Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 323/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 323/2024
Mánudaginn 14. október 2024

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 17. júlí 2024 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. júlí 2024, þar sem krafa kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi var synjað.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem er fædd X, óskaði þann 3. júní 2024 eftir breytingum á greiðsluaðlögunarsamningi sem komst á 18. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 19. júní 2024, óskaði umboðsmaður skuldara eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kæranda svo hægt væri að meta hvort skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.)  væru fyrir hendi. Kærandi svaraði fyrirspurn umboðsmanns með tölvupósti þann 21. júní 2024. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 2. júlí 2024, var kæranda synjað um breytingu á  samningi þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr. lge. voru ekki talin vera uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. júlí 2024. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 26. ágúst 2024. Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. ágúst 2024, og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kröfu hennar um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi verði felld úr gildi.

Í greinargerð kæranda sem fylgdi kæru kemur fram að kærandi telji að hún uppfylli sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður til þess að breyta skilmálum samnings. Fram kemur að kærandi hafi tekið mörg lán sem hún hafi ekki getað staðið undir. Á þeim tíma hafi hún verið að stríða við andleg veikindi og því ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess að taka slík lán. Kærandi kveðst hafa leitað sér aðstoðar og sótt sálfræðimeðferð árið 2021. Kærandi útskrifaðist nýverið með BS gráðu frá háskóla og hafi fengið inngöngu í meistaranám sem hún áætlar að klára árið 2026.

Kærandi kveðst hafa unnið eins mikið og hún geti með námi í hlutastarfi og á sumrin. Hún hafi árið 2022 greinst með endómetríósu sem hafi haft mikil áhrif á heilsu hennar og líðan. Sama ár hafi hún farið í kviðsjáraðgerð hjá Klíníkinni en á þessum tíma hafi slík aðgerð ekki verið niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands. Aðgerðin hafi verið kostnaðarsöm og allur sparnaður kæranda farið í að greiða fyrir hana. Kærandi bendir á að um sé að ræða ólæknandi sjúkdóm og hún hafi ákveðið að fara í aðgerðina vegna stanslausra verkja og vanlíðanar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að með umræddri ákvörðun, dags. 2. júlí 2024, hafi kröfu kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi verið synjað þar sem skilyrði 2. mgr. 24. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) hafi ekki verið uppfyllt.

Kærandi hafi lagt inn beiðni um að umboðsmaður skuldara myndi annast milligöngu vegna breytinga á samningi þann 3. júní 2024. Við meðferð málsins hafi komið í ljós atvik sem hafi þótt geta leitt til þess að umboðsmaður skuldara myndi synja beiðni um heimild til að hefja milligöngu um samningaviðræður við kröfuhafa um breytingu á samningi. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf, dags. 19. júní 2024, þar sem henni hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Viðbrögð kæranda hafi borist með tölvupóstum, dags. 21. júní 2024. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2024, hafi kæranda verið synjað um beiðni um milligöngu um breytingu á samningi með vísan til 2. mgr. 24. gr. lge. Um málsatvik og forsendur vísast að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar.

Umboðsmanni skuldara ber við mat á því hvort heimila skuli milligöngu um breytingu á samningi gagnvart kröfuhöfum að meta hvort upp hafi komið sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veiki getu hans til þess að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiði til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings, sbr. 2. mgr. 24. gr. lge. Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun beiðnar um milligöngu um breytingu á samningi með vísan til 2. mgr. 24. gr. lge. Í hinni kærðu ákvörðun sé jafnframt farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærist undir umrætt ákvæði í 2. mgr. 24. gr. lge.

Í greinargerð með kæru beri kærandi fyrir sig að hún hafi átt við veikindi að stríða þegar hún stofnaði til skuldbindinganna. Tekið hafi verið tillit til þessara aðstæðna kæranda við ákvörðun um hvort samþykkja ætti umsókn hennar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggði því á heildarmati á aðstæðum skuldara og voru m.a. veikindi hennar ástæða þess að embættið taldi að samþykkja ætti umsóknina.

Við mat á því hvort sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður séu fyrir hendi sem veiki getu skuldara til að standa við skuldbindingar sínar horfir umboðsmaður skuldara m.a. til þess hver staða skuldara var við samþykki umsóknar og hvort eitthvað hafi breyst frá því að umsókn var samþykkt. Af gögnum máls megi ráða að kærandi hafi unnið samhliða háskólanámi ásamt því að vinna eins mikið og hún hafi getað á sumrin. Auk þess hafi komið fram í svörum kæranda að hún hyggist fara á vinnumarkað að framhaldsnámi loknu. Af gögnum máls verði ekki séð að þau veikindi sem kærandi beri fyrir sig hafi hamlað henni að stunda nám eða vinnu samhliða námi. Þá verði heldur ekki af þeim ráðið að kærandi geti ekki verið í fullri vinnu vegna veikinda. Kærandi hafi mátt vita að til greiðslu á skuldbindingum kæmi í lok greiðsluaðlögunarsamnings sumarið 2024. Sú ákvörðun að halda áfram í námi geti ekki talist óvænt eða ófyrirsjáanleg í skilningi 2. mgr. 24. gr. lge. enda í valdi kæranda að taka ákvörðun um áframhaldandi nám. Út frá þessum forsendum telur embættið skilyrði ekki uppfyllt til að samþykkja umsókn um milligöngu um breytingu gagnvart kröfuhöfum. Væru hins vegar þær aðstæður uppi að t.d. væri ljóst að kærandi væri óvinnufær, kærandi gæti ekki aukið tekjumöguleika sína vegna veikinda eða tekjur skuldara miðað við 100% starf dygðu ekki til að mæta skuldbindingum, yrði umsókn um milligöngu metin á þeim forsendum.

Embættið vilji jafnframt árétta að skv. 2. gr. lge. geti einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Margs konar ástæður geti legið að baki því að einstaklingar lendi í greiðsluerfiðleikum, t.a.m. veikindi, tekjulækkun, skilnaður o.s.frv. Að mati embættisins sé það þó ekki í samræmi við markmið laganna, að umsækjandi leiti greiðsluaðlögunar til að klára fimm ára háskólanám. Kærandi hafi nú þegar fengið þriggja ára greiðslufrest á kröfum sínum og óvissa sé um hverjar tekjur kæranda yrðu, hefði ákvörðun um áframhaldandi nám ekki verið tekin.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir 2. mgr. 24. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lge. getur skuldari óskað eftir því við umboðsmann skuldara að hann samþykki að veittur sé gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum samkvæmt samningi, án þess að breytingin sé borin undir kröfuhafa, ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi. Skal þá tímabil greiðsluaðlögunar lengjast sem nemur þeim gjalddögum sem veittur er frestur á. Beiðni um slíka breytingu skal berast umboðsmanni skuldara áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um breytinguna innan tveggja vikna frá því að beiðni berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun á beiðninni getur skuldari kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst honum.

Í 2. mgr. 24. gr. lge. kemur fram að sé þörf á annars konar breytingu en 1. mgr. heimilar getur skuldari óskað eftir því við umboðsmann skuldara, áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda, að hann hafi milligöngu um breytingu á samningi gagnvart kröfuhöfum, ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings.

Í athugasemdum við 24. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 21/2024 um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (málsmeðferð og skilyrði), kemur fram að margvíslegar breytingar geti orðið á högum skuldara sem kunni að réttlæta breytingar á greiðsluaðlögun og sé ekki hægt að telja þær aðstæður upp tæmandi. Með ófyrirsjáanlegum aðstæðum sé t.d. átt við tekjulækkun hjá skuldara í kjölfar veikinda eða atvinnuleysis eða að skuldari þurfi að mæta ófyrirséðum nauðsynlegum kostnaði. Undir sérstakar aðstæður geti fallið tilvik, þar sem svo miklar hækkanir hafi orðið á almennum framfærslukostnaði að ekki teljist ásættanlegt að skuldari sé skuldbundinn að greiða umsamda afborgunarfjárhæð samkvæmt samningi. Ákvæðinu sé ekki ætlað að taka til tilvika þar sem hefðbundnar sveiflur séu á hækkun framfærslukostnaðar, heldur eingöngu tilvika þar sem ljóst sé að um mikinn forsendubrest er að ræða. Meta þurfi hvert og eitt mál fyrir sig, en mikilvægt sé að embættið afli nýrra tekjuupplýsinga við málsmeðferðina.

Samkvæmt gögnum málsins tók greiðsluaðlögunarsamningur kæranda gildi 18. ágúst 2021 og kvað á um greiðslufrest í 36 mánuði. Fram kemur í greiðsluaðlögunarsamningi að við gerð samnings sé skuldari í námi við O og vinni í hlutastarfi samhliða námi. Vonandi sé því aðeins um tímabundinn vanda að ræða í tilviki skuldara. Að teknu tilliti til þeirrar óvissu sem ríki hjá skuldara, bæði varðandi atvinnu- og framtíðartekjur, telur umboðsmaður að greiðslufrestur geti veitt skuldara möguleika á bæta aðstæður sínar og standa við skuldbindingar sínar að loknu greiðsluaðlögunartímabili. Þá segir að til þess að markmiðið greiðsluaðlögunar verði náð þurfi að veita skuldara greiðslufrest af öllum skuldbindingum í 36 mánuði en skuldari eigi 2-3 ár eftir af námi til BS gráðu. Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur lokið náminu en hefur skráð sig í frekara nám sem hún áætlar að ljúki árið 2026. Kærandi kveðst einnig hafa greinst með endómetríósu sem hafi haft mikil áhrif á heilsu hennar og líðan. Hún geti því ekki unnið jafn mikið með námi og áður. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi leitað sér lækninga vegna veikinda sinna. Ekki liggur fyrir af fyrirliggjandi gögnum hvort og þá að hve miklu leyti veikindi kæranda hafi haft áhrif á getu hennar til að stunda nám og vinna samhliða námi þannig að tekjur hennar eða möguleikar til tekjuöflunar hafi rýrnað.

Til þess að umboðsmaður skuldara geti fallist á milligöngu um samningaviðræður við kröfuhafa á grundvelli 2. mgr. 24. gr. lge. þurfa að vera til staðar sérstakar eða ófyrirséðar aðstæður sem veikja getu skuldara til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiða til þess að breyta þarf að öðru leyti skilmálum samnings. Með vísan til þess sem að framan er rakið eru að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hvorki til staðar sérstakar né ófyrirséðar aðstæður í tilfelli kæranda sem veikja getu hennar til að uppfylla skyldur samkvæmt samningnum eða leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings.

Að framangreindu virtu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um milligöngu um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi því staðfest.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A, um milligöngu á breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta