Mál nr. 246/2012
Fimmtudaginn 26. febrúar 2015
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 30. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. desember 2012 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var hafnað.
Með bréfi 7. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. janúar 2013. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 16. febrúar 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 21. febrúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 3. maí 2013. Var framhaldsgreinargerðin send kærendum með bréfi 8. maí 2013 og þeim boðið að gera athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1957 og 1958. Þau eru gift og búa ásamt uppkomnum syni sínum að D götu nr. 4 í sveitarfélaginu E en um er að ræða 272 fermetra einbýlishús í þeirra eigu.
Kærandi B starfar sem leikskólaliði en kærandi A er húsasmíðameistari. Mánaðarlega hafa kærendur til ráðstöfunar 347.173 krónur en það er vegna launa og vaxtabóta.
Að mati kærenda stafa fjárhagserfiðleikar þeirra einkum af tekjulækkun og atvinnuleysi. Kærandi A hafi starfað sem húsasmíðameistari um árabil og haft nægar tekjur. Í október 2008 hafi starfsgrundvöllur hans brostið með minnkandi verkefnum sem síðan hafi leitt til þess að kærendur hafi ekki getað staðið í skilum.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 82.470.977 krónur og falla 48.737 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað vegna húsbyggingar kærenda.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. desember 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þau fari fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld niður.
Kærendur telja ákvörðun umboðsmanns skuldara byggða á röngum staðhæfingum og ómálaefnalegum rökum. Ákvörðunin hafi í fyrsta lagi byggst á því að þau hefðu tekist á hendur skuldbindingar árið 2006 þegar ljóst hafi verið að þau gætu ekki staðið við þær. Í öðru lagi hafi umboðsmaður byggt á því að þau hefðu ekki haft næga greiðslugetu árið 2012 til að geta staðið skil á íbúðarláni sem þau hefðu tekið 2006. Kærendur staðhæfa að þau hefðu í raun ekki stofnað til nýrra skulda árið 2006 eða síðar. Á hinn bóginn hafi þau fengið lán hjá Byr (nú Íslandsbanka) til að greiða upp mun óhagstæðari lán sem hvílt hafi á fasteign þeirra að D götu nr. 4 í sveitarfélaginu E. Eftir hafi staðið lán við aðrar lánastofnanir sem þau hafi ekki fyllilega ráðið við. Hafi þau því afhent kröfuhöfum lóð og hesthús til að greiða skuldbindingarnar að fullu. Fullnaðaruppgjör hafi þó ekki fengist með þessum hætti þótt kærendur telji þessar skuldir að fullu uppgerðar.
Að mati kærenda hafi umboðsmaður skuldara ekki tekið til skoðunar þau gögn og röksemdir sem þau hafi lagt fram. Varði það núverandi greiðslugetu þeirra og það tímamark sem þau hafi stofnað til skulda.
Kærendur gera athugasemd við að umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir framfærslukostnaði hjóna með eitt barn á framfæri. Sonur þeirra sem dvelji hjá þeim sé nú orðinn fullorðinn og hafi þau því ekki kostnað af framfærslu hans.
Kærendur telja þá úrskurði og dómafordæmi sem umboðsmaður skuldara vísi til ekki eiga við í málinu. Verði ákvörðun umboðsmanns skuldara látin standa sé það í andstöðu við tilgang lge. Meginmarkmið laganna hafi verið að gera skuldurum kleift að koma lagi á fjármál sín þannig að þeir gætu staðið við skuldbindingar sínar með sem minnstu tjóni fyrir kröfuhafa.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.
Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Kærendur reki greiðsluerfiðleika sína fyrst og fremst til tekjulækkunar og atvinnuleysis. Orðrétt segi í greinargerð þeirra: „A hefur starfað sem húsasmíðameistari í mörg ár. Í gegnum árin hefur hann haft meira en nóg að gera og verkefnin alltaf verið meiri en hann gat sinnt. [...] Áttum meira en nóg fyrir afborgunum af húsinu. Þegar hrunið varð í október 2008 hrundi atvinnugrundvöllur A. [...] Tekjurnar hans hrundu og á ekki mjög löngum tíma hætti innkoma okkar hjóna að nægja fyrir afborgunum af lánum og rekstri fjölskyldunnar.“
Við nánari skoðun á stofni kærenda til útreiknings á tekjuskatti frá árunum 2006 til 2011 hafi komið í ljós að tekjur þeirra hafi ekki dregist saman sem nokkru nemi á nefndu tímabili, heldur þvert á móti hækkað á árunum um og eftir hrun. Stofn til útreiknings tekjuskatts þeirra og útsvars samkvæmt skattframtölum sé eftirfarandi í krónum:
Ár | Sameiginlegt meðaltal |
útborgaðra tekna | |
2006 | 235.491 |
2007 | 306.860 |
2008 | 379.697 |
2009 | 359.969 |
2010 | 386.300 |
2011 | 386.088 |
Í lok árs 2006 hafi kærendur átt tvær fasteignir, húseign að D götu nr. 4 og við F götu sem samkvæmt opinberum gögnum sé hesthús en hvergi sé að finna upplýsingar um kaupverð þess og/eða fjárhæð lána ef einhver hafi verið. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi þau fengið hesthúsið að gjöf og fullyrði að matsverð sé undir 500.000 krónum. Hesthúsið hafi Arion banki síðar tekið upp í skuld.
Greiðslustaða kærenda hafi verið þessi árið 2006 í krónum:
Tekjuár | 2006 |
Framfærslutekjur* alls á mánuði | 235.491 |
Framfærslukostnaður á mánuði** | 115.063 |
Áætlaðar afborganir fasteignalána | 157.500 |
Greiðslugeta | -37.072 |
*Stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars samkvæmt skattframtölum.
**Grunnframfærslukostnaður hjóna með eitt barn samkvæmt bráðabirgðaneysluviðmiði umboðsmanns skuldara og annar áætlaður kostnaður vegna rekstrar bifreiðar. Ekki er meðtalinn kostnaður vegna afborgana af íbúðarlánum, hita, rafmagns, samskiptakostnaðar, fasteignagjalda, trygginga o.fl.
Sé miðað við bestu hugsanlegu kjör íbúðarláns kærenda, sem upphaflega hafi numið 35.000.000 króna, hafa afborganir ekki verið lægri en 157.500 krónur á mánuði og sé miðað við þá fjárhæð. Stofnað hafi verið til lánsins í maí 2006 en kærendur hafi greint frá því að ekki hafi verið um nýtt lán að ræða. Þetta lán hafi verið notað til að greiða upp eldri og óhagkvæmari lán.
Greiðslustaða kærenda hafi verið eftirfarandi árið 2007 í krónum:
2007 | |
Framfærslutekjur* alls á mán. | 306.860 |
Framfærslukostnaður á mán.** | 122.989 |
Afborganir fasteignalána | 200.000 |
Greiðslugeta | -16.129 |
*Stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars samkvæmt skattframtölum.
**Grunnframfærslukostnaður hjóna með eitt barn samkvæmt bráðabirgðaneysluviðmiði umboðsmanns skuldara og annar áætlaður kostnaður vegna rekstrar bifreiðar. Ekki er meðtalinn kostnaður vegna afborgana af íbúðarlánum, hita, rafmagns, samskiptakostnaðar, fasteignagjalda, trygginga o.fl.
Á árinu 2007 hafi fjárhæð afborgana á íbúðarláni komið fram á skattframtali. Á árinu hafi lóð að G götu nr. 14B bæst við eignir kærenda. Hvergi í opinberum gögnum sé að finna upplýsingar um kaupverð og/eða hvernig kaupin hafi verið fjármögnuð. Kærendur kveðast hafa fengið lóðina í arf eftir afa kæranda A en eignarhaldsfélag kæranda A hafi svo keypt lóðina árið 2003. Lóðin hafi verið notuð í skuldauppgjöri við Arion banka og hafi samanlagt virði lóðarinnar og fyrrnefnds hesthúss verið 4.500.000 krónur. Tekjuaukning kærenda á milli áranna 2006 og 2007 hafi að einhverju leyti verið vegna barna- og vaxtabóta en þær bætur hafi þau ekki fengið árið 2006.
Kærendum hafi verið sent bréf 18. október 2012 þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu þeirra til ofangreindra atriða. Í svörum kærenda hafi þau skýrt frá eignarhaldi sínu á sumarbústaðalandi og hesthúsi í stórum dráttum. Þau segi að þegar þau hafi tekið íbúðarlán hafi greiðslugeta þeirra verið nægileg til að standa undir afborgunum. Kærendur styðja þetta þó engum gögnum. Embætti umboðsmanns skuldara leggi almennt mikla áherslu á að fullyrðingar umsækjenda um hærri tekjur en finna megi í skattframtölum og gerð hafi verið skil á í samræmi við lög, séu studdar fullnægjandi og skýrum gögnum. Þá þyki ekki fært að taka tillit til fullyrðinga kærenda um að náið samband hafi verið á milli fyrirtækis í eigu kæranda A og búrekstrar kærenda enda með öllu óljóst hvernig því sambandi hafi verið háttað.
Gögn málsins beri með sér að strax á árinu 2006 er kærendur hafi tekið lán að fjárhæð 35.000.000 króna hafi þau stofnað til skulda á þeim tíma er þau hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Með frekari lántökum í ársbyrjun 2008 hafi kærendur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldabindingarinnar var stofnað.
Í greinargerð með frumvarpi til lge. taki ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. að hluta til mið af þágildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, enda hafi verið komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja á beitingu ákvæðisins. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 657/2009 hafi beiðni um greiðsluaðlögun á grundvelli þágildandi laga nr. 21/1991 verið hafnað með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laganna. Í málinu hafi umsækjandinn skuldsett sig töluvert vegna fasteigna- og bifreiðakaupa en greiðslubyrði lánanna hafi verið umfram þær tekjur sem af gögnum málsins varð ráðið að hann hafi haft á þeim tíma.
Í ljósi fordæmis framangreinds dóms telur umboðsmaður skuldara að skuldasöfnun kærenda geti talist fjárhagsleg áhætta sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er þau hafi stofnað til skuldbindinganna. Þótt umboðsmaður telji sig ekki að fullu bundinn af dómafordæmum um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 21/1991 telur hann að dómarnir geti veitt mikilvæga leiðsögn um túlkun lge.
Í úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú að þegar umsækjendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið undir miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma er lán voru tekin leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 23/2011 og fyrrnefnds dóms Hæstaréttar Íslands að því er varði samspil tekna og skulda á þeim tíma er til skuldanna hafi verið stofnað.
Kærendur segist ekki hafa stofnað til nýrra skuldbindinga á árinu 2006 eða síðar. Tilgangur lántöku hjá Byr (nú Íslandsbanka hf.) hafi verið að „standa straum af íbúðarhúsi sínu og með því greitt upp þegar áhvílandi mun óhagstæðari lán“. Við skoðun á skattframtölum kærenda verði ekki séð að umræddu láni hafi verið ráðstafað til greiðslu á áhvílandi lánum. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2005 hafi eftirstöðvar lána vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota verið 31.856.931 króna í lok árs. Þá hafi skuldir umfram eign í atvinnurekstri verið 1.720.356 krónur og aðrar samningskröfur 3.550.666 krónur. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2006 hafi eftirstöðvar lána vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota verið 37.031.081 króna í lok ársins eða ríflega 5.000.000 króna hærri en árið áður. Skuldir umfram eign í atvinnurekstri hafi enn verið 1.720.356 krónur og aðrar samningskröfur 3.283.982 krónur. Með þessari skuldaaukningu verði ekki séð að eldri skuldir hafi verið greiddar. Umboðsmaður skuldara telji að samkvæmt uppgefnum tekjum hafi kærendur ekki haft greiðslugetu til að greiða af fyrrnefndu láni hjá Byr þegar til þess var stofnað vorið 2006.
Kærendur hafi gert athugasemdir við að í útreikningum embættisins á framfærslukostnaði sé miðað við hjón með eitt barn á framfæri. Þau kveðast ekki hafa framfært son sinn þótt hann búi á heimili þeirra. Því sé til að svara að við vinnslu málsins hafi sonur kærenda verið í námi svo ákveðið hafi verið að gera ráð fyrir framfærslu hans. Þetta atriði hafi ekki haft áhrif á ákvarðanatöku í málinu og hefði eingöngu skipt máli ef umsókn kærenda hefði verið samþykkt.
Ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Það ósamræmi sem komið hafi fram í frásögn kærenda annars vegar og opinberum gögnum hins vegar um ástæður greiðsluerfiðleika þeirra, hafi orðið til þess, eftir heildstætt mat, að óhæfilegt hafi þótt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:
2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | |
Meðaltekjur* á mán. (nettó) | 235.491 | 306.860 | 379.697 | 359.969 | 386.300 | 385.908 |
Eignir alls | 47.798.250 | 53.318.525 | 53.797.615 | 58.885.409 | 51.191.401 | 56.391.140 |
· D gata nr 4 | 45.350.000 | 50.350.000 | 50.350.000 | 55.600.000 | 49.700.000 | 54.700.000 |
· Réttarfit 14B | 1.166.000 | 420.000 | 513.000 | 500.000 | ||
·F gata | 1.394.500 | 1.394.500 | 1.300.500 | |||
· Bifreiðir | 1.282.250 | 1.154.025 | 1.038.622 | 934.759 | 941.283 | 847.154 |
· Önnur ökutæki | 50.000 | 50.000 | 50.000 | |||
· Hlutir í félögum | 300.000 | 300.000 | 300.000 | 300.000 | ||
· Bankainnstæður | 201.493 | 200.150 | 200.118 | 493.986 | ||
Skuldir | 42.035.419 | 47.601.692 | 62.615.646 | 71.230.555 | 78.830.220 | 85.551.141 |
Nettóeignastaða | 5.762.831 | 5.716.833 | -8.818.031 | -12.345.146 | -27.638.819 | -29.160.001 |
Á árinu 2007 eignuðust kærendur fasteign að F götu, en fasteignamat hennar var 1.394.500 krónur. Kærendur hafa ekki lagt fram nein gögn um hvernig eignin komst í þeirra hendur en engar upplýsingar er að finna um eignina á skattframtölum.
Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | 2012 | frá | |||
Íslandsbanki | 2006 | Veðskuldabréf | 947.522 | 987.643 | 2011 |
Íslandsbanki | 2006 | Veðskuldabréf | 35.000.000 | 62.667.148 | 2009 |
Arion banki | 2008 | Yfirdráttur | 8.691.471 | 2008 | |
Arion banki | 2008 | Veðskuldabréf | 5.417.160 | 9.266.160 | 2009 |
Landsbankinn | Yfirdráttur | 686.332 | |||
Arion banki | Yfirdráttur | 448 | 2010 | ||
Rangárþing eystra | 2010 | Fasteignagjöld | 1.800 | 6.947 | 2010 |
Aðrir | 2010 | Reikningar | 7.950 | 13.101 | 2010 |
Tollstjóri | 2010−2012 | Opinber gjöld | 144.563 | 151.727 | 2010−2012 |
Alls | 41.518.995 | 82.470.977 |
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða. Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.
Á árinu 2006 tóku kærendur lán að fjárhæð 35.000.000 króna. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum var láninu ráðstafað til að greiða lán sem þegar hvíldu á fasteign þeirra að fjárhæð rúmar 32.000.000 króna. Ekki liggur fyrir í málinu hvort kærendur hafi þurft að greiða uppgreiðslugjöld eða annan kostnað vegna nýja lánsins. Liggur ekkert fyrir í málinu sem varpað getur ljósi á hvernig þeim 3.000.000 króna sem eftir stóðu var ráðstafað. Samkvæmt fyrirliggjandi greiðsluyfirliti var greiðslubyrði lánsins um 162.000 krónur á mánuði. Meðalmánaðartekjur kærenda voru 235.491 króna og framfærslukostnaður 115.063 krónur. Greiðslugeta kærenda var því 120.428 krónur þegar framfærslukostnaður hafði verið greiddur. Samkvæmt því vantaði kærendur um 41.500 krónur á mánuði til að geta greitt af láninu á þeim tíma er það var tekið. Af skattframtali kærenda 2006 vegna tekjuársins 2005 má sjá að greiðslubyrði kærenda af eldri fasteignalánum var tæpar 173.000 krónur á mánuði. Með hinni nýju lántöku minnkuðu kærendur því greiðslubyrði sína frá því sem áður var. Í lok ársins 2006 voru skuldir þeirra 42.035.419 krónur. Eignir þeirra námu 47.798.250 krónum og var eignastaða þeirra því jákvæð um rúmar 5.700.000 krónur samkvæmt skattframtali.
Á árinu 2008 tóku kærendur lán að fjárhæð 5.417.160 krónur og var áætluð greiðslubyrði samkvæmt greiðsluáætlun tæpar 83.000 krónur á mánuði. Þetta ár stofnuðu kærendur einnig til yfirdráttarskuldar en í lok ársins námu heildarskuldir þeirra 62.615.646 krónum. Eignastaða þeirra var neikvæð um 8.818.031 krónu. Þegar tekið hefur verið tillit til framfærslukostnaðar og afborgana af skuldabréfalánum var greiðslugeta kærenda lítillega neikvæð. Á þá eftir að taka tillit til endurgreiðslu yfirdráttarláns.
Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til þess sem komið hefur fram telur kærunefndin að á árinu 2008 hafi kærendur tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta þeirra og eignastaða gaf tilefni til. Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á viðkomandi tímabili. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kærenda þegar þau stofnuðu til skuldbindinga árin 2006 og 2008. Launatekjur þeirra hefðu ekki að öllu leyti staðið undir greiðslum skulda þeirra á þeim tíma sem hér skiptir máli. Þegar þetta er virt og að öðru leyti með vísan til atvika málsins, telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir