Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 26/2012

Fimmtudaginn 9. janúar 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 8. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. febrúar 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 5. mars 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 36 ára, ógift og býr ásamt tveimur börnum sínum í 200 fermetra eigin einbýlishúsi að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C. Kærandi hefur MBA-gráðu. Hún fær greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar 166.846 krónur. Að auki fær hún mánaðarlega greitt meðlag að fjárhæð 46.822 krónur, mæðralaun að fjárhæð 3.494 krónur og barnabætur að fjárhæð 46.773 krónur. Þá hefur kærandi fengið vaxtabætur að fjárhæð 41.667 krónur á mánuði og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 25.000 krónur á mánuði.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2009. Hún hafi keypt núverandi fasteign sína í lok ársins 2008 en þá hafi hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra í fyrirtæki og haft góð laun. Félagið hafi orðið gjaldþrota á svipuðum tíma og kærandi hafi greinst með gigtarsjúkdóm. Síðar hafi komið í ljós að fasteignin hafi þarfnast verulegra endurbóta en þær hafi kostað kæranda um 30.000.000 króna. Þar sem hún hafi aðeins fengið 6.000.000 króna í bætur frá seljendum eignarinnar hafi allt sparifé kæranda og eignarhluti hennar í fyrri fasteign farið í endurbæturnar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 77.072.664 krónur og falla þar af 73.719.395 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Einnig hefur kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingu að fjárhæð 14.428.030 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2008 þegar kærandi keypti núverandi húsnæði, en þá tók hún lán samtals að fjárhæð 46.100.000 krónur sem nú standa í 62.761.678 krónum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 10. nóvember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. janúar 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 4. janúar 2012 verði felld úr gildi.

Kærandi kveður umboðsmann skuldara ekki hafa gætt andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Þar sem umboðsmaður byggi ákvörðun sína eingöngu á gögnum frá tollstjóra um meinta skuld sem mögulega gæti fallið á kæranda, hafi embættið átt að gefa kæranda kost á að tjá sig um gögnin áður en íþyngjandi ákvörðun sem byggð sé á þeim hafi verið tekin.

Einnig telur kærandi að afgreiðsla umboðsmanns skuldara á umsókn hennar sé í ósamræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Að mati kæranda séu ákvæði a–g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. ekki hver um sig sjálfstæð heimild til að synja umsókn um greiðsluaðlögun líkt og umboðsmaður telji. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. sé matskennt heimildarákvæði og verði að telja að ákvörðun um synjun greiðsluaðlögunar á þeim forsendum verði að byggja á heildstæðu mati á umsókn og aðstæðum kæranda. Í synjun umboðsmanns skuldara sé einungis vísað til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en telja verði að þegar um slíka matskennda synjunarheimild sé að ræða teljist það ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að synja umsókn á þeim forsendum einum og sér.

Þegar metið sé hvaða áhrif hugsanlegar ábyrgðarskuldbindingar vegna skattskulda einkahlutafélags kunni að hafa á umsókn um greiðsluaðlögun, sé nauðsynlegt að horfa til þess að samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. taki greiðsluaðlögun ekki til krafna um vangoldinn virðisaukaskatt eða vangoldna staðgreiðslu. Ekki sé því um það að ræða að slíkar mögulegar kröfur tapist þó að kæranda sé veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Einnig beri að hafa í huga að nefndar kröfur séu aðeins lítill hluti af skuldbindingum kæranda og síður en svo ástæða greiðsluerfiðleika hennar.

Í greinargerð með frumvarpi til lge. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. ef augljóst megi vera að óhæfilegt sé að veita hana. Þar sé jafnframt áréttað að ekki sé gert ráð fyrir að hin matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni séu til.

Kærandi mótmælir því að skattskuldir sem teljast verði óverulegur hluti skulda kæranda gefi tilefni til þess að álykta þannig að augljóst sé að það teljist óhæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar. Fullyrðingu umboðsmanns að því er varðar forsendur fyrir synjun á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé mótmælt sem rangri en þar segi um ákvæðið: „Ákvæðið hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi. Hefur þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.“ Í tilvitnuðu máli nr. 10/2011 hafi verið um það að ræða að skattskuldbindingar kæranda hafi numið 50.545.725 krónum samkvæmt gögnum tollstjóra eða um 62% af heildarskuldum kæranda. Verði því varla líkt við tilvik kæranda í máli þessu þar sem mikill meirihluti skulda sé vegna fasteignakaupa og óvæntra útgjalda í kjölfar þeirra.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félaginu X ehf. þar sem kærandi hafi gegnt stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa. Samkvæmt yfirliti tollstjóra skuldi félagið vörsluskatta. Um sé að ræða virðisaukaskatt að fjárhæð 7.457.893 krónur þar sem 5.054.053 krónur séu vegna álagningar frá árunum 2006 og 2007 en 2.403.840 krónur séu áætlun frá árinu 2008. Einnig skuldi félagið staðgreiðslu launagreiðanda frá árunum 2007 og 2008 að fjárhæð 2.480.925 krónur. Samanlagt nemi skuld X ehf. vegna vörsluskatta 9.938.818 krónum. Hafi kærandi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Sú skylda hafi einnig náð til skila á virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskila á umræddum sköttum.

Heildarskuldir kæranda séu 77.072.664 krónur en að auki hvíli á henni ábyrgðarskuldbindingar vegna X ehf. að fjárhæð 9.938.818 krónur. Eignir kæranda séu fasteign að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu að verðmæti 32.800.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Eignir séu 37% miðað við skuldir.

Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf. til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hún gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir skattskuldanna verulega háar en að auki sé ljóst að eignastaða kæranda sé mjög neikvæð og fjárhagur hennar erfiður. Þyki þannig ófært að líta svo á að skuldbindingar hennar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag.

Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum. Í tilviki kæranda séu vanskilin mikil og við þeim liggi þungar sektir.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um andmælarétt aðila að stjórnsýslumáli. Þar segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í málinu liggi fyrir gögn frá tollstjóra um þær vörsluskattskuldir sem leitt hafi til synjunar á umsókn kæranda. Þar komi fram að álagning umræddra vörsluskatta hafi að miklu leyti byggst á gögnum og upplýsingum frá X ehf. en kærandi hafi borið ábyrgð á skattskilum þess félags.

Samkvæmt ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Við beitingu þess ákvæðis eigi þannig að fara fram samanburður á fjárhæð skuldbindinga sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu og fjárhag skuldara. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi farið fram heildarmat á aðstæðum kæranda og niðurstaða þess hafi verið sú að fjárhagur hennar væri þannig að skuld á vörslusköttum teldist ekki smávægileg með hliðsjón af honum enda vanskilin og skuld vegna þeirra metin mjög mikil.

Þá árétti umboðsmaður ákvæði f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í f-lið sé tekið fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þegar skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í g-lið sé kveðið á um að heimilt sé að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Telja verði þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Þá verði að telja ljóst að sú háttsemi geti valdið viðkomandi verulegum fjárhagserfiðleikum. Enn fremur þyki ljóst að vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengist þeim séu skuldir sem séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Umboðsmaður vísi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Þar sé sérstaklega tiltekið að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi séu á meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af úrskurðinum verði einnig ráðið að það eigi ekki að ráða úrslitum um hvort skuldir falli innan samnings um greiðsluaðlögun hvort skuldirnar girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endur­skipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök sé fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti þá forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vörsluskatta séu miklar. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu en telja verði svigrúm innheimtumanna ríkissjóðs til að semja um þær fremur takmarkað.

Af framangreindum ástæðum þyki því óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins X ehf. Því hvíldi á henni sú skylda fyrirsvarsmanns félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki hafa gætt andmælaréttar 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rök kæranda eru þau að þar sem umboðsmaður byggi ákvörðun sína eingöngu á gögnum frá tollstjóra hafi embættið átt að gefa kæranda kost á að tjá sig um gögnin áður en íþyngjandi ákvörðun sem byggð sé á þeim hafi verið tekin. Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirsvarsmann X ehf. Kærandi hefur hvorki mótmælt vörsluskattskuldum félagsins fyrir kærunefndinni né komið að andmælum varðandi umræddar skattskuldir svo sem henni var boðið með bréfi kærunefndarinnar 5. mars 2012. Ekki hefur hún heldur haldið því fram að skuldir þessar séu rangar eða byggðar á röngum forsendum. Verður kærunefndin þar af leiðandi að ganga út frá því að kærandi hafi í fyrsta lagi notið andmælaréttar í þessu tilliti og í öðru lagi að hún hafi ekki efnisleg andmæli við nefndum gögnum og telji að um réttar kröfur og réttar fjárhæðir sé að ræða. Hafi hinn meinti annmarki á málsmeðferð umboðsmanns skuldara því ekki skaðað hagsmuni kæranda eins og á stendur í málinu. Telst annmarkinn því ekki verulegur og leiðir þar með ekki til ógildingar ákvörðunarinnar.

Einnig telur kærandi að afgreiðsla umboðsmanns skuldara sé í ósamræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Það sé vegna þess að ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. séu matskennd heimildarákvæði. Því verði að telja synjun um greiðsluaðlögun sem byggð sé á þeim verði einnig að byggja á heildstæðu mati á umsókn og aðstæðum kæranda. Í synjun umboðsmanns skuldara sé á hinn bóginn einungis vísað til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þær lagareglur sem nefndar eru matskenndar reglur, svo sem ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., tengja afgreiðslu stjórnsýslumáls ekki við fyrirfram eða fastákveðin tilvik. Við beitingu matskenndra reglna þarf stjórnsýsluhafinn að móta hinn matskennda hluta reglunnar og ákvarða síðan þau lagasjónarmið sem hann hyggst byggja ákvörðun á. Þannig er festa fengin í úrlausn sem byggð er á matskenndri reglu. Þau lagasjónarmið sem byggt er á er til dæmis að finna í athugasemdum með lagafrumvörpum, fordæmum eða venju. Það er einkenni matskenndra lagareglna að framangreind sjónarmið þarf að meta við beitingu reglunnar. Þess vegna veita þessar reglur ákveðið svigrúm við hvert og eitt tilvik, innan þeirra marka sem reglan setur.

Regla d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er þess efnis að heimilt er að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana, hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Skilyrði reglunnar er að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu með tiltekinni háttsemi. Matið snýr annars vegar að því að skýra heimildarregluna með því að ákvarða merkingu orðanna „bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag“ og hins vegar að því að meta hvort „óhæfilegt þyki“ að veita greiðsluaðlögun við umræddar aðstæður.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Þá er til þess að líta hvort sú skuldbinding sem kærandi hefur bakað sér nemi einhverju miðað við fjárhag hennar. Umboðsmaður skuldara metur fjárhagsstöðu kæranda þannig í ákvörðun sinni að eignir eru bornar saman við skuldir og kemst að þeirri niðurstöðu að eignir kæranda séu 37% miðað við skuldir. Í því ljósi tekur hann þá ákvörðun að þær skuldbindingar sem kærandi hafi bakað sér séu ekki smávægilegar með hliðsjón af fjárhag hennar og því eigi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við um tilvik kæranda. Ofangreind málsmeðferð umboðsmanns skuldara fullnægir að mati kærunefndarinnar beitingu matskenndrar reglu við stjórnsýsluákvörðun. Þá telur kærunefndin að lagaákvæðið hafi ekki verið túlkað rýmra en efni stóðu til af hálfu umboðsmanns skuldara þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin svigrúm til mats á því við úrlausn málsins hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda, sbr. aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu kæranda. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 44.000.000 króna. Umboðsmaður skuldara metur greiðslugetu kæranda 17.679 krónur á mánuði þegar vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla hafa verið dregnar frá ráðstöfunartekjum. Skuldir sem til hafa orðið vegna háttsemi kæranda, þ.e. ógreiddir vörsluskattar X ehf., nema alls 9.938.818 krónum sem telja verður afar háa fjárhæð bæði í ljósi greiðslugetu og eignastöðu kæranda. Skuldir þessar nema 12,9% af heildarskuldum kæranda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan og verður almennt að telja slíka háttsemi þess valdandi að óhæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem kærandi hefur stofnað til sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins og falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. samkvæmt því sem að framan greinir séu svo verulegar miðað við fjárhag hennar að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta