Mál nr. 354/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 354/2021
Miðvikudaginn 15. september 2021
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.
Þann 13. júlí 2018 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. júlí 2021 þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kæranda, sem er fæddur X, var þann 25. febrúar 2021 veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Með tölvupóstum, dags. 12. og 21. apríl 2021, var kærandi inntur skýringa á innborgunum á bankareikning hans. Þann 29. apríl 2021 veitti kærandi skýringar varðandi hluta innborgana. Með tölvupósti, dags. 30. apríl 2021, var kæranda tilkynnt að framlagðar skýringar væru ekki fullnægjandi þar sem skýringar hefðu ekki borist vegna allra innborgana. Með tölvupósti þann sama dag óskaði kærandi eftir fresti til þess að leggja fram umbeðnar skýringar. Frekari skýringar bárust ekki frá kæranda og var honum því tilkynnt með bréfi, dags. 12. maí 2021, að vafi léki á því hvort hann uppfyllti skilyrði lge. til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Með ábyrgðarbréfi og tölvupósti, dags. 24. júní 2021, var kæranda veitt færi á að leggja fram skýringar og gögn áður en tekin yrði ákvörðun um heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Kærandi hafnaði mótttöku ábyrgðarbréfs og bárust engar athugasemdir frá honum. Með ákvörðun umboðsmanns, dags. 13. júlí 2021, var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. júlí 2021. Með bréfi 28. júlí 2021 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara vegna kærunnar, sem barst með bréfi 9. ágúst 2021. Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 9. ágúst 2021 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Í kæru greinir kærandi frá því að hann eigi rétt á greiðsluaðlögun og geti skrifað niður nánari upplýsingar um mál sitt. Frekari skýringar bárust nefndinni þó ekki undir rekstri málsins.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana frá 13. júlí 2021 verði staðfest. Heimildin hafi verið felld niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 15. gr. lge.
Kæranda hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 25. febrúar 2021. B hafi verið skipuð umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Umsjónarmaður hafi tilkynnt með bréfi, dags. 12. maí 2021, að þar sem fullnægjandi skýringar hafi ekki legið fyrir um innborganir á bankareikninga kæranda á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, teldi hún rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. lge. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf af hálfu embættisins, dags. 24. júní 2021, þar sem honum hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Bréfið hafi verið sent í ábyrgðarpósti á lögheimili kæranda og hafi afrit bréfs verið sent kæranda með tölvupósti. Engin viðbrögð hafi borist frá kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hafi kærandi neitað móttöku ábyrgðarbréfs. Með hinni kærðu ákvörðun hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15 gr. lge. Um málsatvik og forsendur vísist að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar.
Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga þessara skuli, umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15 gr. lge. Í fylgigögnum hinnar kærðu ákvörðunar sé farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærist undir umrætt ákvæði.
Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem hafi þótt geta leitt til niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunarumleitana. Kærandi hafi ekki nýtt sér það tækifæri og hafi því þurft að taka ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Umboðsmaður skuldara hafi komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun og í fylgigögnum ákvörðunar, sé sú niðurstaða rökstudd og með því hafi verið tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna. Í kæru skorti á athugasemdir kæranda, kröfur hans og rök. Embætti umboðsmanns skuldara geti af þeim sökum ekki tekið frekari afstöðu til kæruefnisins og fari fram á, með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar, að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 15. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 15. gr. lge. segir að ef komi fram upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skal umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin
Umboðsmaður skuldara telur að fjárhagur kæranda sé óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókn um greiðsluaðlögun. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu.
Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda sé mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn, sbr. 4. og 5. gr. lge. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.
Í beiðni umboðsmanns skuldara um upplýsingar frá kæranda, dags. 24. júní 2021, segir:
„[...] Athugun umsjónarmanns leiddi í ljós að nokkur fjöldi einstaklinga hafi lagt fjármuni inn á bankareikninga þína, auk þess sem seðlar hafi verið lagðir inn á reikning í þinni eigu, eftir að þér var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður óskaði eftir skýringum frá þér á innborgununum en skýringar þóttu ekki fullnægjandi. Fjárhagsstaða þín á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana telst óljóst þar sem ekki er ljóst hvaða fjármuni þú hefur haft þér til framfærslu á tímabilinu.
Þér var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar þann 25. febrúar 2021. Samkvæmt fyrirliggjandi yfirlitum yfir innborganir á bankareikninga þína þá hafa 20 mismunandi einstaklingar lagt samtals 425.000 kr. inn á bankareikning þinn [...] á tímabilinu frá 1. mars 2021 til 6. júní 2021, einnig voru 34.000 kr. í seðlum lagðar inn á sama reikning í marsmánuði og 27.000 kr. í seðlum voru lagðar inn á reikning þinn [...] í aprílmánuði. Alls er því óljóst í hvaða tilgangi þú fékkst 486.000 kr. lagðar inn á bankareikninga þína á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, eða að meðaltali um 148 þús. kr. á mánuði. [...]
Eftir að heimild til greiðsluaðlögunar hefur verið veitt hvíla á skuldara ákveðnar skyldur. Skuldari skal m.a. leggja til hliðar af launum sínum þann hluta sem er umfram framfærslukostnað og ekki láta af hendi verðmæti (þ.á.m. peningar) sem gætu gagnast lánardrottnum sem greiðsla.
Til að hægt sé að leggja mat á hvort þú hafi uppfyllt skyldur þínar við greiðsluaðlögun og til að geta áætlað hver raunveruleg greiðslugeta þín er þá þurfa fyrirliggjandi gögn að gefa glögga mynd af fjárhag þínum. Þér er því veitt tækifæri til að veita greinargóðar skyringar á í hvaða tilgangi einstaklingar hafi lagt fjármuni inn á bankareikning þinn og eins hvað skýrir innlögn á seðlum. Ljóst þarf að vera hvort þú hafir haft umrædda fjármuni þér til framfærslu á því tímabili sem um ræðir. Jafnframt þarf að liggja fyrir hvort þú munir áfram frá fjárframlög frá einstaklingum þér til framfærslu.
[...]
Þegar aðeins er tekið mið af tekjum þínum, samkvæmt upplýsingum frá RSK og TR, og áætluðum framfærslukostnaði, þá hefur greiðslugeta þín verið neikvæð um 65.271 kr. í mánuði hverjum á tímabili greiðsluaðlögunar og alls neikvæð um 261.085 kr. á tímabilinu. Þú hefðir því ekki átt að hafa getu til að leggja fjármuni til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Þegar hins vegar er litið til þeirra fjárhæða sem lagðar hafa verið inn á bankareikninga þína, umfram greiðslurnar frá Atvinnuleysistryggingasjóði, þá hefur greiðslugeta þín verið jákvæð í mánuði hverjum. Að teknu tilliti til innborgana frá einstaklingum og innlagna í formi seðla þá hefur þú haft alls 224.916 kr. til ráðstöfunar, umfram framfærslukostnað, á tímabilinu.“
Í málinu hefur komið fram að kærandi fékk greiðslur og innlagnir í seðlum að fjárhæð 486.000 kr. inn á bankareikninga sína. Kærandi veitti skýringar á hluta greiðslnanna, en að hans sögn er meðal annars um að ræða gjafir, lán frá fjölskyldumeðlimi, greiðslur vina vegna skulda við kæranda og greiðslur vegna sölu hluta. Aðrar greiðslur eru óútskýrðar.
Kærandi hefur þannig hvorki lagt fram viðhlítandi gögn um þessar greiðslur né veitt fullnægjandi skýringar á þeim. Ekki liggur því fyrir hverjar tekjur kæranda eru og af því leiðir að óvíst er hvaða fjármuni hann hefur sér til framfærslu og til greiðslu skulda. Fjárhagur hans verður því að teljast óljós að þessu leyti.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa og eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað þess að fá heimild til greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda er ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun, sbr. ákvæði 2. mgr. 16. gr. lge. um gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.
Eins og rakið er hér að framan liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti hverjar ráðstöfunartekjur kæranda eru. Þá er enn fremur óljóst hvaða tekjur kærandi myndi hafa á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum er ekki unnt að leggja mat á fjárhag hans að því marki sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og því hafi umboðsmanni skuldara borið að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, bar að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um fella niður heimild A, til greiðsluaðlögunar, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson