Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 361/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 361/2017

Föstudaginn 8. desember 2017

A
gegn
umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 9. október 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. september 2017 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 10. október 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. október 2017.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 16. október 2017 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem er fæddur 1980, er einhleypur og býr á B. Hann á eitt barn sem hann greiðir meðlag með. Tekjur kæranda eru örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrisgreiðslur og styrkur frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Heildarskuldir kæranda eru 4.766.554 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af eru 1.578.915 krónur sem falla utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til alkóhólisma og spilafíknar.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 15. júní 2017. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. september 2017 var umsókn hans synjað með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi biður um að synjun umboðsmanns skuldara sé endurmetin og óskar eftir því að komast í greiðsluaðlögun. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveður einstakling spilasjúkan þegar hann eyði svo mikilli orku, tíma og fé í fjárhættuspil að hann kalli yfir sig fjárhagsleg, félagsleg og tilfinningaleg vandræði og geti þrátt fyrir þau ekki dregið úr eða hætt fjárhættuspili. Kærandi dvelji í B þar sem fram fari langtímameðferð fyrir fíkla. Þetta sé hans X innlögn í meðferð en áður hafi hann farið í meðferð hjá SÁÁ og Samhjálp.

Kærandi glími við fíknisjúkdóma; spilafíkn og alkóhólisma. Þetta séu ólæknandi sjúkdómar en hann eigi að geta haldið þeim niðri. Hann sé enn eina ferðina að gera sitt besta til að koma lífi sínu í lag og hafi verið í B síðan X sl. Hann verði þar áfram þangað til hann treysti sér til að koma aftur út í lífið en það sé metið í samráði við ráðgjafa.

Líf kæranda í dag sé ein brunarúst og langt bataferli fyrir höndum að meðferð lokinni. Hann stefni á endurhæfingu eftir meðferð og muni dvelja á áfangaheimilinu C.

Kærandi tekur fram að hann eigi engar efnislegar eignir. Ekki einu sinni ryksugu, kaffivél eða rúm. Hann sé með slæmt taugakerfi, þjáist af kvíða og bakflæði og sé með slæmar tennur. Þá sé hann slæmur í baki vegna X bílslysa sem hann hafi lent í árið X. Hann hafi ekki getið unnið síðan þá og sé 50% öryrki. Andlega sé kærandi mjög þungur og taki lyf við því og kvíðanum. Þá hafi hann verið vistaður á geðdeild eftir tilraun til að taka sitt eigið líf. Félagsleg staða hans sé heldur ekki góð og sé hann óstaðsettur í hús.

Árið 2016 hafi kærandi fengið tryggingabætur vegna slysa sem hann hafi lent í árið X og óvænt fengið 11.500.000 krónur. Stjórnleysið sem einkenni sjúkdóma hans hafi farið í gang. Hann hafi orðið friðlaus, látlaust spilað fjárhættuspil og drukkið og drukkið. Þetta hafi verið eins og að hella olíu á eld. Hann hafi rústað öllu á níu mánaða tímabili og orðið heltekinn af sinni sýki. Kærandi hugsi mikið um hvað hann hefði getað gert; borgað skuldir, keypt sér íbúð, keypt sér bíl, látið laga í sér tennurnar, stutt við barn sitt eða fjölskyldu og fleira. Sektarkenndin, skömmin og niðurrifið sé ólýsanlegt en þessar 11.500.000 krónur sé ekki það eina sem hann hafi glatað, enda hafi hann glatað öllu sem hann hafi unnið sér inn um ævina.

Þá bendir kærandi á að sjúkdómar hans haldist í hendur og hann þurfi tíma og hjálp til að sigrast á þeim.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Fram komi í 2. mgr. 6. gr. lge. að umboðsmanni sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum a til g í ákvæðinu.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt.

Í skattframtali ársins 2017 vegna tekjuársins 2016 komi fram að kærandi hafi fengið 11.315.558 krónur í tryggingabætur frá D hf. Samkvæmt skattframtali vegna tekna ársins 2016 hafi innstæður á bankareikningum kæranda verið alls 7.592.286 krónur um áramótin 2016/2017. Innstæður á reikningum kæranda séu nú óverulegar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé heildarfjárhæð skulda kæranda 4.766.290 krónur. Skuldirnar hafi allar verið í vanskilum árið 2016.

Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf 17. júlí 2017. Hann hafi ekki veitt bréfinu viðtöku og það verið endursent til embættisins 23. ágúst sama ár. Kærandi hafi fengið afrit af sama bréfi sent á uppgefið netfang 21. ágúst 2017. Í bréfinu hafi verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra tilgreind álitaefni og leggja fram gögn. Kærandi hafi lagt fram vottorð frá B 31. ágúst 2017. Þar komi fram að hann dvelji á meðferðarheimili vegna áfengis og/eða vímuefnavanda og alvarlegrar spilafíknar. Þá hafi kærandi upplýst starfsmann embættisins um það munnlega sama dag að hann hefði eytt öllum þeim fjármunum sem hann hefði fengið í tryggingabætur og að ekkert væri eftir.

Miðað við ofangreindar forsendur sé það mat Embættis umboðsmanns skuldara að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með því að hafa ekki nýtt þær tryggingabætur sem hann hafi fengið árið 2016 að einhverju marki til greiðslu skulda. Þrátt fyrir að til staðar séu vottorð um veikindi kæranda dugi það ekki eitt og sér að mati embættisins til þess að útskýra þessa háttsemi hans. Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi því verið synjað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer þannig fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í málinu liggur fyrir að á þeim tíma er kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar var hann í umtalsverðum fjárhagsvandræðum og nánast allar skuldbindingar hans voru í vanskilum. Um var að ræða eftirfarandi skuldbindingar í krónum:

Kröfuhafi Vanskil frá Vanskil
Tollstjóri 2013 - 2016 476.384
Sektir og sakarkostnaður 2016 114.255
Meðlagsskuld 2015 1.488.915
Arion banki 2015-2016 1.971.431
Smálán 2014 584.905
Alls 4.635.890

Fram kemur í skattframtali kæranda 2017 vegna tekjuársins 2016 að kærandi hafi fengið tryggingabætur að fjárhæð 11.117.558 krónur árið 2016. Í lok ársins 2016 átti hann eftir 7.382.899 krónur á bankareikningi en þegar hann sótti um greiðsluaðlögun 2017 var innstæða bankareiknings óveruleg. Kærandi notaði aðeins 132.612 krónur til að greiða inn á skuldir sínar sem hann hefði getað greitt að fullu. Hann hefur sjálfur greint frá því að hafa notað fjármunina í fjárhættuspil og áfengi.

Gera verður þá kröfu til einstaklinga, sem glíma við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og noti þá fjármuni sem þeir hafa til að greiða skuldir. Þetta gerði kærandi ekki en eins og að framan er lýst hafði hann nægilegt fé á árinu 2016 til að greiða skuldir. Þrátt fyrir að hann hafi leitað sér hjálpar og gangist nú undir meðferð vegna sjúkdóma sinna þykir af framangreindum ástæðum óhæfilegt að veita honum greiðsluaðlögun.

Að þessu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær aðstæður sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við og að þær komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt lge. þar sem kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem hann framast gat. Með vísan til þess bar að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun.

Í ljósi þess er að framan greinir verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A um greiðsluaðlögun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A um greiðsluaðlögun er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta