Mál nr. 7/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 7/2015
Miðvikudaginn 30. mars 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).
Þann 3. febrúar 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. janúar 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 10. febrúar 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. mars 2015.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. mars 2015 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 29. júní 2015. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fædd 1969. Hún er einstæð móðir X barna á unglingsaldri sem hafa búið hjá henni. Kærandi býr í 110 fermetra leiguíbúð að B.
Kærandi er [...] og starfar við [...]. Tekjur hennar eru vegna launa, meðlags og barnabóta.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 15.911.344 krónur.
Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til skilnaðar árið 2010 og erfiðra aðstæðna í kjölfar hans.
Kærandi sótti um greiðsluaðlögun í janúar 2011. Henni var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar en hún afturkallaði umsókn sína áður en búið var að semja við kröfuhafa. Kærandi lagði á ný fram umsókn um greiðsluaðlögun 2. júlí 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. ágúst 2014 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 25. nóvember 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður hafi haldið símafund með kæranda 19. nóvember 2014. Þar hafi kærandi meðal annars greint frá því að nauðsynlegt væri fyrir hana að hafa bifreið til umráða en Lýsing væri eigandi bifreiðar hennar. Umsjónarmaður hafi gert kæranda ljóst að til þess að henni væri kleift að halda bifreiðinni þyrfti kærandi að geta greitt rekstrarkostnað og afborganir af henni en kæranda vantaði 16.261 krónu á mánuði til að ná endum saman. Þá væri kærandi í vanskilum með afborganir af bifreiðinni. Á fundinum hefði kærandi upplýst að hún væri í aukavinnu við [...] og fengi fyrir það um 80.000 krónur á mánuði. Dóttir kæranda væri skráð fyrir starfinu og rynnu greiðslur til hennar. Kærandi hafi greint frá því að þessar tekjur væru ekki gefnar upp til skatts. Sé gert ráð fyrir að kærandi hafi þessar tekjur sé greiðslugeta hennar 63.739 krónur á mánuði.
Samkvæmt þessu séu raunverulegar tekjur kæranda mun hærri en gögn málsins beri með sér. Umsjónarmaður telji því að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar eða villandi upplýsingar sem séu mikilsverðar í málinu með því að taka að sér aukavinnu og láta ráðstafa greiðslum inn á reikning dóttur sinnar. Umsjónarmaður sjái sér ekki fært að standa heiðarlega að gerð frumvarps til greiðsluaðlögunarsamnings, þar með talið að gera tillögur um eftirgjöf skulda, á grundvelli rangra upplýsinga.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 5. desember 2014 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 9. desember 2014. Þar greindi hún frá því að aukavinnan, sem kærandi og dóttir hennar sinntu í sameiningu, væri gefin upp til skatts og því hefði hún ekki staðið óheiðarlega að greiðsluaðlögunarumleitunum.
Með bréfi til kæranda 7. janúar 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðslu-aðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Að sögn kæranda eru allar upplýsingar komnar fram í málinu. Sem foreldri sé kæranda heimilt að aðstoða ungling við vinnu þó svo að tekjur renni ekki beint til kæranda.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.
Í fyrirliggjandi fundargerð umsjónarmanns 19. nóvember 2014 komi fram að kærandi vinni aukavinnu við [...] og fái fyrir það greiddar 80.000 krónur á mánuði. Þá liggi fyrir að dóttir kæranda sé skráð fyrir þessum tekjum og að þær séu ekki gefnar upp til skatts. Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda sama dag var kæranda sent afrit af fundargerðinni og hún beðin um að staðfesta hana og/eða gera athugasemdir, hafi ekki verið rétt eftir henni haft. Kærandi svaraði umsjónarmanni 20. nóvember 2014 þar sem hún staðfesti fundargerðina og jafnframt að hún sinnti fyrrnefndri aukavinnu í nafni dóttur sinnar þó að hún væri í vafa hvort hún ætti að taka það fram.
Með bréfi 9. desember 2014 hafi kærandi veitt þær upplýsingar að dóttir hennar ynni fyrrnefnda vinnu og teldi hana fram til skatts. Kærandi kvaðst þó aðstoða dóttur sína við vinnuna og því hafi hún sagst geta haft fyrrgreindar tekjur ef á þyrfti að halda en það hafi hún gert til að komast hjá því að selja bifreið í greiðsluaðlögunarferli.
Með vísan til fyrirliggjandi gagna sé það mat umboðsmanns skuldara að hafið sé yfir allan vafa að kærandi hafi af ráðnum hug veitt villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Kærandi hafi upplýst umsjónarmann um að hún hefði 80.000 krónur á mánuði af aukavinnu og að þessar tekjur væru ekki taldar fram til skatts. Síðar hafi kærandi dregið í land, sagt dóttur sína hafa tekjurnar og jafnframt að þær væru taldar fram til skatts. Þetta verði að telja mikilsverðar upplýsingar. Einnig telji embættið að með villandi upplýsingagjöf hafi kærandi staðið í vegi fyrir því að umsjónarmaður gæti unnið frumvarp til greiðsluaðlögunar með heiðarlegum hætti.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr.
Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Með bréfi 25. nóvember 2014 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Í framhaldi af því felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 7. janúar 2015.
Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi gefið umsjónarmanni rangar upplýsingar um raunverulegar tekjur sínar og með því brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. hvílir á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvílir á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hlýtur því eðli málsins samkvæmt að vera fyrir hendi þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á og sér í lagi ef aðstæður breytast eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara koma fram.
Í gögnum málsins liggur fyrir fundargerð vegna símafundar umsjónarmanns og kæranda 19. nóvember 2014. Þar segir undir lið 4.2.: „Aukavinna við [...] um 80.000 krónur á mánuði í tekjur vegna þess og er dóttir A skráð fyrir þeim tekjum, sem ekki eru gefnar upp til skatts.“ Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda sama dag segir: „...með vísan til fundar okkar fyrr í dag þá sendi ég þér hér með meðfylgjandi fundargerð sem ég bið þig um að lesa yfir og staðfesta við mig og/eða gera athugasemdir ef eitthvað er ekki rétt eftir þér haft.“ Svar kæranda frá 20. nóvember 2014 er svohljóðandi: „...ég samþykki fundargerðina en er þó í vafa hvort það sé rétt að minnast á þessa vinnu mína sem ég vinn í nafni dóttur minnar...hvað finnst þér?“ Í tölvupósti til kæranda 25. nóvember 2014 gerir umsjónarmaður grein fyrir því að honum sé ekki fært að halda áfram með málið af þessum sökum. Í svari kæranda sama dag segir: „Þú misskilur málið...ég er að aðstoða hana að vinna þessa vinnu.“ Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 5. desember 2014 var kæranda veittur réttur til andmæla. Í bréfi kæranda til umboðsmanns 9. desember sama ár lýsti hún því að hún væri í umræddri vinnu ásamt dóttur sinni. Kærandi kvaðst hafa upplýst umsjónarmann um þetta og sagt að þetta gætu verið aukapeningar fyrir hana. Kærandi kvaðst því ekki hafa leynt upplýsingum heldur hafi hún þvert á móti veitt upplýsingar um hugsanlegar tekjur þótt óvissar væru. Það hafi því hvorki verið af ráðnum hug né að upplýsingar hafi verið villandi af hennar hálfu.
Af því sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að kærandi hefur ekki veitt skýrar upplýsingar í málinu um tekjur sínar en af því leiðir að ójóst er hverjar tekjur hennar eru. Kæranda bar þó á öllum stigum málsins að veita réttar upplýsingar um tekjur sínar samkvæmt meginreglunni sem fram kemur í 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge.. Upplýsingar um tekjur kæranda eru grundvallarupplýsingar í málinu og nauðsynlegar til þess að unnt sé að meta greiðslugetu hennar og þar af leiðandi hvaða fjárhæð kærandi getur greitt af skuldbindingum sínum á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá eru upplýsingar um tekjur hafðar til leiðsagnar um hvort ástæða er til þess að fella niður eitthvað af skuldum kæranda og þá hve mikið. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til skýringar á þeim misvísandi upplýsingum sem hún hefur veitt í málinu um laun sín eða getað leiðrétt ætlaðan misskilning um þau, þrátt fyrir að hafa fengið til þess tækifæri. Verður því að telja að kærandi hafi af ráðnum hug veitt rangar eða villandi upplýsingar, sem eru mikilsverðar í málinu, um laun sín.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi með framangreindum hætti brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal