Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 418/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 418/2017

Fimmtudaginn 18. janúar 2018

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 30. október 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. október 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 14. nóvember 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. nóvember 2017.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. nóvember 2017 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1946. Hann býr ásamt eiginkonu sinni í íbúð þeirra að B, sem er 198 fermetrar að stærð. Kærandi er skráður eigandi 50% eignarinnar á móti eiginkonu sinni.

Heildarskuldir kæranda eru 80.899.638 krónur samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun frá 2017. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2010.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til fasteignakaupa, hærri afborgana af lánum og lægri tekna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 5. desember 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Því væri ekki annar möguleiki fyrir hendi samkvæmt lge. en að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að talið væri nauðsynlegt að selja fasteign kæranda þar sem hann gæti ekki greitt af áhvílandi lánum innan matsverðs fasteignarinnar. Einnig taldi umsjónarmaður eignina óhóflega í skilningi 13. gr. lge. Í bréfinu kom einnig fram að kærandi hefði lýst því yfir við umsjónarmann að hann væri ekki reiðubúinn til að taka ákvörðun um að selja fasteignina vegna óvissu um endurútreikning áhvílandi veðlána. Umsjónarmaður taldi ekki rétt að fresta ákvörðun um áframhald máls vegna þessa og lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 13. lge.

Með ákvörðun 2. apríl 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge., þar sem kærandi hefði staðið í vegi fyrir sölu fasteignar sinnar. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 13. október 2016 þar sem samþykki meðeiganda fyrir sölu á eigninni lá ekki fyrir. Málið barst því umboðsmanni skuldara að nýju til efnislegrar meðferðar og var nýr umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Umboðsmanni skuldara barst tilkynning frá nýjum umsjónarmanni 25. ágúst 2017 þar sem aftur var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., þar sem litið var svo á að kærandi stæði í vegi fyrir sölu á fasteigninni með því að afla ekki samþykkis meðeiganda síns fyrir henni og gefa ekki upp hver afstaða þeirra til sölunnar væri.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda í framhaldinu bréf 20. september 2017 þar sem honum var tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem gætu leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Þá var kæranda jafnframt veittur tveggja vikna frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun yrði tekin um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Kærandi vísaði til þess í tölvupósti til umboðsmanns skuldara 16. október 2017 að hann hefði farið fram á að Arion banki hf. endurreiknaði kröfur á hendur honum en upplýsingar frá bankanum þar að lútandi væru að hans mati misvísandi.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. október 2017 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður á ný með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Þeirri ákvörðun hefur kærandi nú skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og er sú kæra til

meðferðar í máli þessu.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer þess á leit að málið verði sent aftur til umboðsmanns skuldara með ósk um að embættið hlutist til um að fá fram réttar fjárhæðir áhvílandi fasteignaveðkrafna hjá Arion banka hf. Nái það fram að ganga heiti kærandi því að viðlögðum drengskap að samþykkja sölu á íbúð þeirra hjóna og staðfesti eiginkona hans það með undirskrift sinni. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveður ýmis atriði í ákvörðun umboðsmanns athugunarverð. Þannig hafi ýmsar skýringar aðalkröfuhafa verið ruglingslegar og augljóst að mótsagnir hafi verið í kröfugerðinni. Aðal ásteytingarsteinninn hafi verið sá að eiginkona kæranda, sem eigi íbúðarhúsnæði þeirra til helminga á móti honum, hafi viljað fá að vita hver fjárhæð veðkrafna væri áður en hún skrifaði undir samþykki um sölu eignarinnar.

Eftir áralangar tilraunir hafi kærandi loks átt fund með Arion banka hf. um kröfur bankans á hendur sér. Ekki hafi enn borist svar frá bankanum um þær athugasemdir sem kærandi hafi gert við útreikning, ráðstöfun lánsfjár og framgöngu bankans. Einhvers misskilnings gæti um hvort bankinn hafi samþykkt að endurreikna lánin eða fara yfir fyrirliggjandi útreikninga.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. frumvarps til lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar þyki honum ástæða til.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi til lge. sé jafnframt vísað til þess að skuldara skuli að jafnaði gefinn kostur á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis.

Kærandi eigi 50% hlut í fasteign að B. Maki kæranda sé meðeigandi. Um sé að ræða 172,4 fermetra íbúð í tvíbýlishúsi ásamt 25,2 fermetra bílskúr, eða samtals 194,4 fermetra eign. Fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2017 sé 63.250.000 krónur og hafi markaðsvirði hennar verið áætlað um 69.000.000 til 72.000.000 króna.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 20. september 2017 sé vísað til fjárhæða krafna samkvæmt drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunar þar sem fram komi að staða veðlána sé um 63.000.000 króna. Að mati umboðsmanns megi leiða líkur að því að kæmist á greiðsluaðlögunarsamningur myndu veðlán hjá Arion banka hf. lækka þar sem bankinn endurreiknaði lánin og felldi niður þá dráttarvexti sem reiknast hefðu á þau í greiðsluskjóli. Kröfur sem ekki séu veðtryggðar nemi alls um 12.900.000 krónum samkvæmt kröfulýsingu. Ljóst sé að skuldabréfakrafa Arion banka hf. sé hærri en kröfulýsing beri með sér og því sé samanlögð fjárhæð óveðtryggðra krafna hærri. Þá sé einnig rakið í bréfinu að mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé áætluð 109.602 krónur.

Í kjölfar fundar kæranda með starfsmanni Arion banka hf. 12. október 2017 hafi hann komið á fund starfsmanns umboðsmanns skuldara og greint frá því að bankinn hefði samþykkt beiðni hans um að endurreikna lánin. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir því að embættið biði með að taka ákvörðun í málinu þar til endurútreikningur lægi fyrir. Embættið hafi í framhaldinu haft samband við Arion banka hf. til að fá staðfestingu á því að lánin yrðu reiknuð upp ef til samnings um greiðsluaðlögun kæmi. Í svörum bankans hafi komið fram að ekki hefði verið samþykkt að endurreikna lánin heldur að skoða þá útreikninga sem kærandi væri ósáttur við.

Tillaga um að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar byggi ekki á fjárhæðum krafna eða greiðslugetu hans heldur á því að fasteign kæranda teljist óhófleg að stærð og verðmæti að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna og þess að kærandi sé einstaklingur sem sótt hafi um greiðsluaðlögun vegna verulegra greiðsluerfiðleika. Það myndi ekki samræmast markmiði og tilgangi lge. að umsækjandi um greiðsluaðlögun fengi að halda slíkri eign.

Í hinni kærðu ákvörðun vísar umboðsmaður skuldara til þess að við vinnslu málsins hafi nýr umsjónarmaður einnig komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að kveða á um sölu á fasteign kæranda í samræmi við ákvæði 13. gr. lge. Þótt kærandi hefði ekki lýst sig andvígan því að selja eignina hefði hann sett fyrirvara við samþykki sitt fyrir sölunni og ekki orðið við því að tilnefna fasteignasölu til að annast hana. Þá hafi meðeigandi að eigninni sett sömu fyrirvara við söluna.

Að mati umboðsmanns skuldara sé fasteign kæranda að B, þar sem hann eigi 50% eignarhlut, þannig óhóflega dýr og sé bersýnilega umfram þarfir kæranda og maka hans að stærð. Sú ákvörðun kæranda að hlutast ekki til um að koma eigninni í söluferli og útvega ekki samþykki meðeiganda fyrir sölu á eigninni standi því í vegi fyrir að koma megi á samningi um greiðsluaðlögun honum til handa.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hann telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að hann verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Í máli þessu hefur umsjónarmaður mælt fyrir um að selja skuli fasteign kæranda en hann er skráður eigandi 50% eignarhluta fasteignarinnar að B á móti eiginkonu sinni. Ákvörðun hans er meðal annars byggð á því að húsnæðið sé óhóflegt að stærð og verðmæti í ljósi fjölskyldustærðar kæranda. Samkvæmt gögnum málsins hafa bæði kærandi og eiginkona hans sett fyrirvara við samþykki sitt fyrir sölu fasteignarinnar. Sá fyrirvari varðar útreikning veðkrafna Arion banka hf. sem hvíla á eigninni. Eins og þegar hefur verið rakið skal umsjónarmaður meðal annars líta til stærðar og verðmætis íbúðarhúsnæðis þegar hann tekur ákvörðun um hvort selja skuli fasteign á grundvelli 13. gr. lge. Enn fremur ber honum að líta til þess hvort skuldari geti staðið undir afborgunum af húsnæðinu eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Þá má umsjónarmaður einnig taka tillit til aðstæðna skuldara. Hafni skuldari því að selja íbúðarhúsnæði sitt við ofangreindar aðstæður ber að fella heimild hans til greiðsluaðlögunar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að með því að kærandi hafi ekki útvegað samþykki meðeiganda síns að áðurnefndri fasteign sé litið svo á hann komi í veg fyrir sölu hennar, sbr. síðari málslið 5. mgr. 13. gr. lge. Úrskurðarnefndin telur þetta ekki hafa þýðingu í málinu en eins og málið liggur fyrir þykir ljóst hver afstaða meðeiganda kæranda til sölu fasteignarinnar er en hvorugt þeirra hefur fallist á að selja eignina, þrátt fyrir ákvörðun umsjónarmanns.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki annað séð en að ákvörðun umsjónarmanns byggi á réttum forsendum. Þá þykir jafnframt ljóst af gögnum málsins að kærandi geti ekki staðið undir afborgunum af eignarhlut sínum í fasteigninni til frambúðar. Í málinu liggja nú þegar fyrir útreikningar á skuldum kæranda við Arion banka hf., en ekki hefur verið fallist á það af hans hálfu að veðlán kæranda verði endurreiknuð. Í ljósi þeirra aðstæðna, sem fyrir hendi eru í málinu, verður ekki séð að kærandi eigi rétt á frekari útreikningum við úrlausn á því hvort selja skuli eignina. Samkvæmt því ber að líta svo á að sá fyrirvari sem kærandi og meðeigandi hans geri við því að eignin verði seld, jafngildi því að koma í veg fyrir fyrirhugaða sölu hennar í skilningi síðari málsliðar 5. mgr. 13. gr. lge.

Þessi skilyrði 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. leiða til þess að fella ber niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr laganna.

Í ljósi þess, sem hér hefur verið rakið, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda hafi réttilega verið felldar niður. Samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta