Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 11/2012

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. janúar 2012 þar sem umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 24. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. febrúar 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kæranda með bréfi 3. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 37 ára. Hann býr í eigin fasteign að B götu nr. 6 í sveitarfélaginu C. Kærandi keypti eignina árið 2007 en um er að ræða 215 fermetra húsnæði. Kærandi kveðst vera í fullu starfi hjá X ehf. og séu útborguð laun hans 266.146 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kærenda nema 58.942.460 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Allar falla skuldirnar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga á árunum 2005 til 2007.

Að sögn kæranda seldi hann þáverandi fasteign sína árið 2007, en hann kveðst hafa átt 24.000.000 króna eigið fé í eigninni. Síðan hafi hann fest kaup á núverandi fasteign fyrir 54.000.000 króna. Hann hafi fjármagnað kaupin með 21.000.000 króna af eigin fé og 33.000.000 króna með gengistryggðu láni sem nú standi í tæpum 84.000.000 króna. Síðan þá hafi lánið hækkað og eignin rýrnað í verði. Einnig skuldi hann yfirdráttarlán sem nýtt hafi verið til endurbóta á fasteignum hans. Í júní 2007 hafi kærandi lent í alvarlegu umferðarslysi og bakbrotnað en það hafi verið þess valdandi að hann hafi átt erfitt með að stunda jafn mikla vinnu og áður. Möguleikar kæranda til að afla tekna hafi því dregist mikið saman og tekjur hans hafi verið mjög stopular undanfarin misseri. Hann sé nú aftur farinn að vinna fullt starf.

Kærandi kveður skuldir sínar algerlega óyfirstíganlegar. Þegar hann hafi stofnað til skuldanna hafi hann átt rúmar 20.000.000 króna eigið fé. Það fé hafi hann lagt í fasteign sína en það sé nú allt tapað. Þegar til skuldanna hafi verið stofnað hafi hann talið að hann gæti hæglega greitt af þeim en hann hafi ekki séð hið algjöra efnahagshrun fyrir frekar en aðrir.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var móttekin hjá embætti umboðsmanns skuldara 14. janúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. janúar 2012 var umsókninni hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem umboðsmanni hafi ekki þótt fyrirliggjandi gögn gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki viðhaft góða stjórnsýsluhætti og „meira og minna brotið allar almennar reglur III. kafla stjórnsýslulaga við meðferð þessa máls.‟ Vísar kærandi sérstaklega til jafnræðisreglunnar í þessu sambandi og gerir athugasemd við þá málsmeðferð umboðsmanns skuldara að senda óskir sínar um upplýsingar með tölvubréfum í stað þess að senda ábyrgðarbréf eins og embættið hafi gert í öðrum málum.

Í kæru komi fram svör kæranda við ítrekuðum fyrirspurnum umboðsmanns skuldara ásamt greinargerð. Þar segi kærandi að hann átti sig ekki á hvað umboðsmaður sé að fara með þeim ummælum að „ekki sé hægt að sjá að nein laun hafi komið inn frá júlí 2010 til dagsins í dag.‟ Kærandi sé í vinnu hjá X ehf. en af ýmsum persónulegum ástæðum hafi hann ekki getað unnið mikið frá júlí 2010. Hann vænti þess þó að geta unnið í framtíðinni.

Að því er varðar fyrirspurn umboðsmanns skuldara um kaup- og söluverð bifreiða sem kærandi hafi átt viðskipti með og greint sé frá á skattskýrslu, kveðst kærandi hvorki muna kaup- né söluverð bifreiðanna.

Umboðsmaður hafi óskað skýringa á því hvernig kærandi hafi getað staðið í skilum með 33.000.000 króna lán sitt þegar mánaðarleg afborgun hafi verið um 148.000 krónur en mánaðarlegar tekjur um 145.000 krónur. Kærandi kveðst hafa notað eigið fé til að greiða af láninu. Varðandi fyrirspurn umboðsmanns um hvernig kæranda hafi tekist að standa í skilum með skuldbindingar sínar á árinu 2008 þegar hann hafi ekki haft neinar tekjur samkvæmt skattframtali, greinir kærandi frá því að hann hafi notað eigið fé til greiðslu skuldbindinganna.

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Einnig gerir hann kröfu um að fá greiddan málskostnað að mati kærunefndarinnar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. janúar 2012 kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir liggi aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum og gögnum frá kæranda en bæði hann og umboðsmaður hans hafi látið undir höfuð leggjast að afhenda þær upplýsingar. Í fyrsta lagi hafi verið óskað upplýsinga um hvernig kærandi hafi getað staðið skil á húsnæðisláni sínu þrátt fyrir þær lágu tekjur sem hann hafi gefið upp til skatts. Í öðru lagi hafi verið óskað eftir ítarlegri greinargerð frá kæranda. Í þriðja lagi hafi verið óskað upplýsinga um bifreiðaviðskipti kæranda og söluhagnað af þeim viðskiptum. Í fjórða lagi hafi verið óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda.

Samkvæmt því sem fram komi í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 12. janúar 2011 fái hann útborgað 266.146 krónur á mánuði. Þessar upplýsingar séu ekki í samræmi við staðgreiðsluskrá en samkvæmt því sem fram komi í skránni hafi kærandi verið tekjulaus frá lokum ársins 2009 að tveimur mánuðum ársins 2010 frátöldum. Þannig þyki óljóst hverjar tekjur kæranda hafi verið á undanförnum árum, hverjar tekjur hans séu nú, og hverjar þær muni verða á tímabili greiðsluaðlögunar. Tekjur kæranda hafi verið mjög lágar allt frá árinu 2005 samkvæmt því sem greini í skattframtölum hans. Ekki verði þannig séð að hann hafi verið í stöðu til að standa skil á afborgunum skulda sinna frá þeim tíma, óháð veikindum og efnahagsástandinu.

Einnig liggi fyrir að kærandi hafi stundað umtalsverð viðskipti með bifreiðar. Óljóst sé hvernig þeim viðskiptum hafi verið háttað og hvernig söluhagnaði af viðskiptunum hafi verið ráðstafað. Þá þyki óljóst hverjar ástæður séu fyrir skuldasöfnun kæranda.

Á tímabilinu 28. júlí til 24. október 2011 hafi bæði kæranda og umboðsmanni hans verið send fjögur tölvubréf þar sem upplýsinga var óskað. Einnig hafi ítrekað verið hringt í umboðsmann kæranda og þess óskað að hann sæi til þess að umbeðnum upplýsingum yrði komið til skila. Hinn 5. janúar 2012 hafi umsókn loks verið synjað þar sem upplýsingarnar hafi ekki borist embættinu. Að mati umboðsmanns hafi kærandi og umboðsmaður hans fengið ríflega fresti til að afhenda umbeðin gögn. Þá telur embættið að ekki skipti máli með hvaða hætti það óski eftir upplýsingum, það er hvort fyrirspurn sé send sem tölvubréf eða ábyrgðarbréf. Vísar embættið til 36. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segi að þegar sett lög, almenn stjórnvaldsfyrirmæli eða venjur áskilji að gögn til aðila máls séu skrifleg, skuli gögn á rafrænu formi talin fullnægja þessum áskilnaði, enda séu þau tæknilega aðgengileg móttakanda þannig að hann geti kynnt sér efni þeirra, varðveitt þau og framvísað þeim síðar.

Til þess sé einnig að líta að á kæranda hvíli skylda til að afla nauðsynlegra gagna, sérstaklega þeirra sem ekki er á færi annarra en hans sjálfs að afla. Enn fremur hafi mátt gera þá kröfu til kæranda að hann brygðist við fyrirspurnum frá starfsfólki umboðsmanns skuldara eins fljótt og unnt var í ljósi þess að hann hafi noti sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa meðan umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar var til meðferðar. Sé það vegna þess að svokölluðu greiðsluskjóli hafi verið komið upp á grundvelli tímabundins ákvæðis í lge. með bráðabirgðaákvæði, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010.

Að mati umboðsmanns skuldara eru þær upplýsingar sem embættið hafi óskað eftir nauðsynlegar til þess að leggja mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 4. og 5. gr. lge. Sama gildi við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er tekin með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Krafa kæranda um að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Kröfugerð kæranda í málinu verður að túlka í samræmi við þetta.

Málsmeðferð umboðsmanns skuldara.

Kærandi telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki viðhaft góða stjórnsýsluhætti við meðferð málsins. Vísar kærandi sérstaklega til jafnræðisreglunnar og gerir athugasemd við það að umboðsmaður skuldara hafi sent óskir sínar um upplýsingar með tölvubréfum í stað þess að senda ábyrgðarbréf eins og hann fullyrðir að embættið hafi gert í öðrum málum. Frekari rökstuðning færir kærandi ekki fram.

Kærandi mótmælir því ekki að hafa fengið umræddar óskir um upplýsingar frá umboðsmanni skuldara með tölvubréfum eða símleiðis. Af málatilbúnaði hans verður ráðið að hann geri einungis athugasemdir við að hafa fengið óskir umboðsmanns um upplýsingar með tölvubréfum en ekki með ábyrgðarbréfum eins og hann fullyrðir að hafi verið verklag embættisins í öðrum ótilgreindum tilvikum.

Stjórnvaldi ber að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaganna. Í máli þessu var málatilbúnaður kæranda óljós þannig að frekari upplýsingar frá kæranda voru nauðsynlegar. Fyrir liggur að bæði kærandi og lögfræðingur hans létu umboðsmanni skuldara í té netföng sín þegar sótt var um greiðsluaðlögun. Er vandséð að það hafi þeir gert í öðrum tilgangi en þeim að embættið gæti haft við þá samband á auðveldan og fljótlegan hátt, enda alvanalegt að menn hafi samskipti sín á milli með tölvubréfum.

Þegar fyrir lá að þær upplýsingar sem kærandi hafði látið af hendi væru ekki fullnægjandi greip umboðsmaður skuldara til þess að óska nauðsynlegra upplýsinga með tölvubréfi. Að mati kærunefndarinnar var þetta eðlileg og viðurhlutalítil samskiptaleið í ljósi þess hvernig umsókn um greiðsluaðlögun var úr garði gerð og málið að öðru leyti vaxið. Telur kærunefndin að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi að þessu leyti verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.

Krafa kæranda um að fá greiddan málskostnað að mati kærunefndarinnar.

Þessa kröfu skuldara verður að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir kæranda í málinu. Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun. Í samræmi við það býður embætti umboðsmanns upp á ráðgjöf, aðstoð við gerð umsókna og skrif greinargerðar. Þessi þjónusta er skuldara að kostnaðarlausu og er meðal annars gerð grein fyrir henni á heimasíðu embættisins.

Í máli þessu hefur kærandi kosið að njóta aðstoðar utanaðkomandi lögfræðings við málatilbúnað sinn gagnvart umboðsmanni skuldara í stað þess að nýta sér endurgjaldslausa aðstoð embættisins. Verður hann sjálfur að bera af því kostnað.

Ákvæði b-liðar 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu liðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu. Í 2. mgr. 4. gr. segir að upplýsingar samkvæmt 1. mgr. skuli einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum. Í 3. mgr. 4. gr. kemur meðal annars fram að umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist, eins og áður segir, á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Telur umboðsmaður skuldara að ekki sé samræmi á milli upplýsinga kæranda að því er varðar tekjur annars vegar og skattframtala og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá hins vegar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í upplýsingum frá kæranda gætir misræmis. Í umsókn segist hann einhleypur. Í greinargerð kveðst hann í sambúð og greinir frá tekjum sambýliskonu. Í umsókn segist hann atvinnulaus en gefur jafnframt upp að útborguð laun séu 266.146 krónur. Í greinargerð kveðst hann í fullri vinnu. Kærandi leggur ekki fram launaseðla til staðfestingar á tekjum sínum.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda tölvupóst 28. júlí 2011 á netfang það er kærandi hafði gefið upp í greinargerð sinni. Í tölvupóstinum var annars vegar óskað upplýsinga um hvernig kæranda hafi tekist að standa í skilum með 33.000.000 króna fasteignalán þegar greiðslubyrði lánsins hafi verið 148.000 krónur en mánaðar tekjur hafi verið 145.000 krónur. Hins vegar var kærandi spurður að því hvernig honum hefði tekist að standa í skilum með skuldbindingar sínar á árinu 2008 þegar hann hafi ekki haft neinar tekjur samkvæmt upplýsingum á skattframtali. Gefinn var þriggja daga frestur til að gefa umbeðnar upplýsingar. Sama beiðni var send lögfræðingi kæranda með tölvupósti 10. ágúst 2011. Beiðni þessari var ekki svarað fyrr en kæra var lögð fram til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 19. janúar 2012. Í svarinu kom fram að kærandi hafi notað eigið fé til að standa í skilum með þessar skuldbindingar svo lengi sem honum var unnt. Kærandi sýnir ekki fram á þessa fullyrðingu með gögnum.

Með tölvupósti 16. september 2011 var lögfræðingi kæranda send beiðni þar sem óskað var eftir nýrri og nákvæmari greinargerð frá kæranda til að unnt væri að taka ákvörðun um samþykki eða synjun í málinu. Með bréfinu fylgdi fyrri greinargerð og leiðbeiningar um samningu greinargerðar vegna greiðsluaðlögunar. Gefinn var frestur í fimm virka daga til að skila nýrri greinargerð. Ný greinargerð barst ekki fyrr en kæra var lögð fram til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og var þar litlu bætt við fyrri greinargerð.

Með tölvubréfi til lögfræðings kæranda 24. október 2011 voru fyrri óskir um upplýsingar vegna launa ítrekaðar. Upplýsinga var óskað um verð tiltekinna bifreiða sem kærandi hafði keypt og selt samkvæmt síðasta skattframtali. Einnig var óskað skýringa á misræmi vegna launa þar sem kærandi hafi tilgreint mánaðarleg laun að fjárhæð 266.146 krónur en ekki verði séð að „laun hafi komið inn frá júlí 2010 til dagsins í dag“. Gefinn var frestur í fimm virka daga til að svara. Beiðni þessari var ekki svarað fyrr en kæra var lögð fram til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Þar kom í fyrsta lagi fram að kærandi myndi ekki eftir verði bifreiðanna og í öðru lagi að kærandi skildi ekki fyrirspurn umboðsmanns um ósamræmi vegna launa.

Í gögnum umboðsmanns skuldara kemur einnig fram að starfsmaður embættisins hafi hringt í lögfræðing kæranda að minnsta kosti þrisvar sinnum í nóvember og desember 2011 og ítrekað beiðni um upplýsingar án þess að við því hafi verið brugðist.

Þær upplýsingar sem kærandi hefur sjálfur lagt fram varðandi tekjur sínar eru innbyrðis ósamrýmanlegar og þær stangast á við þær upplýsingar sem umboðsmaður skuldara hefur aflað. Eins og rakið er hér að framan hefur umboðsmaður ítrekað óskað eftir því að kærandi skýri misræmi varðandi tekjur en kærandi hefur ekki orðið við því. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að sínu leyti grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun sem slík öðrum þræði á því að skuldari greiði af skuldum sínum að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun. Að mati kærunefndarinnar skortir því á að kærandi hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir liggi glögg mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta