komið sé í veg fyrir greiðsluaðlögun: a) um skuldbindingu þurfi að vera að ræða, b) skuldbinding þurfi að nema einhverju miðað við fjárhag skuldara og c) um háttsemi þurfi að vera að ræða sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Fyrir liggi að þrátt fyrir að um sé að ræða skuldbindingu samkvæmt skuldabréfi, varði sú skuldbinding nú ekki refsingu eða skaðabótaskyldu samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda hafi tollstjóri samþykkt skuld samkvæmt skuldabréfinu án frekari viðurlaga. Þar sem ekki sé um að ræða refsiverða háttsemi vegna skuldar við innheimtumann ríkissjóðs falli atvik málsins ekki undir ákvæðið. Einnig sé það mat kærenda að þegar horft sé til fjárhæðar skuldabréfsins og lífeyrisskuldbindingar kæranda A sé ekki unnt að líta þannig á að um all háar skuldbindingar sé að ræða í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í ákvörðun sinni túlki umboðsmaður skuldara dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009. Komist embættið að því með vísan til dómsins að skuldir kærenda geti ekki talist smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kærenda. Kærendur fallist ekki á þetta. Jafnvel þótt talið yrði að kærandi A stæði í skuld vegna opinberra gjalda og ógreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda næmu þær skuldir aðeins um 6,5% af heildarskuldum kærenda. Þar af nemi skuldir lífeyrissjóðsiðgjalda einungis 2,6% af heildarskuldum kærenda.

Fjárhagur kærenda hafi nú vænkast frá upphafi greiðsluaðlögunarumleitana. Kærandi B fái nú um 200.000 krónur í laun eftir greiðslu skatta. Hún hafi einnig kost á að fá 50.000 króna mánaðarlega greiðslu úr lífeyrissjóði frá 24. júní 2013 þegar hún nái 65 ára aldri. Nettótekjur hennar geti því numið um 250.000 krónum á mánuði eftir greint tímamark. Kærandi A fái nú greiðslur úr lífeyrissjóði að fjárhæð 110.000 krónur eftir greiðslu skatta. Rekstur hans hafi styrkst og hafi hann fengið að meðaltali 90.000 krónur síðustu tvo mánuði. Einnig hafi hann fengið staðfest að hann fái starf hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands á árinu 2013 þar sem nettótekjur hans muni verða 120.000 krónur. Því liggi fyrir að kærendur geti greitt af margnefndu skuldabréfi við tollstjóra en greiðslubyrðin sé 32.000 krónur á mánuði. Fullyrðingar umboðsmanns skuldara um annað séu ekki á rökum reistar. Með vísan til alls þessa séu bæði opinber gjöld og skuldir vegna lífeyrissjóðsgreiðslna smávægileg í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og þar með eigi skilyrði ákvæðisins ekki við í málinu.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Samkvæmt ákvæðinu þurfi að greina hvort a) um nýja skuld eða ráðstöfun sé að ræða, b) ráðstafanir geti skaðað hagsmuni lánardrottna og c) hvort skuldbinding sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í máli þessu líti umboðsmaður skuldara þannig á að tollstjóri hafi brotið gegn ákvæðinu með því að taka á móti greiðslum af margnefndu skuldabréfi á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Nemi greiðslur kærenda til tollstjóra 196.373 krónum. Kærendur telji ekki mögulegt að líta svo á að um nýja skuld sé að ræða þar sem skuldabréfið sé í raun samningur um greiðslufyrirkomulag á eldri skuld.

Í öðru lagi geti skuld þessi ekki með neinu móti skaðað hagsmuni lánardrottna. Hér beri að hafa í huga að umsjónarmaður hafi sérstaklega tjáð kærendum að það væri í lagi að gefa skuldabréfið út og hefja greiðslur samkvæmt því enda hafi lögfræðideild tollstjóra kveðið það í lagi.

Í þriðja lagi liggi fyrir samkvæmt framangreindu að löggjafinn hafi beinlínis talið það heimilt að einstaklingar sæktu um greiðsluaðlögun á sama tíma og sótt væri um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010. Þar sem fyrir liggi að aðilar hafi getað nýtt sér bæði þessi úrræði sé með engu móti hægt að hafna kærendum um greiðsluaðlögun þar sem annað væri brot á jafnræðisreglum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga. Einnig bendi kærendur á að umboðsmaður skuldara hafi talið umsókn kærenda um greiðsluaðlögun tæka í skilningi 7. gr. lge. með því að samþykkja umsókn þeirra um greiðsluaðlögun og það jafnvel þótt að í greinargerð þeirra með umsókn væri sérstaklega tekið fram að þá væri um skuld á vörslusköttum að ræða. Því sé umboðsmanni ekki stætt á því að hafna umsókn kærenda nú með vísan til vörsluskattskulda, rúmum tveimur árum eftir að greinargerð hafi verið skilað.

Varðandi skuld kæranda A á lífeyrissjóðsiðgjöldum komi fram í ákvörðun umboðsmanns skuldara að skuldin nemi 1.274.955 krónum. Höfuðstóll skuldarinnar sé 583.200 krónur og hafi kærandi ítrekað greitt inn á hana áður en hann komst í greiðsluskjól. Líkt og rök hafi verið færð fyrir hér að framan liggi fyrir að meta verði með heildstæðum hætti hvort skuldin teljist allhá í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þegar hafi verið gerð grein fyrir því að skuldin nemi aðeins 2,6% af heildarskuldum kærenda. Með tilliti til heildstæðs mats á fjárhag kærenda, meðal annars hærri launa þeirra og þess að ávallt skuli túlka lge. með hagsmuni skuldara að leiðarljósi, telji kærendur skuld þessa smávægilega í skilningi lagaákvæðisins og fyrrnefnds dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar sem stofnað sé til séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Fyrir liggi að skuldir kæranda A séu tilkomnar vegna refsiverðrar háttsemi hans, þ.e. ógreiddra vörsluskatta. Hafi skattarnir verið innheimtir í starfsemi sem hann hafi haft með höndum í eigin nafni og hafi alls numið 1.804.067 krónum samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins. Þá sé ógreidd skuld vegna lífeyrissjóðsiðgjalda að fjárhæð 1.274.955 krónur samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Fyrir liggi að kærandi A gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 vegna þessara vanskila, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Að mati umboðsmanns skuldara sé það ekki skilyrði þess að skuldir sem leitt geti til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 þar sem segi orðrétt: „Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tl. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalagana, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verkanaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei.“

Af orðalagi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði ráðið að við beitingu ákvæðisins eigi að fara fram samanburður á fjárhæð skuldbindinga sem varði refsingu og fjárhag skuldara. Ekki verði séð að það hversu hátt hlutfall skulda sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu eigi eitt og sér að ráða úrslitum við matið.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi skuldara verið synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Í dóminum hafi farið fram heildarmat á aðstæðum skuldara þar sem fjárhæð vörsluskattskuldar hafi verið borin saman við fjárhag skuldara, þ.e. eigna- og skuldastöðu. Hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Ekki verði séð að hlutfall vörsluskattskuldar af heildarskuldum hafi eitt og sér ráðið úrslitum málsins en Hæstiréttur vísi einnig til þess að fjárhæð vörsluskattskuldarinnar hafi ein og sér verið allhá auk þess sem samanburður á fjárhæð skuldarinnar og fjárhag skuldara að öðru leyti hafi þótt leiða í ljós að fjárhagur hans væri ekki slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af honum.

Heildarskuldir kærenda nemi alls 47.696.797 krónum. Kærendur eigi íbúðina að D götu nr. 39 en fasteignamat hennar sé 21.871.255 krónur. Verðmæti annarra eigna sé samtals metið á 2.321.255 krónur. Sameiginlegar tekjur kærenda séu að jafnaði 212.361 króna á mánuði samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Að teknu tilliti til framfærslukostnaðar samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara sé greiðslugeta þeirra áætluð um 21.345 krónur á mánuði, en þá sé ekki meðtalinn rekstrarkostnaður fasteignar. Þá hafi heldur ekki verið gert ráð fyrir afborgunum veðlána og skuldabréfi vegna greiðsluuppgjörs opinberra gjalda. Eftir heildstætt mat á stöðu kærenda þar sem litið sé til eignastöðu og tekna þeirra samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og skattframtölum verði ekki séð að skuldir sem tilkomnar séu vegna ógreiddra opinberra gjalda og lífeyrisiðgjalda teljist smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kærenda. Þá þyki ekki ljóst hvernig kærendur hyggist standa skil á greiðslum samkvæmt skuldabréfi vegna greiðsluuppgjörs opinberra gjalda með tekjum sínum en mánaðarleg afborgun sé um 32.000 krónur.

Í máli kærenda liggi fyrir að veittur hafi verið frestur til greiðsluuppgjörs og að skuldabréf hafi verið gefið út fyrir vangoldnum opinberum gjöldum. Ekki verði séð að það hafi áhrif á niðurstöðu málsins enda verði ekki horft fram hjá því að skuldin sé tilkomin vegna refsiverðrar háttsemi kæranda A, þ.e. vanskila hans á vörslusköttum í ríkissjóð.

Í sérstökum athugasemdum við ákvæði f-liðar 1. mgr. 3. gr. lge. er fylgdu frumvarpi til laganna sé að finna eftirfarandi ummæli sem styrki þá skýringu að fara beri með skuldabréf sem gefin séu út samkvæmt lögum nr. 24/2010 með sama hætti og vörsluskattskuldir við skýringu á lge.: „Greiðsluaðlögun tekur skv. f-lið ekki til fésekta sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, krafna um vangoldinn virðisaukaskatt, krafna um vangoldna staðgreiðslu og krafna um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi. Því þarf að greiða þessar kröfur að fullu. Hvað viðkemur vanskilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu er vert að árétta að skuldabréf sem eru gefin út til að gera upp slík vanskil falla þá ekki heldur undir greiðsluaðlögun. Er hér t.d. horft til laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Skuldabréf um greiðsluuppgjör samkvæmt lögunum eru gefin út á grundvelli lagaheimildar um ívilnandi uppgjör vegna vanskila. Sé um að ræða vanskil krafna sem ekki falla undir greiðsluaðlögun fellur slíkt skuldabréf því ekki undir greiðsluaðlögun einstaklinga.“

Í sérstökum athugasemdum með 2. mgr. 6. gr. frumvarps til lge. segi enn fremur að ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Í málinu verði ekki litið fram hjá því að kærandi A hafi stofnað til skulda vegna ógreiddra opinberra gjalda og gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, líkt og fyrr greini. Gildi þar einu hvort samið hafi verið um greiðslur með skuldabréfi enda verði litið til uppruna skuldarinnar í málinu. Loks feli samkomulag á grundvelli laga nr. 24/2010 hvergi nærri í sér fullnaðargreiðslu vegna fyrirliggjandi vanskila.

Skoða verði ákvæði f-liðar 1. mgr. 3. gr. lge. til samræmis við ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hvað varði möguleika umsækjenda til að endurskipuleggja fjármál sín samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge.

Fyrir liggi að kærandi A hafi gefið út skuldabréf til ríkissjóðs 4. desember 2011. Einnig liggi fyrir að skuldabréfið sé í skilum frá 1. júlí 2012. Ekki verði talið að kæranda A hafi verið óheimilt samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að semja við ríkissjóð um innheimtu á vanskilum sínum. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi þó greitt 196.373 krónur til ríkissjóðs. Verði ekki hjá því komist að telja slíkt brjóta í bága við skyldur skuldara samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. enda sé um að ræða ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni annarra lánardrottna. Í þessu sambandi sé vísað til ákvæða a-liðar 1. mgr. 11. gr. lge. um að lánardrottnum sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslum á kröfum sínum. Hafi tollstjóra því verið óheimilt að krefja kæranda A um greiðslur afborgana á skuldabréfinu á meðan frestun greiðslna stóð yfir.

Kærendur telji hina kærðu ákvörðun byggða á röngum forsendum. Þau vísi meðal annars til þess að virðisaukaskattskuld sé ekki lengur til staðar eftir að kærandi A gaf út skuldabréf á grundvelli 5. gr. laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010.

Hin ívilnandi úrræði fyrrnefndra laga nr. 24/2010 feli í sér undantekningu frá almennri reglu skattaréttar um að öllum beri að greiða skatta á gjalddaga. Ekki verði séð að í lögunum felist viðurkenning á því að sú háttsemi að standa ekki skil á gjöldunum verði refsilaus með greiðsluuppgjöri. Þá geti sú staðreynd að samið hafi verið um greiðsluuppgjör á kröfu ekki breytt þeim forsendum eða þeirri framkvæmd sem túlkun á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. byggist á enda tiltaki ákvæðið að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi. Með öðrum orðum sé það tilurð skuldarinnar sem skipti máli óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi, sbr. fyrrnefndan úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011. Þá munu umræddar skuldir enn hvíla á kæranda. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að nefnt samkomulag um greiðsluuppgjör haldi ef kærendum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Tollstjóri hafi tekið þá afstöðu að ekki verði samið um greiðsluuppgjör í þeim tilvikum þegar einstaklingar eru í greiðsluaðlögun.

Kærendur telji fjárhæð skuldar við tollstjóra ekki allháa og þá sé hlutfall hennar ekki jafn hátt og verið hafi í dómi Hæstaréttar Íslands í fyrrgreindu máli nr. 721/2009. Á þennan skilning kærenda geti umboðsmaður skuldara ekki fallist. Við ákvörðun á samþykki umsóknar kærenda til að leita greiðsluaðlögunar frá 21. mars 2011 hafi legið fyrir að vanskil kæranda A vegna virðisaukaskatts hafi numið 2.165.466 krónum og vanskil lífeyrisiðgjalda 983.471 krónu. Samtals hafi því skuldir sem hafi verið tilkomnar vegna refsiverðrar háttsemi numið 3.148.937 krónum eða 6,6% af heildarskuldum kærenda á þeim tíma. Þá verði að hafa í huga að fjárhæð þessara skulda sé í sjálfu sér nokkuð há með tilliti til tekna kærenda og neikvæðrar eignastöðu þeirra. Þó að í nefndum dómi Hæstaréttar Íslands hafi verið tilgreint hlutfall skulda, sem fallið hafi undir þágildandi 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, miðað við heildarskuldir verði ekki talið að það eitt og sér geti ráðið úrslitum um það hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í þessu sambandi sé einnig vísað til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X-606/2012. Í því máli hafi beiðni skuldara um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar verið hafnað með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fjárhæð lýstra krafna tollstjóra vegna vangoldins virðisaukaskatts hafi samtals numið 305.621 krónu eða 3,8% af heildarskuldum skuldarans. Einnig sé vísað til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. N-3/2012 þar sem kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar hafi verið hafnað. Í því máli hafi krafa vegna virðisaukaskatts verið 574.568 krónur eða 5,7% af heildarskuldum. Í úrskurðinum hafi komið fram að telja verði skuldbindingu sem nemi 5,7% háa í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Megi draga þá ályktun af þessum fordæmum að skuldir sem rekja megi til refsiverðrar háttsemi og nemi 3.148.937 krónum eða 6,6% af heildarskuldbindingum kærenda verði taldar allháar.

Kærendur telji sig ekki hafa skaðað hagsmuni lánardrottna með því að greiða mánaðarlega af skuldabréfinu enda sé um smávægilega fjárhæð að ræða að teknu tilliti til þess að fjárhagsstaða þeirra hafi vænkast töluvert frá því að kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun vegna hærri ráðstöfunartekna og fyrirséðar hækkunar þeirra. Því liggi fyrir að kærendur geti með góðu móti greitt af skuldabréfinu.

Það sé mat umboðsmanns skuldara að ef skuldari greiði af kröfu eins kröfuhafa umfram kröfur annarra á sama tíma og kærendur njóti greiðsluskjóls brjóti það í bága við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. enda séu kærendur þar með að mismuna kröfuhöfum en það leiði einnig til þess að þeim sé síður unnt að leggja fé til hliðar af launum sínum eins og þeim sé skylt að gera samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara geti ekki fallist á þau rök kærenda að fjárhæð mánaðarlegrar afborgunar af títtnefndu skuldabréfi sé smávægileg að teknu tilliti til greiðslugetu kærenda enda liggi ekki fyrir gögn er staðfesti þá tekjuaukningu sem kærendur vísi til. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi mánaðarlegar tekjur kærenda ekki hækkað heldur þvert á móti lækkað þar sem kærandi B hafi verið tekjulaus að mestu frá september 2012. Hafi kærendur ekki lagt fram frekari gögn þessu til stuðnings og því geti umboðsmaður skuldara ekki annað en gengið út frá opinberum gögnum við ákvörðun í málinu. Samkvæmt þessu telji umboðsmaður skuldara að kærendur hafi skaðað hagsmuni lánardrottna með því að greiða af skuldabréfinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn þeirra um að leita greiðsluaðlögunar með samningi við kröfuhafa verði samþykkt.

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kærenda þess efnis að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan frestun greiðslna stendur yfir. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærandi A hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt. Samkvæmt lagaákvæðinu skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Telur umboðsmaður skuldara að kærandi A hafi því brotið gegn d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og breyti það engu þar um þótt hann hafi fengið virðisaukaskattskuldinni breytt í skuld samkvæmt skuldabréfi á grundvelli laga nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri enda hafi háttsemi kæranda A í upphafi bakað honum refsingu.

Fyrir liggur að kærandi A stendur í skuld við ríkissjóð samkvæmt nefndu skuldabréfi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 er tollstjóra að tilteknum skilyrðum uppfylltum heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu skatta og gjalda sem voru í fresti til greiðsluuppgjörs. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir að lagt sé til að rekstraraðilum sem fyrst og fremst eru í tímabundnum greiðsluvandræðum verði gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011 án frekari viðurlaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Standist viðkomandi aðili þau skilyrði verði vanskilin sett á skuldabréf til fimm ára með verðbótum en án vaxta. Í athugasemdum með 5. gr. laganna segir að í skuldbreytingu felist að skattkröfurnar séu greiddar með útgáfu skuldabréfs. Við útgáfu skuldabréfs til greiðslu viðkomandi skattkrafna verði kröfurnar færðar úr tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs og eftirleiðis greiddar samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Við færslu úr tekjubókhaldskerfi ríkisins breytast kröfurnar úr skattkröfum í almennar kröfur.

Að mati kærunefndarinnar er ekki unnt að skilja það sem fram kemur í fyrrnefndum lögum nr. 24/2010 og athugasemdum með frumvarpi til laganna á annan hátt en þann að með því að gefa út skuldabréfið og standast undanfarandi skilyrði til útgáfu þess, sé refsinæmi létt af vangreiðslu tiltekinna opinberra gjalda, þar með talið virðisaukaskatts. Þykir kærunefndinni að þetta megi ekki einungis ráða af tilvitnuðu orðalagi athugasemdanna heldur einnig af því að eftir útgáfu skuldabréfsins hefur skattskuldunum verið breytt í almennar kröfur með þeirri afleiðingu að skattskuld er ekki lengur fyrir hendi.

Af framangreindum ástæðum telur kærunefndin að háttsemi kæranda A að því er varðar vörsluskattskuldir falli ekki undir ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi A hafi einnig brotið gegn d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með því að láta hjá líða að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld vegna áranna 2007 til 2009. Varði það við 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 þar sem segir að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Samkvæmt gögnum málsins nema ógreidd lífeyrissjóðsiðgjöld kærenda A 1.183.780 krónum. Með því að láta hjá líða að skila lífeyrissjóðsiðgjöldum hefur hann bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort skuld lífeyrissjóðsiðgjalda nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um rúmlega 28.800.000 krónur og tekjur þeirra nema alls 243.251 krónu á mánuði að meðaltali. Skuldir sem kærandi A hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nema 1.183.780 krónum með vöxtum eða 2,48% af heildarskuldum kærenda. Annar kærenda hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Kærunefndin getur ekki fallist á að hlutfallið 8,3% af heildarskuldum sé fortakslaust viðmið þegar metið er hvort vörsluskattskuldir nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Eins og fram hefur komið fer fram heildstætt mat á fjárhag skuldara þegar d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. kemur til skoðunar og er þar meðal annars tekið mið af eignastöðu skuldarans og fjárhæð viðkomandi skuldar. Niðurstaða þess mats leiðir til niðurstöðu í hverju tilviki fyrir sig. Eins og fram er komið er ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og telur kærunefndin dóminn af þeim sökum hafa tiltekið fordæmisgildi að því er varðar lge.

Að mati kærunefndarinnar ber hér að líta til þess að lífeyrissjóðsiðgjöld eru greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar. Nema þessar skuldir annars kæranda 1.183.780 krónum. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Þó að fallast megi á það með kærendum að skuld vegna lífeyrissjóðsiðgjalda sé ekki mjög hátt hlutfall af heildarskuldum þeirra verður ekki hjá því komist að telja að út af fyrir sig sé um nokkuð háa fjárhæð að ræða í ljósi launa og fjárhagsstöðu kærenda. Telur kærunefndin því að þær aðstæður sem lýst er í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við um úrlausnarefnið í málinu að þessu leyti.

Í þriðja lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi A hafi, með því að greiða af skuldabréfi við ríkissjóð Íslands vegna vörsluskattskulda, gert ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig bendir umboðsmaður á að á meðan leitað sé greiðslu­aðlögunar megi kröfuhafi ekki taka við greiðslum af kröfum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. lge. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi A hefur greitt alls 196.373 krónur af nefndu skuldabréfi. Af a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verður ráðið að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærandi A gaf út umrætt skuldabréf 4. desember 2011. Skuldabréfið var því útgefið eftir að kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar og greiddi upp skuld sem stofnað var til áður en sótt var um greiðsluaðlögun. Skuld samkvæmt skuldabréfinu telst því ekki ný skuld í skilningi lge. Með því að greiða af umræddu skuldabréfi hefur kærandi ráðstafað fjármunum sem hann átti að leggja til hliðar og nota þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa og með því skaðað hagsmuni lánardrottna samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta