Mál nr. 291/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 291/2024
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 25. júní 2024 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 25. júní 2024, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi, dags. 27. júní 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 28. júní 2024. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. júlí 2024, og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, sem er fædd 1995, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 12. september 2023. Þann 15. maí 2024 óskaði kærandi eftir því að umsókn hennar yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Með bréfi, dags. 6. júní 2024, var kæranda tilkynnt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Kærandi brást ekki við erindi umboðsmanns skuldara. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 25. júní 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli k-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Í kæru kemur fram að kærandi geti ekki greitt allar sínar skuldir í einu en hún geti greitt af þeim mánaðarlega. Kærandi kveðst vera öryrki vegna andlegrar heilsu og það myndi hjálpa henni mikið að fá að greiða af skuldum sínum mánaðarlega.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. [6]. júní 2024, þar sem gerð hafi verið grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar tilgreind álitaefni og leggja fram gögn. Afrit af bréfinu hafi jafnframt verið sent kæranda í tölvupósti þann sama dag. Embættið telji að kæranda hafi verið veitt færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með greindu ábyrgðarbréfi og tölvupósti. Þar sem engin svör eða gögn bárust frá kæranda hafi embættið þurft að taka ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Það hafi verið mat embættisins að synja bæri umsókn kæranda á grundvelli k-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. það sem rakið hafi verið í bréfi, dags. [6]. júní 2024.
Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda, dags. 6. júní 2024, kemur fram að til þess að unnt væri að taka afstöðu til umsóknar væri nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar frá kæranda, en talið væri að ákveðnir óvissuþættir væru fyrir hendi í málinu, þess eðlis að vafi léki á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði lge. til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segi að synja skuli umsókn, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi ef þau atriði sem fram koma í stafliðum a-n eiga við í málinu.
Í k-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að synja skuli umsókn um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi verið framast unnt.
Árið 2020 hafi heildarnettótekjur kæranda verið 3.120.197 kr., samkvæmt skattframtali 2021. Framfærsluviðmið UMS fyrir hjón/sambúðarfólk hafi verið samtals 1.865.136 kr. á árinu 2020. Samkvæmt upplýsingum frá HMS greiddi kærandi leigu fyrstu þrjá mánuði ársins fyrir samtals 510.000 kr. Gjald í framkvæmdarsjóð aldraðra hafi verið 12.034 kr. árið 2020 og útvarpsgjald verið 18.300 kr. Svigrúm UMS árið 2020 hafi verið samtals 74.604 kr. Heildarframfærslukostnaður kæranda árið 2020 hafi því verið samtals 2.480.074 kr. Heildargreiðslugeta kæranda árið 2020 hafi því verið 640.123 kr. eða um 53.344 kr. að meðaltali á mánuði.
Árið 2021 hafi heildarnettótekjur kæranda verið 3.172.890 kr. Framfærsluviðmið UMS fyrir hjón/sambúðarfólk hafi verið samtals 1.865.136 kr. á árinu 2021. Gjald í framkvæmdarsjóð aldraðra hafi verið 12.334 kr. árið 2021 og útvarpsgjald var 18.800 kr. Svigrúm UMS árið 2021 hafi verið samtals 74.604 kr. Heildarframfærslukostnaður kæranda árið 2021 hafi því verið samtals 1.970.874 kr. Heildargreiðslugeta kæranda árið 2021 hafi því verið 1.202.016 kr. eða um 100.168 kr. að meðaltali á mánuði Árið 2022 hafi heildanettótekjur kæranda verið 3.635.674 kr. Framfærsluviðmið UMS fyrir hjón/sambúðarfólk hafi verið samtals 1.865.136 kr. á árinu 2022. Gjald í framkvæmdarsjóð aldraðra hafi verið 13.749 kr. árið 2023 og útvarpsgjald verið 20.900 kr. Svigrúm UMS árið 2022 hafi verið samtals 74.604 kr, Heildarframfærslukostnaður kæranda árið 2023 hafi því verið samtals 1.973.224 kr. Heildargreiðslugeta kæranda árið 2022 hafi því verið 1.662.450 kr. eða um 138.538 kr. að meðaltali á mánuði.
Árið 2023 hafi heildarnettótekjur kæranda verið 3.756.512 kr. Framfærsluviðmið UMS fyrir hjón/sambúðarfólk hafi samtals verið 1.865.136 kr. á árinu 2023. Gjald í framkvæmdarsjóð aldraðra hafi verið 13.284 kr. árið 2022 og útvarpsgjald verið 20.200 kr. Svigrúm UMS árið 2022 hafi verið samtals 74.604 kr. Heildarframfærslukostnaður kæranda árið 2023 hafi því verið samtals 1.974.389 kr. Heildargreiðslugeta kæranda árið 2023 hafi því verið 1.661.285 kr. eða um 138.440 kr. að meðaltali á mánuði.
Á þessum tíma hafi tvær kröfur frá Lögum og innheimtu verið í vanskilum, krafa Landsbankans hafi einnig verið í vanskilum, nokkur Núnú lán sem tekin hafi verið árið 2022, sem og fjöldi annarra reikninga, flestir frá árinu 2019. Með vísan til framangreinds, hafi verið óskað eftir upplýsingum og hvort greitt hafi verið af einhverjum kröfum á framangreindu tímabili eða hvort tilraun hafi að minnsta kosti verið gerð til þess.
Þó sé ítrekað að umboðsmaður skuldara hafi heimild til þess að samþykkja umsókn, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, en þar sé meðal annars vísað til veikinda eða erfiðrar félagslegrar aðstæðna.
Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi kæranda verið veittur 14 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá þig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að með hinni kærðu ákvörðun hafi núverandi fjárhagsstaða kæranda verið rakin, auk annarra upplýsinga sem málið varðar. Við meðferð málsins hafi komið í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf, dags. 7. júní 2024, þar sem henni hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Bréfið hafi verið móttekið af hálfu kæranda þann 7. júní 2024 samkvæmt upplýsingum frá Póstinum. Engin viðbrögð bárust hins vegar frá kæranda. Með ákvörðun, dags. 25. júní 2024, hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun með vísan til k-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á k-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt k-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi, ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Af gögnum málsins verður ráðið að greiðslugeta kæranda árið 2020 hafi verið 640.123 kr., 1.202.016 kr. árið 2021, 1.662.450 kr. árið 2022 og 1.661.285 kr. árið 2023. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi ekki af þeim skuldbindingum sem flestar hafi þegar verið komnar í vanskil. Kærandi hefur engar skýringar veitt á þessari háttsemi þrátt fyrir tilmæli þar um. Að því virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi látið hjá líða að greiða af skuldbindingum sínum frá þeim tíma þrátt fyrir að henni hafi verið það unnt, sbr. k-lið 1. mgr. 6. gr. Lge.
Samkvæmt 6. gr. lge., sbr. breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 21/2024 sem tóku gildi 1. apríl 2024, hefur umboðsmaður skuldara heimild til að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að synjunargrundvöllur liggi fyrir, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 21/2024 kemur fram að umboðsmanni skuldara beri að leggja heildstætt mat á málið og meta hvort sérstakar aðstæður skuldara eigi að leiða til þess að samþykkja beri umsóknina. Ýmsar sérstakar aðstæður geta komið til en hér er einkum vísað til veikinda, erfiðra félagslegra aðstæðna og eftir atvikum hás aldurs skuldara. Í einhverjum tilfellum kann mat umboðsmanns skuldara að vera á þann veg að synja beri máli, þrátt fyrir sérstakar aðstæður skuldara, þar sem þau atvik sem leiða eiga til synjunar vegi þyngra í matinu og ekki teljist því hæfilegt að samþykkja umsókn.
Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda, dags. 6. júní 2024, var óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum frá skuldara, til að unnt væri að taka afstöðu til afgreiðslu umsóknar hennar um greiðsluaðlögun. Þá kom fram að embættið hefði heimild til að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun, ef sérstakar aðstæður væru fyrir hendi. Líkt og rakið hefur verið brást kærandi ekki við þeirri beiðni umboðsmanns um skriflegar upplýsingar studdar gögnum. Í kæru kemur þó fram að kærandi glími við andleg veikindi og fram kemur í umsókn kæranda um aðstoð vegna fjárhagsvanda, dags. 12. september 2023, að hún eigi við veikindi að stríða. Í ljósi framangreindra upplýsinga um veikindi kæranda og þrátt fyrir að kærandi hafi ekki svarað bréfi umboðsmanni skuldara frá 6. júní 2024 telur úrskurðarnefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að afla frekari upplýsinga um veikindin og að því búnu að leggja heildstætt mat á hvort sérstakar ástæður væru til staðar í máli kæranda samkvæmt 6. gr. lge., sbr. 4. gr. laga nr. 21/2024.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til k-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. án þess að lagt hafi verið heildstætt mat á aðstæður hennar. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar umboðsmanns skuldara.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar umboðsmanns skuldara.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson