Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 479/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 479/2021

Þriðjudaginn 16. nóvember 2021

 

 

A

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Þann 13. september 2021 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra  A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 3. september 2021, þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur árið X. Kærandi fær greidd námslán frá Menntasjóði námsmanna, húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning. Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 4.538.852 krónur.

 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 21. apríl 2021, var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og hófst þá tímabundin frestun greiðslna, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge). Kæranda var í framhaldinu skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum sínum. Í ákvörðun umboðsmanns og sérstöku fylgiskjali með henni var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun.

 

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara, dags. l. júní 2021 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge., sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Það væri því mat umsjónarmanns að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 15. gr. lge.

 

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 19. júlí 2021 var honum gefinn kostur á að tjá sig um mat umsjónarmanns innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana. Í bréfi umboðsmanns skuldara var greint frá því að athugun umsjónarmanns hefði leitt í ljós að kærandi hefði tekið út samtals 400.000 krónur í fjórum úttektum af greiðslukorti sínu dagana 13., 14., 16. og 20. apríl 2021. Tölvupóstur barst frá kæranda þann 27. júlí 2021 þar sem hann óskaði eftir því að umrædd fjárhæð yrði talin með öðrum samningsskuldum hans en jafnframt að hann gæti lækkað skuldina um 300.000 krónur, yrði það til þess að umsókn hans færi aftur í ferli.

 

Með ákvörðun 3. september 2021 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi 13. september 2021. Með bréfi, dags. 24. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 1. október 2021. Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda með bréfi, dags. 4. október 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi aldrei áttað sig á ferli greiðsluaðlögunar og meðferð málsins hafi verið ruglandi. Kærandi greinir frá því að umsókn hans hafi verið samþykkt 21. apríl 2021 en hann hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en honum hafi borist tölvupóstur þann 27. maí 2021 þar sem óskað hafi verið skýringum frá honum á 400.000 króna úttekt.

 

Kærandi greinir frá því að vegna hafta á flutningi fjármagns frá B hafi hann verið í óvissu um fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu sinni þar í landi. Einnig hafi hann ekki vitað hvenær hann fengi greiðslu frá Atvinnuleysistryggingasjóði sem hann hafi átt von á. Kærandi hafi farið í bankann og kannað möguleika þess að endurgreiða kreditkortaskuldina, auk þess sem hann hafi upplýst umboðsmann skuldara um að hann gæti nú þegar greitt 300.000 krónur og 100.000 krónur síðar inn á skuldina. Kæranda hafi þá verið tjáð að umsjónarmenn væru í sumarfríi en hann hafi síðan fengið senda hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi bendir á að hann hafi útskýrt fyrir umboðsmanni skuldara að staða hans á Íslandi væri erfið. Hann glími við heilsufarsvandamál og hafi þurft að fara í aðgerð. Hann búi einn á Íslandi og sé nemandi í háskóla. Umboðsmaður hafi ekki tekið tillit til 138.000 króna leigugreiðslu sem hann hafi þurft að greiða fyrir fram heldur hafi umboðsmaður einungis tekið tillit til 138.000 króna tryggingargreiðslu sem kærandi hafi þurft að greiða vegna leiguíbúðar.

 

Kærandi bendir einnig á að á þeim tíma er hann tók umrædda peninga út af greiðslukorti sínu hafi hann ekki haft upplýsingar um að umsókn hans um greiðsluaðlögun hefði verið samþykkt. Umræddar úttektir hafi átt sér stað 13., 16. og 20. apríl 2021 þegar hann hafi þurft að fara í aðgerð og þegar hann þurfti að greiða 138.000 krónur í tryggingu fyrir leiguíbúð, auk 138.000 króna leigugreiðslu. Umsókn hans um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt 21. apríl 2021, þ.e. eftir að hann tók umrædda peninga út af greiðslukorti sínu. Þá ítrekar kærandi að upplýsingar og skýrleika hafi skort við meðferð málsins.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að skýringar kæranda á skuldaaukningu í aðdraganda samþykkis umsóknar hafi verið á þann veg að hann hafi þurft á peningunum að halda til að geta staðið undir leigutryggingu og útgjöldum vegna læknisþjónustu, ásamt því að eiga fyrir framfærslukostnaði. Fyrirliggjandi sé að leigutryggingin hafi verið að fjárhæð 138.000 krónur og útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu 20.585 krónur, sbr. samantekt í bréfi embættisins frá 19. júlí 2021. Greiðslugeta kæranda hafi verið áætluð neikvæð í mánuði hverjum. Skuldaaukning kæranda vegna peningaúttekta af kreditkorti nokkrum dögum fyrir samþykki umsóknar hafi numið alls 400.000 krónum. Ekki sé dregið í efa að staða kæranda sé þröng en að mati embættisins hafi það ekki réttlætt að hann hafi aukið við skuldir sínar á sama tíma og honum mátti vera ljóst að hann gæti hvorki endurgreitt umrædda skuld né greitt af þeim skuldum sem hann hafði þegar stofnað til og væru í vanskilum.

 

Kærandi hafi leitað sér aðstoðar vegna fjárhagserfiðleika og umsjónarmaður hafi tilkynnt honum að unnt væri að samþykkja umsókn hans um greiðsluaðlögun á þeim tíma þegar hann nánast fullnýtti úttektarheimild á kreditkorti sínu hjá Landsbankanum. Í aðdraganda samþykkis umsóknar hafi kæranda verið í reglulegum samskiptum við umsjónarmann og bar þá ýmis atriði undir umsjónarmann áður en hann staðfesti að hann vildi að umsókn hans yrði samþykkt. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi borið peningaúttektir undir umsjónarmann.

 

Varðandi beiðni kæranda um að skuld vegna peningaúttekta af kreditkorti verði talin með samningsskuldum hans þá liggi fyrir að skuldin sé meðal samningsskulda, enda hafi verið stofnað til hennar áður en umsókn kærandi var samþykkt og hún ekki þess eðlis að hún félli utan greiðsluaðlögunar, sbr. 1. mgr. 3. gr. lge. Varðandi tillögu kæranda um að endurgreiða Landsbankanum 300.000 krónur af þeim 400.000 krónum sem hann tók út af kreditkorti sínu á tímabilinu 13.-20. apríl 2021, myndi slík endurgreiðsla fara í bága við a-lið 11. gr. lge. þar sem lánardrottnum sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum á meðan á tímabundinni frestun stendur.

 

Það liggi fyrir að kærandi tók út 400.000 krónur í peningum af kreditkorti sínu í aðdraganda þess að umsókn hans var samþykkt, en þá hafi hann þegar verið ófær um að standa við þær fjárhagsskuldbindingar sem hann hafði áður stofnað til og þar af leiðandi jafnframt ófær um að endurgreiða úttektirnar af kreditkortinu. Því hafi verið heimilt að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar í öndverðu á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Með því að auka við skuldir sínar eftir að hafa sótt um aðstoð vegna fjárhagsvanda hjá umboðsmanni skuldara og [óska eftir] heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Af þeim sökum hefði verið heimilt að synja honum um heimild til greiðsluaðlögunar í öndverðu á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að kæranda hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 21. apríl 2021, og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Umsjónarmaður hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 1. júní 2021, að kröfulýsing hafi leitt í ljós að kærandi hafi aukið við skuldbindingar sínar í aðdraganda þess að honum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar og því telji umsjónarmaður rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður, sbr. 15. gr. lge. Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf af hálfu embættisins, dags. 19. júlí 2021, þar sem honum hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Bréfið hafi jafnframt verið sent kæranda í tölvupósti þann sama dag. Viðbrögð kæranda hafi borist með símtali þann 27. júlí 2021 þar sem hann hafi komið upplýsingum á framfæri. Kærandi hafi verið beðinn um að gera einnig grein fyrir málinu með skriflegum hætti og hafi skriflegar skýringar hans borist með tölvupósti þann sama dag. Kærandi hafi verið upplýstur um, bæði í símtali og í tölvupósti þann 27. júlí 2021 að málið yrði ekki tekið fyrir hjá embættinu fyrr en í ágústmánuði. Þann 31. ágúst 2021 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem honum hafi verið tilkynnt að niðurstaða embættisins væri sú að skýringar hans breyttu ekki stöðu málsins. Þann 3. september 2021 hafi kæranda verið send ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunar, bæði í ábyrgðarpósti og með tölvupósti. Með hinni kærðu ákvörðun hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge. Um málsatvik og forsendur vísist að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin.

Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge., auk þess sem þar sé farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærist undir umrædd ákvæði.

Eins og fram komi í andmælabréfi, dags. 19. júlí 2021, hafi kærandi verið upplýstur um það í tölvupósti þann 9. apríl 2021 að unnt væri að samþykkja umsókn hans um greiðsluaðlögun. Þá hafi hann jafnframt verið upplýstur um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun og þess getið að kreditkortum yrði lokað. Þann 21. apríl 2021 hafi kærandi staðfest með tölvupósti að hann vildi halda áfram með málið og hafi umsóknin verið samþykkt þann sama dag. Kærandi hafi fengið bæði tölvupóst frá umsjónarmanni og annan formlegan staðfestingarpóst frá embættinu vegna samþykkis umsóknar þann 21. apríl 2021. Frá því að kæranda hafi verið tilkynnt um möguleikann á að samþykkja umsóknina og þar til hann staðfesti að hann vildi halda áfram með málið, hafi hann verið í samskiptum við umsjónarmann vegna atriða sem hann óskaði álits umsjónarmanns á. Ekki verði tekið undir það með kæranda að embættið hafi ekki sinnt upplýsingarskyldu sinni gagnvart honum um ferli greiðsluaðlögunar og um það hvar mál hans væri statt í ferlinu hverju sinni. Hafi kærandi hins vegar verið óviss með stöðu mála, hefði honum verið í lófa lagið að leita til umsjónarmanns, eins og hann hafi gert vegna ýmissa atriða.

Hvað varðar þær upplýsingar sem fram komi í kæru og varða væntanlega peningasendingu frá B og innborgun til kæranda frá Atvinnuleysistryggingasjóði, varði þær upplýsingar ekki þær aðstæður sem leiddu til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana. Hafi kærandi hins vegar fengið greidda fjármuni umfram þá sem hann hafi þurft sér til framfærslu frá 21. apríl 2021, hafi honum borið að leggja þá til hliðar þar sem á honum hafi hvílt skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. a-liður 1. mgr. 12 gr. lge.

Í ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunar, dags. 3. september 2021, sé tekin afstaða til tilboðs kæranda um að endurgreiða 300.000 krónur af þeim 400.000 krónum sem hann hafi tekið út af kreditkorti sínu í aðdraganda þess að umsókn hans var samþykkt, yrði það til þess að umsóknin færi aftur í ferli. Embættið hafi engu við það að bæta.

Varðandi þá athugasemd kæranda að ekki sé tekið tillit til þess að hann hafi þurft að leggja út fyrir leigutryggingu og mánaðarleigu á sama tíma, skuli tekið fram að í mati á greiðslugetu kæranda hafi þegar verið tekið tillit til þess að hann greiði leigu í mánuði hverjum. Andmælabréfinu frá 19. júlí 2021 hafi fylgt greiðsluáætlun þar sem leigufjárhæð hafi verið tiltekin. Því hafi aðeins verið fjallað um leigutrygginguna og útgjöld tengd lækniskostnaði í umfjöllun um viðbótarútgjöld kæranda.

Við meðferð málsins hafi kæranda verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem hafi þótt geta leitt til niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunarumleitana. Eftir að hafa skoðað upplýsingar sem hafi borist frá kæranda og gögn málsins hafi umboðsmaður skuldara engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því hafi verið tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna. Embætti umboðsmanns skuldara fari því fram á, með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar og til þess sem fram komi í greinargerð þessari, að ákvörðunin verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fjallað er um aðstæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

 

Samkvæmt b-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skal umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

 

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 1. júní 2021 að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Umsjónarmaður taldi rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

 

Kærandi sótti um aðstoð vegna fjárhagsvanda með umsókn, dags. 29. janúar 2021. Þann 3. apríl 2021 óskaði kærandi eftir því að umsókn hans yrði breytt í umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Umsókn hans til greiðsluaðlögunar var samþykkt 21. apríl 2021 en samkvæmt gögnum málsins stofnaði kærandi til skulda að fjárhæð 400.000 krónur með reiðufjárúttektum af kreditkorti sínu dagana, 13., 14., 16. og 20. apríl 2021. Á þessum tíma var greiðslugeta kæranda neikvæð sem nam 68.148 krónum á mánuði.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun, verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c- liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara felldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til þessara ákvæða.

Fyrir liggur að kærandi stofnaði til skulda sem voru umfram greiðslugetu hans eftir að hann sótti um heimild til greiðsluaðlögunar. Úrskurðarnefndin telur því, með vísan til þess sem greinir hér að framan, að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga sem hann var greinilega ófær um að standa við. Með þessu hagaði kærandi jafnframt fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, enda gat honum ekki dulist að hann væri ekki í stakk búinn til að greiða skuldina.

Samkvæmt öllu því, sem hér hefur verið rakið, telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 15. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A, til greiðsluaðlögunar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_______________________________________

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta