Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 20/2012

Fimmtudaginn 5. desember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 9. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. febrúar 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 5. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust og var kæranda því send ítrekun með bréfi 23. október 2012. Athugasemdir frá kæranda bárust 25. október 2012. Athugasemdirnar voru sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 9. nóvember 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 49 ára, hann er í hjúskap og eiga þau hjón alls fimm börn. Hann býr ásamt eiginkonu sinni og þremur fullorðnum börnum þeirra í 202,7 fermetra eigin einbýlishúsi að B götu nr. 8, í sveitarfélaginu C. Kærandi er matreiðslumaður og markaðshagfræðingur að mennt. Áður var hann með eigin rekstur í félögunum X ehf., Y ehf. og Z ehf. Nú er hann metinn til 75% varanlegrar örorku og kveðst að mestu óvinnufær af þeim sökum.

Tekjur kæranda eru lífeyrisgreiðslur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurfærsla. Ráðstöfunartekjur hans á árinu 2011 voru alls 415.995 krónur á mánuði að meðtöldum séreignasparnaði sem kærandi tók út það ár. Að jafnaði eru mánaðarlegar tekjur kæranda lægri. Kærandi kveðst sjálfur fá greiddar örorkubætur að fjárhæð um 180.000 krónur á mánuði.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til hruns íslenska bankakerfisins árið 2008. Við hrunið hafi bæði erlend og verðtryggð lán sem hvílt hafi á íbúðarhúsi hans hækkað mjög mikið án þess að til leiðréttingar hafi komið. Þá hafi eiginkona kæranda orðið fyrir 15% launalækkun í kjölfar kreppunnar. Um líkt leyti hafi kærandi verið metinn til 75% örorku vegna læknamistaka sem átt hafi sér stað á árunum 2005 til 2007. Við þetta hafi bæst að rekstrargrundvelli hafi verið kippt undan fyrirtækjum kæranda við efnahagshrunið en kærandi hafi haft reksturinn með höndum á tímabilinu 2006 til 2008. Félögin hafi öll verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 55.001.139 krónur. Einnig hefur kærandi gengist í ábyrgðarskuldbindingar sem áætlaðar eru 23.155.249 krónur samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara. Ábyrgðarskuldbindingarnar eru að mestu leyti vegna fyrirtækja kæranda. Alls falla skuldir að fjárhæð 51.480.380 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2004 og 2010.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 9. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir því að opinber gjöld vegna þeirra félaga sem hann rak muni falla á hann. Hann telur að umrædd gjöld hafi verið áætluð á félögin og að sú áætlun falli niður vegna gjaldþrots félaganna. Hann telur að skuldir vegna opinberra gjalda hafi ekki áhrif á samningsstöðu sína við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Kærandi gagnrýnir vinnubrögð umboðsmanns skuldara. Hann kveður ákvörðun embættisins illa og hroðvirknislega unna, sérstaklega með tilliti til þess að hann sé 75% öryrki. Kveður hann að vottað hafi fyrir hroka og virðingarleysi í garð fatlaðra eða hans sjálfs. Embættið hafi aldrei kallað hann til viðtals og sjónarmið hans hafi aðeins komið fram bréflega en slíkt sé ávísun á slæm vinnubrögð.

Kærandi mótmælir því vinnulagi umboðsmanns skuldara að miða stöðu skulda hans við að engar leiðréttingar eigi sér stað til lækkunar á lánum, en hann telur miklar líkur á að lán hans verði leiðrétt.

Einnig telur kærandi að embætti umboðsmanns skuldara hafi unnið með ranga skuldastöðu og því séu forsendur ákvörðunarinnar ekki réttar. Fer hann þess vegna fram á að málið verið unnið á ný.

Málatilbúnað kæranda verður að skilja þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi reynt á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í úrskurðinum hafi verið til skoðunar hversu há skattskuld kæranda væri og hvort hún teldist verulegur hluti skulda kæranda í skilningi ákvæðisins. Kærandi hafi borið ábyrgð á ógreiddum vörslusköttum einkahlutafélags. Skuld félagsins hafi numið um 25.000.000 króna eða um 44% af heildarskuldum kæranda. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 hafi kærunefndin staðfest synjun umboðsmanns skuldara þar sem kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag hans, sem varðað gæti refsingu eða skaðabótaskyldu. Í úrskurði kærunefndarinnar komi fram að synjun um heimild til greiðsluaðlögunar sé óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.

Að mati umboðsmanns liggi fyrir í málinu að töluverðar skattskuldir hvíli á kæranda en hann hafi gegnt stöðu stjórnarformanns í félögunum Y ehf. og X ehf. Einnig komi fram í fundargerð stjórnarfundar Z ehf. frá 3. september 2007 að hann hafi einnig verið stjórnarmaður í því félagi. Verði að telja fyrirséð að vangreidd opinber gjöld þrotabús Z ehf. muni falla á umsækjanda persónulega þegar skiptum á félaginu ljúki. Umboðsmaður telur einnig að verulegur hluti skattskulda framangreindra félaga séu vangreiddur virðisaukaskattur og staðgreiðsla launagreiðanda. Beri kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskila á umræddum sköttum.

Á hreyfingaryfirliti tollstjóra komi fram að félagið Y ehf. hafi ekki staðið skil á vörslusköttum vegna áranna 2009 til 2011. Gjöldin séu öll í vanskilum. Þannig sé skuld staðgreiðslu launagreiðanda 2.492.268 krónur og skuld vegna tryggingagjalds 2.651.637 krónur. Byggi þessar fjárhæðir á gögnum frá félaginu sjálfu og eru alls að fjárhæð 5.143.905 krónur. Skuld félagsins vegna vanskila á virðisaukaskatti nemi 274.680 krónum og sé hún byggð á áætlun ríkisskattstjóra.

Umboðsmaður gerir grein fyrir því að á stjórnarmönnum einkahlutafélaga hvíli skylda til að hafa eftirlit með og tryggja skil á vörslusköttum fyrir hönd einkahlutafélaga. Þá hvíli á þeim sérstök skylda til að sjá til þess að vörslusköttum, sem innheimtir séu í starfsemi einkahlutafélags, sé skilað í ríkissjóð. Þessir aðilar séu þannig ábyrgir fyrir skilum á umræddum sköttum og brjóti þeir gegn þessum skyldum liggi við því refsing. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila í samræmi við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og laga um tryggingagjald nr. 113/1990.

Það er mat umboðsmanns að fjárhagsstaða kæranda sé mjög erfið. Heildarskuldir hans nemi 55.001.139 krónum en að auki hafi hann ábyrgst skuldir að fjárhæð 23.155.249 krónum og sé stærstur hluti ábyrgðarskuldbindinganna vegna fyrrnefndra fyrirtækja. Samkvæmt skattframtölum hafi ráðstöfunartekjur kæranda að meðaltali verið 220.044 krónur á mánuði á árunum 2008 til 2010. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara séu eignir kæranda áætlaðar 24.376.797 krónur. Telji umboðsmaður því ljóst að eignir umsækjanda séu óverulegar í samanburði við tekjur hans og skuldir. Af þessari ástæðu telji umboðsmaður að nefnd skattskuld umsækjanda vegna Y ehf. að lágmarks fjárhæð 5.143.905 krónur sé all há miðað við eignastöðu hans á þeim tíma sem ákvörðun hafi verið tekin og á þeim tíma er til skuldbindingarinnar hafi verið stofnað.

Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags eftir það hrun sem hér hafi orðið hafi almennt ekki áhrif á skyldu til að skila vörslusköttum eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé sem innheimt sé í nafni ríkissjóðs en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjáhag hans, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Óumdeilt er að kærandi var prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins Y ehf. á þeim tíma er hér skiptir máli. Á honum hvíldi því sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, þ.e. að sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til eru vangoldnir vörsluskattar Y ehf. Nánar tiltekið er um að ræða vanskil á staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 2.492.268 krónur sem byggist á gögnum frá félaginu sjálfu.

Kærandi heldur því fram að umrædd gjöld hafi verið áætluð á félagið og í raun hafi það ekki skuldað opinber gjöld. Við vinnslu málsins fékk kærunefndin þær upplýsingar staðfestar hjá tollstjóra að skuld vegna staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 2.492.268 krónur byggi á gögnum frá félaginu sjálfu. Kærunefndin telur því ekki unnt að fallast á fullyrðingu kæranda að umrædd gjöld hafi verið áætluð á félagið.

Framangreint ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei að því tilskyldu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Við mat á því hvort þær aðstæður sem lýst er í d–lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð. Kærandi heldur því fram að umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á röngum upplýsingum að því er varðar skuldir kæranda. Kærandi telur að skuldastaðan hafi ekki tekið mið af því að lánin verði leiðrétt til lækkunar. Er þessi málsástæða kæranda svo ónákvæm að ekki er mögulegt að taka tillit til hennar við úrlausn málsins.

Eins og greinir hér að framan bar kærandi ábyrgð á að félag hans stæði skil á fyrrnefndum vörslusköttum að viðlagðri sekt eða fangelsisrefsingu. Um er að ræða vörsluskatta að fjárhæð 5.143.905 krónur sem í sjálfu sér verður að telja afar háa fjárhæð. Kærandi hefur þar með bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldbindingar á hendur kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að synja beri A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta