Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 18/2011

Mánudaginn 12. mars 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 11. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. mars 2011, þar sem umsókn hennar um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklings er hafnað.

Með bréfi, dags. 19. apríl 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 9. maí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2011, og til ítrekunar þann 9. september 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. september 2011.

 

I.

Málsatvik

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi er í námi í Miðstöð símenntunar í sveitarfélaginu B og býr ásamt sambýlismanni sínum og þremur börnum þeirra í sveitarfélaginu B. Húsnæðið sem þau búa í er í eigu fyrrum tengdamóður kæranda. Í greinargerð með umsókn kemur fram að kærandi sé tekjulaus að undanskildum meðlagsgreiðslum sem hún fær greiddar með einu barni.

Samkvæmt gögnum málsins er meginhluti skuldbindinga kæranda kominn til eftir árið 2005. Árin 2006 og 2007 hafi kærandi leyft sambýlismanni sínum að nota nafn sitt í nokkrum bifreiðaviðskiptum en bifreiðarnar voru yfirleitt seldar sama ár og þær voru keyptar eða síðar. Segir kærandi þrjár kröfur standa eftir vegna þeirra viðskipta, í fyrsta lagi krafa að fjárhæð 212.000 kr. frá Avant, í öðru lagi krafa að fjárhæð 1.065.000 kr. vegna eftirstöðva bílasamnings og í þriðja lagi krafa að fjárhæð 870.000 kr. vegna eftirstöðva að láni vegna kaupa á fellihýsi.

Í júní árið 2006 festi kærandi kaup á fasteigninni að C-götu nr. 12, í sveitarfélaginu D, en kaupin voru fjármögnuð með láni frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 10.700.000 kr. Fasteignina segist kærandi þó ekki hafa nýtt sjálf heldur hafi fasteignin verið notuð af félaginu X sem sé í eigu sambýlismanns hennar, og hafi húsið hýst sjómenn á milli túra o.fl. Félagið hafi séð um að greiða af láninu.

Á árinu 2007 seldu kærandi og sambýlismaður hennar fasteign að E-götu nr. 8 í sveitarfélaginu B. Kaupandi hafi yfirtekið lán sem var áhvílandi en hann hafi hins vegar aldrei greitt 6.000.000 kr. útborgun samkvæmt kaupsamningi. Þá hafi kaupandi lent í vanskilum og fasteignin verið seld nauðungarsölu. Eignin er þó enn skráð í eigu kæranda.

Í lok árs 2007 hafi kærandi ætlað að kaupa fasteignina að F-götu nr. 13 í sveitarfélaginu B. Hins vegar hafi hún ekki getað fengið lán frá Íbúðalánasjóði þar sem hún var komin á vanskilaskrá vegna nauðungarsölu E-götu nr. 8. Hafi kærandi þá fengið fyrrverandi tengdamóður sína til þess að taka lán og kaupa eignina. Þar sem kaupandinn að E-götu hafi ekki greitt útborgun hafi kærandi þurft að taka 4.080.000 kr. lán hjá Íslandsbanka vegna útborgunar á F-götu. Kærandi greiðir nú fyrrum tengdamóður sinni 115.000 kr. á mánuði í húsaleigu.

Tekjur kæranda á þeim tíma er hún tókst á hendur framangreindar skuldbindingar voru eftirfarandi: Árið 2006 voru samanlagðar ráðstöfunartekjur kæranda og sambýlismanns hennar 112.000 kr. á mánuði og 210.770 kr. árið 2007.

Þann 1. september 2011 lagði kærandi fram umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. 4. gr. um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Var umsókn hennar synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 30. mars sl., með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge., á grundvelli þess mats umboðsmanns að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er stofnað var til fjárhagsskuldbindinganna.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að hún hafi gert mistök er hún hafi gengist í ábyrgð fyrir fjárhagslegum skuldbindingum fyrirtækis í eigu sambýlismanns hennar, en áréttar að umrætt fyrirtæki hafi greitt af þeim lánum sem hún hafi gengist í ábyrgð fyrir allt fram til ársins 2007. Þá segir kærandi að hún og sambýlismaður hennar vilji ná sáttum við kröfuhafa og greiða af skuldum sínum eins og þeim er unnt, þau séu ung og eigi framtíðina fyrir sér og óski eftir því að fá tækifæri til að vinna úr sínum fjárhagslegu málum með aðstoð umboðsmanns skuldara.

Kærandi óskar eftir því að synjun umboðsmanns skuldara á umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði endurskoðuð svo hún og sambýlismaður hennar verði ekki lýst gjaldþrota, en kærandi segir þau búa yfir greiðsluvilja og einhverri greiðslugetu. Kærandi óskar eftir því að kærunefndin endurskoði ákvörðun umboðsmanns í máli þeirra og taki tillit til þess að sambýlismaður hennar sé nú á vinnumarkaði með góðar tekjur auk þess sé hún í námi sem muni skila henni tekjum í framtíðinni. Þá er það mat kæranda að ábyrgðin hvíli einnig hjá þeim lánastofnunum sem hafi samþykkt hana sem ábyrgðarmann fyrir umræddum fjárhagslegu skuldbindingum fyrirtækis í eigu sambýlismanns hennar, án þess að greiðslumat færi fram.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns, dags. 30. mars sl., með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Þar kemur fram að kærandi sé í námi í Miðstöð símenntunar í sveitarfélaginu B og stefni á nám hjá Keili. Jafnframt kemur þar fram að kærandi búi ásamt sambýlismanni sínum og þremur börnum í húsnæði í sveitarfélaginu B sem skráð sé á nafn fyrrverandi tengdamóður hennar, en umsækjandi greiði af. Umboðsmaður vísar til greinargerðar með umsókn kæranda um greiðsluaðlögun, þar sem fram kemur að umsækjandi sé tekjulaus að undanskildum meðlagsgreiðslum sem hún fái greitt með einu barni. Umboðsmaður vísar til staðfestra skattframtala kæranda, en þar kemur fram að tekjur hennar fyrir tekjuárið 2005 voru samtals 124.863 kr., 347.487 kr. fyrir tekjuárið 2006, 1.021.029 kr. fyrir tekjuárið 2007, 351.991 kr. fyrir tekjuárið 2008, 868.295 kr. fyrir tekjuárið 2009 og 893.775 kr. fyrir tekjuárið 2010.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu 26.837.799 kr., en ábyrgðir standi í 14.826.610 kr. Allar kröfur falli innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge. Þá bendir umboðsmaður á að kröfur og ábyrgðir sem rekja megi til reksturs félags í eigu maka kæranda séu um 25.984.421 kr.

Umboðsmaður vísar til ummæla kæranda þess efnis að fjárhagserfiðleika hennar megi rekja allt aftur til ársins 2005 er hún hóf sambúð með maka sínum og gekkst í töluverðar ábyrgðir vegna fyrirtækjareksturs hans, ásamt því að hafa átt í ýmsum viðskiptum fyrir hans tilstilli. Maki kæranda keypti nokkrar bifreiðar í nafni kæranda á árunum 2006 og 2007 sem hann síðar seldi, en einnig hafi kærandi keypt fasteignina að C-götu nr. 12 í sveitarfélaginu D í júnímánuði 2006. Umrædd fasteign hafi verið nýtt af einkahlutafélagi maka hennar sem stundaði smábátaútgerð á árunum 2005–2007, en umræddur rekstur hafi ekki gengið sem skyldi og sambýlismaður kæranda misst atvinnu sína árið 2007 og verið nánast tekjulaus til haustsins 2008. Umboðsmaður vísar til þess að kærandi hafi tekið á sig umtalsverðar skuldbindingar vegna fyrirtækjareksturs maka hennar, en kæranda hafi mátt vera það ljóst að hún væri ekki greiðslufær ef svo færi að ábyrgðarskuldbindingarnar féllu á hana. Þá áréttar umboðsmaður að kærandi hafi tekist á við umræddar ábyrgðarskuldbindingar á sama tíma og tekjur hennar dugðu vart fyrir lágmarksframfærslu fjölskyldunnar, sé miðað við uppgefnar tekjur samkvæmt staðfestum skattframtölum hennar, en einnig hafi eignastaða hennar ekki verið sterk.

Umboðsmaður vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun ber að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt b- og c-lið 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana, en metið skal hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari hafi verið ófær um að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eða hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt.

Umboðsmaður áréttar að samkvæmt framlögðum gögnum hafi kærandi stofnað til umtalsverðra fjárhagslegra skuldbindinga allt frá árinu 2005, sem voru í engu samræmi við greiðslugetu hennar, á sama tíma og fyrirtæki maka hennar hafi átt í rekstrarörðugleikum ásamt því að maki hennar verið atvinnulaus um langt skeið.

Það er mat umboðsmanns að heildstætt mat á fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda sýni að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma. Á grundvelli framangreinds hafi umboðsmaður því tekið hina kærðu ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Það er mat umboðsmanns að hvorki hafi komið fram nýjar upplýsingar né gögn til frekari skýringa á tilurð skulda umsækjanda sem breytt geti þeim forsendum sem synjunarákvörðun í máli hennar er byggð á og því fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV.

Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á b- og c-lið 2. mgr 6. gr. lge., en þar er kveðið á um heimild til að synja umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar eða hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist fyrst og fremst á því að kærandi hafi stofnað til umtalsverðra fjárhagslegra ábyrgðarskuldbindinga vegna fyrirtækjareksturs maka hennar, en henni hafi mátt vera ljóst að hún væri ekki greiðslufær ef umræddar ábyrgðarskuldbindingar féllu á hana. Á sama tíma var kærandi með lágar tekjur og átti litlar eignir ásamt því að maki hennar átti við langvinnandi atvinnuleysi að stríða og fyrirtæki hans átti í rekstrarörðugleikum. Það var því mat umboðsmanns að kærandi hafi stofnað til skulda og ábyrgðarskuldbindinga á tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær skuldbindingar og hafi því hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Með vísan til b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögum synjað.

Kærandi hefur fært fram þau rök að endurskoða beri ákvörðun umboðsmanns í máli hennar á grundvelli nýrra aðstæðna og að taka beri tillit til þess að sambýlismaður hennar sé nú á vinnumarkaði og sé með góðar tekjur auk þess sem þau búi yfir bæði greiðsluvilja og greiðslugetu.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, eru rakin þau atriði í 2. mgr. 6. gr. sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á heimild til greiðsluaðlögunar og ef þær aðstæður sem þar eru taldar upp eru fyrir hendi, geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun, ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Ber umboðsmanni skuldara að leggja sjálfstætt mat á það í hverju tilviki fyrir sig hvort atriði þau sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við og hvort þau leiði til þess að óhæfilegt þyki að veita heimildina. Í athugasemdunum kemur einnig fram að miðað sé við lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, enda sé komin nokkur reynsla á framkvæmd og beitingu þeirra. Í athugasemdunum er jafnframt vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 198/2010 þar sem Hæstiréttur skýrði ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga, en ákvæðið er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli var niðurstaðan sú að tímamark það sem miða skuli við þegar háttsemi skuldara er metin, skuli vera þegar til skuldbindinganna var stofnað.

Kærandi hefur fært fram þau rök að taka eigi tillit til þess að fjárhagsleg staða hennar og fjölskyldu hennar sé nú mun betri þar sem sambýlismaður hennar sé nú á vinnumarkaði og hafi góðar tekjur. Staða kæranda nú og í framtíðinni hefur ekki þýðingu við mat á því hvort ákvæði b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við, enda er þar miðað við háttsemi og stöðu einstaklings á þeim tíma er til skuldanna var stofnað. Núverandi staða breytir engu um það að vandi kæranda verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hún verður sjálf talin bera ábyrgð á með framgöngu sinni.

Niðurstaða umboðsmanns var byggð á heildstæðu mati á fjárhagsstöðu kæranda, framlögðum gögnum og öllum atvikum málsins. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á það með umboðsmanni skuldara að kærandi hafi stofnað til skulda og ábyrgðarskuldbindinga á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær skuldbindingar og hafi því hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Verður ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta