Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 38/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 38/2015

Miðvikudaginn 5. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. desember 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. desember 2015 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 21. desember 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2016. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 29. janúar 2015 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust 15. apríl 2015. Þær voru sendar til umboðsmanns skuldara með bréfi sama dag og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst 2. maí 2016. Hún var send kæranda 4. júlí 2016 og henni boðið að koma andmælum sínum á framfæri. Svar barst ekki.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1969. Hún býr ásamt X börnum sínum á unglingsaldri í eigin íbúð að B, sem er 120,8 fermetrar að stærð. Kærandi er [...] og mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra eru 368.155 krónur.

Heildarskuldir kæranda eru 118.522.006 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til fasteignakaupa, hækkandi lána, lægri tekna og erfiðleika í rekstri fyrirtækis hennar sem var úrskurðað gjaldþrota í X.

Kærandi fékk staðfestan nauðasamning um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt lögum nr. 50/2009 í febrúar 2010. Samningurinn var til 60 mánaða og mánaðarlegar greiðslur samkvæmt honum voru 138.000 krónur. Kærandi fékk jafnframt staðfestan nauðasamning til greiðsluaðlögunar samningskrafna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt X. kafla a laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í apríl sama ár. Sá samningur var einnig til 60 mánaða og voru greiðslur samkvæmt honum 117.456 krónur á mánuði. Greiðslubyrði samninganna var því alls 255.456 krónur á mánuði.

Kærandi hætti að greiða af nauðasamningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna en síðustu greiðslur bárust kröfuhöfum 5. maí 2011. Nauðasamningurinn frá apríl 2010 var ógiltur fyrir dómi X. desember 2011 þar sem kærandi greiddi aldrei af þeim samningi.

Kærandi sótti síðan um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara 20. janúar 2012 en umsókninni var synjað 9. janúar 2013 á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi var talin hafa stofnað til skulda á þeim tíma er hún greinilega var ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, hagað fjármálum sínum með ámælisverðum hætti og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma.

Kærandi lagði aftur fram umsókn um greiðsluaðlögun 21. mars 2013 en þeirri umsókn var synjað 4. júní 2014, einnig með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í þriðja sinn sótti kærandi um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 13. maí 2015 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2015 var umsókn hennar hafnað með vísan til b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að raunhæf greiðsluleið verði sett upp. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveður umboðsmann skuldara gera athugasemd við bifreiðakostnað þó að hluti tekna séu vegna bílastyrks frá vinnuveitanda. Jafnframt séu dagpeningar vegna vinnu taldir til tekna að því er varði mat á greiðslugetu kæranda. Dagpeningar séu greiddir í erlendri mynt og geti gengisbreytingar haft veruleg áhrif og breytt greiðslugetu.

Á vef Ríkisskattstjóra sé að finna upplýsingar þar sem ökutækjastyrkur og dagpeningar séu skilgreind. Samkvæmt því ætti að vera ljóst að þessar greiðslur geti ekki talist til tekna í eiginlegum skilningi og eigi ekki að leggja til grundvallar við mat á greiðslugetu. Á árinu 2015 hafi kærandi fengið greidda dagpeninga að fjárhæð 1.470.448 krónur vegna 79 ferðadaga. Dagpeningum, sem greiddir séu vegna ferðalaga á vegum launagreiðanda, sé ætlað að standa undir kostnaði launamanns vegna fjarveru frá heimili sínu, svo sem gisti- og fæðiskostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferð hljótist. Dagpeningar séu ekki greiddir í orlofi eða veikindaleyfi. Sama megi segja um ökutækjastyrk.

Umboðsmaður skuldara geri athugasemdir við að kærandi hafi ekki geitt af upphaflegum nauðasamningum. Kærandi telur samningana hafa verið óraunhæfa þar sem mánaðarleg greiðslubyrði samkvæmt þeim hafi verið of mikil. Hún hafi óskað eftir endurskoðun samninganna, meðal annars vegna bílastyrks.

Umboðsmaður skuldara telji það jafnframt ámælisvert af hálfu kæranda að hafa tekið yfir bílasamning. Kærandi komist ekki hjá bílakostnaði vegna atvinnu sinnar. Hún gæti tekið leigubíl en meðalverð fyrir hverja ferð til og/eða frá heimili kæranda sé 2.500 krónur eða 65.000 krónur á mánuði. Þá sé ótalinn samgöngukostnaður vegna persónulegra erindagjörða. Þá bendi umboðsmaður skuldara á að „hóflegri“ bifreið hefði átt að verða fyrir valinu. Bifreiðin sem um ræði sé X ára gömul og metin á 1.413.000 krónur samkvæmt skattframtali. Engar skilgreiningar hafi borist frá umboðsmanni um hvers konar bifreið teljist hæfileg að mati embættisins og þá ekki hvort verðmæti eða tegund séu lögð til grundvallar. Bifreiðinni hafi verið ekið um 10.000 kílómetra á ári. Miðað við áætlaða meðalendingu megi reikna með að hún nýtist kæranda næstu fimm til átta árin. Á sínum tíma hafi kærandi gert bílasamning vegna bifreiðarinnar sem hafi numið 1.870.000 krónum. Sé tíu ára notkun deilt í þá fjárhæð sé mánaðarlegur kostnaður um 15.000 krónur. Kærandi telji því að um afar hagkvæma langtímafjárfestingu hafi verið að ræða.

Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt.

Að því er varði tekjur kæranda vísi umboðsmaður til 4. töluliðar 1. mgr. 4. gr. lge. en í ákvæðinu sé mælt fyrir um að í umsókn skuldara skuli koma fram hverjar séu tekjur hans, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, svo og upplýsingum um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist og einnig hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur til að greiða af skuldum svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Samkvæmt þessu líti embættið svo á að dagpeningar teljist til tekna í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 4. gr. lge. Þá bendi umboðsmaður á að embættið hafi ekki reiknað ökutækjastyrk kæranda til tekna, enda sé gert ráð fyrir samgöngukostnaði í neysluviðmiðum umboðsmanns.

Samkvæmt gögnum málsins hafi tekjur kæranda, útgjöld og greiðslugeta á neðangreindu árabili verið eftirfarandi í krónum:

Tekjuár 2010 2011 2012 2013 2014
Nettótekjur kæranda 6.552.318 5.170.348 3.835.169 4.974.065 3.873.944
Dagpeningar 858.756 991.968 1.404.171 1.329.389 1.402.011
Meðlag og mæðralaun 303.198 544.324 581.520 151.050
Barnabætur 395.332 259.281 370.585 417.683 330.762
Vaxtabætur 317.589 330.254 308.879
Fenginn arfur 185.352
Endurgreiddir ofgreiddir skattar 245.105
Tryggingabætur 4.335.983
Tekjur alls 8.417.193 5.825.938 6.745.975 6.872.187 9.852.750
Meðaltekjur á mánuði 701.432 485.495 562.165 572.682 821.063
Framfærslukostnaður á mán.* 159.200 163.700 210.199 224.303 231.255
Annar kostnaður** 59.962 61.660 65.605 67.796 69.361
Kostnaður alls 219.162 225.953 275.804 292.099 300.586
Mánaðarleg greiðslugeta 482.270 259.542 286.361 280.480 520.477
Árleg greiðslugeta 5.787.240 3.114.504 3.436.332 3.365.760 6.245.715

*Neysluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir fullorðinn einstaking með tvö börn á framfæri

**Fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld, hússjóður, tryggingar, rafmagn, hiti, dagvistunarkostnaður o.fl.

Kærandi tók yfir bílasamning hjá Lýsingu Xnóvember 2011 vegna bifreiðar af tegundinni X, árgerð X. Fjárhæð samningsins var 1.833.393 krónur, 31 greiðsla var eftir af samningnum og mánaðarlegar greiðslur af honum voru áætlaðar 66.969 krónur. Árið 2012 hafi kærandi greitt 74.967 krónur að meðaltali á mánuði vegna bílasamningsins. Að teknu tilliti til þessara greiðslna hafi greiðslugeta kæranda verið 211.667 krónur á mánuði eða samtals 2.539.999 krónur yfir árið. Árið 2013 hafi kærandi greitt að meðaltali 75.484 krónur vegna samningsins en sé tekið tillit til þess hafi greiðslugeta hennar verið 193.494 krónur á mánuði. Árið 2014 hafi kærandi greitt að meðaltali 43.296 krónur á mánuði vegna bílasamnings og að þeim greiðslum meðtöldum hafi greiðslugeta kæranda verið 477.181 króna á mánuði eða 5.726.166 krónur á árinu.

Kærandi hafi aðspurð greint frá því að í kjölfar gjaldþrots félags hennar hafi hún tekið yfir fyrrnefndan bílasamning en bifreiðin hafi verið í eigu félagsins. Kærandi hafi þurft á bifreiðinni að halda vinnu sinnar vegna en hún fái greiddan bílastyrk frá vinnuveitanda sínum. Við yfirtöku kæranda á bílasamningnum hafi greiðslubyrði hennar hækkað en það hafi valdið því að hún hafi ekki getað staðið við fyrri skuldbindingar. Að sögn kæranda hafi ekki verið gert ráð fyrir samgöngukostnaði í nauðasamningum sem hún hafi gert þar sem hún hafi nýtt bifreiðina í gegnum félag sitt. Að sögn kæranda hafi hún nýtt tryggingabætur sem hún fékk árið 2014 til að greiða upp bílasamninginn, endurnýja ýmsan búnað heima fyrir, greiða persónuleg lán og greiða fyrir sjúkraþjálfun, lyf og fleira sem hún hafi þurft í kjölfar slyss. Kærandi hafi ekki framvísað gögnum vegna þessa.

Að mati embættisins hafi framangreindar útskýringar kæranda ekki verið fullnægjandi. Henni hafi verið sent ábyrgðarbréf 21. október 2015 þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum. Kærandi hafi verið beðin um að gera grein fyrir því hvers vegna hún hafi aldrei greitt af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og hvers vegna hún hafi hætt að greiða af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, þrátt fyrir að hafa til þess greiðslugetu. Loks var farið fram á að kærandi útskýrði hvernig hún hefði áætlað að standa við greiðslur samkvæmt bílasamningi meðfram greiðslum annarra skuldbindinga. Engin svör hafi borist.

Kærandi hafi aldrei innt af hendi greiðslur samkvæmt fyrrgreindum nauðasamningi og hafi hann verið ógiltur fyrir dómi X. desember 2011. Þá hafi hún hætt að greiða af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna en kærandi hafi síðast greitt af þeim samningi 5. maí 2011. Kærandi kveði ástæðu þessa vera þá að með yfirtöku á nefndum bílasamningi hafi greiðslubyrði hennar hækkað það mikið að hún hafi ekki getað staðið undir fyrri skuldbindingum. Áætluð greiðslugeta kæranda hafi þó verið 482.270 krónur á mánuði árið 2010 og 259.542 krónur árið 2011. Þó að tekjur kæranda hafi lækkað árið 2011 hafi þær ekki lækkað það mikið að kærandi gæti alls ekki staðið við skuldbindingar sínar að einhverju leyti. Þá hafi kærandi ekkert greitt af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í sex mánuði er hún tók bílasamninginn yfir. Sé því ekki unnt að fallast á með kæranda að aukin greiðslubyrði hafi leitt til þess hún hafi hætt að geta greitt af samningnum.

Af gögnum málsins og því sem hér hafi verið rakið verði að telja að með því að greiða aldrei af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sem gerður var í apríl 2010, og með því að hafa hætt að greiða af samningi sínum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna frá því í febrúar 2010 hafi kærandi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar af fremsta megni.

Að því er varði b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. sé að mati embættisins heimilt að taka tillit til þess að kærandi hafi þurft að kaupa bifreið atvinnu sinnar vegna. Aftur á móti hefði kærandi ekki sýnt fram á nauðsyn þess að kaupa svo dýra bifreið sem raun bar vitni. Þess vegna líti embættið svo á að kærandi hafi stofnað til nýrra skuldbindinga með yfirtöku bílasamnings 19. nóvember 2011 á þeim tíma er hún hafi verið ófær um að standa við fyrri skuldbindingar sínar í heild með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Einnig hafi kærandi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., enda hafi fjárhagur hennar ekki verið þannig að hún hafi haft svigrúm til að stofna til slíkra skuldbindinga. Í því sambandi sé sérstaklega litið til þeirra greiðsluaðlögunarsamninga sem kærandi fékk fyrir héraðsdómi árið 2010.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umboðsmaður skuldara sent kæranda bréf 21. október 2015 þar sem henni hafi verið boðið að leggja fram skýringar. Engin gögn eða skýringar hafi borist.

Með vísan til alls sem að framan greinir sé það mat umboðsmanns skuldara að með yfirtöku fyrrgreinds bílasamnings hafi kærandi tekist á hendur fjárhagslega skuldbindingu sem hún var ófær um að standa við í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi hún jafnframt tekið með því fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., og látið á ámælisverðan hátt undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni frekast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi því verið synjað.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt.

Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2010 til 2012 í krónum:

Tekjuár 2010 2011 2012
Nettótekjur kæranda * 4.816.314 3.514.759 3.768.542
Dagpeningar 858.756 991.968 1.404.717
Meðlag og mæðralaun 350.431 593.722 634.262
Barnabætur 395.332 259.281 370.585
Vaxtabætur 317.589 722.738 308.879
Fenginn arfur (nettó) 185.352
Endurgreiddir ofgreiddir skattar 198.725
Tekjur alls 6.738.422 6.267.820 6.685.710
Meðaltekjur á mánuði 561.535 522.318 557.143
Útgjöld á mánuði** 219.162 225.953 275.804
Mánaðarleg greiðslugeta 342.373 296.365 281.339
Mánaðarleg greiðslugeta án dagpeninga 270.810 213.701 164.279

* Án ökutækjastyrks.

**Samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Bifreiðastyrkur er ekki færður kæranda til tekna.

Héraðsdómur veitti kæranda heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna X. janúar 2010. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæranda komst síðan á með samningi X. mars 2010 og var greiðslubyrði samkvæmt honum 138.000 krónur á mánuði í 60 mánuði eða fram til 2015. Samkvæmt samningnum skyldi kærandi greiða af veðkröfum sem hvíldu á fyrstu þremur veðréttum fasteignar hennar. Kærandi greiddi af samningnum fram í maí 2011.

Héraðsdómur veitti kæranda einnig heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar vegna samningskrafna X. apríl 2010. Samkvæmt þeim samningi skyldi kærandi greiða mánaðarlega 117.456 krónur í 60 mánuði eða fram til ársins 2015. Með dómi héraðsdóms X. desember 2011 var samningurinn ógiltur þar sem kærandi hafði aldrei greitt af honum.

Samanlögð greiðslubyrði nauðasamninganna var samkvæmt ofangreindu 255.456 krónur á mánuði.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b-, c- og f-liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Að mati umboðsmanns skuldara stofnaði kærandi til nýrra skuldbindinga með því að taka yfir bílasamning X. nóvember 2011, þ.e. á þeim tíma er hún hafi verið ófær um að standa við fyrri skuldbindingar sínar í heild með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Einnig hafi kærandi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., enda hafi fjárhagur hennar ekki verið þannig að hún hafi haft svigrúm til að stofna til slíkra skuldbindinga. Í því sambandi var sérstaklega litið til þeirra greiðsluaðlögunarsamninga sem kærandi fékk fyrir héraðsdómi árið 2010.

Í nóvember 2011 er kærandi yfirtók fyrrnefndan bílasamning að fjárhæð 1.833.393 krónur var greiðslubyrði samkvæmt honum 66.821 króna á mánuði eða 801.852 krónur á ári. Bílastyrkur sá, sem kærandi fékk frá vinnuveitanda, nam 532.913 krónum á árinu eða að meðaltali 44.409 krónum á mánuði en atvinnu sinnar vegna þurfti kærandi á bifreið að halda. Mismunurinn nam 268.939 krónum eða að meðaltali 22.412 krónum á mánuði. Á þessum tíma hafði kærandi gert nauðasamninga sem fyrr greinir og var greiðslubyrði þeirra 255.456 krónur á mánuði. Mánaðarleg greiðslugeta kæranda að meðtöldum dagpeningum var 296.365 krónur á mánuði á árinu 2011 en væru dagpeningar dregnir frá var greiðslugeta hennar 213.701 króna. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafði kærandi svigrúm til að yfirtaka bílasamninginn að því gefnu að hún teldi dagpeninga sína að einhverju eða öllu leyti til tekna svo sem hún virðist hafa gert við ákvörðun um yfirtöku bílasamningsins. Sé við þetta miðað var kærandi hvorki ófær um að standa við fyrri skuldbindingar sínar er hún yfirtók fyrrgreindan bílasamning né hagaði hún fjármálum sínum á ámælisverðan hátt. Úrskurðarnefndin telur að teknu tilliti til þessa að hér eigi hvorki b- né c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við í málinu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á því að með því að greiða aldrei af nauðasamningi til greiðsluaðlögunar frá febrúar 2010 og með því að hafa hætt að greiða af samningi um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna eftir 5. maí 2011 hafi kærandi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar af fremsta megni í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Málatilbúnaður kæranda verður ekki skilinn á annan hátt en þann að hún telji að dagpeninga eigi ekki að telja til tekna í skilningi lge. og því eigi ekki að taka tillit til þeirra við útreikning á greiðslugetu.

Úrskurðarnefndin vísar til 4. töluliðar 1. mgr. 4. gr. lge. Þar er kveðið á um að í umsókn skuldara skuli koma fram hverjar séu tekjur hans, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, svo og upplýsingum um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist og einnig hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur til að greiða af skuldum svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Á þessu eru ekki undantekningar.

Að því er varðar mat á því hvort dagpeningar kæranda teljist til tekna í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 4. gr. lge. verður að líta á framfærslukostnað kæranda í heild sinni, þar með talinn framfærslukostnað á ferðalögum vegna atvinnu. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er gert er ráð fyrir að reiknaður framfærslukostnaður kæranda sé dreginn frá ráðstöfunartekjum. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið greidda dagpeninga hefur hún ekki sýnt fram á með gögnum að með þeim hafi hún greitt framfærslukostnað umfram þann sem henni var reiknaður og dreginn er frá tekjum hennar. Kærandi hafði dagpeningana til ráðstöfunar og verða þeir því samkvæmt framansögðu taldir henni til tekna. Breytir það ekki þessari niðurstöðu að tekjuskattur er almennt ekki greiddur af dagpeningum. Af þessum ástæðum og með vísan til yfirtöku kæranda á fyrrnefndum bílasamningi verður að meta dagpeninga kæranda henni til tekna þar sem hún hefur ekki sýnt fram á aukinn framfærslukostnað sinn vegna ferðalaga að neinu leyti. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu og í ljósi framangreindra útreikninga að kærandi hafi haft fjárhagslega burði til að greiða af nauðasamningum sínum árin 2010 og 2011, sem hún gerði þó ekki.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta