Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 14/2013

Fimmtudaginn 5. mars 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 31. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 26. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1951 og 1955. Þau búa í eigin 137,6 fermetra húsnæði að D götu nr. 10 í sveitarfélaginu E. Kærandi A starfar hjá X í sveitarfélaginu E en kærandi B er sölumaður hjá bókaútgáfu. Samanlagðar útborgaðar tekjur þeirra eru 445.482 krónur á mánuði. 

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 45.097.104 krónur og falla þær allar innan samnings til greiðsluaðlögunar, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2010.

Kærendur telja ástæður skuldasöfnunar vera atvinnuleysi, vankunnátta í fjármálum og fasteignakaup.

Kærendur lögðu inn umsókn til greiðsluaðlögunar 29. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. mars 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með greinargerð 28. júní 2012 að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum um að leggja til hliðar af launum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umsjónarmaður lagði til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 2. ágúst 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur brugðust ekki við bréfi umboðsmanns skuldara.

Með bréfi til kærenda 11. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar verði endurskoðuð. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu ekki í samræmi við raunveruleikann þar sem lítið hafi verið eftir af launum þeirra í lok hvers mánaðar. Það hafi því ekki verið hægt að leggja fyrir eins og gert hafi verið ráð fyrir í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Til dæmis hafi bifreið kærenda bilað á tímabilinu auk þess sem hún sé eyðslufrek á eldsneyti. Bifreiðin hafi verið seld talsvert undir verðmati og söluandvirðið notað til að greiða ógreiddan viðgerðarkostnað og sölulaun bifreiðasala. Þá hafi annar kæranda þurft að leita til sjúkraþjálfara á tímabilinu og hafi hvert skipti kostað um 5.000 krónur. Einnig hafi kærendur þurft að aðstoða aldraða foreldra, en veik móðir annars kærenda sé búsett erlendis og því kostnaðarsamt að leggja henni lið. Veikindin hafi haft í för með sérferðir og uppihald og enn sjái ekki fyrir endann á þessum veikindum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 8. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 18 mánuði en miðað sé við tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá júlí 2011 til og með desember 2012 í krónum:

 

Launatekjur júlí 2011 til desember 2012 að frádregnum skatti 8.323.321
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 að teknu tilliti til frádráttar vegna opinberra gjalda 95.454
Samtals 8.418.775
Mánaðarlegar meðaltekjur 467.709
Framfærslukostnaður á mánuði -280.999
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 186.709
Samtals greiðslugeta í 18 mánuði 3.360.762

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 467.709 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á því 18 mánaða tímabili sem notað er til viðmiðunar er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 280.999 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls, að meðtöldum kostnaði við líftryggingu kærenda en meta verði að öllu jöfnu í hverju tilviki fyrir sig hvort slík trygging teljist nauðsynleg miðað við aðstæður kærenda. Ekki hafi verið ráðist í slíkt mat þar sem umræddur kostnaður hafi ekki ráðið úrslitum um það hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað desembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.360.762 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 186.709 krónur á mánuði í 18 mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. beri umsjónarmanni að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hafi staðið sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi hvorki veitt umsjónarmanni né umboðsmanni skuldara skýringar á því hvers vegna ekki hafi verið lagt til hliðar fé á meðan frestun greiðslna stóð. Að því virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi því ekki hjá því verið komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 28. júní 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fór hann þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 11. janúar 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.360.762 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 29. júní 2011 til 11. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 186.709 krónur á mánuði í greiðsluskjóli.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hafi þurft að greiða ferðakostnað og uppihald vegna veikinda ættingja. Þá hafi þau greitt ýmsan kostnað vegna bifreiðar og sjúkraþjálfunar. Kærendur telja að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu óraunhæf.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: 6 mánuðir
Nettótekjur B 1.506.897
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 251.150
Nettótekjur A 1.228.086
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 204.681
Nettótekjur alls 2.734.983
Mánaðartekjur alls að meðaltali 455.831
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 3.246.119
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 270.510
Nettótekjur A 2.342.219
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 195.185
Nettótekjur alls 5.588.338
Mánaðartekjur alls að meðaltali 465.695
   
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 8.323.321
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 462.407

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2012: 18 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 8.323.321
Bætur og vaxtaniðurgreiðsla í greiðsluskjóli 95.454
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.418.775
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 467.709
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 280.999
Greiðslugeta kærenda á mánuði 186.711
Alls sparnaður í 18 mánuði í greiðsluskjóli x 186.711 3.360.798

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur hafa engin gögn lagt fram vegna viðgerða á bifreið, sjúkraþjálfunar, ferðalaga eða uppihalds. Við úrlausn málsins er ekki unnt að taka tillit til útgjalda nema þau séu studd viðhlítandi gögnum. Á sparnað kærenda skortir því 3.360.798 krónur. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta