Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 5/2013

Fimmtudaginn 26. febrúar 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. desember 2012 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 31. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 21. febrúar 2013. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 25. febrúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1954 og 1956. Þau eru í sambúð og eiga saman tíu börn, þar af eru þrjú búsett á heimili kærenda. Kærendur eiga fasteignina að D við sveitarfélagið E en það er sveitabær og er íbúðarhúsið 276,6 fermetrar að stærð.

Kærendur eru bændur. Mánaðarlega fá þau 212.968 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem skattframtali ársins 2012 var skilað seint liggur ekki fyrir hverjar aðrar tekjur kærendur hafa.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, tekjulækkunar, veikinda, aukins kostnaðar við rekstur búsins og ábyrgðarskuldbindinga.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 41.478.177 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), nema skuld að fjárhæð 4.373.518 krónur. Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 2.869.063 krónur samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. desember 2012 var umsókninni hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði hafnað svo þau fái heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur kveða upplýsingar í skuldayfirliti umboðsmanns skuldara rangar. Þar séu tilgreindar kröfur sem ekki séu fyrir hendi, svo sem skuldir við Fóðurblönduna, Skeljung, Sláturfélag Suðurlands, Lyf og heilsu og Dýralæknamiðstöðina. Einnig séu upplýsingar um stöðu bankareikninga rangar.

Varðandi skattskuldir liggi fyrir leiðrétting sem hafi í för með sér verulega lækkun skuldanna og í sumum tilvikum niðurfellingu. Hjá sýslumannsembættinu á E liggi peningar til greiðslu skuldanna en það séu peningar vegna beingreiðslna og fyrri innborganir á þessar skuldir.

Þegar kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið lögð á það sérstök áhersla að þau mættu ekki greiða af þeim skuldum sem væru tilkomnar fyrir þann tíma er umsókn var samþykkt, þ.e. 6. apríl 2011. Á þeim tíma hafi legið fyrir að kærendur skulduðu þá skatta sem séu ásteytingarsteinninn í málinu. Ella hefðu þau lagt áherslu á að greiða virðisaukaskattskuld enda hafi nú hlaðist á hana vextir sem nemi nærri 1.000.000 króna. Virðisaukaskattur fyrir árið 2011 hafi alls verið 738.577 krónur en hann hafi að fullu verið greiddur. Starfsmaður sýsluskrifstofunnar á E hafi tekið fjárhæðina og greitt inn á aðrar skuldir þannig að í sumum tilvikum hafi myndast inneign þegar skattar hafi verið leiðréttir.

Kærendur kveða ekki flókið að setja ógreiddan virðisaukaskatt í forgang fái þau heimild til greiðsluaðlögunar enda hljóti lge. að byggjast á því að skuldarar sitji við sama borð en ekki sé farið eftir því hvort skuldin sé við Jón eða séra Jón.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 geti meðal annars verið lögð refsing við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum.

Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á kæranda B. Séu þetta í fyrsta lagi skuldir vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 3.984.172 krónur en þar af séu 2.756.602 krónur vegna álagningar. Í öðru lagi sé um að ræða skuldir vegna staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 389.346 krónur sem öll sé byggð á áætlun. Í þriðja lagi sé skuld vegna staðgreiðslu tryggingagjalds að fjárhæð 684.476 krónur en þar af séu 577.435 krónur vegna álagningar. Til skuldanna hafi verið stofnað á árunum 2008 til 2012. Samanlagt nemi þær skuldir sem byggðar séu á álagningu 3.334.037 krónum.

Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að skuldir kærenda séu 41.478.177 krónur auk ábyrgðarskuldbindinga. Endurstofnverð á íbúðarhúsnæði kærenda sé 39.285.000 krónur en fasteignamat 6.590.000 krónur. Eignir þeirra nemi 40.988.867 krónum sé miðað við fyrrgreint endurstofnverð á íbúðarhúsnæði þeirra í stað fasteignamats. Eignastaða kærenda sé því neikvæð. Að auki sé greiðslugeta kærenda neikvæð um 194.588 krónur miðað við fyrirliggjandi gögn um tekjur. Ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda B til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið sent bréf 6. nóvember 2012 þar sem þeim hafi meðal annars verið gerð grein fyrir hugsanlegri synjun umsóknar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Einnig hafi kærendum verið bent á að samkvæmt lge. sé hjónum og einstaklingum í óvígðri sambúð heimilt en ekki skylt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Þeim hafi verið gefinn 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum. Engin gögn hafi borist frá kærendum um að óskað hafi verið eftir leiðréttingu ríkisskattstjóra á álagningu og áætlun fyrrnefndra skatta.

Í tilefni af athugasemdum kærenda sé vísað til þess að þó svo að einhverjar kröfur á skuldayfirliti séu ekki lengur til staðar hafi það ekki áhrif á niðurstöðu málsins þar sem um óverulegar fjárhæðir sé að ræða. Þá breyti upplýsingar um bankainnstæður ekki niðurstöðu málsins þar sem synjun sé byggð á skuldum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu tryggingagjalds. Þá hafi kærendur lagt fram hjá kærunefndinni skattbreytingarseðla vegna tryggingagjalds 2012 og annarra álagðra gjalda vegna ársins 2012. Synjun embættisins byggðist hins vegar á ógreiddum gjöldum frá árunum 2008 til 2011. Verði ekki séð að breytingar hafi verið gerðar á álagningu sem liggur þeim skuldum til grundvallar.

Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar vegna ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði hafnað svo þau fái heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Felli kærunefndin synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi leiðir af því að umboðsmanni skuldara ber að taka ákvörðun að nýju enda er það hlutverk umboðsmanns skuldara að veita heimild til greiðsluaðlögunar en ekki kærunefndarinnar. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í ákvörðun sinni eru vörsluskattskuldir kæranda B. Þar er um að ræða staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 389.346 krónur og virðisaukaskatt að fjárhæð 3.984.172 krónur eða samtals 4.373.518 krónur en skuldirnar stafa frá árunum 2008 til 2012. Kærendur segja á hinn bóginn að fyrir liggi leiðrétting sem hafi í för með sér verulega lækkun skuldanna og í sumum tilvikum niðurfellingu.

Við meðferð málsins hjá kærunefndinni var staða skattskulda kæranda B á nefndu tímabili könnuð eftir að leiðréttingar höfðu farið fram. Engar skuldir vegna staðgreiðslu launagreiðanda fyrir árin 2008 til 2012 voru fyrir hendi. Virðisaukaskattskuld áranna 2008 og 2009 hefur verið leiðrétt en enn er fyrir hendi virðisaukaskattskuld vegna áranna 2010 og 2011 samtals að höfuðstólsfjárhæð 634.358 krónur. Miðað við fyrirliggjandi gögn má gera ráð fyrir að heildarskuldin hafi numið um 870.000 krónum á þeim tíma er umboðsmaður skuldara tók ákvörðun í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda B sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar ofangreindar vörsluskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er heildarfjárhæð virðisaukaskattskuldar kæranda B alls um 870.000 krónur með vöxtum. Verður að telja þá fjárhæð út af fyrir sig nokkuð háa. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi B bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Kærendur kveða skuldayfirlit umboðsmanns skuldara ekki rétt. Séu þær skuldir sem kærendur telja rangar eða greiddar dregnar frá fjárhæð skulda á fyrrgreindu skuldayfirliti nema heildarskuldir þeirra 40.639.312 krónum. Samkvæmt því er eignastaða kærenda jákvæð um tæplega 350.000 krónur. Er þá miðað við endurstofnverð á fasteign kærenda. Þær tekjur kærenda sem vitað er um nema alls 212.968 krónum á mánuði að meðaltali og samkvæmt því er greiðslugeta þeirra neikvæð. Skuldir sem kærandi B hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nema sem fyrr greinir um 870.000 krónum eða 2,1% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindinga. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi B hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er getur varðað refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur, sem teldist allhá fjárhæð, en hún nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Kærunefndin telur hlutfallið 8,3% af heildarskuldum ekki vera fortakslaust viðmið þegar metið er hvort vörsluskattskuldir nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Eins og fram hefur komið fer fram heildstætt mat á fjárhag skuldara þegar d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. kemur til skoðunar og er þar meðal annars tekið mið af eignastöðu skuldarans og fjárhæð viðkomandi skuldar. Eins og fram er komið er ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og telur kærunefndin dóminn af þeim sökum hafa tiltekið fordæmisgildi að því er varðar lge.

Þótt fjárhæð vörsluskattskuldarinnar sé ekki mjög hátt hlutfall af heildarskuldum kærenda verður ekki hjá því komist að telja að út af fyrir sig sé um nokkuð háa fjárhæð að ræða í ljósi fjárhagsstöðu kærenda. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta