Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 11/2013

Fimmtudaginn 5. mars 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 16. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 31. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 26. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 19. mars 2012.

Með bréfi 25. mars 2013 var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kærenda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1944 og 1954. Þau búa ásamt syni sínum, sem er á unglingsaldri, í eigin 110 fermetra íbúð að D götu nr. 23 í sveitarfélaginu E.  

Kærandi B er múrari og starfar við eigin atvinnurekstur og fær atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi A starfar sem sjúkraliði. Samanlagðar útborgaðar tekjur þeirra eru 417.459 krónur á mánuði. 

Kærendur rekja ástæður skuldasöfnunar til þess að á árinu 1995 hafi þau lánað veð í þáverandi íbúð sinni og hafi skuldbindingin fallið á þau. Síðar hafi fallið kostnaður á kærendur vegna viðgerða á blokkaríbúð þeirra. Á árinu 2002 hafi kærendur keypt núverandi íbúð sína. Síðan þá hafi fjárhagur þeirra versnað til muna einkum vegna atvinnuleysis og hækkunar skulda samhliða lækkandi verði fasteignar þeirra.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 25.969.410 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2004 til 2005.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 22. desember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með greinargerð umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 17. apríl 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því fór hann þess á leit við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í greinargerð umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu enga fjármuni lagt til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stóð yfir eða frá 22. desember 2010. Umsjónarmaður hafi óskað eftir frekari gögnum en kærendur hafi ekki orðið við þeirri beiðni.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 23. maí 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bárust skýringar kærenda ásamt gögnum þar sem tilgreind voru ýmis óvænt útgjöld sem kærendur töldu hafa skert greiðslugetu sína verulega.

Með bréfi til kærenda 3. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála úrskurði þeim í hag. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast hafna þeim rökum sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara sem þau telja vera bæði röng og ósanngjörn. Umboðsmaður skuldara hafi vanreiknað framfærslukostnað kærenda verulega. Ekkert óhóf hafi verið á fjölskyldunni en kostnaður vegna unglings í framhaldsskóla sem sé afreksíþróttamaður sé meiri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þá sætti kærendur sig ekki við það óréttlæti sem þau hafi orðið fyrir eftir bankahrunið hvað varðar framkomu fjármálastofnana, atvinnumissi og óöryggi í afkomu.

Á árunum 2004 og 2005 hafi kærendur keypt sér nýja bifreið og íbúð að hóflegri stærð í gömlu tvíbýlishúsi. Kærendur hafi tekið íbúðarlán hjá Arion banka og erlent bílalán hjá Lýsingu. Eignaskattstofn þeirra samkvæmt skattframtali 2008 var rúmar 12.000.000 króna og tæpar 8.000.000 króna samkvæmt skattframtali 2009. Fjárhagsstaða kærenda sé núna þannig að þau skuldi 30.000.000 króna í íbúð sem sé í besta falli hægt að selja á 20.000.000 til 23.000.000 króna.

Kærendur kveðast hafa misst tökin á skuldum sínum í lok árs 2010 og hafi þau þá leitað strax til umboðsmanns skuldara. Þeim hafi verið skipaður umsjónarmaður í upphafi árs 2011. Þau hafi átt fund hjá fulltrúa umsjónarmanns þar sem reynt hafi verið að lýsa fyrir þeim ferli málsins og þau látin undirrita einhver skjöl og umboð. Rætt hafi verið um að leggja til hliðar af launum. Engin sérstök fjárhæð hafi verið nefnd heldur hafi þeim verið sagt að það þyrfti að vera „svona eitthvað“. Eftir þennan fund hafi kærendur litið svo á að mál þeirra væri komið í góðar hendur. Með góðum hug hafi þau reynt að leggja eitthvað til hliðar en það hafi gengið illa. Frá þessum fundi og fram í apríl 2012 hafi kærendur lítið sem ekkert heyrt frá umsjónarmanni. Þau hafi gert ráð fyrir því að hann hefði góða yfirsýn yfir málið og þar sem engar athugasemdir hafi verið gerðar hafi þau litið svo á að allt væri í lagi. Í apríl/maí 2012 hafi kærendum verið tilkynnt að vegna „svika“ þeirra, að hafa ekki lagt fyrir, fengju þau ekki þjónustu umboðsmanns skuldara. Kærendur hafi reynt að leiðrétta þetta en ekkert tillit hafi verið tekið til þess. Með ábyrgðarbréfi 4. janúar 2013 hafi kærendum verið tilkynnt niðurstaða umboðsmanns skuldara.

Á árinu 2011 hafi tekjur kærenda verið um 5.000.000 króna og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi þau haft 360.000 krónur til ráðstöfunar á mánuði. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara hafi gert ráð fyrir um 300.000 krónum í framfærslukostnað en neysluviðmið velferðarráðuneytisins, að teknu tilliti til kostnaðar af samgöngum, væri rúmar 400.000 krónur á mánuði. Sé tekið tillit til þess að kærendur séu með tekjulausan framhaldsskólanema á sínu framfæri sé alls ekki óeðlilegt að svigrúm þeirra hafi verið lítið.

Kærendur telja í fyrsta lagi að það geti hvorki talist réttlátt né sanngjarnt að senda fjölskylduna út í þá óvissu og óöryggi sem neikvæður úrskurður hefði í för með sér. Fjölskyldufaðirinn sé kominn á eftirlaun og unglingurinn á heimilinu á viðkvæmum aldri, í skóla og stundi afreksíþróttir. Það séu engin önnur úrræði fyrir hendi en að fá sanngjarna og eðlilega skuldaaðlögun. Í öðru lagi vísa kærendur til þess að frá árinu 2008 hafi misræmið milli þess sem menn megi gera og þess sem menn geri raunverulega, tröllriðið íslensku samfélagi. Í fjármálum þjóðarinnar hafi umræðan um þetta verið afgerandi. Kærendur hafi fengið að finna fyrir því þegar bifreið þeirra hafi verið hirt af þeim á grundvelli ólöglegs bílaláns. Því sé ekki nema von að kærendur hafi ekki tekið nógu alvarlega skyldu sína um að leggja til hliðar í þá botnlausu hít sem þau hafi verið komin í. Í þriðja lagi hafi leiðbeiningar til kærenda verið bæði litlar og óskýrar. Þrátt fyrir almennar umræður og jafnvel einstök bréf, þess efnis að kærendur ættu að leggja fyrir, þá verði að taka tillit til þess að þau séu venjulegt íslenskt alþýðufólk sem skilji ekki alltaf það stofnanamál sem notað sé í samskiptum við kerfið eða geri sér almennilega grein fyrir efni þess. Kærendur hafi ekki fengið aðstoð í þeim samskiptum sem þau hafi átt en það sjáist best á því að þegar bifreið þeirra var tekin af þeim hafi þau engin færi haft á því að taka til varna í málinu. Í fjórða lagi sé alveg ljóst með vísan til aðstæðna kærenda að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eigi ekki við í þeirra tilviki. Til dæmis sé kostnaður vegna fótabúnaðar afreksíþróttamanns í fótbolta á bilinu 120.000 til 150.000 krónur. Mun eðlilegra hefði verið að notast við neysluviðmið velferðarráðuneytisins. Þegar höfnun samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi borist snemma árs 2012 hafi kærendur ekki verið áfjáð í að herða sultarólina í algjörri óvissu. Að saka kærendur um sóun og óráðsíu sé ekki sannleikanum samkvæmt.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 8. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 23 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá byrjun árs 2011 og út desembermánuð 2012 í krónum:

Launatekjur janúar 2011 og út desember 2012 að frádregnum skatti 8.666.701
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 666.398
Samtals 9.333.099
Mánaðarlegar meðaltekjur 405.787
Framfærslukostnaður á mánuði -304.723
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 101.064
Samtals greiðslugeta í 23 mánuði 2.324.449

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 405.787 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 304.723 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað desembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.324.449 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 101.064 krónur á mánuði í 23 mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. beri umsjónarmanni að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi borið því við að ýmis óvænt útgjöld hafi komið til á tímabili greiðsluskjóls og hafi þau því ekki séð sér fært um að leggja til hliðar. Þær fullyrðingar hafi kærendur ekki stutt með fullnægjandi gögnum. Samkvæmt bréfi og kvittunum frá kærendum vegna hinna óvæntu útgjalda hafi þau keypt tölvu að verðmæti 120.000 krónur 1. júlí 2011 og hafi greiðslu verið dreift með raðgreiðslum á tólf mánuði. Kærendur hafi ekki lagt fram reikning vegna kaupanna. Umboðsmaður telji kaup á tölvu ekki falla undir óvænt útgjöld án frekari rökstuðnings. Kærendur hafi einnig greitt fyrir viðgerð á tölvu og hafi þau lagt fram reikning vegna viðgerðarinnar að fjárhæð 13.400 krónur. Talið var að sá kostnaður félli undir útgjaldaliðinn „önnur þjónusta“ í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og því væri ekki tekið tillit til hans. Kærendur tilgreini einnig kostnað vegna líkamsræktar, samtals að fjárhæð 60.980 krónur, en hafi tekið fram að 40.000 krónur hafi verið endurgreiddar. Talið var að þær 20.980 krónur sem eftir stæðu féllu undir liðinn „tómstundir“ í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og því væri ekki tekið tillit til þeirra útgjalda. Að mati umboðsmanns skuldara falli reikningar vegna lækniskostnaðar undir liðinn „læknis- og lyfjakostnaður“ samkvæmt fyrrgreindum framfærsluviðmiðum og kostnaður vegna viðgerðar á bifreið falli undir liðinn „rekstur bíls/almenningasamgöngur“. Hafi því ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna læknisheimsókna eða viðgerða á bifreið umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.

Kærendur hafi keypt bifreið fyrir 50.000 krónur í kjölfar vörslusviptingar þáverandi bifreiðar þeirra. Ekki liggi fyrir hvort bifreiðin hafi verið keypt í samráði við umsjónarmann en embættið fallist engu síður á að draga andvirði hennar frá þeirri fjárhæð sem miðað hafi verið við að kærendur ættu að hafa lagt til hliðar. Kærendur hafi einnig keypt heyrnartæki á 234.000 krónur og hafi fengið endurgreiddar 114.000 krónur frá stéttarfélagi og Tryggingastofnun ríkisins. Fallist hafi verið á að kostnaður að fjárhæð 120.000 krónur hafi verið nauðsynleg útgjöld og tekið tillit til þeirra við mat á þeirri fjárhæð sem hefði átt að leggja til hliðar. Auk þess hafi verið tekið tillit til kostnaðar vegna náms sonar kærenda, samtals 50.000 krónur, auk kostnaðar vegna þjónustu endurskoðanda, samtals 55.814 krónur, enda hafi annar kærenda verið með eigin rekstur. Samkvæmt framangreindu hafi sú fjárhæð sem kærendur hafi átt að getað lagt til hliðar í greiðsluskjóli lækkað um samtals 275.804 krónur. Kærendur hafi ekki gert grein fyrir þeim 2.048.645 krónum sem eftir standi af þeirri fjárhæð sem þau hefðu átt að geta lagt fyrir á tímabili greiðsluaðlögunar.

Ljóst þyki að kærendur hafi aðeins skýrt ráðstöfun á 12%, eða 275.804 krónum, af því fé sem þau hefðu átt að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þó svo tekið yrði tillit til allra þeirra viðbótarútgjalda sem kærendur hafi talið fram, yrði aðeins um að ræða tæplega 19% af þeirri fjárhæð sem miðað hafi verið við að leggja hefði átt til hliðar, eða 439.104 krónur.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem fyrir liggi í málinu á þeim tíma er ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn. Sé það í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt við töku stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki þyki fært að miða útgjöld kærenda við hærri fjárhæðir en byggja megi á með gögnum og framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 17. apríl 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Fór hann þess jafnframt á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 3. janúar 2012.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 2.324.449 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 22. desember 2010 til 3. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 101.063 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar og kvittanir vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 439.104 krónur.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þau hefðu haft minna fé aflögu en umboðsmaður skuldara gerði ráð fyrir. Vísa kærendur til þess að þau hafi þurft að greiða ýmsan óvæntan kostnað og þau séu með ungling á framfæri sem sé kostnaðarsamt. Kærendur telja að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eigi ekki við um aðstæður þeirra. Benda kærendur á að mun eðlilegra hefði verið að byggja á neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins sem geri ráð fyrir hærri framfærslukostnaði. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.199.916
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 183.326
Nettótekjur B 1.648.290
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 137.358
Nettótekjur alls 3.848.206
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 320.684


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.921.070
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 265.552
Nettótekjur B 2.305.842
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 209.622
Nettótekjur alls 5.226.912
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 435.576


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.075.118
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 378.130

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2012: 24 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.075.118
Bótagreiðslur 666.398
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 9.741.516
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 405.897
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 304.723
Greiðslugeta kærenda á mánuði 101.174
Alls sparnaður í 24 mánuði í greiðsluskjóli x 101.174 2.428.164

 

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 275.804 krónur og verður það lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 275.804 krónur hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.152.360 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta