Mál nr. 29/2013
Fimmtudaginn 5. mars 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 21. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. febrúar 2013, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 26. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. mars 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. mars 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1973. Hann býr ásamt sambýliskonu sinni og fullorðnum syni þeirra í íbúð sem er í eigu sambýliskonu kæranda. Kærandi á auk þess þrjú önnur börn, þar af tvö sem hann greiðir meðlag með. Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eru 249.227 krónur.
Kærandi rekur greiðsluerfiðleika til skilnaðar á árinu 2000. Í kjölfarið hafi kærandi þurft að taka stórt lán og hann hafi greitt meðlag með þremur börnum. Einnig hafi kærandi misst aukavinnu.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 12.303.952 krónur, þar af falla 542.825 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007.
Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 5. apríl 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. nóvember 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.
Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með greinargerð 11. október 2012 að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Kærandi hafi enga fjármuni lagt fyrir frá því að frestun greiðslna hófst 22. apríl 2011. Kærandi gaf þær skýringar að hann hefði greitt skuld vegna meðlags og aðrar smáskuldir á tímabilinu. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefði kærandi átt að geta lagt fyrir alls 959.940 krónur á 16 mánaða tímabili greiðsluskjóls.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 30. október 2012 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Kærandi svaraði bréfi umboðsmanns skuldara 9. nóvember 2012 og óskaði eftir fundi til að koma sínum sjónarmiðum að. Á fundi 19. nóvember 2012 upplýsti kærandi um óvænt útgjöld og var honum veittur frestur til að leggja fram gögn því til stuðnings. Með tölvupósti 29. nóvember 2012 upplýsti kærandi að hann hefði greitt eftirfarandi á tímabilinu í krónum:
Fjárhæð | |
Skuld vegna meðlags | 400.000 |
Viðgerð á bifreið | 430.000 |
Viðgerð á þvottavél | 25.000 |
Samtals | 855.000 |
Hann ætti einnig 150.000 krónur í peningum. Alls gæti kærandi því gert grein fyrir 1.050.000 krónum. Kærandi sendi umboðsmanni skuldara kvittanir vegna viðgerðar á bifreið, samtals að fjárhæð 544.401 króna, auk yfirlits frá Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna meðlagsgreiðslna sem meðal annars sýndi fram á að kærandi var ekki lengur í vanskilum. Kærandi kvaðst ekki eiga kvittun fyrir viðgerð á þvottavél.
Með ákvörðun 8. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru eru ekki gerðar kröfur en kæruna ber að líta á sem kröfu um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Fram kemur í kærunni að kærandi sé tilbúinn til að selja bifreið sambýliskonu sinnar til að afla þess fjár sem skorti á sparnað hans.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 5. apríl 2011 og þá hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hafist auk þess sem skyldur samkvæmt 12. gr. hafi einnig tekið gildi frá þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 28. nóvember 2011 sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. ber umsjónarmanni að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmiðin séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 216.850 krónur á mánuði á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað janúarmánaðar 2013 fyrir hjón eða sambúðarfólk, auk kostnaðar vegna rafmagns, hita, fasteignagjalda og trygginga, samkvæmt upplýsingum frá kæranda sjálfum. Gert hafi verið ráð fyrir að kærandi greiddi helming framfærslukostnaðar á móti sambýliskonu sinni. Þá sé gert ráð fyrir að kærandi greiði 50.000 krónur á mánuði í húsnæðiskostnað til sambýliskonu sinnar. Heildarframfærsla kæranda hafi því verið áætluð 4.337.000 krónur á tímabili frestunar greiðslna.
Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 20 mánuði en miðað sé við tímabilið frá byrjun maímánaðar 2011 til desemberloka 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á framangreindu tímabili í krónum:
Ráðstöfunartekjur 1. maí 2011–31. desember 2012 | 5.473.230 |
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 | 107.840 |
Samtals | 5.581.070 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 279.054 |
Framfærslukostnaður á mánuði | -216.850 |
Greiðslugeta að meðalatali á mánuði | 62.204 |
Samtals greiðslugeta í 20 mánuði | 1.244.070 |
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 279.054 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 20 mánaða tímabili sem notað er til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls. Að teknu tilliti til 4.337.000 króna framfærslukostnaðar kæranda hefði hann átt að geta lagt til hliðar allt að 1.244.070 krónur á tímabilinu.
Kærandi hefði gert grein fyrir því í tölvupósti til umboðsmanns skuldara að hann hefði orðið fyrir útgjöldum vegna viðgerða á bifreið og viðgerðar á þvottavél, auk þess að greiða meðlagsskuld. Þá kvaðst kærandi hafa lagt til hliðar 150.000 krónur. Kærandi hafi sent kvittanir á faxi en þær hafi átt að sýna útgjöld vegna viðgerða á bifreið, auk yfirlita vegna meðlagsskuldar. Aðeins hafi verið um hluta af hverri kvittun að ræða og því örðugt að leggja mat á þær. Svo virðist sem alls hafi verið um sex kvittanir að ræða. Heildarfjárhæð vegna viðgerða á bifreið samkvæmt framlögðum kvittunum nemi 544.401 krónu. Ekki hafi þó verið hægt að staðfesta að kærandi hafi sjálfur greitt umrædd útgjöld. Sambýliskona kæranda sé korthafi greiðslukorts sem notað hafi verið til greiðslu á samtals 341.421 krónu, en óljóst sé hver hafi verið greiðandi kostnaðar að fjárhæð 202.980 krónur. Þá hafi kærandi ekki verið bifreiðareigandi á þessum tíma, en sambýliskona kæranda hafi verið skráð umráðmaður bifreiðar. Jafnvel þótt hægt sé að færa rök fyrir því að kærandi taki þátt í rekstrarkostnaði heimilisbifreiðar, þó hann sé ekki sjálfur skráður eigandi hans, verði ekki byggt á því að kærandi sjái einn um viðhaldskostnað bifreiðarinnar. Þar sem þær kvittandir sem kærandi hafi lagt fram vegna óvæntra útgjalda á tímabili greiðslufrestunar sýni ekki fram á að hann hafi sjálfur greitt umræddan kostnað hafi ekki verið hægt að taka tillit til þeirra.
Umboðsmaður skuldara hafi aflað upplýsinga um stöðu kæranda hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna meðlagsgreiðslna á tímabili greiðslufrestunar en kærandi hafi greitt meðlag með tveimur börnum sínum. Þrátt fyrir að meðlagskröfur falli samkvæmt i-lið 1. mgr. 3. gr. lge. utan samninga um greiðsluaðlögun sé óheimilt að greiða niður skuldir sem urðu til áður en umsókn um greiðsluaðlögun kæranda var samþykkt 5. apríl 2011. Þá hafi Innheimtustofnun sveitarfélaga verið óheimilt að taka við greiðslum frá kæranda á tímabilinu, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. lge. Í ágúst 2011 og í ágúst 2012 hafi vaxtabótum kæranda, samtals að fjárhæð 324.748 krónur, verið skuldajafnað á móti meðlagskröfum. Auk þess hafi kærandi greitt niður eftirstöðvar meðlagsskuldar frá árinu 2012. Samtals hafi kærandi greitt 171.690 krónur umfram áfallandi meðlög á tímabilinu, auk þeirrar fjárhæðar sem skuldajafnað var með vaxtabótum. Með þessu móti hafi kærandi orðið skuldlaus við Innheimtustofnun sveitarfélaga í ágúst 2012.
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kæranda verið óheimilt að gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Telja verði að uppgreiðsla á kröfu við Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi falið í sér slíka ráðstöfun enda hafi verið greitt inn á kröfu eins kröfuhafa umfram kröfur annarra. Þar sem krafa Innheimtustofnunar falli utan samnings hefði greiðsluaðlögunarsamningur ekki tekið til hennar. Kæranda hafi borið að ráðfæra sig við umsjónarmann vegna uppgreiðslu skuldarinnar enda hafi háttsemi kæranda valdið því að hann hefði haft minna fé til ráðstöfunar en ella og einnig haft veruleg áhrif á getu hans til að leggja til hliðar fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt skattframtali 2012, vegna tekjuársins 2011, hafi kærandi óskað eftir lækkun á tekjuskattstofni til frádráttar vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundarhúsnæði. Í beiðninni komi fram að reikningur vegna vinnu hafi numið 1.454.183 krónum. Beiðnin sé á nafni kæranda en ekki sambýliskonu hans og því megi gera ráð fyrir að um útlagðan kostnað kæranda sé að ræða. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi ekki gert grein fyrir kostnaði vegna þessara framkvæmda.
Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem skýrt gætu hvers vegna hann hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 1.244.070 krónur á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Að frátalinni uppgreiðslu meðlagsskuldar að fjárhæð 171.690 krónur og bankainnstæðu að fjárhæð 150.000 krónur, sem kærandi gerði grein fyrir að hann ætti í desember 2012, hafi kærandi ekki veitt fullnægjandi skýringar á því hvernig hann ráðstafaði fjármunum sem nemi 922.380 krónum á tímabilinu.
Með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í kæru sé vísað til þess að kærandi geti selt bifreið sambýliskonu sinnar til að vega á móti skorti á sparnaði. Það sem hvorki liggi fyrir hvert söluandvirðið sé né samþykki sambýliskonunnar verði ekki séð að skýring kæranda hafi áhrif á niðurstöðu málsins. Þá þyki fullyrðing hans um mögulega sölu á bifreiðinni ekki jafngilda því að hann hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fram hefur komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 11. október 2012 að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fór hann þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 8. febrúar 2013.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem honum hafi verið unnt á tímabili frestunar greiðslna.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar í samræmi 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi átt að leggja til hliðar 1.244.070 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 22. apríl 2011 til 8. febrúar 2013. Að teknu tilliti til greiðslu skuldar vegna meðlags að fjárhæð 171.690 krónur og sparnaðar að fjárhæð 150.000 krónur hafi kærandi ekki veitt haldbærar skýringar á ráðstöfun 922.380 króna.
Kærandi kveðst hafa greitt meðlag, viðgerð á bifreið og þvottavél, alls 855.000 krónur. Þá hafi hann lagt fyrir 150.000 krónur í peningum. Samtals hafi hann því gert grein fyrir 1.050.000 krónum.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. maí 2011 til 31. desember 2011: 8 mánuðir | |
Nettótekjur | 2.187.095 |
Nettómánaðartekjur að meðaltali | 273.387 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur | 3.286.135 |
Nettómánaðartekjur að meðaltali | 273.845 |
Tímabilið 1. janúar til 31. janúar 2013: 1 mánuður | |
Nettótekjur | 268.761 |
Nettómánaðartekjur að meðaltali | 268.761 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 5.741.991 |
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 273.428 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta hans þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. maí 2011 til 31. janúar 2013: 21 mánuður | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 5.741.991 |
Bætur og vaxtaniðurgreiðsla í greiðsluskjóli | 107.740 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 5.849.731 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 278.559 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 216.850 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | 61.709 |
Alls sparnaður í 21 mánuði í greiðsluskjóli x 61.709 | 1.295.881 |
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærandi lagði fram gögn vegna viðgerða á bifreið samtals að fjárhæð 544.401 króna. Á umræddum kvittunum er kærandi ekki tilgreindur sem greiðandi. Þá liggur ekki fyrir kvittun fyrir viðgerð á þvottavél. Við úrlausn málsins er ekki unnt að taka tillit til útgjalda nema þau séu studd viðhlítandi gögnum. Í málinu liggur fyrir að kærandi greiddi meðlagsskuld að fjárhæð 171.690 krónur auk þess sem hann lagði fyrir 150.000 krónur.
Í kæru kemur fram að kærandi telji að hann geti selt bifreið í eigu annars aðila til þess að vega á móti því sem skorti á sparnað hans. Sú yfirlýsing, ein og sér, hefur ekki þýðingu varðandi niðurstöðu málsins og kemur því ekki til álita að mati kærunefndarinnar. Því kemur málsástæða kæranda um mögulega sölu á bifreið sambýliskonu hans ekki til skoðunar.
Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærandi fékk í hendur, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Áætlun sem umboðsmaður skuldara lætur kæranda almennt í té við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana er áætlun sem miðast við stöðu kæranda á þeim tíma er embættið veitir heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt þeirri áætlun var greiðslugeta kæranda 51.923 krónur á mánuði.
Samkvæmt upplýsingum um rauntekjur kæranda frá ríkisskattstjóra á tímabilinu 1. maí 2011 til 31. janúar 2013 auk upplýsinga um vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu var greiðslugeta kæranda 61.709 krónur á mánuði frá því að hann lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 5. apríl 2011 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður 8. febrúar 2013.
Að teknu tilliti til meðlagsskuldar og kostnaðar sem kærandi greiddi á tímabili greiðsluskjóls, samtals að fjárhæð 321.690 krónur, skortir á sparnað kæranda sem nemur 974.191 krónu.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir