Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 18/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 18/2015

Miðvikudaginn 15. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

Þann 26. ágúst 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. ágúst 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 1. september 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. september 2015. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 10. september 2015 og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Ítrekun var send 26. október 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. febrúar 2012 og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 22. júní 2012 að hann teldi kæranda hafa viðhaft háttsemi sem staðið gæti í vegi greiðsluaðlögunar. Því teldi hann rétt að greiðsluaðlögunarheimildir yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi brotið í bága við a-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með því að gefa út skuldabréf til barnsmóður sinnar skömmu áður en hann lagði inn umsókn til greiðsluaðlögunar. Ráðstöfunin hafi auk þess verið riftanleg samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Einnig taldi umsjónarmaður fjárhag kæranda óljósan og að hann hefði ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsmálefni sín.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. janúar 2013 var heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar felld niður. Ástæður þess voru meðal annars þær að fjárhagur kæranda væri óljós en til dæmis lægi ekki fyrir hver væri raunveruleg greiðslugeta hans. Hann hafi verið skráður eigandi X bifreiða samkvæmt skattframtali 2010 og eigandi X bifreiða árið 2011, en hefði ekki gert grein fyrir tekjum sínum vegna sölu bifreiða eða útgjöldum vegna kaupa á þeim. Þá hafi kærandi ekki gert nægilega grein fyrir millifærslum á bankareikningi sínum en embættið hafi talið framkomnar útskýringar kæranda ótrúverðugar. Þannig hefði mjög skort á samstarfsvilja kæranda í málinu. Þessi ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 12. febrúar 2015.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 19. febrúar 2015 var kæranda tilkynnt um að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar á ný á grundvelli úrskurðar kærunefndarinnar. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 31. júlí 2015 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans í annað sinn, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin svör hafi borist frá kæranda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. ágúst 2015 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður á ný.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður kærunefndar frá [12.] febrúar 2015 skuli standa og að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að umboðsmaður skuldara vandi vinnubrögð sín og hlusti á rök og útskýringar. Einnig að staðhæfingar umboðsmanns að um „gjörning“ sé að ræða ásamt öllum ásökunum um glæpsamleg viðskipti á bílum og millifærslum verði dæmd dauð og ómerk.

Kærandi hafi ítrekað skýrt bifreiðaeign sína og sýnt fram á verðmæti bifreiðanna. Allar upplýsingar þar að lútandi sé að finna á skattframtölum kæranda sem umboðsmaður skuldara hafi í sínum fórum. Kærandi mótmælir því að fjárhagur hans teljist óljós.

Kærandi kveðst einnig hafa skýrt sölu á fasteigninni að B, og útgáfu hans á skuldabréfi að fjárhæð 14.000.000 króna sem hvíli á eigninni. Umrætt skuldabréf hafi verið gefið út vegna meðlagsskuldar sem kærandi hafi staðið í við barnsmóður sína. Þar sem frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hafi ekki verið hafið á þessum tíma telji kærandi sig hafa verið í fullum rétti til að greiða barnsmóður sinni eins og öðrum skuldunautum fram að þeim tíma. Eftir útgáfu skuldabréfsins hafi sala eignarinnar verið eðlileg þar sem þá hafi kærandi ekki átt neitt í henni.

Kærandi eigi skuldabréf að fjárhæð 1.000.000 króna sem hann hafi nefnt við umsjónarmann sinn í þeim tilgangi að auka tekjur sínar. Það hafi þó verið tilgangslaust þar sem skuldarinn samkvæmt skuldabréfinu sé látinn.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá segi í 1. mgr. 16. gr. lge. að frumvarp til greiðsluaðlögunar skuli samið í samráði við skuldara.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé það eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð frumvarpsins. Enn fremur sé þörf á að afla gagna þegar komi að mati umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge. Athafnaskylda kæranda að þessu leyti verði þá einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. laganna.

Kærandi hafi hvorki lagt fram upplýsingar um tekjur sínar af sölu bifreiða né útgjöld vegna kaupa á þeim þrátt fyrir beiðni umboðsmanns skuldara þar um. Í bréfi 31. júlí 2015 hafi embættið óskað eftir slíkum upplýsingum allt frá árinu 2009. Einnig hafi embættið óskað eftir upplýsingum um sölu fasteignar kæranda B en engar upplýsingar hafi borist. Embættið telji samkvæmt framangreindu að fjárhagur kæranda sé of óljós til að unnt sé að leggja á hann mat, sérstaklega að því er varði tekjur hans og eignir. Upplýsingar hafi ekki borist þrátt fyrir að óskað hafi verið sérstaklega eftir þeim.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja beri skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu.

Við meðferð málsins hafi kærandi veitt misvísandi upplýsingar um tilurð veðskuldabréfs frá 14. júní 2011 sem hvíli á fasteign hans við B. Skömmu eftir að bréfinu hafi verið þinglýst á fasteignina hafi kærandi selt eignina. Í tölvupósti 24. apríl 2012 hafi kærandi greint frá því að veðskuldabréfið hafi verið gefið út þar sem barnsmóðir hans hefði séð um að fjármagna kaup og endurbætur á fasteigninni og hún þannig verið eiginlegur eigandi eignarinnar. Í tölvupósti til umboðsmanns skuldara 21. júlí 2012 hafi kærandi á hinn bóginn sagt að í raun hefði hann stofnað til skuldarinnar 9. janúar 1997. Barnsmóðir hans hafi þá flutt úr landi og því hafi Tryggingastofnun ekki greitt henni vegna meðlagsskulda kæranda. Tilgangurinn með útgáfu veðskuldabréfsins hafi verið að veita barnsmóður kæranda tryggingu fyrir skuldinni svo og framtíðargreiðslum vegna meðlags.

Þá hafi umsjónarmaður óskað upplýsinga um millifærslur á bankareikningi kæranda. Kærandi hafi greint frá því að millifærslurnar væru ýmist í þágu þriðja manns eða vegna sölu bifreiða í eigu þriðja manns. Þessar skýringar kæranda verði að telja ótrúverðugar.

Einnig hafi kærandi lagt fram skuldabréf í sinni eigu að fjárhæð 1.000.000 króna. Það hafi hann að því er virðist gert til þess að greiðslugeta hans virtist meiri en hún væri í raun en kærandi hafi ekki greint frá því í upphafi að hann ætti skuldabréfið. Upplýsingar kæranda um gjaldfærni skuldarans hefðu verið misvísandi og virtust eftir hentugleikum hverju sinni. Við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi kærandi kveðið skuldabréfið verðlaust þar sem skuldarinn væri gjaldþrota. Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að greina frá skuldabréfinu strax í upphafi.

Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).

Frestdagur í máli kæranda sé 29. júní 2011 þegar umboðsmaður skuldara hafi tekið á móti umsókn hans um greiðsluaðlögun. Embættið telji kæranda ekki hafa verið gjaldfæran á þeim tíma. Í 1. mgr. 131. gr. gþl. sé kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir gjöfina. Kærandi hafi afsalað sér fasteign að B til C 22. júní 2011. Ofangreind ráðstöfun hafi átt sér stað innan sex mánaða frá frestdegi eða 7 dögum áður en kærandi hafi lagt fram umsókn sína um greiðsluaðlögun. Ekkert liggi fyrir um að greiðsla hafi komið fyrir eignina. Engar upplýsingar séu fyrir hendi um uppgreiðslu áhvílandi lána, en lán á 1. og 2. veðrétti eignarinnar virtust hafa verið greidd upp árið 2014 samkvæmt skattframtali ársins 2015. Embætti umboðsmanns skuldara telji samkvæmt þessu að um riftanlega ráðstöfun hafi verið að ræða í skilningi 1. mgr. 131. gr. gþl.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gþl. megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Kærandi hafi sjálfur greint frá því að árið 1997 hafi hann gert samkomulag við barnsmóður sína um greiðslu mánaðarlegs meðlags með barni þeirra. Með útgáfu skuldabréfs 14. júní 2011 að fjárhæð 14.000.000 króna hafi hann greitt skuld sína vegna samkomulagsins og einnig tryggt með því framtíðargreiðslur. Þannig sé ljóst að kærandi hafi greitt skuldina með öðrum hætti en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi, þ.e. með útgáfu veðskuldabréfs í stað peninga. Því verði að líta svo á að skuldin hafi verið greidd innan sex mánaða frá frestdegi, með óvenjulegum greiðslueyri, á þeim tíma er kærandi var ógjaldfær og að móttakandi greiðslunnar hafi hagnast, allt samkvæmt 134. gr. gþl.

Í 1. mgr. 137. gr. gþl. komi fram að krefjast megi riftunar á veðrétti sem kröfuhafi hafi fengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sé það á öðrum tíma en stofnað hafi verið til skuldar. Með útgáfu fyrrgreinds veðskuldabréfs 14. júní 2011 og þinglýsingu þess á 3. veðrétt fasteignar kæranda að B kveðist kærandi, eins og fram er komið, hafa veitt barnsmóður sinni veðtryggingu fyrir skuld sinni við hana samkvæmt samkomulagi þeirra svo og framtíðargreiðslum vegna meðlags með dóttur þeirra. Kærandi líti svo á að skuldin eigi að standa utan greiðsluaðlögunar með sama hætti og aðrar meðlagsskuldir. Embætti umboðsmanns telji að sá gjörningur kæranda að þinglýsa veðskuldabréfi vegna gamallar skuldar svo skömmu fyrir frestdag teljist riftanleg ráðstöfun í skilningi 1. mgr. 137. gr. gþl., enda hafi ráðstöfunin verið gerð innan sex mánaða fyrir frestdag, kærandi hafi verið ógjaldfær á þeim tíma og barnsmóðir kæranda hafi hagnast að því leyti sem veðrými hafi verið á eigninni eða um rúmlega 2.000.000 króna.

Að öllu framangreindu virtu telji umboðsmaður að ekki verði hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. og e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Úrskurðarnefndin lítur svo á að kröfugerð kæranda beri að skilja þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi en samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til þess að fá hana fellda úr gildi eða fá henni breytt.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr. og e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunar­umleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja beri skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að veita hana þar sem skuldari hafi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).

Í frumvarpi til lge. er í skýringum fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. skal skuldari gera grein fyrir tekjum sínum, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi ekki lagt fram öll gögn sem máli skipta. Fram kemur í greinargerð umboðsmanns að ítrekað hafi verið óskað eftir gögnum og upplýsingum. Umboðsmaður skuldara vísar þar meðal annars til þess að kærandi hafi ekki upplýst nægilega um tekjur sínar og eignir.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 31. júlí 2015 var kæranda gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum, upplýsingum og gögnum varðandi tiltekin atriði á framfæri áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar öðru sinni. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði ekki upplýst um að hann ætti skuldabréf að fjárhæð 1.000.000 króna fyrr en við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Skýringar kæranda á gjaldfærni skuldarans hefðu verið misvísandi. Þá hefði kærandi verið tvísaga um tilurð skuldabréfs að fjárhæð 14.000.000 króna sem hann hafi gefið út til barnsmóður sinnar. Embættið telji því að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar og villandi upplýsingar um nefnt veðskuldabréf. Kærandi hafi óskað greiðsluaðlögunar fimmtán dögum eftir að hann hafi látið þinglýsa skuldabréfinu. Á sama tíma hafi hann verið í vanskilum vegna meðlagsskulda, greiðslugeta hans hafi verið neikvæð og sömuleiðis eignastaða hans. Meðal annars af þessum ástæðum hafi kærandi ekki verið talinn gjaldfær í júní 2011. Kærandi hafi afsalað sér fasteign sinni að B 22. júní 2011. Ekkert liggi fyrir um að endurgjald hafi komið fyrir eignina. Umboðsmaður hafi sérstaklega óskað eftir kaupsamningi um eignina, upplýsingum um söluverð og uppgreiðslu lána. Að mati embættisins hafi ráðstöfunin falið í sér riftanlegan gjafagerning. Þá telji umboðsmaður skuldara að þar sem greiðsla meðlagsskuldar með skuldabréfi sé með óvenjulegum greiðslueyri sé um riftanlega ráðstöfun í skilningi gþl. að ræða sem gerð sé á þeim tíma er kærandi var ógjaldfær. Einnig telji embættið þá ráðstöfun kæranda að láta þinglýsa á eignina skuldabréfi vegna gamallar skuldar riftanlega á grundvelli gþl. þar sem heimilt sé að rifta veðréttindum sem kröfuhafi hafi fengið vegna gamallar skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í öllum framangreindum tilvikum hafi mótaðili hagnast á ofangreindum riftanlegum ráðstöfunum.

Í bréfinu komi einnig fram að kærandi hafi verið skráður fyrir eftirfarandi farartækjum:

[...]

Í bréfinu kemur einnig fram að umboðsmaður telji að af svörum kæranda megi álykta að hann hafi haft með höndum kaup og sölu bifreiða í hagnaðarskyni. Í skattframtölum hans komi þó ekkert fram um þau viðskipti. Kærandi hafi hvorki lagt fram upplýsingar um tekjur sínar vegna sölu bifreiðanna né upplýsingar um útgjöld vegna kaupa þeirra. Var óskað eftir upplýsingum um þetta allt frá árinu 2009 svo og upplýsingum um söluhagnað sem kærandi kynni að hafa haft af sölu bifreiðanna. Þess var getið að upplýsingar þyrftu að vera studdar viðeigandi gögnum svo sem kaupsamningum, afsölum, greiðslukvittunum o.s.frv. Loks sé það álit embættisins að skýringar kæranda að því er varði millifærslur á bankareikningi hans séu ótrúverðugar. Engin svör bárust frá kæranda vegna þessara atriða.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge hvílir á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvílir á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hlýtur því eðli málsins samkvæmt að vera fyrir hendi þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á og sér í lagi ef aðstæður breytast eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara koma fram. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.

Ljóst þykir af lestri gagna málsins að þau atriði sem einkum séu óljós varðandi fjárhag kæranda snúi að viðskiptum hans með bifreiðar árið 2011 en á því ári var kærandi atvinnulaus. Þær færslur og skýringar sem kærandi gaf á þeim voru eftirfarandi:

Dags. Færsla Viðskiptam. Skýring kæranda
6.6.2011 326.000 kr. D Sala á [...] á uppboðssíðu.
6.7.2011 841.600 kr. E Sala á bifreið [...].
13.9.2011 -800.000 kr. F Bifreiðakaup fyrir [...].
18.7.2011 250.000 kr. G Greiddi móður [...] vegna skuldar hans við hana.
19.8.2011 499.014 kr. E Sala bifreiðar í eigu [...].
9.2.2012 -200.000 kr. Eigin reikn. Millifært á reikning C

Árið 2011 hafði kærandi í tekjur atvinnuleysisbætur og bætur vegna félagslegrar aðstoðar sveitarfélags. Nettótekjur hans á árinu námu 1.981.490 krónum eða 165.124 krónum að meðaltali á mánuði að meðtöldum vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu. Í ljósi þess nema ofangreindar millifærslur töluverðum fjárhæðum. Verður því að telja að viðhlítandi gögn vegna þessara færslna hafi skipt máli til að varpa ljósi á fjárhag kæranda. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja frásögn hans eða sýna uppruna fjárins þrátt fyrir áskoranir þar um, en gögnin eru þess eðlis að ekki er á færi annarra en kæranda að afla þeirra. Samkvæmt því verður að telja að kærandi hafi ekki látið í té fullnægjandi upplýsingar til að unnt væri að fá nauðsynlega heildarmynd af fjárhag hans og greiðslugetu vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Þannig verður að telja fjárhag kæranda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. vísar umboðsmaður skuldara í fyrsta lagi til þess að kærandi hafi veitt misvísandi upplýsingar um tilurð veðskuldabréfs sem hvílt hafi á fasteign hans við B. Annars vegar hafi hann greint frá því að hann hafi gefið skuldabréfið út til barnsmóður sinnar vegna meðlagsskuldar og framtíðar meðlagsgreiðslna. Hins vegar hafi hann kveðið fasteignina í raun vera eign barnsmóður sinnar sem hefði fjármagnað kaup og endurbætur á eigninni þótt hún hefði verið skráð á nafn hans. Í öðru lagi hafi skýringar kæranda á millifærslum á bankareikningi verið ótrúverðugar. Í þriðja lagi hafi kærandi látið hjá líða að veita upplýsingar um skuldabréf í sinni eigu að fjárhæð 1.000.000 króna þar til á síðari stigum málsins.

Að því er varðar tilurð 14.000.000 króna veðskuldabréfsins verður ekki annað ráðið af málatilbúnaði umboðsmanns skuldara en að skuld kæranda samkvæmt skuldabréfinu hafi legið fyrir í málinu frá upphafi. Ósamræmi hefur verið í skýringum kæranda á tilurð skuldabréfsins. Eins og málið er vaxið er það mat úrskurðarnefndarinnar að þetta atriði sé ekki svo mikilsvert að varði við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem upplýsingar um skuldina sjálfa, skilmála og tryggingar voru ávallt fyrir hendi.

Þá telur umboðsmaður skuldara að útskýringar kæranda á millifærslum á bankareikningi hafi verið með þeim hætti að hann hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu. Hvað sem líður skýringum kæranda liggur ljóst fyrir að fyrrnefndar millifærslur hafa farið fram og hafa sem slíkar áhrif á efnislegt mat á fjárhag kæranda. Á hinn bóginn er hvorki hægt að fullyrða að skýringar kæranda hafi verið vísvitandi rangar eða að hann hafi sýnt af sér vanrækslu í tengslum við færslurnar og ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um þær. Úrskurðarnefndin telur því ekki unnt að fallast á sjónarmið umboðsmanns skuldara að þær skýringar sem kærandi hefur veitt brjóti í sjálfu sér í bága við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Loks telur umboðsmaður skuldara að sú framganga kæranda að upplýsa ekki um eign sína á skuldabréfi að fjárhæð 1.000.000 króna brjóti í bága við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Skuldabréfið er gefið út 12. mars 2007 og skyldu afborganir vera 18 talsins, á eins mánaðar fresti og sú fyrsta átti að greiðast 1. júní 2007. Síðasti gjalddagi skuldabréfsins skyldi samkvæmt því vera 1. nóvember 2008. Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 en samkvæmt efni skuldabréfsins var það uppgreitt á þeim tíma og því engin verðmæti eða eign í því falin. Skuldabréf þetta hafði því ekki áhrif á vinnslu eða meðferð á máli kæranda. Úrskurðarnefndin tekur þar af leiðandi ekki undir það sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærandi hafi brotið gegn ákvæði d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. með því að upplýsa ekki um að hann ætti skuldabréfið fyrr en á síðari stigum.

Samkvæmt öllu ofangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki brotið gegn ákvæðum d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. byggir umboðsmaður skuldara á því að kærandi hafi viðhaft ýmsar ráðstafanir sem riftanlegar væru við gjaldþrotaskipti á búi hans samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Um væri að ræða gjafagerning samkvæmt 131 gr., greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri samkvæmt 134. gr. og veðrétt samkvæmt 137. gr. Þessar riftunarreglur byggjast allar á því að skuldarinn hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er ráðstöfun var gerð og að ráðstöfun hafi farið fram á ákveðnum tíma miðað við frestdag.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. gþl. telst frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða berst krafa um gjaldþrotaskipti svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum gþl. Samkvæmt þessu þykir rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. og verður því að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var lögð fram. Í tilviki kæranda er frestdagur því 29. júní 2011.

Riftunarreglu 131. gr. gþl. að því er varðar gjafagerninga er beint gegn því að ráðstöfun verðmæta sé að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hefur verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmar margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi. Einnig er gerð krafa um að að gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt þessu byggist úrlausn um þetta atriði meðal annars á því hvort afsal kæranda til barnsmóður sinnar hafi í raun rýrt eignir kæranda og leitt til eignaaukningar hennar.

Almennt verður að telja að til að sýnt sé fram á að um gjafagerning sé að ræða samkvæmt 131. gr. gþl. verði að liggja fyrir upplýsingar er sýni fram á verðmæti riftunarandlags og eignarhluta þrotamanns í því. Samkvæmt veðbandayfirliti 24. janúar 2012 afsalaði kærandi fasteign sinni að B til C 22. júní 2011 en það var 7 dögum fyrir frestdag. Kærandi hefur ekki framvísað afsali þrátt fyrir beiðnir þar um. Engin gögn liggja fyrir um verðmæti eignarinnar en samkvæmt skattframtali kæranda árið 2010 vegna ársins 2009 er fasteignamat eignarinnar 12.200.000 krónur. Þegar kærandi ráðstafaði eigninni til fyrrum sambýliskonu sinnar voru 4.000.000 króna áhvílandi á eigninni að höfuðstól. Í síðari kæru sinni til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála kveður kærandi sölu eignarinnar hafa verið eðlilega eftir útgáfu skuldabréfsins þar sem hann hafi ekki átt neitt í henni eftir það. Miðað við framangreindar upplýsingar verður að telja að kærandi hafi átt einhverja nettóeign í fasteigninni á þeim tíma er hann afsalaði henni og að ekki hafi komið fyrir hana endurgjald. Samkvæmt því sem áður hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er afsal eignarinnar fór fram. Úrskurðarnefndin fellst því á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að ráðstöfun eignarinnar hafi falið í sér gjafagerning og því eigi e-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við í málinu.

Að því er varðar riftanleika greiðslu þar sem kærandi hafi greitt hana með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. gþl. telur umboðsmaður að greiðsla kæranda á meðlagsskuld með skuldabréfi falli undir ákvæðið. Kærandi telur þessa ráðstöfun falla utan greiðsluaðlögunar og um hana eigi að gilda sömu reglur og almennt um meðlagskuldir.

Almennt er talið að umsaminn greiðslueyrir teljist venjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. gþl. Þó er jafnan talið að peningar séu venjulegur greiðslueyrir. Að því er varðar gjalddaga getur greiðsla eftir gjalddaga verið riftanleg samkvæmt 134. gr. gþl. svo sem þegar skuldari minnkar vanskil sín verulega frá því sem verið hefur eða greiðsluflæði breytist. Regla 134. gr. gþl. er hlutlæg regla sem verður að meta eftir atvikum í hverju tilviki fyrir sig. Þannig skiptir máli hvað er venjulegt á viðkomandi sviði og hvort áður hafi verið greitt með sama greiðslueyri. Þá verður greiðsla að hafa farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag til að uppfylla það skilyrði að vera riftanleg.

Í málinu liggur fyrir skuldabréf sem útgefið er 10. júní 2011 eða 19 dögum fyrir frestdag. Kærandi er útgefandi bréfsins en barnsmóðir hans er kröfuhafi. Samkvæmt bréfinu skyldi kærandi greiða henni 14.000.000 króna með 20 afborgunum. Lánstími var 20 ár og fyrsti gjalddagi 1. ágúst 2011. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar var fasteignin að B sett að veði með 3. veðrétti. Í málinu liggur einnig fyrir meðlagssamningur frá 12. mars 2002 þar sem kærandi og barnsmóðir hans semja um að kærandi greiði henni 60.000 krónur mánaðarlega frá þeim degi til 18 ára aldurs dóttur þeirra fæddrar X eða þar til skólagöngu hennar lyki. Í samningnum segir: „Standist greiðslur ekki mun [kærandi] afsala sér eign þeirra að B til [barnsmóður].“ Í fyrri kæru kæranda til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála kemur fram að hann hafi gefið út veðskuldabréfið til að greiða vangoldnar meðlagsgreiðslur síðustu 10 ára og næstu 4 ár fram í tímann.

Í tölvupósti kæranda til umsjónarmanns 24. apríl 2012 segir á hinn bóginn: „Ástæða þess að [barnsmóðir kæranda] á veð í B er sú að hún hefur alltaf átt það húsnæði þó svo að ég hafi verið skráður fyrir því en hún fjármagnaði bæði kaup og endurbætur á því húsnæði en ég hef haft umráð og umsjón með húsnæðinu þar til á síðasta ári.“

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2010 vegna ársins 2009 er fasteignamat eignarinnar að B 12.200.000 krónur. Á þeim tíma er veðskuldabréfið var gefið út er nafnverð áhvílandi veðskulda 4.000.000 króna og var kærandi skuldari þeirrar skuldar. Sé við það miðað var fasteignin yfirveðsett með þinglýsingu skuldabréfsins sem kærandi gaf út 10. júní 2011. Sú skýring kæranda að barnsmóðir hans hafi „alltaf átt“ húsnæðið þykir ótrúverðug í ljósi fyrirliggjandi gagna. Því verður að telja yfir skynsamlegan vafa hafið að með útgáfu skuldabréfsins hafi kærandi verið að greiða meðlagsskuld vegna dóttur sinnar. Slíka kröfu ber að inna af hendi í peningum og telur úrskurðarnefndin því að kærandi hafi innt greiðsluna af henni í óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. gþl.

Loks telur umboðsmaður skuldara að sú ráðstöfun kæranda að veðsetja fasteign sína að B á grundvelli margnefnds veðskuldabréfs hafi verið riftanleg í skilningi 1. mgr. 137. gr. gþl., en þar komi fram að krefjast megi riftunar á veðrétti sem kröfuhafi hafi fengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sé það á öðrum tíma en stofnað hafi verið til skuldar. Ákvæðið á við þegar um eldri skuld er að ræða, þ.e. þegar til skuldar hefur verið stofnað á fyrra tímamarki, en veðrétturinn er veittur eftir á til tryggingar skuldinni.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan verður að telja að kærandi hafi gefið út fyrrnefnt veðskuldabréf og þinglýst því í því skyni að greiða meðlög með dóttur sinni. Eins og fyrr er rakið hefur kærandi sjálfur greint frá því að barnsmóðir hans hafi fengið veðréttinn til tryggingar bæði gjaldföllnum meðlagsskuldum og ógreiddu meðlagi til framtíðar. Liggur þannig fyrir að til hluta veðréttarins er stofnað vegna eldri skuldar en veðskuldabréfinu var þinglýst 16. júní 2011. Eins og fram er komið er frestdagur í máli kæranda 29. júní 2011 og var því stofnað til veðréttarins 13 dögum fyrir frestdag. Samkvæmt því fellst úrskurðarnefndin á það með umboðsmanni skuldara að stofnun veðréttarins sé riftanleg ráðstöfun í skilningi 1. mgr. 137. gr. gþl.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brotið gegn b-lið 1. mgr. 6. gr. og e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta