Mál nr. 43/2012
Mánudaginn 10. febrúar 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 21. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 27. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. mars 2012.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 30. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 27. apríl 2012.
Athugasemdir kæranda voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 3. maí 2012. Framhaldsgreinargerð barst frá umboðsmanni skuldara með bréfi 15. maí 2012.
Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er 49 ára, fráskilinn og býr ásamt tveimur fullorðnum börnum sínum og tengdasyni í 183,2 fermetra eigin raðhúsi að B götu nr. 13 í sveitarfélaginu C. Kærandi er löggiltur fasteignasali og rekur eigin fasteignasölu. Útborguð laun kæranda eru 222.873 krónur á mánuði.
Að mati kæranda má annars vegar rekja fjárhagserfiðleika hans til persónulegra skulda og hins vegar til skulda og ábyrgða sem hann tókst á hendur vegna rekstrar á eigin félögum. Félögin tengjast innbyrðis og eru þessi:
Félag | Eigandi | Eignarhlutur |
R ehf. | A | 100% |
S ehf. | R ehf. | 100% |
T ehf. | A | 50% |
S ehf. | 50% |
Kærandi kveðst hafa rekið fasteignasöluna T ehf. frá árinu 2000 og lengst af hafi hann verið 50% hluthafi á móti öðrum aðila. Á árinu 2006 hafi félag hans, S ehf., keypt eignarhluta sameigandans í félaginu og að auki húsnæði að E götu nr. 22 þar sem fasteignasalan var til húsa. Landsbankinn hafi fjármagnað kaupin en kærandi hafi tekið á sig talsverðar skuldbindingar í tengslum við kaupin, einkum sjálfskuldarábyrgðir. Þetta hafi kærandi talið nauðsynlegt þar sem hann hafi í raun rekið félagið einn um langt skeið og ekki viljað fá utanaðkomandi aðila inn í það. Hafi kaupin verið gerð í samráði við N ehf. sem hafi séð um endurskoðun fyrir kæranda. N ehf. hafi talið að rekstur félagsins ætti að geta staðið undir afborgunum lánsins miðað við gefnar forsendur. Af þessum sökum hafi áhætta kæranda vegna sjálfskuldarábyrgðanna verið talin hverfandi. Eiginfjárhlutfall S ehf. hafi verið 50% árið eftir fasteignakaupin. Kærandi hafi talið að ef ábyrgðarskuldbindingar myndu falla á hann myndi eigið fé hans í íbúðarhúsnæði standa undir greiðslum. Eigið fé hans í B götu nr. 3 hafi verið um 14.000.000 króna um mitt ár 2006 og eigið fé hans í B götu nr. 13 hafi verið um 22.000.000 króna í árslok 2007. Niðursveifla á fasteignamarkaði í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi komið illa niður á fasteignasölu kæranda, tekjur hafi minnkað og greiðsluerfiðleikar orðið miklir. Kærandi kveðst hafa leitað allra leiða til að auka við tekjur fasteignasölu sinnar, meðal annars með stofnun leigumiðlunar. Hafi þetta gengið ágætlega en engu að síður sé ljóst að forsendur fyrir kaupunum á E götu nr. 22 og 50% hlut í T ehf. séu brostnar. Kærandi hafi einnig ítrekað leitað samninga við kröfuhafa sína án árangurs. Einnig hafi kærandi árangurslaust reynt að selja eignir til að grynnka á skuldum. Kærandi telji sér ekki aðrar leiðir færar út úr vandanum en greiðsluaðlögun.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 140.194.693 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Einnig eru ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 41.559.740 krónur orðnar virkar á hendur honum samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara. Af skuldum kæranda tengjast 105.627.203 krónur rekstri hans á eigin félögum. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2008.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 11. nóvember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 23. janúar 2012 verði felld úr gildi og ákvörðun tekin um að veita honum greiðsluaðlögun á grundvelli lge. Til þess álíti hann sig uppfylla öll skilyrði og að ákvæði 6. gr. lge. standi því ekki í vegi að honum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.
Synjun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana og beri við mat á því að líta til þeirra atriða sem nefnd séu í stafliðum ákvæðisins. Hér sé um heimildarákvæði að ræða sem afar matskennd sjónarmið liggi að baki. Telji kærandi nauðsynlegt að mat umboðsmanns á nefndum sjónarmiðum sé endurskoðað enda telji hann matið að hluta til byggjast á röngum staðreyndum.
Í fyrsta lagi telji hann umboðsmann skuldara oftelja skuldir sínar um skuldir er varði X bifreið. Á bifreiðinni hvíli lán frá Lýsingu sem hafi numið 4.500.000 krónum eftir endurútreikning. Kærandi hafi afhent Lýsingu bifreiðina og sé samkomulag milli aðila um að hún verði ekki seld á lægra verði en 5.500.000 krónur og að kæranda verði afhentur mismunur á söluverðinu og uppgreiðsluverði áhvílandi láns. Einnig standi vonir til þess að nýir dómar Hæstaréttar leiði til enn frekari lækkunar lánsins. Af framangreindum ástæðum hvíli engar skuldir á kæranda vegna bifreiðarinnar.
Í öðru lagi telji kærandi umboðsmann skuldara oftelja skuldir er varði E götu nr. 22. Landsbankinn hafi leyst til sín eignina og við það hafi áhvílandi lán verið greitt niður sem nemi um það bil 46.000.000 króna. Nú hafi lánið verið endurútreiknað og við það hafi lánið lækkað úr 99.484.321 krónu í 47.602.279 krónur. Í ljósi nýlegra dóma Hæstaréttar vonist kærandi til að lánið verði endurreiknað að nýju til enn frekari lækkunar.
Að því er varði skuldir kæranda vegna hesthúss og bifreiða hafi þær numið um 8.000.000 króna árið 2006 en ekki 12.000.000 króna eins og umboðsmaður skuldara haldi fram vegna ársins 2006. Sama eigi við vegna ársins 2007.
Kærandi telji mikilvægt að horft sé til þess með hvaða hætti skuldir hans hafi aukist síðastliðin þrjú ár, en það sé einkum vegna vaxta, dráttarvaxta, lögfræðikostnaðar og innheimtukostnaðar sem nú skipti tugum milljóna króna. Kærandi hafi fyrst reynt samninga við Landsbankann í febrúar 2009. Frá þeim tíma hafi staðið yfir samningaviðræður við bankann í alllangan tíma án árangurs. Kærandi hafi viljað semja um veðtryggðar skuldir sérstaklega en bankinn hafi ekki ljáð máls á því. Vegna þeirrar afstöðu bankans hafi kæranda ekki verið kleift að greiða af neinum skulda sinna.
Kærandi vilji einnig leiðrétta ummæli umboðsmanns skuldara að því er varði kaup á fasteignasölunni T ehf. og fasteigninni að E götu nr. 22. Hið rétta sé að kærandi hafi keypt félagið S ehf. á árinu 2006. Eignir S ehf. hafi verið 50% hlutur í fasteignasölunni T ehf. og fasteignin að E götu nr. 22. Kærandi hafi þannig ekki keypt fasteignina að E götu nr. og eignarhluta í fasteignasölunni T ehf. heldur hafi félagið S ehf. átt þessar eignir.
Kærandi leggi áherslu á að uppbygging og skipulag á eignum og skuldum þeirra félaga sem tengist rekstri hans á fasteignasölunni T ehf. hafi verið í samræmi við þær ráðleggingar sem honum hafi verið veittar hjá N ehf. Þannig hafi verið talið eðlilegt að hafa fasteignina að E götu nr. 22 ehf. í einu félagi, reksturinn sjálfan í öðru félagi og skuldirnar í þriðja félaginu. Frá upphafi hafi það verið ætlunin að rekstur fasteignasölunnar T ehf. stæði straum af greiðslu þeirra skulda sem hvíldu á R ehf. og miðað við mat N ehf. hefði það átt að ganga eftir. Kærandi mótmæli því þeirri niðurstöðu umboðsmanns skuldara að skuldir R ehf. hafi verið ótryggar frá upphafi.
Mikilvægt sé að hafa í huga að staða kæranda hafi verið allt önnur frá árinu 2006 og fram á mitt ár 2008 en eftir efnahagshrunið haustið 2008. Þannig hafi eiginfjárhlutfall í öllum eignum kæranda og félaga hans verið umtalsvert. Því hafi verið talið að undirliggjandi eignir stæðu undir skuldbindingum.
b-liður 2. mgr. 6. gr. lge.
Ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. kveði á um að við mat á því hvort beita eigi heimildarákvæðinu um synjun á þeim grundvelli að óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri að líta til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Kærandi fellst ekki á það mat umboðsmanns að hann hafi verið greinilega ófær um að standa við þær fjárhagslegu skuldbindingar er hann stofnaði til á árunum 2006 til 2008.
Þær skuldir sem kærandi hafi stofnað til 2006 varði rekstur hans á fasteignasölunni T ehf. Á þessum tíma hafi hann staðið andspænis því að 50% meðeigandi hans að rekstrinum hafi viljað yfirgefa reksturinn. Kærandi hafi talið óásættanlegt að þriðji maður kæmi að rekstri sem hann hafði staðið einn að en meðeigandinn hafi ekki komið að rekstrinum þrátt fyrir eignarhluta sinn. Hafi kærandi því leitað sérfræðiaðstoðar hjá N ehf. til að kanna hvort hann gæti einn tekist á hendur þær skuldbindingar sem myndu leiða af því að kaupa meðeigandann út og þá með hvaða hætti rétt væri að standa að því. Hafi það verið mat nefndra sérfræðinga að rekstur fasteignasölunnar gæti staðið undir þeim skuldbindingum sem fylgja myndu kaupum á 50% eignarhluta í rekstrinum og fasteigninni að E götu nr. 22. Kærandi veki sérstaklega athygli á því að miðað við matsverð eignarinnar á þessum tíma hafi umtalsverð eign falist í henni. Eftir efnahagshrunið 2008 hafi orðið hrun á fasteignamarkaði og á sama tíma hafi gengisfall krónunnar leitt til þess að gengistryggðar skuldir hafi hækkað mjög. Á þeim tíma sem kærandi hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir lánum félaganna hafi verið taldar hverfandi líkur á að á þær reyndi. Ef til þess kæmi að á þessar ábyrgðarskuldbindingar myndi reyna hefði kærandi talið sig geta staðið undir þeim enda eiginfjárhlutfall hans í eigin fasteign, bifreið og öðrum eignum umtalsvert. Hafi þessar forsendur algerlega brostið haustið 2008.
Þær skuldir sem kærandi hafi stofnað til 2007 hafi einkum verið vegna kaupa kæranda og eiginkonu hans á fasteign að B götu nr. 13. Einnig hafi hann gert bílasamning við Lýsingu að fjárhæð 4.500.000 krónur í erlendri mynt um kaup á bifreiðinni X. Hafi eigið fé kæranda í bifreiðinni verið 50% og hafi bifreiðin sjálf því staðið undir láninu. Þótt kærandi hafi tekist á hendur auknar skuldir á þessum tíma hafi hann verið fullfær um að standa undir þeim.
Á árinu 2008 hafi eina nýja skuld kæranda verið vegna kaupa hans á landspildu í H. Hafi spildan staðið undir skuldum vegna kaupanna og kærandi hafi verið fullfær um að standa undir greiðslum vegna hennar. Hrunið 2008 hafi leitt til gríðarlegs verðfalls á spildunni.
Með vísan til alls þessa telji kærandi ekki unnt að byggja synjun á heimild til greiðsluaðlögunar á b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
c-liður 2. mgr. 6. gr. lge.
Ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. kveður á um að við mat á því hvort beita eigi heimildarákvæðinu um synjun á þeim grundvelli að óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri að líta til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindingar var stofnað. Meti umboðsmaður skuldara það svo að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu er hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum R ehf. á árinu 2006. Með vísan til umfjöllunar um b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. hafni kærandi því. Einnig telji hann hér mikilvægt að horfa til þess að á þeim tíma er til skuldanna var stofnað hafi engin eigna hans verið yfirveðsett og því hafi svigrúm verið fyrir hendi ef lán hækkuðu eða matsverð eigna lækkaði.
d-liður 2. mgr. 6. gr. lge.
Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. kveður á um að við mat á því hvort beita eigi heimildarákvæðinu um synjun á þeim grunvelli að óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri að líta til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Umboðsmaður skuldara hafi talið að lagaákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir, sem refsing liggi við, girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Þetta telji kærandi allvíðtæka túlkun miðað við þann fyrirvara sem fram komi í ákvæðinu sjálfu. Þar segi að meta verði þá skuldbindingu sem undir ákvæðið falli með hliðsjón af fjárhag skuldara. Af úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 og dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 megi sjá að fjárhæð vangoldinna vörsluskatta í samhengi við heildarskuldbindingar skuldara skipti verulegu máli. Því hafni kærandi þeirri afstöðu umboðsmanns sem rangri að ógreiddir vörsluskattar girði fyrir veitingu heimildar til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun séu heildarskuldir kæranda taldar 181.754.433 krónur og vangreiddir vörsluskattar 2.260.701 króna eða 1,2% af heildarskuldum kæranda. Í framangreindum dómi Hæstaréttar hafi vangreiddir vörsluskattar sem numið hafi 8,3% af heildarskuldum skuldarans verið taldir verulegir. Í tilvitnuðum úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi vörsluskattar, sem numið hafi 44% til 62% af heildarskuldum skuldarans, verið taldir verulegir. Með vísan til þessara fordæma telji kærandi ótvírætt að 1,2% af heildarskuldbindingum geti ekki talist veruleg fjárhæð og því sé ekki unnt að synja honum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Kærandi telji að heildarskuldir sínar nemi um 140.000.000 króna. Þrátt fyrir það sé hlutfall framangreindra vörsluskatta aðeins um 1,6%. Sé ekki unnt að túlka það sem verulega skuld.
Samkvæmt gögnum frá tollstjóra liggi fyrir að einu ógreiddu vörsluskattarnir sem kærandi beri ábyrgð á séu vegna fasteignasölunnar T ehf. Félagið hafi gert greiðslusamkomulag við tollstjóra vegna vanskilanna og við það hafi verið staðið. Félagið sé greiðslufært og miðað við það muni vanskil á vörslusköttum ekki falla á kæranda.
Önnur atriði sem kærandi telur að skipti máli við matið.
Frá upphafi fjárhagserfiðleika sinna hafi kærandi reynt að hagræða í rekstri bæði fyrirtækis og heimilis og leitast við að selja eignir. Hinn 17. ágúst 2011 hafi kærandi sent umboðsmanni skuldara afrit af kauptilboðum í eignarhluta sinn í hesthúsi við G og landspildu í H. Sami aðilinn hafi verið tilboðsgjafi í báðum tilvikum og verði því að líta heildstætt á tilboðin. Kaupverð skyldi greitt með yfirtöku áhvílandi skulda sem á tilboðsdegi voru 4.909.466 krónur í tilviki hesthússins og 14.830.764 krónur í tilviki landspildunnar eða samtals 19.740.230 krónur. Með umsókn sinni um greiðsluaðlögun hafi kærandi lagt fram verðmat á hesthúsinu frá 12. maí 2010. Samkvæmt því hafi líklegt söluverð á eignarhluta kæranda verið 6.950.000 krónur. Einnig hafi kærandi lagt fram verðmat á landspildunni frá 14. maí 2010 þar sem líklegt söluverð hafi verið talið 12.000.000 króna. Samtals hafi líklegt söluverð þessara eigna því verið 18.950.000 krónur. Nú liggi fyrir hærra tilboð í þessar eignir. Hafi umboðsmaður skuldara hafnað kæranda um heimild til sölunnar. Átti kærandi sig ekki á afstöðu umboðsmanns skuldara en sala á þessum eignum myndi hafa létt af kæranda skuldbindingum sem næmu tæpum 20.000.000 króna. Kærandi telji að frá því að verðmötin voru gerð hafi verð eignanna ekki hækkað. Sérstaklega beri að líta til þess að eignarhlutinn í hesthúsinu sé í óskiptri sameign með öðrum eigendum og því geti eignin ekki talist auðseljanleg. Að mati kærenda er afstaða umboðsmanns skuldara í málinu hvorki til þess fallin að einfalda fjárhagslega endurskipulagningu kæranda né sé hún lánardrottnum hans í hag. Muni hún því leiða til tjóns bæði fyrir kæranda og lánardrottna hans.
Rekstur fasteignasölunnar T ehf. standi vel undir sér nú sem leiði til þess að bæði kærandi og félagið sjálft séu betur í stakk búin til að greiða niður skuldir undanfarinna ára. Kærandi hafi unnið að því að bæta fjárhagslega stöðu sína meðal annars með umsókn um svonefnda 110% leið. Einnig vilji kærandi upplýsa að 18. október 2011 hafi verið gerð dómsátt sem feli í sér samkomulag milli Landsbankans og T ehf. um niðurgreiðslu skuldar sem kærandi sé í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Miðað við fjárhagslega stöðu félagsins telji kærandi að hann muni ekki þurfa að bera persónulega ábyrgð vegna skuldarinnar.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana.
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Lántökur kæranda 2006 til 2008.
Af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi tekist á hendur miklar sjálfskuldarábyrgðir á fyrri hluta ársins 2006.
Hinn 1. mars 2006 gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni Landsbankans til fasteignasölunnar T ehf. að fjárhæð 16.500.000 krónur. R ehf. yfirtóku lánið 28. apríl 2006. Skuldin standi nú í 24.955.873 krónum. Lánið hafi verið tekið við kaup R ehf. á 50% hlut í fasteignasölunni T ehf. og húsnæði að E götu nr. 22, sveitarfélaginu I.
Sama dag gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni Landsbankans til R ehf. að fjárhæð 11.000.000 króna. Skuldin standi nú í 16.603.867 krónum. Lánið hafi verið tekið við kaup R ehf. á 50% hlut í fasteignasölunni T ehf. og húsnæði að E götu nr. 22, sveitarfélaginu I
R ehf. voru stofnaðar 2005. Af ársreikningum félagsins verði ráðið að eina eign þess á árunum 2006 til 2009 hafi verið hlutir í dótturfélaginu S ehf. Ekki verði séð að félagið hafi haft annan rekstur með höndum en þann sem falist hafi í eignarhaldi á hlutunum. Því verði ekki séð að félagið hafi getað haft aðrar tekjur en arðgreiðslur frá S ehf. Af ársreikningum megi einnig sjá að félagið hafi ekki haft neinar rekstrartekjur á árunum 2006 til 2009. Því verði að telja raunhæft að á ábyrgðarskuldbindingar kæranda gæti reynt allt frá upphafi. Skuldir R ehf. voru eftirfarandi á tímabilinu:
Ár | Skuldir kr. |
2006 | 30.929.969 |
2007 | 40.143.850 |
2008 | 45.461.832 |
2009 | 49.292.824 |
Á árinu 2006 hafi kærandi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgðir fyrir skuldum R ehf. að fjárhæð 27.500.000 krónur eins og áður hefur komið fram. Telja verði að atvinnurekstur, lántaka og persónulegar ábyrgðarskuldbindingar sem tengist honum feli ávallt í sér fjárhagslega áhættu. Áhættan sé þeim mun meiri þegar fjárhæðirnar sem um sé að tefla séu hærri. Það sé þó matsatriði hverju sinni hvort sú áhætta skuli leiða til þess að kæranda sé synjað um heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Til þess sé að líta að meirihluti skulda kæranda verði rakinn til atvinnurekstrar og séu skuldbindingar talsvert miklar. Einnig þyki ljóst að skuldbindingar þessar séu helsta ástæða greiðsluerfiðleika.
Miðað við það sem rakið hafi verið um starfsemi R ehf. þyki ljóst að tekjumyndun félagsins hafi verið ótrygg frá stofnun, arðsemi lítil sem engin og að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi að félagið gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Af því sem rakið hafi verið um fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgðir fyrir félagið þyki ljóst að á honum hafi þegar hvílt miklar skuldbindingar, bæði vegna skuldsettra fjárfestinga hans og ábyrgðarskuldbindinga fyrir fasteignasöluna T ehf. Þyki kærandi hafa tekið fjárhagslega áhættu er hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir háum lánum R ehf. á árinu 2006.
S ehf. var stofnað 2005. Af ársreikningi ársins 2006 megi sjá að eina eign félagsins hafi verið fasteign að verðmæti 43.650.000 krónur. Rekstrartekjur félagsins 2006 voru húsaleigutekjur að fjárhæð 5.760.000 krónur. Ekki verði séð af ársreikningum að félagið hafi haft aðrar tekjur en húsaleigutekjur eða átt aðrar eignir en fyrrnefnda fasteign. Tap af rekstri félagsins var sem hér segir:
Ár | Rekstrartap kr. |
2006 | 4.321.086 |
2007 | 293.576 |
2008 | 48.414.221 |
2009 | 3.448.191 |
Að sögn kæranda keypti S ehf. helmingshlut í fasteignasölunni T ehf. á árinu 2006 og sá möguleiki hafi verið fyrir hendi að félagið gæti haft arð af eignarhlutnum. Afkoma fasteignasölunnar T ehf. var sem hér segir:
Ár | Hagnaður/tap kr. |
2003 | 3.880.281 |
2004 | 12.385.219 |
2005 | -1.511.505 |
2006 | -12.287.193 |
2007 | 2.619.194 |
2008 | -17.144.866 |
2009 | -4.992.119 |
Þar sem tekjur félagsins hafi verið nokkuð sveiflukenndar hafi verið óvíst að skilyrði til greiðslu arðs myndu skapast. Samkvæmt framansögðu verði að telja að allt frá því að kærandi tókst á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir fasteignasöluna T ehf. hafi verið raunhæft að á þær myndi reyna.
Á árinu 2007 hafi kærandi einnig tekið ný lán. Við kaup á núverandi fasteign hafi eldra íbúðarlán kæranda verið flutt yfir á nýju eignina en einnig hafi kærandi tekið lán hjá Landsbankanum. Upphafleg fjárhæð nýja lánsins hafi verið 11.350.000 krónur en nú standi lánið í 18.339.420 krónum. Eldra lánið hafi verið að fjárhæð 18.805.056 krónur í lok árs 2007.
Á sama tíma hafi kærandi tekið yfirdráttarlán hjá Landsbankanum. Að sögn kæranda var eigið fé hans í fyrri fasteign 16.500.000 krónur. Hann hafi ekki fengið þessa greiðslu við sölu eignarinnar og hafi tekið yfirdráttarlánið til að brúa það bil. Greiðslan hafi borist um ári seinna en hann hafi gert ráð fyrir og þá hafi peningarnir að mestu verið notaðir til að greiða rekstrarlán T ehf. og S ehf. hjá Landsbankanum. Standi skuldin nú í 19.867.596 krónum.
Einnig hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 9.500.000 krónur hjá Landsbankanum. Kærandi kveðst hafa tekið lánið vegna S ehf.
Í lok árs 2007 hafi kærandi gert bílasamning að fjárhæð 4.500.000 krónur við Lýsingu um kaup á X bifreið.
Samkvæmt framangreindu hafi kærandi tekist á hendur miklar skuldir á árinu 2007. Það hafi hann gert þrátt fyrir að hafa áður gengist í miklar sjálfskuldarábyrgðir og þrátt fyrir að á honum hafi hvílt töluverðar aðrar skuldir. Þyki hann með þessari háttsemi hafa tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi samræmst fjárhag hans og þannig hagað fjármálum sínum með ámælisverðum hætti.
Á árinu 2008 hafi kærandi tekist á hendur stóra skuldbindingu með skuldsettum kaupum á landspildu en fjárhagsstaða hans á þeim tíma hafi verið erfið. Lánið var tekið um mitt árið hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum að fjárhæð 9.500.000 krónur. Ekki verði séð að á þessum tíma hafi kærandi verið í stöðu til að takast á hendur viðbótarskuldbindingar. Sé það ekki síst vegna þess að ekki verði séð að kaupin hafi verið til þess fallin að skapa kæranda tekjur til skamms tíma. Staða félaga hans hafi verið erfið, fyrirsjáanlegt hafi verið að reynt gæti á ábyrgðir sem hann hafði tekist á hendur og á honum hafi þegar hvílt miklar skuldir.
Af ársreikningum fasteignasölunnar T ehf. verði ráðið að félagið hafi haft talsverðar tekjur sem þó hafi verið sveiflukenndar. Kærandi hafi gengið út frá því að þær dygðu fyrir afborgunum af þeim lánum sem hann ábyrgðist. Eftir að hafa skuldbundið sig með þessum hætti hafi kærandi engu að síður tekist á hendur miklar persónulegar skuldir á árunum 2006 til 2008. Upphafleg fjárhæð lána til kæranda samkvæmt skuldayfirliti sé 76.750.891 króna. Auk þess hafi hvílt á honum skuld vegna yfirdráttar að fjárhæð 19.867.596 krónur. Upphafleg fjárhæð ábyrgðarskuldbindinga kæranda sé 27.500.000 krónur. Um mitt ár 2008 hafi kærandi keypt landspildu og tekið til þess 9.600.000 króna lán þrátt fyrir versnandi fjárhagsstöðu og að fyrirsjáanlegt væri að reyna kynni á sjálfskuldarábyrgðir hans. Það sé heildarmat umboðsmanns skuldara á fjárhagslegum ráðstöfunum kæranda á undanförnum árum að hann hafi á árunum 2006 til 2008 tekið verulega fjárhagslega áhættu með mikilli skuldasöfnun. Þannig verði fjárhagserfiðleikar kæranda að nokkru leyti raktir til atvika er kærandi beri sjálfur ábyrgð á með háttsemi sinni.
Kærandi hafi fært rök fyrir því að taka eigi tillit til þess að hann hafi gert ráðstafanir í greiðsluskjóli til að bæta skuldastöðu sína meðal annars með því að sækja um svonefnda 110% leið. Staða kæranda nú og í framtíðinni hafi ekki þýðingu við mat á því hvort ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við enda sé þar miðað við háttsemi og stöðu skuldara á þeim tíma er til skuldanna var stofnað, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011.
Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.
Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félaginu T ehf. þar sem kærandi hafi gegnt stöðu stjórnarmanns og prókúruhafa. Hluti skuldanna sé vegna ógreidds virðisaukaskatts, staðgreiðslu launagreiðanda og tryggingagjaldi. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila, sbr. IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og IV. kafla laga um tryggingagjald nr. 113/1990. Samkvæmt refsiákvæðum umræddra laga séu brot fullframin um leið og lögmæltur skilafrestur sé liðinn án þess að sá aðili sem beri ábyrgð á skilum skili virðisaukaskatti eða staðgreiðslu í ríkissjóð. Um sé að ræða virðisaukaskatt að fjárhæð 1.355.392 krónur. Einnig skuldi félagið staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 673.931 króna og tryggingagjald að fjárhæð 231.378 krónur. Samanlagt nemi skuld fasteignasölunnar T ehf. vegna vörsluskatta 2.260.701 krónu og byggist fjárhæðirnar á upplýsingum frá félaginu sjálfu. Hafi kærandi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskila á umræddum sköttum.
Ekki verði með öllu litið fram hjá þeirri ábyrgð sem hvílt hafi á kæranda sem stjórnarmanni og prókúruhafa í fyrrnefndu félagi til að standa skil á vörslusköttum og til þeirra sekta sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir vörsluskattskulda allháar auk þess sem ljóst sé að eignastaða kæranda sé neikvæð, tekjur lágar og fjárhagur erfiður.
Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Þannig verði ekki séð að það hafi sérstaka þýðingu hvort verið sé að hefja eða eftir atvikum rétta rekstur af þegar vanskil verði. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.
Ekki verði séð að greiðslusamkomulag við innheimtumenn ríkissjóðs leiði til brottfalls refsiábyrgðar framkvæmdastjóra enda þótt ekki sé útilokað að uppgjör skulda á vörslusköttum kunni í sumum tilvikum að hafa áhrif á þyngd refsingar, svo sem samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 hafi reynt á beitingu samhljóða ákvæðis í eldri lögum. Niðurstaðan hafi verið sú að skuldara hafi verið synjað um greiðsluaðlögun samkvæmt því ákvæði vegna virðisaukaskattskuldar að fjárhæð 1.780.437 krónur. Í dómi Hæstaréttar hafi farið fram heildarmat á fjárhag skuldara þar sem fjárhæð vörsluskattskuldar hafi verið borið saman við fjárhag hans, þ.e. eigna- og skuldastöðu. Í niðurstöðu vísi Hæstiréttur meðal annars til þess að skuldin nemi 8,3% af heildarskuldum skuldarans en ekki verði séð að það atriði eitt og sér hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins enda myndi slík niðurstaða ekki samrýmast orðalagi ákvæðisins. Hafi Hæstiréttur einnig vísað til þess að framangreind skuld sem til hafi verið komin vegna háttsemi er varðaði refsingu hafi ein og sér verið allhá auk þess sem samanburður á fjárhæð skuldarinnar við fjárhag skuldara að öðru leyti hafi þótt leiða í ljós að fjárhagur hans væri ekki slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af honum.
Telja verði að það liggi ljóst fyrir hverjar helstu skuldbindingar kæranda séu enda hafi hann sjálfur gert grein fyrir tilgangi með stofnun skuldanna. Ljóst þyki að kærandi eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum og að þær upplýsingar sem liggi fyrir í málinu gefi glögga mynd af fjárhag hans.
Af framangreindum ástæðum þyki óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Umboðsmaður skuldara byggir synjun á heimild til greiðsluaðlögunar á b-, c- og d-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.
Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.
Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hefur niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun.
Stærsti hluti skulda kæranda er frá árunum 2006 til 2008. Á þeim tíma rak hann atvinnustarfsemi sína í þremur tengdum félögum. Reksturinn sjálfur var í félaginu T ehf., eignarhald á hlutum í dótturfélaginu S ehf. var í höndum félagsins R ehf. og fasteignin að E götu nr. 22 í sveitarfélaginu I var í eigu félagsins S ehf. en fasteignasala kæranda var þar til húsa.
Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur, eignir og skuldir kæranda á árunum 2006 til 2010 sem hér segir:
2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | |
Tekjur* alls | 5.961.989 | 7.251.716 | 4.535.691 | 1.288.000 | 1.656.000 |
Meðaltekjur* á mánuði | 496.832 | 604.310 | 394.592 | 122.997 | 138.000 |
Eignir alls: | 35.019.616 | 57.397.126 | 57.629.327 | 59.087.175 | 52.409.517 |
· F gata nr. 1 | 1.882.665 | 2.253.331 | 2.026.331 | 1.921.665 | 1.914.998 |
· F gata nr. 3 | 126.000 | 151.000 | 135.667 | 135.667 | 135.667 |
· G nr. 7 | 4.120.941 | 6.882.785 | 6.882.785 | 6.280.820 | 5.596.682 |
·B nr. 3 | 24.790.000 | ||||
·B gata nr. 13 | 42.160.000 | 42.160.000 | 39.850.000 | 34.500.000 | |
· H spilda 4 | 3.770.000 | 3.770.000 | 3.770.000 | ||
· Bifreið U | 3.350.000 | ||||
· Bifreið V | 5.000.000 | ||||
· Bifreið X | 5.103.000 | 4.592.700 | |||
· Bifreið Y | 80.000 | ||||
· Hengivagn Z | 10 | 10 | 10 | 50.000 | 50.000 |
· Vélsleði Þ | 200.000 | ||||
· Tjaldvagn Æ | 1.090.000 | 1.090.000 | 1.090.000 | ||
· Hlutir í félögum | 750.000 | 750.000 | 750.000 | 750.000 | 750.000 |
· Bankainnstæður | 814.534 | 56.023 | 9.470 | ||
Skuldir kr. | 42.181.164 | 58.965.790 | 70.521.086 | 113.499.954 | 104.176.796 |
Nettóeignastaða kr. | -7.161.548 | -1.568.664 | -12.891.759 | -54.412.779 | -51.767.279 |
Ábyrgðarskuldbindingar | 42.500.000 | 42.500.000 | 42.500.000 | 42.500.000 | 42.500.000 |
Allar fjárhæðir eru í ISK.
*Með tekjum er átt við ráðstöfunartekjur.
Af þessu verður ráðið að frá árinu 2006 jukust skuldir kæranda jafnt og þétt. Eignir hans jukust einnig en þrátt fyrir það var eignastaða hans neikvæð allt tímabilið. Tekjur kæranda voru hæstar árið 2007 en fóru lækkandi eftir það.
Þær skuldir sem kærandi stofnaði til fyrir árið 2006 voru að mestu leyti vegna fasteignakaupa. Á árinu 2006 til 2007 fjármagnaði kærandi rekstur sinn að einhverju marki með lánsfé, þar á meðal kaup sín á 50% eignarhluta í félaginu S ehf. en í eigu þess félags voru 50% hlutur í T ehf. og fasteignin að E götu nr. 22, sveitarfélaginu I. Á árinu 2007 keypti kærandi bifreið að helmingi með láni frá Lýsingu og árið 2008 keypti hann landspildu og tók einnig til þess lán.
Hér má sjá yfirlit yfir lántökur kæranda á umræddu tímabili:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil | Trygging nú | Tilgangur lántöku |
fjárhæð | frá | ||||||
Íbúðalánasjóður | 1988 | Veðskuldabréf | 1.462.000 | 3.540.444 | - | J gata nr. 14 | Gamalt fasteignalán |
Íbúðalánasjóður | 1988 | Veðskuldabréf | 1.672.000 | 3.656.515 | 1.11.2009 | J gata nr. 14 | Gamalt fasteignalán |
Arion (áður Spron) | 2003 | Skuldabréf | 1.083.412 | 1.201.000 | 5.5.2010 | Sjálfskuldarábyrgð | |
Landsbanki | 2004 | Veðskuldabréf | 17.100.000 | 28.819.359 | 15.11.2008 | B gata nr. 13 | Íbúðarkaup |
Frjálsi fjárf.bankinn | 2005 | Veðskuldabréf | 3.015.000 | 4.756.175 | 1.11.2010 | G | Kaup á hesthúsi |
Íslandsbanki | 2006 | Skuldabréf | 17.600.000 | 29.059.815 | - | Tryggbr. B gata nr. 13 - 11 m.kr. | Rekstur félaga |
Tryggbr. E gata nr. 22 | S ehf. | ||||||
Landsbanki | 2006 | Yfirdráttur | 19.867.596 | 27.666.557 | 12.1.2009 | Tryggbr. B gata nr.. 13 - 13,5 m.kr. | Kaup á íbúð og |
Sjálfskuldarábyrgð - 1,6 m.kr. | greiðsla rekstrarskulda | ||||||
Landsbanki | 2007 | Lánasamningur | 11.350.000 | 18.339.420 | 1.10.2008 | Sjálfskuldarábyrgð | Fasteignakaup |
Landsbanki | 2007 | Lánasamningur | 9.500.000 | 15.140.052 | 15.10.2008 | Tryggbr. E gata nr. 22 | S ehf. |
Lýsing | 2007 | Bílasamningur | 4.500.000 | 9.462.000 | Bifreiðakaup | ||
Frjálsi fjárf.bankinn | 2008 | Veðskuldabréf | 9.600.000 | 14.334.015 | 5.8.2010 | H | Kaup á spildu |
Annað | 885.953 | ||||||
Alls kr. | 96.750.008 | 156.861.305 |
Allar fjárhæðir eru í ISK.
Á yfirlitinu má sjá að áður en kærandi keypti bifreið á árinu 2007 nam höfuðstóll þáverandi skulda hans rúmum 82.000.000 króna og mánaðartekjur voru rétt rúmar 600.000 krónur. Stór hluti þessara skulda kæranda var til langs tíma og með tiltölulega lágum vöxtum, en einnig hvíldi á honum umtalsverð skuld vegna yfirdráttar. Miðað við útreiknaða greiðslubyrði nefndra lána í gögnum málsins verður að telja útilokað að kærandi hafi getað greitt af öllum sínum skuldbindingum á þessum tíma. Þegar kærandi tók síðan bílalán 2007 og lán til kaupa á landspildu 2008 jukust fjárhagsvandræði hans enn. Ef litið er til þess að á þessum tíma var eignastaða kæranda neikvæð verður ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. á framangreindum tíma.
Í málinu hefur einnig komið fram að kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgðir fyrir félög í sinni eigu. Eru ábyrgðir þessar eftirfarandi:
Kröfuhafi | Ár | Skuldari | Tegund | Höfuðstóll | Staða |
Landsbankinn | 2006 | R ehf. | Lánasamningur | 16.500.000 | 23.903.610 |
Landsbankinn | 2006 | R ehf. | Lánasamningur | 11.000.000 | 15.916.013 |
Landsbankinn | 2006 | T ehf. | Yfirdráttur/dómsátt | 15.000.000 | 2.824.117 |
Alls kr.: | 42.500.000 | 42.643.740 |
Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Ekki verður gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á en meta þarf áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Kærandi hefur gert þá athugasemd við niðurstöðu umboðsmanns skuldara að líta verði til uppbyggingar félaga í hans eigu. Frá upphafi hafi það verið ætlunin að T ehf. stæði straum af þeim skuldum sem hvíldu á R ehf. Helstu rekstrartölur í framlögðum ársreikningum félaga kæranda eru þessar:
Félag | Ár | Hagnaður/tap | Eignir | Skuldir | Eigið fé |
T ehf. | 2006 | -12.287.193 | 7.680.801 | 20.208.567 | -12.527.766 |
2007 | 2.619.194 | 10.953.245 | 20.861.817 | -9.908.572 | |
2008 | -17.144.866 | 2.169.365 | 29.222.803 | -27.053.438 | |
2009 | -4.992.119 | 1.453.874 | 33.499.431 | -32.045.557 | |
R ehf. | 2006 | -3.640.018 | 27.789.951 | 30.929.969 | -3.140.018 |
2007 | -3.938.352 | 33.065.480 | 40.143.850 | -7.078.370 | |
2008 | -5.317.982 | 33.065.480 | 45.461.832 | -12.396.352 | |
2009 | -3.831.992 | 33.065.480 | 49.293.824 | -16.228.344 | |
S ehf. | 2006 | -4.321.086 | 46.713.616 | 50.534.702 | -3.821.086 |
2007 | -293.576 | 45.557.987 | 49.672.649 | -4.114.662 | |
2008 | -48.414.221 | 47.932.223 | 100.461.106 | -52.528.883 | |
2009 | -3.448.191 | 50.901.920 | 106.878.994 | -55.977.074 | |
Samandregnar | 2006 | -20.248.297 | 82.184.368 | 101.673.238 | -19.488.870 |
rekstraruppl. fyrir | 2007 | -1.612.734 | 89.576.712 | 110.678.316 | -21.101.604 |
öll félögin | 2008 | -70.877.069 | 83.167.068 | 175.145.741 | -91.978.673 |
2009 | -12.272.302 | 85.421.274 | 189.672.249 | -104.250.975 |
Á árunum 2006 til 2009 var tap á rekstri allra félaganna að undanskildu árinu 2007, en það ár var rekstrarhagnaður af T ehf. að fjárhæð 2.619.194 krónur. Samanlagðar skuldir félaganna jukust á þessu árabili úr ríflega 101.000.000 króna á árinu 2006 í tæplega 190.000.000 króna á árinu 2009. Eignir félaganna voru minnstar á árinu 2006, rúmlega 82.000.000 króna, en mestar á árinu 2007, ríflega 89.500.000 krónur. Um 37% bókfærðra eigna félaganna er hlutur R ehf. í dótturfélaginu S ehf. en deila má um hve glögga mynd hið bókfærða verð gefur af raunverulegu verðmæti hlutanna. Öll voru félögin með neikvætt eigið fé á tímabilinu eða frá rúmum 19.000.000 króna árið 2006 í ríflega 104.000.000 króna á árinu 2009.
Skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist fyrir félög sín á árinu 2006 voru svo miklar að líta verður svo á að þær hafi út af fyrir sig ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Annars vegar verður hvorki séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum né selja eignir til greiðslu þeirra ef á reyndi. Hins vegar verður að líta til þess, við mat á áhættu hvað þetta varðar, að fjárhagsstaða þeirra aðalskuldara sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir, þ.e. R ehf. og T ehf., var þannig að kæranda mátti vera ljóst að allnokkrar líkur væru á því að á ábyrgðirnar myndi reyna.
Með skuldasöfnun þessari telur kærunefndin að kærandi hafi hagað fjármálum sínum með þeim hætti sem fjallað er um í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Þá verður einnig að líta til þess að stór hluti af skuldbindingum kæranda stafar frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem felld var úr gildi með lge. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.
Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins T ehf. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanns félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.
Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum á lögmæltum tíma, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Þá er til þess að líta hvort sú skuldbinding sem kærandi hefur bakað sér nemi einhverju miðað við fjárhag hans. Umboðsmaður skuldara metur fjárhagsstöðu kæranda þannig í ákvörðun sinni að telja verði fjárhæðir vörsluskattskulda allháar, eignastaða kæranda sé neikvæð og tekjur lágar. Í því ljósi komst umboðsmaður skuldara að þeirri niðurstöðu að þær skuldbindingar sem kærandi hafi bakað sér séu ekki smávægilegar með hliðsjón af fjárhag hans og því eigi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við í máli kæranda.
Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin svigrúm til mats á því við úrlausn málsins hvort umrædd vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda, sbr. aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu kæranda. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 50.000.000 króna. Skuldir sem til hafa orðið vegna háttsemi kæranda, þ.e. ógreiddir vörsluskattar T ehf., nema alls 2.029.323 krónum, sem út af fyrir sig verður að telja allháa fjárhæð, bæði í ljósi greiðslugetu og eignastöðu kæranda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan og verður almennt að telja slíka háttsemi þess valdandi að óhæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun.
Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Með greiðsluáætlun 7. desember 2012 sömdu kærandi fyrir hönd T ehf. og innheimtumaður ríkissjóðs um að félagið greiddi niður skattskuld félagsins samkvæmt áætlun. Í áætluninni segir að hún hafi engin áhrif á framgang refsimáls á hendur skuldara eða fyrirsvarsmanni séu vanskil á einhvern hátt refsiverð. Vanefnd á greiðslu samkvæmt áætluninni eða vanskil á nýrri álagningu valdi því að greiðsluáætlunin teljist fallin úr gildi fyrirvaralaust.
Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem kærandi hefur stofnað til sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins og falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. samkvæmt því sem að framan greinir séu svo verulegar miðað við fjárhag hans að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir