Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 39/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 39/2017

Miðvikudaginn 3. maí 2017

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. janúar 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. janúar 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 3. febrúar 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. febrúar 2017. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. febrúar 2017 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 27. febrúar 2017. Athugasemdirnar voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 28. febrúar 2017 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Með tölvupósti 2. mars 2017 upplýsti umboðsmaður skuldara að embættið teldi ekki þörf á að aðhafast frekar vegna málsins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1974. Hann býr ásamt sambýliskonu og X börnum í húsnæði sambýliskonu að B. Kærandi er eigandi íbúðar að C. Kærandi er […] og starfar hjá D ehf.

Heildarskuldir kæranda eru 35.513.958 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 6. apríl 2017. Kærandi stofnaði til helstu skulda á árinu 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til kaupa á íbúðarhúsnæði á árinu 2007 og launalækkunar.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 1. ágúst 2012 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. janúar 2013 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í ákvörðun umboðsmanns og sérstöku fylgiskjali með henni var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Alls hafa þrír umsjónarmenn komið að máli kæranda.

Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. ágúst 2015. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 25. ágúst 2016 var ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar umboðsmanns að nýju.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 11. október 2016 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans á ný, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kæranda barst með tölvupósti 5. október 2016. Umboðsmaður sendi kæranda annað bréf 6. janúar 2017 þar sem honum var boðið að gefa skýringar og framvísa gögnum um veltu á bankareikningi. Kærandi svaraði með tölvupósti 7. janúar 2017.

Með ákvörðun 13. janúar 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveður sér hafa verið vísað úr greiðsluaðlögun fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að standa í skilum, þó að honum hafi verið bannað að greiða Íbúðalánasjóði, og einnig fyrir að hafa ekki aflað tekna fyrir útleigu á fasteign.

Kærandi kveðst hafa lánað kunningja fasteign sína og hann fengið 90.000 krónur til 100.000 krónur á mánuði í leigutekjur. Kærandi hafi greitt samsvarandi fjárhæð til sambýliskonu „sem leigu“. Kærandi segist alltaf hafa verið heiðarlegur við umboðsmann skuldara og hafi sagt frá þessum tekjum en umsjónarmaður hafi viljað sjá millifærslur í banka sem ekki séu fyrir hendi.

Kærandi telur að 90.000 krónur til 100.000 krónur sé gott fyrir þriggja herbergja íbúð á C, sérstaklega þegar litið sé til fyrirliggjandi óvissu. Kærandi viti aldrei hvort eignin verði seld ofan af honum í næsta mánuði. Þegar kunningi kæranda hafi komið í íbúðina hafi verið búið að vísa kæranda úr greiðsluaðlögun. Hann hafi kært sem hafi átt að taka tvo mánuði en tekið mun lengri tíma.

Kærandi leggi fyrir og uppfylli allar skyldur gagnvart umboðsmanni skuldara. Kærandi skilji ekki af hverju það sé ekki gerður við hann samningur í stað þess að vísa honum stöðugt úr úrræðinu. Hvaða hagsmuni sé verið að vernda? Að minnsta kosti hvorki hagsmuni kæranda né kröfuhafa.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að ákvæði 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að 31. ágúst 2015 hafi kærandi flutt lögheimili sitt frá C, sem sé fasteign í hans eigu, yfir á B. Aðspurður hafi kærandi skýrt frá því að hann væri nú búsettur í fasteign sambýliskonu sinnar og greiddi henni 100.000 krónur í húsaleigu. Hann hafi jafnframt skýrt frá því að kunningi hans væri búsettur í eigninni að C og greiddi honum 90.000 krónur til 100.000 krónur á mánuði fyrir afnot af eigninni. Kærandi hafi þó ekki getað lagt fram nein gögn til staðfestingar á umræddum leigutekjum. Í tölvupósti hans til Embættis umboðsmanns skuldara 7. janúar 2016 hafi komið fram að líta mætti svo á að fasteignin hefði staðið auð. Sé gengið út frá því sem kærandi hafi skýrt frá að hann hefði getað fengið 90.000 krónur á mánuði í leigutekjur fyrir eignina, megi ætla að tekjur hans vegna útleigu hefðu að minnsta kosti getað numið 1.440.000 krónum á tímabilinu september 2015 til janúar 2017.

Samkvæmt þessu telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa í skilum eftir því sem honum hafi frekast verið unnt með því að afla ekki tekna fyrir útleigu á fasteign sinni, á sama tíma og kröfur hans hafi verið í vanskilum og eftir að hann hafði fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Sé þetta andstætt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna til umboðsmanns skuldara ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á slíku. Synjunarástæður af þessum toga eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr., sbr. 3. gr. lge. Lánardrottnum er þá óheimilt að krefjast greiðslna eða taka við greiðslum á þeim kröfum sínum sem falla undir greiðsluaðlögun. Í málinu liggur fyrir að allar kröfur kæranda falla innan greiðsluaðlögunar, sbr. 3. gr. lge., og lúta þær því allar greiðslufrestun.

Í 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að kærandi hafi látið hjá líða að standa í skilum með því að afla ekki tekna vegna útleigu á íbúð sinni á sama tíma og kröfur hans voru í vanskilum. Í málinu hefur ekki verið leitt í ljós að með framgöngu sinni að þessu leyti hafi kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt svo sem áskilið er í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Verða greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda því ekki felldar niður á grundvelli þess ákvæðis.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. hefur skuldari tilteknar skyldur við greiðsluaðlögun. Meðal þeirra er skylda samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að á meðan skuldari njóti greiðsluskjóls, samkvæmt 11. gr. lge., hvíli jafnan á honum sú skylda að innheimta eðlilegt endurgjald fyrir afnot þriðja aðila af eignum sínum. Hefði því getað komið til álita hvort c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. ætti við í málinu.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær aðstæður sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu. Ber því að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar-umleitana A.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar að nýju.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta