Nr. 231/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 231/2018
Mánudaginn 24. september 2018
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 2. júlí 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. júní 2018 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 12. júlí 2018 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. júlí 2018.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2018 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fædd X. Í umsókn hennar um greiðsluaðlögun kemur fram að hún sé einstæð móðir [...] sem hún fái greitt meðlag með. Kærandi kvaðst í umsókninni búa í X fermetra [...] leiguíbúð í B.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 1.923.031 króna.
Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til atvinnuleysis, meðal annars í X og X 2016 og X 2017. Hún kveðst ekki hafa fengið atvinnuleysisbætur á meðan hún var atvinnulaus og hafi tekið smálán til að framfleyta sér, auk þess sem hún hafi verið veik. Þá hafi hún og þáverandi sambýlismaður hennar slitið sambúð í X 2016.
Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 18. september 2017. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. nóvember 2017 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 16. apríl 2018 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 20. desember 2017. Þar hafi verið óskað eftir upplýsingum um stöðu hennar og aðstæður og hvort einhverjar breytingar hefðu orðið þar á frá því umsókn hennar var samþykkt 9. nóvember 2017. Kærandi hafi svarað 21. desember 2017 og ekki getið um breyttar aðstæður. Kæranda hafi síðan verið send drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar til yfirlestrar með tölvupósti 28. desember 2017. Þess hafi verið óskað að kærandi kynnti sér efni frumvarpsins vel og einkum þá kafla er vörðuðu aðstæður hennar þar sem mikilvægt væri að allar upplýsingar um hana væru réttar og staðfestar af hennar hálfu. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda og frumvarpið verið sent kröfuhöfum 5. janúar 2018.
Í framhaldi þessa hafi borist andmæli frá kröfuhöfum og óskað eftir afstöðu kæranda til þeirra. Kærandi hafi greint umsjónarmanni frá því 5. febrúar 2018 að hún ætti von á [...] barni í X 2018. Í samskiptum umsjónarmanns og kæranda hafði ekkert komið fram um að aðstæður hennar væru að öðru leyti breyttar. Aðspurð, 7. febrúar 2018, kvaðst kærandi ekki vera í sambúð. Vegna breyttra aðstæðna hafi það verið mat umsjónarmanns að senda þyrfti nýtt frumvarp til kröfuhafa. Hafi það verið gert 21. febrúar 2018. Kröfuhafar hafi aftur andmælt frumvarpinu. Í ljós hafi komið að kærandi hefði breytt um lögheimili en hún hefði flutt úr B X 2017. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum um núverandi stöðu kæranda, meðal annars hvort hún væri í sambúð og upplýsingum um ýmis mánaðarleg útgjöld hennar. Kærandi hafi svarað umsjónarmanni með tölvupósti 12. apríl 2018 og sent með honum leigusamning, dagsettan X 2018, þar sem fram hefði komið að húsaleiga væri X krónur á mánuði. Þá hefði kærandi greint frá því að hún hefði ekki verið með internet í X 2017 og gleymt að greina umsjónarmanni frá breyttum aðstæðum sínum. Aðrar umbeðnar upplýsingar hafi kærandi ekki veitt.
Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærandi hafi verið í nokkrum tölvupóstsamskiptum við umsjónarmann á þeim tíma er hún kveðst ekki hafa haft internet. Einnig hefðu samskipti átt sér stað í gegnum síma. Með vísan til framangreinds sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil þar sem kærandi hafi að mati umsjónarmanns af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt umsjónarmanni rangar og villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu, samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge., með því að greina ekki frá verulega breyttum og/eða raunverulegum aðstæðum sínum frá því í X 2017.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 15. maí 2018 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi kom á fund embættisins 11. júní 2018 þar sem staða málsins var kynnt fyrir henni og þar kom hún á framfæri upplýsingum.
Með bréfi til kæranda 25. júní 2018 felldi umboðsmaður skuldara greiðslu-aðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir hvorki kröfur í málinu né rökstyður kæru sína. Kæru hennar verður þó að skilja þannig að hún óski þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.
Að sögn umboðsmanns skuldara hafi kærandi veitt embættinu þær upplýsingar að hún væri einstæð, byggi ásamt [...] í [...] leiguhúsnæði í B og væri atvinnulaus. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 20. desember 2017 þar sem hún hafi meðal annars verið beðin um að upplýsa ef breytingar hefðu orðið á stöðu hennar. Í svörum kæranda 21. desember 2017 hafi hún greint frá því að [...] væri á fullu framfæri hennar og að hún væri í atvinnuleit. Umsjónarmaður hafi sent kæranda drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar til yfirlestrar 28. desember 2017. Í frumvarpinu hafi aðstæðum kæranda verið lýst með þeim hætti sem hún sjálf hafi greint frá. Hafi kæranda sérstaklega verið bent á að fara vel yfir þá kafla frumvarpsins sem fjallað hafi um hana og aðstæður hennar, þar sem mikilvægt væri að allar upplýsingar sem þar kæmu fram væru réttar og staðfestar af hennar hálfu. Kærandi mun ekki hafa gert athugasemdir við frumvarpið og hafi það því verið sent til kröfuhafa 5. janúar 2018. Umsjónarmaður hafi verið í samskiptum við kæranda 5. febrúar 2018 og þá hafi hún greint frá því að hún ætti von á [...] barni í X 2018. Ekkert hefði komið fram um að aðstæður kæranda væru breyttar að öðru leyti, en aðspurð muni hún hafa sagt að hún væri ekki í sambúð. Umsjónarmaður hafi ákveðið að senda kröfuhöfum frumvarpið öðru sinni 21. febrúar 2018 þar sem kærandi ætti von á [...] barni og ljóst væri að framfærslukostnaður myndi hækka og fæðingarorlofsgreiðslur taka við af atvinnuleysisbótum. Við vinnslu málsins í kjölfarið hafi komið í ljós að lögheimili kæranda og [...] hefði verið flutt að C. Umrætt húsnæði væri [...] í eigu manns sem jafnframt væri með skráð lögheimili á eigninni. Umsjónarmaður hafi aflað þeirra upplýsinga frá B að kærandi hefði verið með [...] húsnæði þar á leigu fram til X 2017. Hún hefði samkvæmt því ekki verið leigjandi þar þegar henni hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar 9. nóvember 2017. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við frumvörp umsjónarmanns, hvorki það sem sent hafi verið kröfuhöfum 5. janúar 2018 né seinna frumvarpið sem hafi verið sent 21. febrúar 2018, þó að þar kæmi fram að hún byggi í leiguhúsnæði að D í B og gert væri ráð fyrir húsaleigukostnaði og húsaleigubótum miðað við búsetu hennar þar.
Kærandi hafi veitt umsjónarmanni þær skýringar í tölvupósti 12. apríl 2018 að ástæður þess að hún hefði ekki upplýst um breyttar aðstæður sínar væru að hún hefði verið án nettengingar í X 2017 en einnig hefði hún staðið í flutningum og verið veik og því gleymt að greina umsjónarmanni frá breyttum högum. Í samtali við embættið 11. júní 2018 hafi kærandi endurtekið fyrri skýringar.
Fyrir liggi að umsjónarmaður og kærandi hafi átt í nokkrum tölvupóstsamskiptum í aðdraganda og í kjölfar þess að kæranda hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar 9. nóvember 2017. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 3. nóvember 2017 sem hún hafi svarað 6. nóvember 2017. Þann 8., 9. og 10. nóvember 2017 hafi kærandi og umsjónarmaður átt í tölvupóstsamskiptum og sömuleiðis 20. og 21. desember 2017. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 28. desember 2017 með drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings og samþykki vegna miðlunar viðkvæmra persónuupplýsinga, en kærandi hafi verið beðin um að undirrita samþykkið svo að senda mætti kröfuhöfum frumvarpið. Embættinu hafi borist frumrit samþykkisins undirritað af kæranda 4. janúar 2018 en það staðfesti að kærandi hafi móttekið tölvupóst umsjónarmanns frá 28. desember 2017. Jafnframt megi skilja af tölvupóstsamskiptum umsjónarmanns og kæranda og af skráningum umsjónarmanns að þær hafi talað saman í síma að minnsta kosti 3., 6. og 28. nóvember 2017, 21. desember 2017, 2. og 7. febrúar 2018 og 14. mars 2018. Af ofangreindu þyki því óumdeilt að kærandi hafi haft tækifæri til að láta umsjónarmann vita af breyttum aðstæðum sínum.
Fyrir liggi að umsjónarmaður hafi í tvígang sent kröfuhöfum frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi , fyrst 5. janúar 2018 og síðar 21. febrúar 2018. Áður en fyrra frumvarpið hafi verið sent, eða 28. desember 2017, hafi kærandi fengið drög að frumvarpinu send með tölvupósti. Þess hafi verið óskað að hún kynnti sér efni þess mjög vel og einkum þá kafla þar sem fjallað væri um aðstæður hennar þar sem mikilvægt væri að allar upplýsingar hana varðandi væru réttar og staðfestar af hennar hálfu. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við frumvarpsdrögin þótt upplýsingar um heimilisaðstæður, framfærslukostnað og framfærslutekjur væru í ósamræmi við þáverandi stöðu hennar. Frumvarpið, sem sent hafi verið kröfuhöfum í seinna skiptið, hefði verið uppfært miðað við að kærandi ætti von á [...] barni en verið að öðru leyti óbreytt, enda hefði kærandi ekki veitt upplýsingar um annað.
Í greinargerð frumvarps til lge. komi fram í athugasemdum við d-lið 1. mgr. 6. gr. að ef ætla megi að tilgangur skuldara með því að leggja fram rangar upplýsingar sé að geta talist falla undir skilyrði greiðsluaðlögunar, þá beri að hafna umsókninni.
Í ljósi framangreinds verði að telja að kæranda hafi mátt vera ljóst að þær upplýsingar sem umsjónarmaður hafi lagt til grundvallar í frumvörpum sínum varðandi heimilisaðstæður kæranda, væru ekki réttar. Með vísan til þess að kærandi hafi ekki veitt umsjónarmanni upplýsingar um að hún væri flutt, að hún greiddi ekki lengur húsaleigu, að hún fengi ekki lengur húsaleigubætur, að hún ætti von á barni og að hún hafi verið á leið í hjónaband, þá verði að telja að hún hafi veitt villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Þótt kærandi hafi veitt embættinu umbeðnar upplýsingar í kjölfar bréfs 15. maí 2018, meti embættið það svo að sú háttsemi að láta hjá líða að upplýsa umsjónarmann um verulegar breytingar á heimilishögum sínum á þeim tíma sem umsjónarmaður hafi unnið að frumvarpi fyrir hennar hönd, leiði til þess að kærandi uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar. Því beri að fella niður umsókn á grundvelli d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi veitt rangar og/eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður skuldara fellt niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Með bréfi 16. apríl 2018 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Í framhaldi af því felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 25. júní 2018.
Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi ekki veitt umsjónarmanni tilteknar upplýsingar um breytingar á aðstæðum sínum, þ.á m. að hún væri flutt og greiddi ekki lengur húsaleigu, fengi ekki lengur húsaleigubætur og ætti von á barni. Því hafi hún veitt villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu og þannig brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvílir á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvílir á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hlýtur því eðli málsins samkvæmt að vera fyrir hendi þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á og sér í lagi ef aðstæður breytast eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara koma fram.
Í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 18. september 2017 kemur fram að kærandi búi í [...] leiguhúsnæði, eigi [...] sem hún fái greitt meðlag með, hafi verið í sambúð sem lokið hafi í X 2016, hafi atvinnu en viti ekki hverjar tekjur hennar séu og greiði X krónur í húsaleigu. Í tölvupóstum kæranda til umsjónarmanns 8. nóvember 2017 kveður hún tekjur sínar vera atvinnuleysisbætur, meðlag og barnabætur, alls X krónur á mánuði. Hún hafi verið atvinnulaus frá X. Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda 20. desember 2017 er kærandi meðal annars beðin um að upplýsa hvort breytingar hafi orðið á stöðu hennar. Í svari kæranda 21. desember 2017 segist kærandi enn atvinnulaus.
Umsjónarmaður sendi kæranda drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings 28. desember 2017. Kærandi var beðin um að lesa frumvarpið mjög vel, einkum þá kafla sem fjölluðu um kæranda og aðstæður hennar þar sem afar mikilvægt væri að allar upplýsingar sem kæmu fram um hana væru réttar og staðfestar af hennar hálfu. Samkvæmt gögnum málsins gerði kærandi engar athugasemdir við frumvarpsdrögin. Voru þau því send kröfuhöfum 5. janúar 2018.
Í tölvupósti kæranda til umsjónarmanns 5. febrúar 2018 upplýsti hún að hún ætti von á barni í X 2018. Breytt frumvarp var því sent kröfuhöfum 21. febrúar 2018.
Í gögnum málsins liggur fyrir óundirrituð fundargerð af fundi starfsmanns umboðsmanns skuldara og kæranda 11. júní 2018. Þar kemur fram að kærandi hafi ekki greitt húsaleigu frá því að hún flutti frá D í X 2017. Þá segist kærandi ekki hafa verið í sambúð á tíma greiðsluaðlögunarumleitana en barnsfaðir hafi búið í eigninni fyrsta X mánuðinn eftir að kærandi og [...] hennar fluttu inn, en ekki eftir það. Sambúðin hafi ekki gengið. Fyrir liggur einnig skriflegt svar kæranda sama efnis, móttekið 11. júní 2018.
Af því sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að kærandi hefur ekki veitt réttar upplýsingar í málinu. Þannig veitti hún rangar upplýsingar um framfærslukostnað sinn, þ.e. húsaleigugreiðslur og kostnað vegna fjölskylduaðstæðna. Kæranda bar þó á öllum stigum málsins að veita réttar upplýsingar um þessi atriði samkvæmt meginreglunni sem fram kemur í 6. tl. 1. mgr. 4. gr. og d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Upplýsingar um framfærslukostnað kæranda eru grundvallarupplýsingar í málinu og nauðsynlegar til þess að unnt sé að meta greiðslugetu hennar og þar af leiðandi hvaða fjárhæð kærandi getur greitt af skuldbindingum sínum á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til skýringar á þeim misvísandi upplýsingum sem hún hefur veitt í málinu um útgjöld sín og aðstæður eins og að framan er rakið. Verður því að telja að kærandi hafi af ráðnum hug veitt rangar eða villandi upplýsingar sem eru mikilsverðar í málinu.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi með framangreindum hætti brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir Þórhildur Líndal