Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 6/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 6/2015

Miðvikudaginn 20. apríl 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

Þann 2. febrúar 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. janúar 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 6. maí 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. maí 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. maí 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 31. ágúst 2015. Voru þær sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 4. september 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1948 og 1946. Þau búa á C. Kærandi A er ekki á vinnumarkaði vegna örorku en kærandi B er hættur störfum sökum aldurs og þiggur lífeyri.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 102.802.991 króna.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína meðal annars til sölu fasteignar árið 1990, byggingar íbúðarhúss , lántöku og tjóns árið 2000.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 4. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. maí 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í málinu kemur fram að umsjónarmenn með greiðsluaðlögun kærenda hafi verið þrír en síðasti umsjónarmaður þeirra tók við málinu 5. nóvember 2014.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 20. nóvember 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í málinu hefði verið upplýst að kærendur hefðu ekkert lagt til hliðar á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, en þau hefðu notið skjólsins í 50 mánuði. Miðað við fyrirliggjandi forsendur væri greiðslugeta kærenda 297.496 krónur á mánuði og samkvæmt því hefðu þau átt að geta lagt fyrir tæplega 15.000.000 króna í greiðsluskjólinu. Skýringar á því hvers vegna svo væri ekki hefðu ekki verið látnar umsjónarmanni í té.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 4. desember 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda hafi meðal annars komið fram að tveir fyrri umsjónarmenn þeirra hefðu ekki upplýst þau um að þeim bæri að leggja til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls.

Með bréfi til kærenda 14. janúar 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar þeim til handa verði úrskurðuð ógild. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur mótmæla því að hafa brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá telja þau að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 (ssl.).

Að mati kærenda taki umboðsmaður skuldara ekki tillit til sérstakra aðstæðna þeirra, þar á meðal veikinda og örorku. Ekki sé heldur tekið tillit til þess að framfærslukostnaður við búsetu í dreifbýli sé meiri en við búsetu í þéttbýli en það eigi til dæmis við um alla þjónustu, verslun og samgöngur.

Umboðsmaður skuldara rökstyðji ákvörðun sína meðal annars með því að kærendur hefðu átt að hlutast til um að lágmarka ferðakostnað til dæmis með því að nota almenningssamgöngur. Umboðsmanni ætti að vera ljóst að kærendur búi í dreifbýli þar sem engir strætisvagnar gangi. Embættið byggi þannig niðurstöðu sína á atriði sem ekki hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. ssl., en samkvæmt reglunni verði að gera þær kröfur til stjórnvalds að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búi að baki ákvörðun séu sannar og réttar.

Kærandi B hafi alla tíð séð um fjármál kærenda. Veikinda hans hafi orðið vart árið 2009 en hann eigi við vitglöp að stríða sem stafi af heilabilun á byrjunarstigi. Vegna þessa sé hann sinnulaus, skorti frumkvæði og dómgreind. Það hafi ekki verið fyrr en síðla árs 2014 að veikindin hafi verið rétt greind og þá hafi kærandi A hafið afskipti af fjármálum kærenda. Þetta sé meðal annars skýring á því hve lítið sé til af bókhaldsgögnum til að styðja mál þeirra. Samkvæmt fyrirliggjandi greinargerð læknis frá febrúar 2015 hafi kærandi B verið ófær um að sinna fjármálum fjölskyldunnar undanfarin ár. Því miður hafi aðstandendum kærenda ekki orðið þetta ljóst fyrr.

Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram um 15. gr. að skilyrði til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana sé að skuldari hafi með vísvitandi hætti brugðist skyldum sínum. Með vísan til þeirra upplýsinga sem liggi fyrir um vitræna skerðingu kæranda B sé dregið í efa að hann hafi með vísvitandi hætti brotið gegn ákvæðinu. Á vefsíðu umboðsmanns skuldara komi fram að framfærsluviðmið fyrir hjón sé 199.479 krónur á mánuði. Neysluviðmið velferðarráðuneytisins miðað við sömu forsendur sé 242.916 krónur eða 88.517 krónum hærra. Hvoru tveggja sé án húsnæðiskostnaðar. Samkvæmt forsendum fjármálaráðuneytisins sé lágmarks samgöngukostnaður kærenda 253.344 krónur á mánuði. Að viðbættum framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins nemi mánaðarlegur kostnaður kærenda 496.260 krónum. Þá sé ótalinn kostnaður vegna húsnæðis, læknisþjónustu og lyfja. Með vísan til þessa sé ljóst að krafa umboðsmanns skuldara um að kærendur hefðu átt að leggja fyrir tæplega 15.000.000 króna á tímabilinu sé fjarstæðukennd. Af þessari ástæðu einni verði að telja ákvörðun embættisins ólögmæta.

Í lge. sé ekki að finna heimild löggjafans til umboðsmanns skuldara um að gefa út slík viðmið og þaðan af síður að slík viðmið geti verið lægri en viðmið velferðarráðuneytisins. Niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana sé íþyngjandi ákvörðun og geti ein og sér ekki talist heimil nema grunnforsendur hennar, þ.e. framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, eigi sér stoð í lögum. Annað samræmist ekki lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þessu til viðbótar hljóti að teljast ámælisvert hafi umboðsmaður skuldara búið til stöðluð framfærsluviðmið en taki ekki tillit til málefnalegra sjónarmiða um að framfærslukostnaður sé hærri þegar fólk búi tugi eða hundruð kílómetra frá allri þjónustu. Kærendur fara fram á að umboðsmaður skuldara útskýri þann mismun sem sé á framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara annars vegar og framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins hins vegar.

Kærendur vísa til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Í greinargerð með ssl. segi meðal annars: „Í reglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verði þó að hafa í huga að ekki sé um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þó að mismunur sé á úrlausn mála byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum.“ Ekki verði betur séð en að þarna sé löggjafinn að leiðbeina stjórnvöldum um að ákveðin mismunun sé heimil svo sem í því tilviki sem hér sé fyrir hendi.

Umboðsmaður skuldara leggi til að farið verði eftir raunkostnaði við samgöngur kærenda. Kærendur spyrja af hverju ekki sé líka farið eftir raunkostnaði neyslu sem allir viti að sé hærri en velferðarráðuneytið gefi upp og þá mun hærri en umboðsmaður skuldara gefi upp. Að mati kærenda sé ótrúlegt hvernig umboðsmaður hagræði opinberum viðmiðum á kostnað kærenda.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður vísar til þess að frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, hafi hafist 18. október 2010. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 48 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 31. október 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010 að frádregnum skatti 1.116.832
Mánaðarlegar meðaltekjur 2010 558.416
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 282.673
Samtals greiðslugeta 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010 565.346
Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. desember 2011 að frádregnum skatti 7.196.294
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 150.000
Samtals 7.346.294
Mánaðarlegar meðaltekjur 2011 612.191
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 336.448
Samtals greiðslugeta 1. janúar 2011 til 31. desember 2011 4.037.376
Launatekjur 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 að frádregnum skatti 6.049.863
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 83.364
Samtals 6.133.227
Mánaðarlegar meðaltekjur 2012 511.102
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 235.359
Samtals greiðslugeta 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 2.824.311
Launatekjur 1. janúar 2013 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 6.975.355
Mánaðarlegar meðaltekjur 2013 581.280
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 305.537
Samtals greiðslugeta 1. janúar 2013 til 31. desember 2013 3.666.439
Launatekjur 1. janúar 2014 til 31. október 2014 að frádregnum skatti 6.093.434
Mánaðarlegar meðaltekjur 2014 609.343
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 333.600
Samtals greiðslugeta 1. janúar 2014 til 31. október 2014 3.336.004
Greiðslugeta 1. nóvember 2010 til 31. október 2014 14.429.478

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 275.743 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið á þeim tíma kærendum í hag, nánar tiltekið við framfærslukostað fyrir hjón í desembermánuði 2014. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir um 14.429.478 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi framfærslukostnað í hverjum mánuði svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur kveðist hafa þurft að standa straum af kostnaði umfram framfærsluviðmið á greiðsluaðlögunartímabili. Meðal annars sé eldsneytiskostnaður vegna bifreiðar kærenda hærri en framfærsluviðmið geri ráð fyrir þar sem þau eigi oft erindi til Reykjavíkur og þar af leiðandi sé þessi kostnaður kærenda hærri en þeirra sem búi í þéttbýli. Kærendur hafi bæði glímt við töluverð veikindi og reglulega þurft að leita til læknis og sjúkraþjálfara sökum þess. Kærendur tilgreini ekki hversu mikið hærri eldsneytiskostnaður þeirra sé almennt nema að miðað við tvær ferðir í viku til E sé sá kostnaður 92.800 krónur á mánuði umfram framfærsluviðmið en opinbert viðmið vegna bensínkostnaðar sé 116 krónur á hvern kílómetra. Þá kveði kærendur viðhaldskostnað eigna þeirra mikinn en engar upphæðir séu þó nefndar í því samhengi.

Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn er sýni fram á aukinn kostnað, hvorki vegna veikinda, eldsneytis né viðhalds eigna. Fyrir liggi að þau hafi ekkert lagt fyrir á greiðsluaðlögunartímabili en samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns hefðu þau átt að geta lagt fyrir að meðaltali 288.589 krónur á mánuði. Þó að fallast megi á að kostnaður vegna eldsneytis og matvæla í dreifbýli geti verið meiri en í þéttbýli telji embættið að kostnaður hafi ekki verið það hár að nemi fyrrgreindri fjárhæð. Þá telji embættið að ef kostnaður vegna eldsneytis hefði hlaupið á hundruðum þúsunda króna á mánuði hefðu kærendur mátt hlutast til um að draga úr þeim kostnaði til dæmis með því að nýta almenningssamgöngur.

Kærendur vísi í útreikninga vegna eldsneytiskostnaðar „samkvæmt viðmiðum fjármálaráðuneytisins“. Þar sé fyrir hendi akstursgjald sem ferðakostnaðarnefnd hafi ákveðið í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Að mati umboðsmanns eigi akstursgjald ríkisstarfsmanna ekki við um útreikninga á eldsneytiskostnaði kærenda. Samkvæmt útreikningum kærenda sé aukakostnaður þeirra vegna eldsneytis alls 9.996.672 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Að mati embættisins sé ekki um raunverulegan kostnað kærenda að ræða og því ekki unnt að fallast á hann.

Samkvæmt framangreindu verði að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjárhæð sem þau hafi haft til aflögu mánaðarlega að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. ssl. með því að byggja niðurstöðu sína varðandi þá fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar á því að þau hefðu átt að hlutast til um að lágmarka ferðakostnað sinn, til dæmis með því að nota almenningssamgöngur. Kærendur búi í dreifbýli þar sem engir strætisvagnar gangi. Þau hafi því ekki getað minnkað samgöngukostnað sinn með þeim hætti sem umboðsmaður geri ráð fyrir. Embættið hafi þannig byggt niðurstöðu sína á atriði sem ekki hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. ssl. en samkvæmt reglunni verði að gera þær kröfur til stjórnvalds að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búi að baki ákvörðun séu sannar og réttar.

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf þannig að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum, sem verður grundvöllur ákvörðunar hverju sinni, hvaða upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál svo að rannsókn máls teljist fullnægjandi. Í rannsóknarreglunni felst þó ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga heldur getur stjórnvald beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram ákveðin gögn.

Í málinu byggir umboðsmaður skuldara á því að kærendur hafi átt að geta lagt til hliðar ákveðna fjárhæð á tímabili greiðsluskjóls. Ákvörðunin byggist á þeim tekjum sem kærendur höfðu á tímabilinu og þeim útgjöldum sem voru þeim nauðsynleg til framfærslu, þar á meðal ferðakostnaður, samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Áður en umboðsmaður tók hina kærðu ákvörðun var kærendum gefinn kostur á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að framfærslukostnaður þeirra hefði verið hærri á tímabilinu, sbr. bréf 4. desember 2014. Í bréfinu kom meðal annars fram að slík gögn gætu til dæmis verið reikningar og greiðslukvittanir. Kærendur lögðu ekki fram slík gögn og var ákvörðun umboðsmanns skuldara byggð á því að framfærslukostnaður kærenda hefði verið í samræmi við framfærsluviðmið embættisins þar sem ekki lágu fyrir gögn um annað. Úrskurðarnefndin getur samkvæmt framangreindu ekki fallist á það sjónarmið kærenda að rannsóknarreglan hafi ekki verið virt við úrlausn umboðsmanns skuldara á því hvernig ferðakostnaður var reiknaður. Því verður að hafna því sjónarmiði kærenda að rannsóknarregla 5. gr. lge., sbr. rannsóknarregla 10. gr. ssl., hafi verið brotin við málsmeðferð umboðsmanns skuldara.

Kærendur telja að þau hafi ekki verið upplýst um skyldu þeirra til að leggja til hliðar fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fyrr en þriðji umsjónarmaður þeirra hafi bent þeim á það en sá umsjónarmaður tók við málinu rúmum fjórum árum eftir að kærendur fengu greiðsluskjól.

Með lögum nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara þeim sem voru í greiðsluskjóli bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur þeirra til að leggja til hliðar fé sem var umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Úrskurðarnefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint í umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. maí 2011 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir kostnað við framfærslu tiltekin 238.261 króna.

Úrskurðarnefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum með fullnægjandi hætti þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningum sem sendar voru kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með leiðbeiningum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Þar var að finna útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin og frestun greiðslna hefst. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er greiðsluskjól þeirra hófst 18. október 2010.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 20. nóvember 2014 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og því ætti að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af því felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 14. janúar 2015.

Að mati umboðsmanns skuldara áttu kærendur að leggja til hliðar 14.429.478 krónur eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða frá 1. nóvember 2010 til 31. desember 2014. Kærendur kveðast hafa þurft að greiða óvænt útgjöld á tímabilinu en þau hafi þó ekki lagt fram kvittanir því til stuðnings.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur A 352.075
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 176.038
Nettótekjur B 764.757
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 382.379
Nettótekjur alls 1.116.832
Mánaðartekjur alls að meðaltali 279.208
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.025.666
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 168.806
Nettótekjur B 5.170.628
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 430.886
Nettótekjur alls 7.196.294
Mánaðartekjur alls að meðaltali 599.691
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.155.738
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 179.645
Nettótekjur B 3.894.125
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 324.510
Nettótekjur alls 6.049.863
Mánaðartekjur alls að meðaltali 504.155
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.319.053
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali 193.254
Nettótekjur B 4.656.302
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 388.025
Nettótekjur alls 6.975.355
Mánaðartekjur alls að meðaltali 581.280
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.298.474
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 191.540
Nettótekjur B 4.801.827
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 400.152
Nettótekjur alls 7.100.301
Mánaðartekjur alls að meðaltali 591.692
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 28.438.645
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 568.773

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum, á ríflega fjögurra ára tímabili:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2014: 50 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 28.438.645
Bótagreiðslur 150.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 28.588.645
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 571.773
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns 275.743
Greiðslugeta kærenda á mánuði 296.030
Alls sparnaður í 50 mánuði í greiðsluskjóli x 296.030 14.801.495

Kærendur gera athugasemdir við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Þau telja að það hljóti að teljast ámælisvert hafi umboðsmaður skuldara búið til stöðluð framfærsluviðmið og hunsi málefnaleg sjónarmið um að framfærslukostnaður sé hærri þegar fólk búi langt frá allri þjónustu.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal síðan nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings.

Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmanns sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega.

Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Þetta tiltekna ákvæði veitir út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Eins og áður hefur verið vikið að fela slíkir samningar að jafnaði í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði eins mikið og hann geti af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Jafnframt verður skuldari að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili til þess að honum takist að leggja fyrir á tímabilinu. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Ber því að nota hin almennu framfærsluviðmið nema skuldari sýni fram á að annað eigi við um framfærslu hans og eftir atvikum fjölskyldu hans.

Úrskurðarnefndin dregur í sjálfu sér ekki í efa að ýmis framfærslukostnaður kærenda á tímabilinu hefur verið hærri en ella vegna búsetu þeirra og veikinda. Kærendur hafa þó ekki lagt fram nein gögn er styðja eða sýna fram á hin óvæntu og auknu útgjöld sem þau telja að þau hafi þurft að standa straum af á tímabili greiðsluskjóls og liggur fjárhæð þess kostnaðar því ekki fyrir í málinu. Af þessum sökum er ekki hægt að taka tillit til þessa kostnaðar og draga hann frá við útreikning á því fé sem kærendur áttu að leggja til hliðar á tímabilinu.

Svo sem fram er komið er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framansögðu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 14.801.495 krónur á tímabili greiðsluskjóls en af málatilbúnaði þeirra verður ekki annað ráðið en að þau hafi ekkert lagt til hliðar.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Bar umboðsmanni skuldara því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta