Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 19/2011

Fimmtudaginn 12. apríl 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 18. apríl 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 4. apríl 2011, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun einstaklings var hafnað.

Með bréfi, dags. 19. apríl 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 6. maí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. maí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 9. september 2011 var kæranda aftur send greinargerðin og ítrekuð beiðni um athugasemdir. Bárust ekki frekari athugasemdir frá kæranda. Var kæranda send fyrirspurn um stöðu og afdrif krafna á hendur honum þann 13. mars 2012 og barst svar kæranda þann 22. mars 2012.

 

I.

Málsatvik

Kærandi er 83 ára gamall og býr ásamt eiginkonu sinni í fasteign þeirra að D-götu nr. 23 í sveitarfélaginu E. Tekjur kæranda, eftir skatta og gjöld, nema 307.547 krónum á mánuði. Heildarskuldir kæranda nema samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 59.418.296 krónum. Auk þess hafi kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 146.459.785 krónur. Eignir hans samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara nema 12.262.433 krónum og samanstanda þær af helmingshlut hans í fasteign þeirra hjóna og hlutabréfaeign að fjárhæð 212.433 krónum.

Samkvæmt skattframtölum síðustu ára voru mánaðarlegar tekjur kæranda eftir skatt 550.767 krónur árið 2006, 593.162 krónur árið 2007, 431.631 króna árið 2008 og 465.579 krónur árið 2009. Í árslok 2006 námu eignir kæranda 25.396.122 krónum, 50.870.517 krónum í árslok 2007, 52.938.372 krónum í árslok 2008 og 55.900.264 krónum í árslok 2009. Skuldir hans samkvæmt skattframtölum voru 30.280.185 krónur í lok árs 2006, 32.648.144 krónur árið 2007, 36.776.195 krónur árið 2008 og 102.059.205 árið 2009.

Að sögn kæranda er fjárhagsörðugleika hans fyrst og fremst að rekja til þess að árið 2001 hafi hann gert samkomulag við bróður sinn sem fólst í því að bróðir hans myndi greiða upp lausaskuldir kæranda sem þá námu um 15.000.000 króna. Bróðir kæranda hafi tekið yfir skuldabréfin án þess að skuldskeyting hafi farið fram og hafi verið áformað að bróðir kæranda myndi greiða af skuldabréfunum og að lokum greiða þau upp þegar óðalskvöðum væri létt af jörðinni F, sem var í eigu bróður hans. Árið 2004 hafi bróðir kæranda látist og dóttir hans því fengið framseldan eignahlutann í F. Ákveðið hafi verið að hún skyldi virða samkomulag föður hennar við kæranda. Árið 2008 hafi óðalskvöðum verið aflétt af F og kærandi og bróðurdóttir hans gert með sér samkomulag sem meðal annars fól í sér að hún veitti kæranda veð í G í sveitarfélaginu H. Samningurinn hafi verið vanefndur og það sé ástæða þess að kærandi eigi erfitt með að ná endum saman.

Skuldbindingar kæranda, samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara, skiptast þannig að af persónulegum skuldbindingum kæranda eru veðtryggðar kröfur 24.105.133 krónur, annars vegar 14.590.410 króna erlent lán hjá Byr en upphafleg fjárhæð þess var 5.624.450 krónur og hins vegar lán hjá Íslandsbanka að fjárhæð 9.514.723 krónur, upphaflega að fjárhæð 5.363.958 krónur. Bæði lánin eru tekin árið 2004. Aðrar kröfur eru skuldabréf hjá NBI frá maí 2008, upphaflega að fjárhæð 7.524.000 krónur sem stendur nú í 12.224.419 krónum, lán hjá Arion banka frá árinu 2001, upphaflega að fjárhæð 4.494.444 krónur en stendur nú í 10.985.399 krónum, lán hjá Byr að fjárhæð 1.205.744 krónur, yfirdráttarheimildir hjá NBI og Íslandsbanka, samtals 7.695.256 krónur. Þá nema vangoldin þing- og sveitarsjóðsgjöld 2.346.208 krónum og ógreitt tryggingagjald 353.102 krónum. Þá er einnig getið reiknings frá I að fjárhæð 503.035 krónur. Kröfurnar eru allar í vanskilum.

Að sögn kæranda eru ábyrgðarskuldbindingar hans tilkomnar vegna stuðnings hans við fjölskyldu sína. Flestar þeirra, eða tólf talsins, eru vegna félaganna C ehf. og B ehf. en kærandi gekkst í ábyrgðir fyrir félögin á árunum 2003, 2005 og 2008. Samanlögð fjárhæð krafna var upphaflega 55.473.223 krónur er nú um 95.167.234 krónur. Aðrar ábyrgðarskuldbindingar eru vegna lána til einstaklinga , þar á meðal ábyrgð á skuldabréfum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna fjögurra einstaklinga sem nema í dag 21.026.756 krónum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 4. apríl 2011 var kæranda synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til þess að óhæfilegt þyki að fallast á umsókn hans enda hafi hann tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í greinargerð kæranda sem fylgdi kæru hans kemur fram að kærandi telji að ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna hans í ákvörðun umboðsmanns. Vill hann flokka skuldbindingar sínar í þrennt. Í fyrsta lagi sé um að ræða skuldbindingar vegna húsnæðis og bíla, en þær skuldir, sem og dagleg útgjöld, geti hann staðið í skilum með.

Í öðru lagi ábyrgðarskuldbindingarnar, en kærandi mótmælir því að hann hafi tekist á hendur nýjar ábyrgðarskuldbindingar árið 2008 heldur hafi eldri lán þá verið framlengd. Bankarnir hafi viljað tryggja allt með ábyrgðum. Kærandi hafi orðið var við að bönkunum hafi gengið erfiðlega að innheimta kröfur hjá ábyrgðarmönnum og ekki hafi verið gert greiðslumat á aðalskuldara. Aldrei hafi farið fram greiðslumat á honum eða lántakendum í sambandi við þessar ábyrgðarskuldbindingar. Bæði C ehf. og B ehf. séu í skuldaskilaferli og stefnt sé að því að ljúka því á þessu ári. Kærandi trúir ekki að ekki sé hægt að ljúka hans persónulegu málum hjá umboðsmanni skuldara vegna þessara félaga.

Í þriðja lagi séu svokölluð F-lán en þessum lánum og tilurð þeirra séu gerð góð skil í gögnum málsins. Þessi lán, og að ekki hafi verið staðið við samninginn sem gerður hafi verið vegna þeirra, sé helsta ástæða fjárhagsvandræða kæranda. Ósk hans um greiðsluaðlögun lúti aðallega að þessum lánum.

Kærandi bendir á að hann sé 83 ára gamall og hafi starfað sem X í 30 ár og sem slíkur þjónn fólksins.

Lögmenn hafi sagt kæranda að embætti umboðsmanns skuldara hafi verið stofnað til að taka á málum sem hans og óski hann því eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurmetin og honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara byggir synjun sína á umsókn kæranda á c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), en samkvæmt því ákvæði sé heimilt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar sé talið óhæfilegt að veita hana með tilliti til þess að hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem hafi verið í samræmi við fjárhag hans þegar til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. 

Við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar sé að hluta til tekið mið af þágildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, enda komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja á beitingu ákvæðisins. Í athugasemdum við c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að Hæstiréttur hafi túlkað ákvæðið á þann hátt að líta beri til eignastöðu skuldara svo og tekna hans á þeim tíma er til fjárskuldbindinganna var stofnað. Þá eigi þær ástæður sem varða geti synjun og tilgreindar séu í 2. mgr. 6. gr. það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Eins og rakið sé í hinni kærðu ákvörðun telji kærandi að greiðsluerfiðleika hans sé einkum að rekja til ársins 2001 í tengslum við lánasamkomulag sem ekki hafi verið staðið við. Að auki hvíli umtalsverðar sjálfskuldarábyrgðir á kæranda eins og sjá megi í gögnum málsins og séu þær meirihluti heildarskuldbindinga hans. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda, á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar, nema 146.459.785 krónum. Kærandi segir þær tilkomnar vegna stuðnings hans við fjölskylduna sína en þær eru að stærstum hluta vegna ábyrgðar fyrir tvö félög, C ehf. og B ehf. og séu tilkomnar á árunum 2001 til 2008. Fallast megi á með kæranda að fjárhagsörðugleika hans megi að hluta til rekja til lánasamkomulags sem hann gerði við bróður sinn og hafi verið vanefnd. Hins vegar vegi sjálfskuldarábyrgðir kæranda þyngst við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. skal við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar taka sérstakt tillit til þess hvort umsækjandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er samhljóða ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sem nú hefur verið fellt úr gildi. Af dómi Hæstaréttar frá 29. apríl 2010 í máli nr. 198/2010, tók rétturinn meðal annars til umfjöllunar þágildandi 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. Af dóminum má ráða að sú háttsemi ein og sér að stofna til ábyrgðarskuldbindinga á sama tíma og fjárhagsstaða er þröng, og þannig fyrirséð væri að skuldari gæti ekki greitt ef á reyndi, gæti varðað synjun á heimilt til að leita greiðsluaðlögunar.

Með tilliti til markmiða laga nr. 101/2010 og ummæla í athugasemdum við frumvarpið ásamt samanburði við eldra ákvæði í gjaldþrotalögum, sé ljóst að ákvörðun um synjun á heimild til greiðsluaðlögun á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. verði að byggja á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, enda falli háttsemi hans ekki undir þau tilvik þar sem umboðsmanni er skylt að synja um slíka heimild skv. 1. mgr. 6. gr. Enn fremur megi leiða af orðalagi ákvæðis 2. mgr. 5. gr. lge. og fyrrgreindum lögskýringagögnum að mikið þurfi að koma til svo augljóst sé að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar og að mat umboðsmanns skuldara geti eftir atvikum orðið annað og vægara en leiða má af fordæmum Hæstaréttar í málum sem varða beitingu 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga.

Þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu, eigna og tekna kæranda á þeim árum sem hann stofnaði til meirihluta skuldbindinga sinna og til þeirrar staðreyndar að tekjumöguleikar hans hafi farið minnkandi vegna aldurs, verði að telja að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Að teknu tilliti til eigna og tekna kæranda á undangengnum árum megi sjá í gögnum málsins að tekjur hans hafi farið minnkandi með árunum. Þá samanstandi eignir hans af 50% hlut í fasteign þeirra hjóna og er eignarhlutur hans 12.050.000 krónur samkvæmt fasteignamati.

Er ljóst að kærandi hafi tekið verulega áhættu í fjármálum með umtalsverðum sjálfskuldarábyrgðum sem voru í engu samræmi við greiðslugetu hans og eignastöðu á umræddum tíma er til þeirra var stofnað. Þá þegar hafi legið fyrir að umsækjandi væri að komast á eftirlaunaaldur og auknar líkur á að tekjumöguleikar hans yrðu takmarkaðir til framtíðar litið. Verði að gera ráð fyrir að kæranda hafi mátt vera ljóst að hann gæti ekki staðið undir slíkum skuldbindingum ef til þess kæmi að þær myndu falla á hann sem ábyrgðarmann.

Umboðsmaður skuldara telur ekki að upplýsingar sem kærandi lagði fram með kæru, máli sínu til stuðnings, breyti þeim forsendum sem synjun umboðsmanns byggist á og fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að heildarskuldir kæranda nema 59.418.296 krónum. Jafnframt liggur fyrir að kærandi hefur tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 146.459.785 krónur. Stofnað var til flestra þessara ábyrgðaskuldbindinga á árunum 2001–2008 og stafar meginpartur þeirra af sjálfskuldaábyrgðum fyrir tvö félög, annars vegar vegna lögmannsstofunnar C ehf., sem er í eigu sonar kæranda, og hins vegar vegna félagsins B ehf., sem kærandi sjálfur stofnaði ásamt sonum sínum. Starfsemi síðarnefnda félagsins fólst í viðskiptum með hlutabréf. Í greinargerð með umsókn kæranda um greiðsluaðlögun kemur fram að bæði þessi félög séu ógjaldfær, flestar þessara skulda í vanskilum og að samningsumleitanir um skuldaskil standi nú yfir.

Þótt fallast megi á það með kæranda, ef litið er framhjá ábyrgðarskuldbindingum, að stærstur hluti skulda hans stafi af vanefndum viðsemjenda hans vegna svonefndra F-lána, verður ekki hjá því komist að meta fjárhagslegar skuldbindingar hans í heild með hliðsjón af eignum og tekjum hans á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað.

Ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila verða ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða í heild, þó ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á. Verður því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær skuldbindingar sem kærandi tókst á herðar á árunum 2001–2008, einkum þær sem lúta að ábyrgðum vegna ofannefndra félaga, eru þess eðlis og af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi falið í sér fjárhagslega áhættu sem ekki var í neinu samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Annars vegar verður ekki séð að kærandi hefði átt raunhæfa möguleika á að greiða af þeim ef á reyndi og hins vegar verður að líta til þess við mat á áhættu í þessu sambandi að fjárhagsstaða aðalskuldara, þ.e. þeirra félaga sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir, var þannig að kæranda hefði mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru á að á ábyrgðirnar myndi reyna. Þannig má ráða af ársreikningum C ehf. fyrir árin 2003 og 2005 að tekjur félagsins voru litlar og eigið fé félagsins neikvætt. Þá má einnig ráða af ársreikningum B ehf. fyrir sömu ár að það félag var rekið með tapi á umræddum árum.

Kærandi byggir kröfu sína meðal annars á því að ekki hafi farið fram greiðslumat hjá aðalskuldurum þeirra skuldbindinga sem kærandi ábyrgðist efndir á og að hann kunni af þeim sökum að losna undan ábyrgðarskuldbindingum sínum. Ekki hefur kærandi þó fært fram haldbær rök fyrir þeirri ályktun sinni og rétt er að geta þess að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga milli viðskiptaráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja á aðeins við þegar aðalskuldari er einstaklingur en ekki þegar um er að ræða lögaðila. Verður því að leggja til grundvallar niðurstöðu í máli þessu að kærandi geti ekki losnað undan skuldbindingum sínum á þessum grundvelli.

Með framangreindum röksemdum en að öðru leyti með vísan til sjónarmiða umboðsmanns skuldara er það niðurstaða nefndarinnar að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem leiðir til þess að óhjákvæmilegt er að synja honum um greiðsluaðlögun á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um greiðsluaðlögun einstaklinga er staðfest.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir          Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 

Sératkvæði Einars Páls Tamimi

Staðfesting meirihluta kærunefndar greiðsluaðlögunarmála á ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á því að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem leiði til þess að óhjákvæmilegt sé að synja honum um greiðsluaðlögun á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Þó svo í niðurstöðunni sé talað um að ekki verði hjá því komist að meta fjárhagslegar skuldbindingar kæranda í heild, ber rökstuðningur meirihlutans engu að síður með sér að það eru þær ábyrgðarskuldbindingar sem kærandi hefur undirgengist sem vega þyngst í niðurstöðu hans.

Ég er niðurstöðu meirihlutans ósammála og styð afstöðu mína eftirfarandi rökum:

1. 2. mgr. 6. gr. lge. felur í sér undantekningu frá meginreglu 2. sbr. 3. mgr. 2. gr. lge. og ber í samræmi við það að beita henni af varfærni. Þrátt fyrir að sú niðurstaða verði ekki lesin beint út úr orðalagi 2. mgr. 6. gr., tel ég að samhengi þeirrar málsgreinar við önnur ákvæði laganna sem og samanburður á stafliðum hennar innbyrðis, leiði til þeirrar niðurstöðu að þau atriði sem sérstakt tillit skal taka til við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar, þurfi að varða þær skuldir sem sótt er um greiðsluaðlögun á. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. bera það með sér að vera sett af tilliti til hagsmuna þeirra kröfuhafa sem til álita kemur að fella þurfi niður, lækka eða breyta greiðsluferli þeirra krafna sem þeir eiga á hendur umsækjanda um heimild til greiðsluaðlögunar. Ekki sé sanngjarnt gagnvart slíkum kröfuhöfum að þeir þurfi að fella sig við slíka niðurstöðu þegar þau atvik er varða umsækjanda og tilgreind eru í stafliðum 2. mgr. 6. gr. séu fyrir hendi. Liggi ekki fyrir að neinn kröfuhafi muni sæta skerðingu á kröfuréttindum sínum í tengslum við háttsemi skuldara er varðar tilteknar skuldir sem sannanlega eða lang líklegast á honum hvíla, tel ég synjun á grundvelli 2. mgr. 6. gr. ekki geta komið til álita. Þannig verði synjun um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. laganna ekki byggð á tilvist ábyrgðarskuldbindinga sem ekki hafa orðið eða sýnt hefur verið fram á að verði ótvírætt að skuldum sem falla munu undir greiðsluaðlögunina. Hefði kærandi t.a.m. undirgengist þær ábyrgðarskuldbindingar sem raun ber vitni, en aðalskuldari greitt allar þær skuldir sem ábyrgðirnar varða áður en umsókn um greiðsluaðlögun var lögð fram, get ég ekki séð að hægt væri að rökstyðja synjun á heimild til greiðsluaðlögunar með því að kærandi hefði tekið fjárhagslega áhættu, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. Þegar svo stæði á tengdist sú áhætta, hvert sem umfang hennar hefði verið, með engum hætti greiðsluaðlöguninni sem slíkri þar sem engar skuldir hefðu komið til greiðsluaðlögunar af þeim sökum. Staðreyndin er sú að í þessu máli liggur ekkert fyrir um að ábyrgðir kæranda muni leiða til skulda sem falla myndu undir greiðsluaðlögun væri heimild til hennar veitt. Því tel ég að áhættutaka kæranda eða umfang hennar með því að undirgangast ábyrgðarskuldbindingarnar geti ekki haft á áhrif á ákvörðun um heimild honum til handa til að leita greiðsluaðlögunar.

2. Að ofangreindu slepptu, þ.e.a.s. teldi ég að rétt væri að horfa til ábyrgðarskuldbindinga sem ekki hafa fallið á kæranda eða gera það ótvírætt, við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., væri ég engu að síður ósammála niðurstöðu meirihlutans. Ég er honum sammála um að ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila verða ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Ég er líka sammála honum um að sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða í heild, og að ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á. Því get ég ekki annað en tekið undir þá afstöðu meirihlutans að meta verði áhættuna af því að taka á sig ábyrgð á skuldum þriðja aðila í hverju tilviki fyrir sig. Þar skilja hins vegar leiðir.

Það er mín skoðun að líta þurfi í hvert skipti til allra atvika er máli geta skipt við mat á því hvort sú ákvörðun skuldara að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar fól í sér þannig áhættu að hún geri það óhæfilegt að heimila honum að leita greiðsluaðlögunar. Það tel ég meirihlutann ekki hafa gert. Áhættutöku ábyrgðarmanns verður að mínu viti að meta út frá tvennu, annars vegar hættu á vanefnd aðalskuldara („probability of default“) og hins vegar tjóni ábyrgðarmanns af því að aðalskuldari vanefni þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á („loss given default“). Meirihlutinn drepur vissulega á stöðu aðalskuldara samkvæmt ársreikningum á tilgreindu tímabili, án þess þó að setja hana í beint samhengi við burði þeirra til að standa í skilum á gjalddaga, t.d. með vísan til þess sem talin var á þeim tíma líkleg þróun á verðmæti eigna. Hann víkur hins vegar ekkert að líkindum þess að aðalskuldarar gætu greitt skuldir sínar að hluta og þá að hvaða marki. Þetta skiptir að mínu viti verulegu máli enda líkur á algerri eignaþurrð fjárfestingarfélaga almennt ekki miklar. Ég tel þannig að tæplega sé nægilega langt gengið af hálfu meirihlutans í mati sínu á hættu á greiðslufalli aðalskuldara og mögulegu umfangi þess. En jafnvel þó svo væri, þá gerir meirihlutinn engan reka að því að skoða fyrirsjáanlegar afleiðingar þess fyrir kæranda ef aðalskuldarar vanefndu greiðsluskyldu sína. Þannig liggur t.d. ekkert fyrir um það hvort aðrar tryggingar voru veittar vegna þeirra skulda sem kærandi ábyrgðist greiðslu á, þ.m.t. hvort veðtryggingar voru veittar vegna þeirra eða aðrir aðilar en kærandi gengust í ábyrgð fyrir efndum þeirra. Loks liggur ekkert fyrir um burði aðalskuldara eða mögulegra annarra ábyrgðarmanna til að endurgreiða ábyrgðarmanni hluta þeirrar fjárhæðar sem á hann kynni að falla vegna ábyrgðanna og þá hversu mikinn hluta.

Ef ofangreint er tekið saman þá liggur ekkert fyrir um það hvort ábyrgðarskuldbindingarnar í máli þessu munu yfirleitt leiða til peningaskuldar fyrir kæranda sem falla myndi undir greiðsluaðlögun. Þannig getur áhættutaka við tilurð þeirra að mínu viti ekki haft áhrif á ákvörðun um umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Jafnvel þó svo væri, þá liggur ekkert fyrir um lykilatriði sem óhjákvæmilegt er að mínu mati að skoða þegar metið er umfang áhættutöku kæranda þegar hann tók á sig ábyrgðarskuldbindingarnar. Synjun umsóknar um heimild til greiðsluaðlögunar er íþyngjandi stjórnsýsluákvörðun sem verður að styðjast við fullnægjandi gögn og upplýsingar. Kærandi verður ekki látinn bera hallann af því að á slíkt skorti, enda verður ekki betur séð en að hann hafi látið umboðsmanni í té öll gögn sem kallað hefur verið eftir. Af ofangreindum ástæðum er það mín skoðun að fella eigi úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara í máli þessu og veita A heimild til greiðsluaðlögunar.

 

Einar Páll Tamimi




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta