Mál nr. 577/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 577/2024
Mánudaginn 10. febrúar 2024
A
gegn
umboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 11. nóvember 2024 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra B f.h. A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 24. nóvember 2024, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, sem er fædd X, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 12. júlí 2023. Þann 12. janúar 2024 óskaði umboðsmaður kæranda eftir því að umsókn hennar yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Með bréfi, dags. 13. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Viðbrögð umboðsmanns kæranda bárust með tölvupóstum 12. og 21. mars 2024. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 9. apríl 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi hana úr gildi og heimvísaði með úrskurði í máli nr. 186/2024.
Umboðsmaður skuldara tók mál kæranda aftur til meðferðar og óskaði í bréfi, dags. 17. september 2024, eftir upplýsingum vegna umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun og benti á atriði sem leitt gætu til synjunar umsóknar hennar. Svar umboðsmanns kæranda barst umboðsmanni skuldara með bréfi, dags. 30. september 2024. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 24. október 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. nóvember 2024.
Með bréfi, dags. 21. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 22. nóvember 2024. Viðbótarathugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda þann 7. janúar 2025 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. janúar 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæruna svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Í kæru kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi gert umboðsmanni skuldara að bæta úr annmörkum á ákvörðun í máli kæranda sem sótti um greiðsluaðlögun. Í úrskurði sínum hafi úrskurðarnefndin bent á þá annmarka að rannsóknarskyldu hefði ekki verið sinnt sem skildi af hálfu umboðsmanns skuldara.
Að mati umboðsmanns kæranda verði ekki séð að í nýrri ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið bætt úr því heldur aðeins dregið í land og sagt í þess stað: „Það er óumdeilt í málinu að þegar salan á eign umsækjanda að C gekk í gegn í september 2022 greiddi hún upp talsvert af lausaskuldum.“ Umboðsmaður kæranda telji að hún hafi komið skuldum í skil um þetta leyti og sýni hækkuð lánshæfiseinkunn Credit Info það. Í október 2022 hækkaði lánshæfiseinkun hennar í B2 og síðan í A3 í janúar 2023 skv. Credit Info.
Enn sé til staðar ágreiningur um hvort kærandi hafi komið þáverandi skuldum í skil og þannig orðið gjaldfær í skilningi gjaldþrotalaga á þeim tímapunkti og því uppfyllt formleg skilyrði þess að til riftunar á meintum gjafagjörningi kæmi ekki.
Um leið verði að benda á það sem virðist að áliti umboðsmanns skuldara annað og aðskilið mál að því miður hafi skuldasöfnun kæranda hafist að nýju í kjölfar skuldaskilanna strax haustið 2023. Umboðsmaður skuldara virðist hafa lagt málið þannig upp að sá nýi skuldastabbi hafi, þegar sótt hafi verið um greiðsluaðlögun, valdið því að hún var ekki greiðslufær vegna hans á þeim tíma þ.e. í júlí 2023. Ekki sé heldur hægt að fallast á það að kærandi hafi ekki verið gjaldfær þá og hafi umboðsmaður kæranda rakið það í svari sínu við fyrirspurn umboðsmanns skuldara frá 17. september 2024 sem hann hafi sent umboðsmanni skuldara 30. september 2024 og sé fylgigagn í málinu.
Samantekið hafi kærandi verið gjaldfær eftir skuldaskil í september [2022] til janúar 2023, sbr. hækkun greiðslumats og formlega einnig eftir nýja skuldasöfnun þegar hún hafi sótt um greiðsluaðlögun í júlí 2023. Ekki skal þó mótmælt því sem umboðsmaður skuldara bendi á, að eignastaða hafi verið neikvæð en þar hafi verið um að ræða nokkur þúsund krónur, mjög lága tölu í öllu samhengi sem ætti ekki að vera útgangspunktur gagnvart lögum eða frágangssök.
Eins og kunnugt er sé kjarni málanna sá hvort hægt sé að skilgreina eignarhald eiginmanns kæranda á íbúðinni í D sem ólöglegan gjafagjörning vegna þess að hún sem meintur „gefandi“ hafi ekki verið gjaldfær um þær mundir sem gerningurinn fór fram. Nokkuð þykir umboðsmanni langt seilst í því og það í tvígang. Umboðsmaður kæranda hafnar þessu, bendir á mótrök sín bæði hér og í fyrirspurnarsvari til umboðsmanns skuldara þann 30. september 2024 og um leið að kærandi sé í þessu efni ekki látin njóta neins vafa eða meðalhófs í umdeilanlegum atvikum og meintum sakargiftum.
Enn lengra sé seilst til að hafna umsókn kæranda þegar komi að því að líta til heilsu hennar fyrr og nú. Ekkert tillit virðist hafa verið tekið til ítarlegs umbeðins læknisvottorðs geðlæknis hennar eða tekið undir vilja löggjafans sem fram komi í greinargerð með lögunum um að taka beri tillit til heilsu, aldurs og félagslegra [aðstæðna]sem umboðsmaður kæranda hafi lýst frekar. Af því tilefni hafi hann einnig rifjað upp nokkuð vandlega umfjöllun löggjafans um það atriði úr greinargerð laga nr. 101/2010 (Greinargerð; um 4. gr.) í fyrirspurnarsvari sínu til umboðsmanns skuldara þann 30. september 2024.
Í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar fjallar umboðsmaður skuldara á fremur óljósan hátt um mun á framkvæmd, veikindum og mistökum sem helst virðast vísa til þess, að því er virðist, að ekki sé hægt að tengja veikindi kæranda við það að skrá íbúðina í D á eiginmann hennar. Því hafi heldur ekki verið haldið fram enda hafi það verið fyrirbyggjandi varúðarráðstöfun gagnvart framtíðinni og vegna hvers? Jú, vegna heilsufars hennar, það sé nú allur glæpurinn! Þarna sé rökfærsla umboðsmanns skuldara því miður orðin nokkuð hringlaga (e.k. tautology). Hér megi bæta því við sem sé e.t.v. nýtt í málinu og hafi komið fram við undirbúning þessarar kæru að á þeim tíma sem E hafi verið skráður sem kaupandi að íbúðinni í D hafi það einnig verið vegna þess að hann hafi haft meiri rétt (aðgengi) á lánamarkaði sem fyrsti kaupandi, með hærra lánshæfi. Þá hafi tíminn verið naumur og dýrmætur vegna vaxandi þrengsla í íbúðinni í C og þess sem hafi verið að gerast á fasteignamarkaði á þessum tíma en markaðurinn hafi byrjað að frjósa hálfum mánuði eftir að kaupin áttu sér stað. Eðlilega eigi nú eftir að staðreyna þessa síðustu fullyrðingu.
Eins sé því haldið fram í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar eða a.m.k. gefið í skyn að umrædd ákvörðun, þ.e. að skrá íbúðina á E, hafi verið tekin af honum og umboðsmanni kæranda eða foreldrum kæranda eða eins og segi aftast í hinum kærða úrskurði: „Umrædd ráðstöfun var framkvæmd af umsækjanda og hennar aðstandendum með þeim tilgangi að koma eigninni undan því að verða mögulegt andlag innheimtuaðgerða kröfuhafa.“ Þetta sé einfaldlega ekki rétt því umboðsmaður kæranda hafi ekki komið nálægt þeim gerningi né eiginkona hans og móðir kæranda, sem hafi reyndar ekki frétt af því fyrr en síðar. Hér sé e.t.v. rétt að skýra frá því að á sínum tíma hafi íbúðin í C verið skráð/seld á móður kæranda í varúðarskyni vegna veikinda hennar en hafi ekki verið, frekar en nú þegar eignin hafi verið skráð á E, nein tilraun til ólöglegs undanskots.
Það verði því miður að segjast að meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi virst bera merki vaxandi skorts á meðalhófi og þess að kærandi hafi fengið að njóta vafa. Komi það verulega á óvart frá stofnun sem ætti sem umboðsaðili skuldara fremur að vera málsvari þeirra eins og nafn embættisins bendi til heldur en gæslumaður hagsmuna kröfuaðila, svo vísað sé til texta og anda laganna um greiðsluaðlögun og embættið sjálft. Vonandi sé það á misskilningi byggt um leið og bent sé á það að umboðsmaður skuldara sé stjórnvald á stjórnsýslustigi og starfi eftir stjórnsýslulögum en sé ekki dómstóll.
Það sé því ósk og von umboðsmanns kæranda og aðstandenda hennar að umboðsmaður skuldara taki málið upp aftur á grundvelli sinna gagna og finni viðhlítandi lausn fyrir kæranda.
Í minnisblaði sem barst úrskurðarnefnd velferðarmála frá umboðsmanni kæranda komi fram upplýsingar um breytta og lakari félagslega stöðu kæranda og hrakandi heilsufar. Fram kemur að kærandi sé nú skilin að borði og sæng og búi við það að hafa undir eftirliti mjög skertan umgengnisrétt við X ára dóttur sína og fyrirmæli barnaverndaryfirvalda um nálgunarbann við lögheimili sitt að D. Kærandi dvelji nú á heimili foreldra sinna, sé í meðferð bæði […].
Minnisblaðið sé sent bæði úrskurðarnefnd velferðarmála og umboðsmanni skuldara svo báðir aðilar séu upplýstir samtímis um stöðu málsins, og til að forðast misskilning, um leið og umboðsmaður kæranda vísi til fyrri tilvitnana sinna í lög um greiðsluaðlögun einstaklinga um að taka beri tillit til heilsu, aldurs og félagslegra [aðstæðna] og í því sambandi til greinargerðar laga nr. 101/2010 (Greinargerð; um 4. gr.) sem umboðsmaður kæranda hafi farið yfir í fyrirspurnarsvari sínu til umboðsmanns skuldara þann 30. september 2024.
Sé óskað sé eftir frekari gögnum um núverandi ástand frá barnavernd eða endurnýjað læknisvottorð muni umboðsmaður kæranda bregðast við því.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest.
Málsatvik séu þau að kærandi hafi lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun þann 12. janúar 2024. Í hinni kærðu ákvörðun hafi núverandi fjárhagsstaða kæranda verið rakin auk annarra upplýsinga sem málið varði. Við meðferð málsins hafi komið í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf, dags. 13. febrúar 2024, þar sem henni hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Viðbrögð kæranda hafi borist með tölvupóstum 12. og 21. mars 2024. Með ákvörðun, dags. 9. apríl 2024, hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun með vísan til j-liðar 6. gr. lge. Þann 22. apríl 2024 hafi úrskurðarnefnd velferðarmála borist kæra á framangreindri ákvörðun embættisins. Úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi legið fyrir þann 14. ágúst 2024 og málinu verið vísað til meðferðar að nýju hjá umboðsmanni skuldara.
Í kjölfar úrskurðarins hafi umsóknin verið tekin til meðferðar að nýju og embættið sent kæranda og umboðshafa hennar fyrirspurnarbréf þann 17. september 2024. Viðbrögð umboðshafa kæranda hafi borist með tölvupósti 1. október 2024. Með ákvörðun dags. 24. október 2024 hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun með vísan til j-liðar 6. gr. lge. Um málsatvik og forsendur vísist að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar.
Umboðsmanni skuldara beri við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til j-liðar 6. gr. lge. Í hinni kærðu ákvörðun sé einnig farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærist undir umrætt ákvæði 6. gr. lge.
Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og gögn málsins hafi umboðsmaður skuldara engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því verið tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.
Í hinni kærðu ákvörðun segir að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær aðstæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.
Embættið hafi sent þann 13. febrúar 2024 fyrirspurnarbréf þar sem rakin hafi verið þau atriði sem gætu leitt til synjunar á umsókn hennar um greiðsluaðlögun. Með bréfinu hafi verið óskað eftir viðbrögðum og svörum frá henni sem veittu skýringar á þeim atriðum sem þar hafi komið fram. Svör hafi borist frá umboðshafa hennar í málinu á tímabilinu 12.-21. mars 2024.
Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi verið synjað með ákvörðun embættisins dags. 9. apríl 2024 með vísan til j-liðar 6. gr. lge. Þann 22. apríl 2024 hafi úrskurðanefnd velferðarmála borist kæra hennar á framangreindri ákvörðun embættisins. Úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi legið fyrir þann 14. ágúst. Samkvæmt úrskurðinum hafi ákvörðun embættisins um synjun á umsókn hennar til að leita greiðsluaðlögunar verið felld úr gildi og umsókninni vísað til meðferðar að nýju hjá umboðsmanni skuldara.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála sé rakið að embættinu hafi borið að óska sérstaklega eftir skýringum og eftir atvikum gögnum frá kæranda um hvort hún hafi verið greiðslufær þegar hún ráðstafaði fjármunum inn á reikning eiginmanns hennar sem hann hafi í kjölfarið nýtt til íbúðakaupa.
Í kjölfar úrskurðarins hafi umsóknin verið tekin til meðferðar að nýju og sendi embættið kæranda og umboðshafa hennar fyrirspurnarbréf þann 17. september 2024.
Líkt og rakið sé í framangreindu fyrirspurnarbréfi, hafi kærandi selt fasteign að C þann X. september 2022. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hún fengið 7.054.620 kr. greiddar í kaupsamningsgreiðslu þann X. september, 17.991.658 kr. þann 15. september og 764.788 kr. þann 10. nóvember 2022, auk þess sem áhvílandi veðlán hjá Arion banka hafi verið greitt upp.
Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali ársins 2023, vegna tekjuársins 2022, kom fram að kærandi hafi nýtt þann söluhagnað sem hún fékk við sölu á eign hennar að C til kaupa á eign að D. Samkvæmt opinberum upplýsingum sé eiginmaður kæranda skráður eigandi þeirrar íbúðar og ekki verði séð af opinberum gögnum að hún hafi verið skráður eigandi að eign á því heimilisfangi.
Samkvæmt opinberum upplýsingum hafi kærandi fyrst verið skráð eigandi að eigninni að C í októbermánuði X þegar hún kaupi eignina af F á X kr. Þá hafi afsali á eigninni að C verið þinglýst þann X. september 2019. Þar afsali kærandi eigninni til G. Kaupverð eignarinnar hafi ekki komið fram í afsalinu en samkvæmt þeim upplýsingum sem þar komi fram sé það að fullu greitt og að hluta til með því að kaupandi hafi tekið að sér að greiða áhvílandi veðskuldir. Þann X. júní 2022 hafi verið móttekið til þinglýsingar annað afsal vegna eignarinnar að C en þar sé afsalsgjafi G og kærandi skráður kaupandi. Samkvæmt því gagni hafi kaupverð eignarinnar verið skráð X kr. Þar komi fram að við kaupin taki kærandi að sér að greiða af veðskuld sem á eigninni hvíli að fjárhæð 16.155.693 kr. Þá komi fram í afsalinu að aðilar hafi gert upp sín á milli mismun á kaupverði og áhvílandi veðskuld. Eins og áður hafi komið fram seldi kærandi eignina aftur í septembermánuði sama ár á X kr. Í svörum frá B, föður kæranda og umboðshafa í málinu, dags. 12. mars 2024, komi fram að G sé móðir kæranda.
Það sé óumdeilt í málinu að þegar salan á eign kæranda að C gekk í gegn í september 2022 hafi hún greitt upp talsvert af lausaskuldum. Að auki hafi hún ráðstafað 12.069.000 kr. inn á reikning í nafni E, eiginmanns síns , þann 16. september 2022. Þá hafi hún að sögn umboðshafa í málinu jafnframt millifært 1.660.000 kr. í fimm aðskildum færslum á tímabilinu 4. október 2022 til 1. mars 2023 inn á reikning í nafni eiginmanns síns. Í þeim svörum sem fyrir liggi frá umboðshafa í málinu kemur fram að þeim hluta söluhagnaðarins sem ráðstafað hafi verið inn á reikning í eigu eiginmanns kæranda hafi verið ætlað að standa undir kaupum hans á íbúð að D.
Í j-lið 6. gr. lge. komi fram að synja beri um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.
Fjallað sé um riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 (gþl.) í XX. kafla laganna. Þar segi í 2. mgr. 131. gr. að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag. Þá segi í 141. gr. gþl. að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaður verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafi haft hag af henni vissi eða hafi mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Í 2. mgr. 2. gr. gþl. sé fjallað um frestdag í skilningi laganna. Þar komi fram að frestdagur sé sá dagur sem héraðsdómara berist beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að við beitingu j-liðar 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga við frestdag í skilningi gþl. Frestdagur í þessu máli hafi því samkvæmt þessu verið 12. janúar 2024, eða þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærandi verið með yfirdrátt hjá Arion banka að fjárhæð 1.175.728 kr. þann 16. september 2022, þegar framangreind millifærsla hafi verið gerð, og vextir af yfirdrættinum þá numið 13,25% samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Fjárhæð þeirra vaxta sem hún hafi þurft að greiða í septembermánuði 2022 vegna yfirdráttarins hafi því numið 12.982 kr. Þá hafi ekki verið gert ráð fyrir neinni greiðslu til lækkunar yfirdrættinum. . Einnig hafi kærandi stofnað hún til greiðslusamnings við Valitor þann 22. júní 2022 að fjárhæð 77.625 kr. til 18 mánaða. Áætluð mánaðarleg afborgun af því láni hafi verið 5.079 kr. Lánið hafi verið í vanskilum síðan 1. maí 2023. Þá hafi skuld hennar við Skattinn vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda verið 525.962 kr. Höfuðstóll þeirrar kröfu hafi verið 392.472 kr. og hafi verið stofnað til stórs hluta gjalda þessara árið 2018. Eftir að kærandi seldi fasteign sína að C hafi verið ljóst samkvæmt framangreindu að eignastaða hennar hafi verið neikvæð.
Þá hafi kærandi stofnað til neðangreindra skuldbindinga á tímabilinu 1. október 2022 til 16. desember 2022.
Kröfuhafi |
Lánanr. |
Stofndagur |
Fjárhæð |
Lengd |
Elsti ógreiddi |
Staða |
Afborgunar fjárhæð |
Farsímagreiðslur |
X |
X.10.2022 |
258.698 |
36 |
1.4.2023 |
371.041 |
8.754 |
Farsímagreiðslur |
X |
X.10.2022 |
186.290 |
36 |
1.4.2023 |
263.194 |
6.304 |
Aur |
X |
X.10.2022 |
300.000 |
24 |
1.6.2023 |
511.461 |
14.930 |
Landsbankinn* |
X |
X.10.2022 |
1.741.000 |
60 |
1.8.2023 |
1.699.801 |
39.088 |
Aur app |
X |
X.10.2022 |
100.000 |
24 |
1.8.2023 |
131.846 |
5.210 |
Salt pay |
X |
X.10.2022 |
839.855 |
36 |
2.4.2023 |
695.070 |
26.081 |
Farsímagreiðslur |
X |
X.12.2022 |
103.500 |
36 |
1.4.2023 |
202.942 |
3.503 |
Greiðslumiðlun |
X |
X.11.2022 |
222.980 |
36 |
2.6.2023 |
287.381 |
8.562 |
Greiðslumiðlun |
X |
X.11.2022 |
299.960 |
36 |
2.6.2023 |
478.042 |
11.320 |
Greiðslumiðlun |
X |
X.11.2022 |
164.970 |
36 |
2.6.2023 |
243.121 |
6.571 |
Valitor |
X |
X.11.2022 |
134.022 |
36 |
1.6.2023 |
197.322 |
5.503 |
Valitor |
X |
X.12.2022 |
103.500 |
36 |
1.6.2023 |
151.804 |
4.396 |
Samtals |
4.454.775 |
5.233.025 |
140.222 |
* Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi kærandi stofnað til yfirdráttarheimildar við bankann þann 2. október 2022 að fjárhæð 619.000 kr., heimildin verið hækkuð í fimm skrefum á tímabilinu 3. október til 6. október 2022 úr 619.000 kr. í 1.741.000 kr. Yfirdráttarheimildin hafi verið greidd upp þann 6. október 2022 með láni nr. X.
Í septembermánuði 2022 hafi tekjur kæranda eftir greiðslu skatta og annarra gjalda numið 233.538 kr. Í októbermánuði hafi tekjur hennar numið 177.358 kr. eftir greiðslu skatta og annarra gjalda og í nóvember hafi tekjurnar numið 245.908 kr. Í desembermánuði sama ár hafi kærandi svo fengið uppgjör frá Lífeyrissjóði I, auk annarra tekna og námu tekjur hennar þann mánuð 1.548.160 kr. eftir greiðslu skatta og annarra gjalda.
Samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara hafi heildarframfærslukostnaður fjölskyldu miðað við tvo fullorðna og eitt barn verið 332.461 kr. á mánuði. Sé gert ráð fyrir því að hún greiddi helming af þeirri fjárhæð væri hennar hlutur í framfærslunni 166.230 kr. á mánuði. Við það bætist afborgun af húsnæðislánum, rafmagni, hita, hússjóði og tryggingum. Sé miðað við þann kostnað sem umboðshafi kæranda hafi skilað inn gögnum fyrir undir vinnslu málsins sé áætlað að hlutur kæranda í þeim útgjöldum nemi 126.762 kr. á mánuði. Heildarframfærslukostnaður kæranda seinni hluta árs 2022 hafi því numið 292.992 kr. á mánuði.
Eins og að framan hafi verið rakið hafi eignastaða kæranda í september 2022 verið neikvæð eftir að eign hennar að C hafði verið seld og söluandvirðinu ráðstafað. Þá hafi legið fyrir að tekjur kæranda á tímabilinu hafi verið lágar og strax í kjölfar sölu fasteignarinnar hafi hún stofnað til umtalsverðra skuldbindinga síðustu mánuði ársins 2022 og á árinu 2023. Margar skuldbindingar hafi verið komnar í vanskil fyrri hluta árs 2023. Heildarstaða skulda sé nú rúmar 13 milljónir króna.
Svör hafi borist frá umboðshafa kæranda í málinu þann 1. október 2024. Í svarinu hafi komið fram útlistun á ferli málsins líkt og þegar hafi verið rakið. Þá hafi umboðshafi farið yfir að við sölu á íbúð kæranda í C hafi kærandi komið skuldum sínum í skil. Þá hafi umboðshafi jafnframt áréttað að greiðslumat hennar (sic.) hafi verið hækkað hjá Creditinfo [samhliða] bættum skilum sem illu heilli hafi orðið ástæða nýrrar skuldasöfnunar. Þá hafi komið fram að það væri mat umboðshafa að kærandi hafi verið gjaldfær þegar horft sé til þeirra skulda sem hún hafi stofnað til á tímabilinu 1. október til 16. desember 2022. Í svari umboðshafa segi:
„Það er mitt mat sem umboðsmanns A að líta megi svo á að það hafi hún verið varðandi þessar nýrri skuldir sem voru til 2 og 3 ára 5.233.025 kr. með greiðslubyrði uppá 100 þús. kr. á mánuði að undanskildu (viðbœttu) 5 ára láni í Landsbanka sem hefði mátt breyta eða verið umsemjanlegt til mun lengri tíma.“
Þá bendir umboðshafi jafnframt á að árstekjur kæranda eftir skatta hafi á árinu 2023 numið 5.226.073 kr. auk þess sem vísað sé til tekna eiginmanns hennar.
Í svörum sínum hafi umboðshafi vísað til þess að í lögskýringargögnum með lge. sé víða vikið að ólíkri félagslegri stöðu skuldara. Þá segi umboðshafi:
„[…] eins minnt á að markmið og tilgangur greiðsluaðlögunar er annað en gjaldþrotaskipta, sem er sameiginlegt uppgjör kröfuhafa á búi skuldara, og hagsmunir kröfuhafa eru leiðarljós við uppgjör búsins. Því er ekki að neita að það veldur vonbrigðum að þessi viðhorf eru ekki áberandi í málflutningi og áherslu Umboðsmanns skuldara í máli A“
Fram komi í umfjöllun í úrskurði úrskurðanefndar velferðarmála nr. 22/2015 að riftunarreglur gþl. fjalli um takmarkanir á því að þrotamaður geti gefið gjafir í tiltekinn tíma áður en hann varð ógjaldfær. Meðal þeirra skilyrða sem þurfi að vera uppfyllt til að gjöfin sé riftanleg sé að hún skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hafi verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmi margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi.
Í úrskurðinum hafi jafnframt verið vísað til þess að þau sjónarmið sem séu að baki riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga varði jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem séu fyrir riftun sé að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þurfi hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi eða í þessu tilviki kröfuhöfum til tjóns.
Eins og að framan hafi verið rakið varð eignastaða kæranda neikvæð við tilfærslu á fjármunum til eiginmanns hennar þann 16. september 2022. Þá hafi jafnframt verið raktar þær skuldir sem hvíldu á kæranda þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd sem og þær skuldir sem hún hafi stofnað til strax í kjölfarið.
Í svörum frá umboðshafa í málinu frá 21. mars 2024 hafi komið fram að ástæða þess að eiginmaður kæranda, hafi verið skrifaður fyrir nýju íbúðinni hafi verið skiljanleg varúð gagnvart framtíðinni að fenginni biturri reynslu af fjármálum kæranda. Að mati embættisins hafi þarna verið vísað til veikinda hennar en þau hafi verið staðfest með læknisvottorði frá geðlækni, dags. 29. febrúar 2024.
Eins og rakið sé að framan sé það skilyrði 2. mgr. 131. gr. gþl. að krefjast megi riftunar á gjafagerningi nema að leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Hugtakið gjaldfærni hafi verið talið geta átt við bæði ógreiðslufærni og neikvæða eignastöðu. Þegar greiðslufærni aðila sé metin sé ekki einungis átt við þau tilvik þegar kröfur þrotamanns hafi þegar fallið í gjalddaga heldur kunni einnig að vera að fyrirsjáanlegt sé að ekki verði staðið í skilum. Skera þurfi úr um hvort hlutaðeigandi geti ekki staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra falli í gjalddaga og ekki verði talið, að greiðsluörðugleikar muni líða hjá innan skamms tíma. Slíkt þurfi að meta með hliðsjón af ýmsum atriðum, t.d. eignastöðu og tekjumöguleikum viðkomandi.
Samkvæmt 6. gr. lge., sbr. breytingar sem gerðar hafi verið á ákvæðinu með lögum nr. 21/2024, hafi umboðsmaður skuldara heimild til að samþykkja umsókn, þrátt fyrir að synjunargrundvöllur liggi fyrir, séu sérstakar aðstæður fyrir hendi. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 21/2024 kemur fram að umboðsmanni skuldara beri að leggja heildstætt mat á málið og meta hvort sérstakar aðstæður skuldara eigi að leiða til þess að samþykkja beri umsóknina. Ýmsar sérstakar aðstæður geti komið til skoðunar en einkum sé vísað til veikinda, erfiðra félagslegra aðstæðna og eftir atvikum hás aldurs skuldara. Í einhverjum tilfellum kunni mat umboðsmanns skuldara að vera á þann veg að synja beri máli, þrátt fyrir sérstakar aðstæður skuldara, þar sem þau atvik sem leiða eigi til synjunar vegi þyngra í matinu og ekki teljist því hæfilegt að samþykkja umsókn.
Með vísan til svara umboðshafa um að nauðsynlegt hafi verið talið, með vísan til veikinda kæranda, að eiginmaður hennar fengi fjármuni við söluna til að kaupa á íbúð í sínu nafni, hafi það verið heildstætt mat embættisins að ekki teldist hæfilegt að samþykkja umsókn kæranda á grundvelli sérstakra aðstæðna. Í þessu tilfelli vegur tilfærsla fjármuna til aðstandanda þyngra í matinu þar sem sú tilfærsla var tilkomin út af aðstæðum umsækjanda, en ekki framkvæmd fyrir mistök vegna veikinda hennar.
Að mati embættisins hafi sú ráðstöfun sem að ofan greinir verið riftanleg í skilningi j-liðar 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr. og 141. gr. gþl. Kærandi hafi ráðstafað umtalsverðri fjárhæð, sem kom í hennar hlut vegna sölu á eign hennar að C, til eiginmanns síns með millifærslu þann 16. september 2022, eða um sextán mánuðum fyrir frestdag. Á þeim tíma hafi tekjur kæranda verið lágar og vart dugað fyrir framfærslukostnaði. Þá hafi legið fyrir að við þessa ráðstöfun varð eignastaða kæranda neikvæð. Að mati embættisins hafi kærandi verið ógreiðslufær, enda hafði hún ekki greiðslugetu til greiðslu þeirra skulda sem á henni hvíldu, auk þess sem hún stofnaði strax í kjölfarið til umtalsverðra skuldbindinga. Umrædd ráðstöfun hafi verið framkvæmd af kæranda og hennar aðstandendum með þeim tilgangi að koma eigninni undan því að verða mögulegt andlag innheimtuaðgerða kröfuhafa.
Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. 17. september 2024, og hafi í bréfinu verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar til greind álitaefni og leggja fram gögn. Telur embættið sig hafa veitt kæranda færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með greindu ábyrgðarbréfi.
IV. Niðurstaða
Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar byggist á j-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim aðstæðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt j-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.
Regla j-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl). Þau sjónarmið sem þar búa að baki varða jafnræði kröfuhafa og er gengið út frá því að möguleiki kröfuhafa til að fá fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi, þ.e. kröfuhöfum kæranda í þessu tilviki, til tjóns.
Í 131. gr. gþl. koma fram reglur um riftun gjafagerninga. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar er almenna reglan sú að krefjast má riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuði fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildir einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram sem var 12. janúar 2024. Þá er skilgreint í 3. gr. gþl. hverjir teljist nákomnir í skilningi laganna en í 1. tl. 3. gr. kemur fram að til nákominna teljist hjón og þeir sem búa í óvígðri sambúð. Þá hefur gjafahugtak ákvæðisins að geyma þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi að gjöf rýri eignir skuldara, í öðru lagi að gjöf leiði til eignaaukningar hjá móttakanda hennar og í þriðja lagi að tilgangurinn með gerningi hafi verið að gefa.
Samkvæmt gögnum málsins millifærði kærandi þann 16. september 2022 hluta af söluandvirði fasteignar sinnar að C, alls 12.069.000 kr. inn á reikning í eigu eiginmanns síns. Líkt og fram hefur komið er miðað við að frestdagur í skilningi gþl. hafi verið 12. janúar 2024 og liðu því tæplega 16 mánuðir frá því að kærandi millifærði fjármunina á reikning eiginmanns síns og þar til hún sótti um heimild til greiðsluaðlögunar.
Vangeta til að standa við skuldbindingar sínar getur bæði stafað af því að skuldir eru meiri en eignir og af ógreiðslufærni. Síðarnefnda hugtakið veit að framtíðinni, þ.e. hvort skuldari muni geta staðið í skilum þegar kröfur á hendur honum falla í gjalddaga og hvort telja megi að greiðsluerfiðleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ljóst að eignastaða hennar varð neikvæð í kjölfar þess að kærandi seldi fasteign sína og millifærði alls 12.069.000 kr. af eigin fé á bankareikning eiginmanns síns þann 16. september 2022. Úrskurðarnefndin telur að fyrrgreind ráðstöfun kunni að varða við ákvæði 131. gr. gþl. Þá telur úrskurðarnefndin einnig liggja fyrir samkvæmt framlögðum gögnum að kærandi varð í kjölfarið ófær um að geta staðið í skilum með kröfur á hendur sér, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum námu skuldbindingar hennar alls 5.233.025 kr. þegar umræddur gerningur fór fram. Verður því að fallast á mat umboðsmanns skuldara um að hafna umsókn kæranda með vísan ákvæða j-liðar 6. gr. lge.
Umboðsmanni skuldara er heimilt, þrátt fyrir að grundvöllur til synjunar liggi fyrir, að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Í þessu felst að umboðsmaður skuldara leggur heildstætt mat á málið og metur aðstæður skuldara. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ýmsar ástæður geti komið til en einkum sé vísað til veikinda, erfiðra félagslegra aðstæðna og eftir atvikum hás aldurs skuldara. Í einhverjum tilvikum kann mat umboðsmanns skuldara að vera á þann veg að synja beri máli, þrátt fyrir sérstakar aðstæður skuldara, þar sem þau atvik sem leiða eigi til synjunar vega þyngra í matinu og ekki telst því hæfilegt að samþykkja umsókn.
Í hinni kærðu ákvörðun virðist fallist á að aðstæður kæranda séu sérstakar sökum veikinda hennar en að ekki teldist hæfilegt að samþykkja umsókn kæranda á þeim grundvelli. Vísar umboðsmaður til þess að tilfærsla fjármuna til aðstandanda vegi þyngra í matinu þar sem sú tilfærsla kom til vegna aðstæðna kæranda, en var ekki framkvæmd fyrir mistök vegna veikinda hennar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda geti ekki talist hæfilegt að samþykkja umsókn hennar um greiðsluaðlögun, enda þykir sýnt að umrædd ráðstöfun hafði verulega áhrif á fjárhag kæranda og jafnframt á möguleika kröfuhafa á að fá fullnustu krafna sinna.
Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
_______________________________________
Kári Gunndórsson