Mál nr. 16/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 16/2015
Miðvikudaginn 20. apríl 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.
Þann 24. júlí 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. júní 2015 þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.
Með bréfi 26. október 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. október 2015. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 4. nóvember 2015 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur 1949 og býr ásamt eiginkonu sinni, uppkominni dóttur, tengdasyni og barnabarni, í leiguhúsnæði að B. Kærandi á fasteign að C sem er í útleigu. Auk leigutekna fær kærandi greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá hefur kærandi tekjur af verðbréfaviðskiptum sem hann stundar í eigin nafni.
Heildarskuldir kæranda nema 217.937.070 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis og veikinda, auk þess sem efnahagshrunið haustið 2008 hafi leitt til þess að verðmæti eigna hans minnkaði verulega.
Kærandi lagði upphaflega fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. september 2012 var umsókn hans um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) Ástæðu þess má rekja til þess að kærandi hefði ekki framvísað skattframtali ársins 2012 vegna tekjuársins 2011 þrátt fyrir ábendingar þar um. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og lagði skattframtalið fram undir rekstri málins hjá kærunefndinni. Kærunefndin felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 11. ágúst 2014. Umboðsmaður skuldara tók því mál kæranda aftur til efnislegrar meðferðar og var ný ákvörðun í því tekin hjá embættinu 12. júní 2015. Umsókn kæranda var aftur hafnað og nú með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer þess á leit að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði snúið við. Hann óskar þess að fá notið greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara þar til fyrir liggi uppgjör hans við Íslandsbanka og Landsbanka. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst undanfarin misseri hafa unnið að því að fá tvo stærstu kröfuhafa sína, Íslandsbanka og Landsbankann, til að ganga til samninga um uppgjör og eftirgjöf skulda. Að mati kæranda hafi greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara verið eitt mikilvægasta atriðið í þeim samningaviðræðum en óvíst sé hvort samkomulag náist fái kærandi ekki notið áframhaldandi greiðsluskjóls. Samkomulag við Íslandsbanka liggi nú fyrir en kærandi telji sig jafnframt hafa náð samkomulagi við Landsbankann sem þó þurfi að útfæra betur. Með þessum samningum verði veðskuldum kæranda komið í skil. Gangi samningarnir eftir kveðist kærandi hafa fjárhagslega getu til að greiða allar aðrar skuldir að fullu en hann hyggist nota til þess séreignarsparnað sinn.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Hin kærða ákvörðun er studd þeim rökum að kærandi hafi ekki sýnt fram á að verða um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi 1. og 2. mgr. 2. gr. lge., enda sé fjárhagur hans bæði óljós og samofinn atvinnurekstri. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði laganna til að geta leitað greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara vísar enn fremur til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. komi fram að frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga þótt mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Enn fremur sé mikilvægt að einstaklingum sé gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem sé til þess fallinn að skapa heimili hans raunhæfan grundvöll að tekjuöflun til framtíðar. Jafnframt segi í frumvarpinu að vilji löggjafans sé ekki sá að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögun.
Af gögnum málsins og því sem fram hafi komið verði að telja að helstu ástæður fjárhagserfiðleika kæranda sé að rekja til atvinnurekstrar og fjárfestinga. Þá telji embættið að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann sé í verulegum og varanlegum fjárhagserfiðleikum, meðal annars þar sem samkomulag við Íslandsbanka um sölu eigna og eftirgjöf skulda liggi nú fyrir. Verðbréfaviðskipti kæranda á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, og eign hans í verðbréfum gefi til kynna að hann hefði mögulega getað greitt skuldir sínar, aðrar en veðskuldir, í stað þess að fjárfesta enn frekar í verðbréfum.
Sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar sýni fyrirliggjandi gögn ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Þá sé í 2. gr. lge. fjallað um hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. geti einstaklingur, sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 2. gr. lge. sé skýrt hvenær einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar samkvæmt lögunum. Í almennum athugasemdum við greinargerð með lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og að hafna beri umsókn sé greiðslugeta til staðar, enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Í athugasemdum með 2. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar ef mögulegt sé áður en hann sæki um greiðsluaðlögun.
Af skattframtölum kæranda og yfirlitum yfir verðbréfaviðskipti hans megi ráða að hann hafi frekari tekjur en eingöngu af lífeyrisgreiðslum. Af rekstrarskýrslum verði ekki nákvæmlega ráðið hvernig fjárhag hans sé háttað, enda sé þeim ekki ætlað að gefa skýra mynd af fjárhag einstaklinga heldur fyrst og fremst að vera til grundvallar skilum á staðgreiðsluskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003. Þó megi lesa af rekstrarskýrslum undanfarinna ára að persónulegur fjárhagur kæranda sé afar samtvinnaður rekstri hans. Hafi háar fjárhæðir meðal annars verið færðar úr rekstri yfir á skattframtal kæranda en engar upplýsingar liggi fyrir um tilurð eða afdrif þessara fjármuna. Embættið telji fyrirliggjandi gögn um fjárhag kæranda ekki sýna fram á að hann sé í verulegum fjárhagsvanda til framtíðar. Þá liggi fyrir að Íslandsbanki hafi samþykkt að ganga til samninga við kæranda um uppgjör á veðkröfum með framsali fasteigna. Þá hafi kærandi ekki orðið við beiðni embættisins um að skýra fjárhag sinn og sýna fram á að hann sé í verulegum fjárhagsvanda um fyrirsjáanlega framtíð.
Með vísan til framangreinds telji umboðsmaður skuldara að kærandi hafi ekki sýnt fram á að verða um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi 1. og 2. mgr. 2. gr. lge., enda sé fjárhagur hans bæði óljós og samofinn atvinnurekstri. Einnig liggi fyrir að hann eigi talsvert af verðbréfum og hafi þó nokkrar tekjur af viðskiptum með þau.
Þá liggi fyrir að kærandi hafi unnið að því að ná samningum við kröfuhafa sína á eigin vegum. Með vísan til samskipta við kæranda telji embættið að hann leiti greiðsluaðlögunar í þeim eina tilgangi að fá notið greiðsluskjóls meðan á samningaviðræðum við kröfuhafa standi. Umboðsmaður telji því að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Kærandi hafi ítrekað verið beðinn um upplýsingar varðandi fjárhag sinn en ekki brugðist við því nema að hluta til. Enn vanti upplýsingar um skuldir, tekjur, eignir og persónulegan fjárhag kæranda en þær upplýsingar geti hann einn veitt. Þar sem kærandi hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum umboðsmanns skuldara um að gefa viðhlítandi skýringar á fjárhag sínum verði af þeim sökum að telja fjárhag hans of óljósan til að unnt sé að leggja á hann heildarmat. Umboðsmanni sé því jafnframt skylt að hafna umsókn kæranda um greiðsluaðlögun með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Þá kemur fram af hálfu umboðsmanns skuldara að þrátt fyrir að embættið telji kæranda ekki uppfylla formskilyrði laganna og sé þegar af þeirri ástæðu skylt að synja honum um greiðsluaðlögun, liggi einnig fyrir efnislegt mat embættisins á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Matið hafi farið fram áður en fyrir lá að kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 2. gr. og 4. gr. lge., sbr. a- og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., en við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri umboðsmanni að líta heildstætt á málið og til þeirra aðstæðna sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum frá kæranda liggur fyrir að rót fjárhagsvanda hans virðist að mestu leyti mega rekja til atvinnureksturs, auk þess sem verulegur hluti skulda hans sé þess eðlis að telja verði óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli lge., sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. laganna. Enn fremur telur embættið að kærandi hafi brotið gegn skyldum samkvæmt 12. gr. lge., bæði með því að stofna til nýrra skulda í bága við d-lið 1. mgr. 12. gr. sem og með því að hafa látið fé af hendi á tímabili greiðsluskjóls. Meðal annars séu fyrir hendi upplýsingar úr skattframtölum sem bendi til þess að kærandi hafi keypt verðbréf fyrir verulegar fjárhæðir á tímabili greiðsluskjóls og gögn er bendi til þess að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda á sama tímabili. Hvort tveggja sé í andstöðu við lge.
Að mati embættisins liggur þannig fyrir að kæranda hefði allt að einu verið synjað um heimild til greiðsluaðlögun með vísan til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. laganna.
Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem geti breytt þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé byggð á.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a- og b-liðum 1. mgr. 6. gr. lge.
Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Að því er varðar a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærandi sé ekki í verulegum greiðsluvanda til framtíðar og geti fengið lausn á fjárhagsvanda sínum með öðrum úrræðum en greiðsluaðlögun. Embættið telur því að kærandi uppfylli ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar. Fyrir liggi að kærandi hafi staðið í samningaviðræðum við kröfuhafa á eigin vegum og kveðst hann hafa náð samkomulagi við þá stærstu.
Kærandi hefur notið frestunar greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallaðs greiðsluskjóls, frá 30. júní 2011. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum kæranda og eiginkonu hans var fjárhagur þeirra eftirfarandi á árunum 2011, 2012 og 2013:
Tekjuár |
2011 | 2012 | 2013 |
Tekjur* kæranda | 909.617 | 1.352.199 | 1.518.762 |
Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda* | 75.801 | 112.683 | 126.564 |
Tekjur eiginkonu kæranda | 0 | 0 | 0 |
Tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis | 2.900.000 | 1.000.000 | 1.200.000 |
Bankainnstæður | 2.019.964 | 2.700.950 | 2.431.732 |
Sala hlutabréfa o.fl. kröfur | 7.077 | 5.034.761 | |
Nafnverð verðbréfa | 5.052.764 | 596.082 | 1.175.260 |
Fasteignir | 91.165.000 | 98.405.000 | 102.800.000 |
Bifreiðir | 5.157.675 | 4.641.907 | 7.127.716 |
Skuldir | 462.412.447 | 180.525.584 | 190.920.099 |
Nettó eignastaða | -359.017.044 | -74.181.645 | -77.385.391 |
Hagnaður af sölu hlutabréfa | 3.600.000 |
*Brúttó tekjur.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi átt í verðbréfaviðskiptum á tímabili greiðsluskjóls. Á árunum 2012, 2013, 2014 og 2015 keypti kærandi verðbréf, seldi verðbréf og innleysti arð vegna verðbréfaeignar. Í maí 2015 var kærandi skráður eigandi innlendra verðbréfa að fjárhæð 3.579.094 krónur og erlendra verðbréfa að fjárhæð 20.535 krónur.
Samkvæmt 1. gr. lge. er markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. getur einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Kærandi kveðst hafa verið í samningaviðræðum við stærstu kröfuhafa sína utan greiðsluaðlögunar á tímabili greiðsluskjóls. Skuldir kæranda hafa lækkað verulega á þeim tíma en kærandi hefur þó ekki gert grein fyrir ástæðum þess. Samkvæmt framangreindum ákvæðum lge. er þess krafist að skuldari sýni fram á greiðsluvanda sinn með viðhlítandi gögnum en að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi ekki gert það. Að þessu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að synja beri kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem gögn málsins sýna ekki fram á að hann uppfylli skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr.
Að því er varðar b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þarf að leggja mat á það hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara. Þar telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Þá er áskilið í 3. mgr. 4. gr. að umsókninni skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma.
Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.
Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Í málinu liggur fyrir að á tímabili greiðsluskjóls hefur kærandi haft tekjur af leigu fasteigna, en samkvæmt gögnum málsins er ekki ljóst hvaða fasteign kærandi hefur leigt út eða hvort hann hafi leigt út fleiri en eina eign. Þá hefur kærandi haft tekjur af verðbréfaviðskiptum á sama tíma. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi stundar verðbréfaviðskipti og hefur með höndum rekstur. Þá liggur jafnframt fyrir að hluta skulda hans megi rekja til rekstrarins en óljóst er hvaða hluta þeirra. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist að hluta til á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi hefur ekki sinnt óskum umboðsmanns um framlagningu gagna sem eru til þess fallin að gefa gleggri og skýrari mynd af fjárhagsstöðu hans, en þetta eru upplýsingar sem kærandi einn gat látið í té. Þær upplýsingar sem umboðsmaður skuldara hefur óskað eftir varða skuldir, tekjur, eignir og persónulegan fjárhag kæranda en fyrirliggjandi gögn benda meðal annars til þess að kærandi hafi keypt verðbréf fyrir verulegar fjárhæðir á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hefur ekki framvísað umbeðnum gögnum og skattframtöl hans varpa ekki ljósi á þessi atriði. Samkvæmt því verður að telja að kærandi hafi ekki látið í té fullnægjandi upplýsingar til að unnt sé að fá nauðsynlega heildarmynd af fjárhag hans og hve mikið hann geti greitt lánardrottnum sínum mánaðarlega vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að telja fjárhag kæranda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr.
Að öllu framangreindu virtu verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. lge og er hin kærða ákvörðun samkvæmt því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal