Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 22/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 22/2015

Miðvikudaginn 29. júní 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 11. september 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. ágúst 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 14. september 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. september 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 16. september 2015 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1966 og 1969. Þau eru í hjúskap og búa ásamt X börnum sínum á unglingsaldri í einbýlishúsi að C, sem er 194,4 fermetrar að stærð.

Kærandi A starfar sem [...] en kærandi B hefur ekki fasta atvinnu. Kærendur hafa tekjur sínar af launum, lífeyrisgreiðslum, vaxtabótum og barnabótum.

Að mati kærenda má rekja greiðsluerfiðleika þeirra til tekjulækkunar og offjárfestinga. Þau kveðast hafa reynt að selja eignir en án árangurs.

Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kærenda 39.684.715 krónur.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 1. október 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. janúar 2015 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Jafnframt var þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. mars 2015 tilkynnti umsjónarmaðurinn að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil með vísan til 15. gr. lge. Í ljós hefði komið að kærandi B hefði afsalað sér 50% hluta í fasteign sinni að D til bróður síns sem átt hefði eignina með honum. Afsalshafi hefði ekki yfirtekið áhvílandi lán að fjárhæð um 5.000.000 króna. Kærendur hefðu verið beðin um upplýsingar varðandi eigendaskiptin, meðal annars hvert hefði verið söluverðið. Þau hafi greint frá því að þar sem þau hefðu verið orðin hrædd um að missa allar sínar eignir hefðu þau tekið þá ákvörðun að bróðir kæranda B myndi halda D. Engin greiðsla hefði komið fyrir eignina.

Afsal á eignarhluta kæranda B í fasteigninni hafi farið fram [1. október] 2014. Fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2015 hafi verið 9.451.000 krónur en ásett verð við sölutilraunir á eigninni hefði verið um 18.000.000 króna. Samkvæmt því hefðu kærendur látið af hendi um 9.000.000 króna án endurgjalds. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana, en við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti. Í 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) komi fram að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur að því er varði greiðsluaðlögun hafi verið talinn sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun sé samþykkt. Umsjónarmaður telji að háttsemi kærenda falli undir fyrrnefnd lagaákvæði.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 14. ágúst 2015 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Í svari kærenda hafi komið fram að þau gætu fært eignina aftur yfir á nafn kæranda B ef samþykkt yrði að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram í kjölfarið.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. ágúst 2015 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. og 2. mgr. 131. gr. gþl.

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að kæru verði snúið við og heimild til greiðsluaðlögunar verði samþykkt.

Kærendur hafi fært 50% eignarhluta kæranda B í fasteigninni að D yfir á nafn bróður kærandans 17. nóvember 2014. Afsalshafi hafi ekki yfirtekið áhvílandi lán. Þessi ráðstöfun hafi ekki tengst umsókn kærenda um greiðsluaðlögun en bróðir kæranda B hafi þegar átt 50% í eigninni. Þetta hafi verið gert þar sem kærendur hafi verið í fjárhagsvanda og ekki viljað að bróðir kæranda B missti sinn hlut í eigninni en hann hafi verið búinn að greiða upp sinn hluta í áhvílandi láni. Því miður hafi ekki tekist að ljúka málinu þar sem bróðir kæranda hafi látist í X 2015. Á þessum tíma hafi kærendur ekki haft nein úrræði til að bjarga fjárhag sínum og ekki hafi legið fyrir hvort umboðsmaður skuldara myndi samþykkja umsókn þeirra um greiðsluaðlögun.

Umboðsmaður skuldara segi í ákvörðun sinni að ásett verð fyrir eignina hafi verið 18.000.000 króna. D sé gamalt einbýlishús með nokkrum hekturum lands. Eigninni hafi ekki verið viðhaldið og sé hún illa farin. Hún hafi verið til sölu í nokkur ár en sölutilraunir hafi engan árangur borið. Fasteignamat eignarinnar sé 9.451.000 krónur og telja kærendur líklegra að söluverð sé nálægt því.

Kærendur mótmæla því að þau hafi verið að reyna að koma eigninni undan kröfuhöfum. Til að sýna vilja þeirra í verki séu kærendur tilbúin til að færa eignina til baka á nafn kæranda B og óski þau eftir að greiðsluaðlögunarumleitunum sé fram haldið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í 131. gr. gþl. sé fjallað um gjafagerninga en þar segi í 2. mgr. að krefjast megi riftunar á gjöfum til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir gjöfina. Með nákomnum í skilningi gþl. sé meðal annars átt við bróður þrotamanns.

Í málinu hafi komið fram að kærandi B hafi afsalað sér 50% eignarhlut sínum í fasteigninni að D. Afsalið sé dagsett 1. október 2014 en samkvæmt upplýsingum frá veðhafa hafi áhvílandi lán ekki verið yfirtekið jafnhliða þó svo að afsal kvæði á um það. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi eigninni verið afsalað til að þau myndu ekki missa hana, þ.e. til að skjóta eigninni undan, en engin greiðsla hafi komið fyrir hana. Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns sé fasteignamat eignarinnar 9.451.000 krónur fyrir árið 2015 en ásett verð hennar í sölu hafi verið 18.000.000 króna. 50% hlutur kæranda B hafi því verið að verðmæti 9.000.000 króna.

Frestdagur í máli kærenda sé 24. október 2014 þegar umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið fullbúin hjá umboðsmanni skuldara. Afsal eignarinnar hafi farið fram 23 dögum fyrir frestdag. Kærendur hafi þegar verið komin í vanskil með aðrar skuldbindingar sínar á þeim tíma en þau hafi sent rafræna umsókn sína um greiðsluaðlögun sama dag og afsalið var dagsett eða 1. október 2014. Þau teljist því hafa verið ógjaldfær í skilningi gþl. þegar afsalið fór fram. Þá hafi afsalshafi hagnast á ráðstöfuninni og eignast 50% eignarinnar án endurgjalds. Umboðsmaður skuldara telji að samkvæmt þessu hafi ráðstöfunin verið riftanleg í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. og 2. mgr. 131. gr. gþl.

Kærendur hafi óskað eftir því að fá að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum gegn því að færa eignina til baka á nafn kæranda B. Umboðsmaður skuldara telji það ekki breyta atvikum málsins, sér í lagi þar sem ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að kærendur hafi ætlað að koma eigninni undan kröfuhöfum. Þannig verði að telja óhæfilegt að heimila áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir í ljósi þess að eigninni hafi verið ráðstafað á þennan hátt.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að heimild til greiðsluaðlögunar verði samþykkt. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra falla á hinn bóginn niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði úrskurðarnefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að greiðsluaðlögun þeirra verði samþykkt á því ekki við í málinu eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kæranda fyrir kærunefndinni ber að skilja í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til e-liðar.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Það er mat umboðsmanns skuldara að sú ráðstöfun kæranda B að afsala 50% hlut sínum í fasteigninni D með afsali til bróður síns 1. október 2014 hafi verið riftanleg samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar samkvæmt gþl. Þau sjónarmið sem þar eru að baki varða jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem eru fyrir riftun er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kæranda) til tjóns.

Að því er varðar þetta mál kemur 131. gr. gþl. til skoðunar en hún varðar gjafagerninga. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

Í 1. mgr. 2. gr. gþl. er fjallað um frestdag en það er sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Í tilviki kærenda er frestdagur því 1. október 2014. Samkvæmt því fór ráðstöfun kæranda B á 50% eignarhluta hans í fyrrgreindri fasteign til bróður hans 1. október 2014 fram innan þeirra tímamarka sem tiltekin eru í 1. mgr. 131. gr. gþl.

Riftunarreglur gþl. fjalla um takmarkanir á því að þrotamaður geti gefið gjafir í tiltekinn tíma áður en hann varð ógjaldfær. Ein þessara takmarkana er 131. gr. gþl. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til að gjöfin sé riftanleg er að hún skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hefur verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmar margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi.

Samkvæmt afsali 1. október 2014 seldi kærandi bróður sínum 50% eignarhluta í fasteign sinni. Samkvæmt afsalinu var kaupverð 5.200.000 krónur og taldist að fullu greitt, meðal annars með því að kaupandi tæki að sér að greiða áhvílandi veðskuld þá að fjárhæð 5.118.878 krónur. Samkvæmt þessum upplýsingum var verðmæti eignarinnar alls 10.400.000 krónur og eign umfram skuld 5.281.122 krónur eða 2.640.561 króna á hvorn eiganda.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærandi og bróðir hans samskuldarar að því láni sem hvíldi á eigninni við afsalið. Kærendur hafa sjálf greint frá því að bróðir kæranda B hafi á þeim tíma verið búinn að greiða upp sinn hluta lánsins og þau hafi ekki viljað að hann missti sinn hluta eignarinnar, enda hafi þau verið í fjárhagsvanda. Af þeim ástæðum hafi eigninni verið afsalað til bróður kæranda B 1. október 2014. Ljóst er að gjöfin var afhent sama dag og kærendur sóttu um greiðsluaðlögun eða á frestdegi, sbr. 2. gr. gþl. Samkvæmt því verður að telja ráðstöfun kæranda á eignarhluta sínum í D riftanlega eftir framangreindum ákvæðum gþl.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta