Mál nr. 27/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 27/2015
Miðvikudaginn 15. Júní 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.
Þann 9. október 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. september 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 14. október 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. október 2015.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. október 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur eru fædd 1972 og 1980. Þau eru í hjúskap og búa ásamt X börnum sínum í eigin 117,4 fermetra fasteign að C. Kærendur eru bæði öryrkjar.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 33.151.344 krónur.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til vankunnáttu í fjármálum, veikinda þeirra beggja og mistaka sem hafi átt sér stað í greiðsluþjónustu viðskiptabanka þeirra.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 8. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 25. júlí 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil á grundvelli a-, c-, og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. og 2. mgr. 13. gr. lge. Meðal þess sem umsjónarmaður gerði athugasemdir við var að þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu hefðu kærendur ekki náð að leggja fyrir tilskilda fjárhæð á tímabili greiðsluskjóls
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 16. ágúst 2012 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Í ódagsettu svari kærenda kom meðal annars fram að þeim hefði ekki tekist að leggja fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.
Með bréfi til kærenda 3. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá ákvörðun kærðu kærendur til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 21. apríl 2015 þar sem kærunefndin taldi málsmeðferð umboðsmanns skuldara vera ábótavant. Umboðsmaður skuldara tók þá mál kærenda til efnislegrar meðferðar á ný.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 28. ágúst 2015, en með því var þeim tilkynnt um fyrirhugaða niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana þar sem þau hefðu ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur komu andmælum á framfæri 17. september 2015 og óskuðu jafnframt eftir því að áframhaldandi vinnslu málsins yrði frestað þar sem verið væri að skoða „ákveðin[n] hluta sem gæti haft áhrif á stöðu [þeirra] skuldalega séð.“ Kærendum var kynnt að ekki væri heimilt að fresta eða stöðva vinnslu málsins af þessum sökum.
Með bréfi til kærenda 23. september 2015 felldi umboðsmaður skuldara á ný niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar á grundvelli 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra vegna gruns um óefnislega vinnu á málinu. Þau fara fram á að mál þeirra verði tekið fyrir aftur og þau fái betri og skilvirkari ráðgjöf og aðstoð. Þá fara kærendur fram á að málið verði tekið fyrir hjá aðila sem ekki hafi áður komið að málinu. Þetta verður að skilja svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur kveða útreikninga umboðsmanns skuldara ekki rétta. Ekki hafi verið tekið mark á beiðni þeirra um að endurreikna tekjur og skuldir nema að litlu leyti. Kærendum hafi verið reiknaðar umönnunarbætur til tekna, en þær bætur séu til að standa straum af veikindum sonar þeirra. Einnig telja kærendur þá fjárhæð ranga sem umboðsmaður skuldara segi að þau hafi átt að leggja fyrir.
Kærendur hafi verið í D á hluta tímabilsins, meðal annars vegna veikinda sonar þeirra sem þurfi mikla umönnun og hafi hann fengið betri þjónustu í D en á Íslandi. Þau hafi leigt út húsnæði sitt þennan tíma í því skyni að reyna að afla aukatekna. Húsnæðinu hafi þó verið skilað í mjög slæmu ástandi og því fylgt mikill kostnaður fyrir kærendur að flytja í það aftur.
Kærendum hafi verið neitað um viðtal við starfsmann umboðsmann skuldara sem séð hafi um mál þeirra í seinna skiptið. Þau hafi því aðeins haft samband við starfsmanninn í gegnum tölvupóst.
Kærendur gera athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara. Þau hafi grun um að niðurstaða í máli þeirra hafi verið ákveðin fyrirfram og því hafi beiðnum þeirra um ráðgjöf og viðtal verið synjað.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir frá 8. nóvember 2010. Óljóst sé hver gjöld kærenda hafi verið frá þeim degi og fram til ágúst 2012 þar sem kærendur kveðist hafa sent kvittanir til fyrri umsjónarmanns en þau gögn hafi ekki fundist. Hér sé því miðað við tímabilið 1. september 2012 til 31. júlí 2015 eða rúmlega 35 mánuði. Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, öðrum gögnum frá opinberum aðilum og skattframtölum. Tekið sé mið af öllum tekjum þar með töldum barna- og vaxtabótum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.
Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Tekjur | 2015 | 2014 | 2013 | 2012 | Tekjur alls |
Launatekjur | 2.621.408 | 4.365.451 | 4.392.233 | 1.435.555 | 12.814.647 |
Barna/vaxtabætur o.fl. | 272.824 | 630.700 | 666.320 | 112.110 | 1.681.954 |
Barnalífeyrir | 1.128.246 | 1.877.832 | 1.812.600 | 581.520 | 5.400.198 |
Leigutekjur e skatt | 380.000 | 380.000 | |||
Samtals | 4.022.478 | 7.253.983 | 6.871.153 | 2.129.185 | 20.276.799 |
Sparnaður | 2015 | 2014 | 2013 | 2012 | Sparnaður alls |
Heildartekjur á ári | 4.022.478 | 7.253.983 | 6.871.153 | 2.129.185 | 20.276.799 |
Meðaltekjur á mán. | 574.640 | 604.499 | 572.596 | 532.296 | 2.284.031 |
Framfærsluk. á mán. | 435.845 | 435.845 | 435.845 | 435.845 | 1.743.380 |
Greiðslugeta á mán. | 138.795 | 168.654 | 136.751 | 136.751 | 580.950 |
Áætlaður sparnaður | 971.563 | 2.023.843 | 1.641.013 | 385.805 | 5.022.224 |
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 435.845 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað ágústmánaðar 2015 fyrir hjón með X börn. Því sé gengið út frá því að kærendur hafi alls haft heildartekjur að fjárhæð 20.276.799 krónur á ofangreindu tímabili og getu til að leggja fyrir 5.022.224 krónur. Frá þessari fjárhæð dragist 1.063.173 krónur vegna útgjalda kærenda umfram framfærsluviðmið. Kærendur hefðu því átt að getað lagt fyrir 3.959.051 krónu á tímabilinu. Þau hafi ekki sýnt fram á að hafa lagt nokkuð til hliðar á tímabilinu.
Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.
Samkvæmt framangreindu verði að telja kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjárhæð sem þau hafi mánaðarlega haft aflögu, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.
Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.
Meðal annars, að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins, hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða á tímabili greiðsluskjóls. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 25. júlí 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Umsjónarmaður vísaði þar meðal annars til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 3. júní 2013. Þá ákvörðun kærðu kærendur til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 21. apríl 2015 þar sem kærunefndin taldi málsmeðferð umboðsmanns skuldara vera ábótavant. Umboðsmaður skuldara tók mál kærenda til efnislegrar meðferðar á ný og felldi í kjölfarið niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda að nýju 23. september 2015.
Ekki verður annað ráðið af atvikum málsins og þeim gögnum sem liggja fyrir í því en að kærendur hafi afhent fyrri umsjónarmanni sínum kvittanir vegna þeirra óvæntu útgjalda sem þau þurftu að standa straum af í greiðsluskjóli og voru umfram framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Kvittanirnar hafa ekki fundist. Að þessu leyti er óupplýst í málinu hve mikil óvænt útgjöld kærenda, umfram kostnað samkvæmt framfærsluviðmiði, voru á þeim tíma er mál þeirra var hjá fyrri umsjónarmanni og allt til 31. ágúst 2012, en nýr umsjónarmaður tók við máli kærenda 7. maí 2012. Eins og fram hefur komið er upphafsdagur útreikninga umboðsmanns skuldara 1. september 2012. Úrskurðarnefndin telur sér ekki fært annað en að miða upphafsdag útreikninga sinna við sama dag og umboðsmaður skuldara gerir, enda er ákvörðun þar að lútandi kæruefni í málinu.
Að mati umboðsmanns skuldara áttu kærendur að leggja til hliðar 3.959.051 krónu á tímabilinu frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2015. Kærendur telja útreikninga umboðsmanns skuldara ranga þannig að laun og barnabætur séu ofreiknaðar en útgjöld vanmetin.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. september 2012 til 31. desember 2012: Fjórir mánuðir | |
Nettótekjur A | 760.849 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 190.212 |
Nettótekjur B | 674.706 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 168.677 |
Nettótekjur alls | 1.435.555 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 358.889 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 2.314.678 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 192.890 |
Nettótekjur B | 2.077.555 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 173.130 |
Nettótekjur alls | 4.392.233 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 366.019 |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 2.281.823 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 190.152 |
Nettótekjur B | 2.083.628 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 173.636 |
Nettótekjur alls | 4.365.451 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 363.788 |
|
|
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. ágúst 2015: Átta mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.594.402 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 199.300 |
Nettótekjur B | 1.394.500 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 174.313 |
Nettótekjur alls | 2.988.902 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 373.613 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 13.182.141 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 366.171 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda, bætur, barnalífeyri og umönnunargreiðslur, var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. september 2012 til 31. ágúst 2015: 36 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 13.182.141 |
Barnalífeyrir september 2012 til ágúst 2015 | 5.561.376 |
Umönnunargreiðslur september 2012 til ágúst 2015 | 1.292.455 |
Barna- og vaxtabætur september 2012 til ágúst 2015 | 1.794.066 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 21.830.038 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 606.390 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvöiðun umboðsmanns | 435.845 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 170.545 |
Alls sparnaður í 36 mánuði í greiðsluskjóli x 170.545 | 6.139.618 |
Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur ekkert lagt til hliðar. Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Þá er almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella má undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.
Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.
Kærendur kveða laun þeirra og barnabætur ofreiknuð og greiðslugetu sína vanmetna. Þau telja mánaðarlega greiðslugetu sína 127.226 krónur á mánuði. Á þetta fellst úrskurðarnefndin ekki þar sem fyrirliggjandi útreikningar eru byggðir á skattframtölum, launaupplýsingum ríkisskattstjóra og greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.
Að því er varðar útgjöld kærenda á því tímabili sem hér um ræðir hafa kærendur lagt fram yfirlit úr heimabanka yfir orkureikninga, greiðslur til sveitarfélags og tryggingar vegna janúar til júní 2015. Þá hafa þau lagt fram yfirlit yfir lyfjakaup sín á tímabilinu júní 2014 til júní 2015. Með framlagningu þessara gagna hafa kærendur að mati úrskurðarnefndarinnar ekki sýnt fram á það að útgjöld þeirra á því tímabili sem hér er miðað við, þ.e. 1. september 2012 til 31. ágúst 2015, hafi verið meiri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þá er það mat kærenda að umönnunargreiðslur vegna barns þeirra eigi ekki að telja til launa nema kostnaður á móti sé dreginn frá greiðslunum. Kærendur hafa ekki framvísað gögnum er sýna fram á þennan kostnað og er því ekki unnt að taka tillit til hans við útreikning á sparnaði kærenda. Samkvæmt þessu hefðu kærendur átt að hafa getað lagt fyrir 6.139.618 krónur á tímabili greiðsluskjóls.
Í ljósi þess er að framan greinir fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal