Mál nr. 33/2012
Mánudaginn 20. janúar 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 8. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað. Greinargerð vegna kæru barst 22. febrúar 2012.
Með bréfi 9. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. mars 2012.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 5. mars 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 16. mars 2012.
Athugasemdir kæranda voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 11. maí 2012 og honum boðið að láta afstöðu sína í ljós. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 16. maí 2012.
Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda með bréfi 22. maí 2012 og henni gefinn kostur á að gera athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er 41 árs og ógift. Hún býr með 19 ára dóttur sinni í eigin húsnæði að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C. Um er að ræða 231,3 fermetra fasteign. Kærandi hefur lokið M.Sc.-gráðu í markaðsfræðum og starfaði áður sem framkvæmdastjóri X ehf. Nú er hún atvinnulaus og hefur fengið atvinnuleysisbætur frá 1. ágúst 2010. Að auki hefur hún nýtt sér heimild til tímabundinnar úttektar úr séreignarlífeyrissjóði. Að meðaltali voru mánaðarlegar nettótekjur að meðtöldum viðbótarlífeyrissparnaði 371.999 krónur á árinu 2011. Núverandi tekjur eru atvinnuleysisbætur að fjárhæð 140.000 krónur á mánuði.
Að mati kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hennar til íbúðarkaupa sem fjármögnuð voru með erlendu láni, tekjuskerðingar vegna atvinnumissis, taps á hlutafjáreign og sambandsslita.
Árið 2007 hafi kærandi og þáverandi unnusti hennar ákveðið að hefja sambúð. Á þeim tíma hafi kærandi átt íbúð sem hafi verið of lítil fyrir sameinaða fjölskyldu beggja. Móðir kæranda hafi búið í stærri íbúð í sama húsi og hafi verið ákveðið að mæðgurnar skiptu á íbúðum. Kærandi hafi af þessu tilefni tekið 25.000.000 króna veðlán í erlendri mynt en fyrir hafi hún skuldað íbúðarlán, upphaflega að fjárhæð 17.000.000 króna, sem tekið hafi verið vegna kaupa á minni íbúðinni. Kærandi hafi notað hluta lánsins, eða um 5.000.000 króna, til að kaupa hlut í X ehf. en þar hafi kærandi starfað sem framkvæmdastjóri. Tekjur kæranda og sambýlismannsins hafi verið nægar til að greiða af áhvílandi lánum en greiðslubyrði hafi verið um 250.000 krónur á mánuði. Í lok árs 2008 hafi þau flutt í íbúðina en á sama tíma hafi farið að halla mjög undan fæti í atvinnurekstri sambýlismannsins. Af þeim sökum hafi þau þurft að lifa af launatekjum og sparnaði kæranda einnar. Sumarið 2009 hafi þau slitið sambúðinni og þá hafi kærandi setið ein uppi með íbúðina og afborganir af áhvílandi lánum. Í júní 2010 hafi stjórn X ehf. tekið ákvörðun um að segja kæranda upp störfum og óska gjaldþrotaskipta á félaginu. Við það hafi kærandi bæði misst atvinnu sína og tapað 7.000.000 króna hlutafjáreign sinni í félaginu en hún hafi verið stærsti einstaki hluthafinn. Kærandi hafi fengið annað starf í október 2010 en misst það í apríl 2011. Hafi hún verið án atvinnu en í virkri atvinnuleit frá þeim tíma.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 63.767.731 króna en þar af falla 4.103.537 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2004 og 2008 vegna fasteignakaupa.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. febrúar 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra X ehf. frá árinu 2003 og þar til 4. júní 2010 er henni hafi fyrirvaralaust verið sagt upp störfum og gjaldþrotaskipta óskað á félaginu. Hafi kærandi séð um daglegan rekstur félagsins en allar ákvarðanir varðandi fjármál þess hafi verið í höndum stjórnar og stærstu eigenda. Við efnahagshrunið hafi tekjur félagsins minnkað. Stjórn félagsins hafi átt í viðræðum við Arion banka vegna skulda félagsins við bankann í rúmt ár áður en gjaldþrotaskipta var óskað.
Kærandi hafi sem framkvæmdastjóri ekki komið að þeirri ákvörðun að krefjast gjaldþrotaskipta á félaginu. Henni hafi ekki verið ljóst að eigendur félagsins myndu taka ákvörðun um að beiðast gjaldþrotaskipta og segja henni upp. Á þeim tíma hafi hún staðið í þeirri trú að verið væri að semja við banka félagsins og reynt yrði að bjarga fyrirtækinu.
Kærandi greinir frá því að það hafi ekki verið af ásetningi sem vörsluskattar hafi ekki verið greiddir á lokavikum félagsins. Ástæðan hafi verið að Arion banki hafi fryst reikninga félagsins og því hafi ekki verið hægt að greiða umrædd gjöld. Kærandi hafi séð til þess þau sjö ár sem hún hafi starfað hjá félaginu að öll gjöld og skattar væru greidd. Núverandi skuld sé vegna síðustu mánaða í starfsemi félagsins.
Á árinu 2008 hafi kærandi keypt 25% hlut í félaginu fyrir 7.000.000 króna en hlutnum hafi hún tapað við gjaldþrot þess. Einnig hafi hún tapað launum sem hún hafi átt inni hjá félaginu.
Einu laun kæranda undanfarna mánuði hafi verið atvinnuleysisbætur en hún sé löngu búin að nýta viðbótarlífeyrissparnað sinn. Hún hafi nú sótt um tíu störf en ekki haft árangur sem erfiði.
Kærandi hafi staðið í þeirri trú að búið væri að ganga frá öllum kröfum tengdum X ehf. Þá hafi kæranda skilist að stjórnarformaður bæri endanlega ábyrgð á vanskilum vörsluskatta en ekki framkvæmdastjóri. Kærandi geti ekki skilið hvernig atburðarás og ákvarðanir sem hún hafi ekki komið að geti haft áhrif á umsókn hennar um greiðsluaðlögun þannig að hún missi heimili sitt ofan á það sem á undan sé gengið.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Segi þar jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður þær sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.
Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins þurfi umrædd skuldbinding að vera nokkuð stór hluti af heildarskuldbindingum viðkomandi skuldara en við mat á því sé einkum horft til fjárhags skuldarans, þ.e. til tekna hans og eigna. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi.
Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á X ehf. þar sem kærandi hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra. Hluti nefndra skattskulda sé virðisaukaskattur og staðgreiðsla launagreiðanda. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 9. júní 2010 og hafi skiptum lokið 15. desember 2011.
Hafi kærandi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, allt þar til félagið var úrskurðað gjaldþrota. Nái skylda þessi einnig til skila á virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum. Kröfur vegna vangoldinna opinberra gjalda X ehf. sem kærandi beri ábyrgð á falli utan samnings um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge.
Vörslusköttum, virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila í samræmi við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og laga um tryggingagjald nr. 113/1990. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskilanna.
Af gögnum tollstjóra verði ráðið að X ehf. hafi ekki staðið skil á vörslusköttum á tekjuárunum 2009 og 2010. Félagið skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 2.329.872 krónur og staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 6.650.992 krónur eða samtals 8.980.864 krónur. Samkvæmt yfirlitum frá tollstjóra nemi samanlagður höfuðstóll vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu fram að gjaldþroti félagsins, að því leyti sem álagning byggist á gögnum frá félaginu sjálfu og að frádregnum innborgunum, 9.482.122 krónum. Í tilviki kæranda séu vanskilin mikil og við þeim liggi þungar sektir.
Samkvæmt skattframtölum tekjuáranna 2008 til 2010 hafi mánaðarlegar nettótekjur kæranda að meðaltali verið 454.812 krónur. Heildarskuldir kæranda séu 63.767.731 króna. Helstu eignir kæranda séu fasteign að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C að verðmæti 37.200.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Eignin sé yfirveðsett. Því verði að telja eignir kæranda neikvæðar að teknu tilliti til skulda.
Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda sem framkvæmdastjóra X ehf. til að standa skil á vörslusköttum og þeirra sekta sem hún gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir skattskuldanna allháar en að auki sé ljóst að eignastaða kæranda sé neikvæð og fjárhagur hennar erfiður. Þyki fjárhæð þeirra vörsluskatta sem byggi á gögnum frá félaginu sjálfu ein og sér nægilega há til að óhæfilegt sé að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar. Þyki þess vegna ófært að líta svo á að skuldbindingarnar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.
Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.
Þá þyki umboðsmanni rétt að árétta ákvæði f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé tekið fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þegar skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að heimilt sé að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Telja verði þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Þá verði að telja ljóst að sú háttsemi geti valdið viðkomandi verulegum fjárhagserfiðleikum. Enn fremur þyki ljóst að vangreiddir vörsluskattar og sektir sem tengist þeim séu skuldir sem séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Umboðsmaður vísi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Þar sé sérstaklega tiltekið að opinber gjöld, greiðsla í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar, sektir og endurkröfur ríkis vegna bóta sem greiddar séu vegna refsiverðrar háttsemi séu á meðal skulda sem falli undir lýsingu í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af úrskurðinum verði einnig ráðið að það eigi ekki að ráða úrslitum um hvort skuldir falli innan samnings um greiðsluaðlögun hvort skuldirnar girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.
Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök sé fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti þá forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vörsluskatta séu miklar. Slíkar sektir yrði skuldari að greiða að fullu en telja verði svigrúm innheimtumanna ríkissjóðs til að semja um þær fremur takmarkað.
Með hliðsjón af framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með háttsemi er varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því óhæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.
Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi framkvæmdastjóri og eini prókúruhafinn íX ehf. á því tímabili sem hér skiptir máli. Því hvíldi á henni sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.
Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem einn af fyrirvarsmönnum X ehf.
Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að hún hafi ekki átt þátt í því að óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Einnig að ákvarðanir um fjármál félagsins hafi verið í höndum stjórnar og stærstu eigenda. Þá greinir kærandi frá því að hún hafi verið stærsti einstaki hluthafi X ehf. frá 2008 með 25% eignarhlut. Eins og rakið hefur verið bar kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á skilum félagsins á vörslusköttum. Einnig var kærandi eini prókúruhafi félagsins samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá. Bendir þetta ekki til annars en að kærandi hafi komið að fjármálum félagsins og farið með þau sem framkvæmdastjóri þess á því sjö ára tímabili sem hún gegndi stöðunni. Af þessum sökum getur kærunefndin ekki miðað úrlausn sína við annað en að skyldur kæranda sem framkvæmdastjóra félagsins á tímabilinu hafi verið í samræmi við það.
Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskuldar X ehf. 8.980.864 krónur og byggist sú fjárhæð á álagningu á félagið. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í þessu sambandi verður að líta jafnframt til þess að samkvæmt gögnum málsins stafa elstu vanskil félagsins á vörslusköttum frá árinu 2009. Vanskil á vörslusköttum eru tilkomin áður en óskað var eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu.
Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 26.000.000 króna. Skuldir vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. nema alls 8.980.864 krónum sem telja verður allháa fjárhæð. Skuldir þessar eru 14% af heildarskuldum kæranda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með framangreindri háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.
Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.
Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kæranda að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir