Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 2/2013

Fimmtudaginn 19. mars 2015

 

A og B

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. desember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 5. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. apríl 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 9. apríl 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 23. apríl 2013. Voru athugasemdirnar sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 26. apríl 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1970 og 1972. Þau eru gift og búa ásamt stálpuðum syni sínum í eigin 278,4 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 103 í sveitarfélaginu E.

Kærandi A er í námi. Samkvæmt lánsáætlun frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eru námslán hennar fyrir skólaárið 2012–2013 alls 1.997.280 krónur. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar eru því 166.440 krónur á mánuði. Kærandi B er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Hann fær mánaðarlegan framfærslustyrk frá sveitarfélaginu E að fjárhæð 235.754 krónur. Að auki fá kærendur barnabætur að fjárhæð 12.694 krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur kærenda eru því alls 414.688 krónur á mánuði.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, tekjulækkunar og eignataps í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Hafi fasteign þeirra lækkað mikið í verði og veðsett hlutabréf sem þau hafi átt orðið verðlaus. Einnig hafi þau verið að byggja parhús að F götu í sveitarfélaginu G með lánsfé. Þau hafi ekki getað staðið undir afborgunum og hafi húsið verið selt nauðungarsölu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 179.262.393 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) utan skuldar að fjárhæð 56.510 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2011.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. desember 2012 var umsókninni hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Þá mótmæla kærendur því að kæranda A sé synjað um greiðsluaðlögun vegna vörsluskattskulda kæranda B.

Kærendur telja ákvörðun umboðsmanns skuldara ómálefnalega og að þar sé ekki tekið mið af staðreyndum eða málsatvikum. Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra enda sé niðurstaða embættisins ekki í samræmi við þann tilgang lge. að gefa skuldara kost á að endurskipuleggja fjármál sín. Þá hafi embættið ekki sinnt rannsóknarskyldu samkvæmt 5. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara hafi synjað umsókn kærenda með vísan til heimildarákvæða b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Varðandi beitingu b- og c-liða sé ljóst að niðurstaða máls ráðist af því hvort kærendur hafi stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga sem þau hafi greinilega verið ófær um að standa við eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma. Við slíkt mat hljóti eigna- og skuldastaða þeirra að ráða úrslitum. Í ljósi þess að um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða hljóti allur vafi að verða túlkaður þröngt og kærendum í hag. Vissulega komi tekjur kærenda einnig til skoðunar en þar sem um háar fjárhæðir sé að ræða í málinu sé vafasamt að tekjur hafi úrslitaþýðingu.

Kærendur geri athugasemdir við framsetningu umboðsmanns skuldara á fjárhagsstöðu þeirra á árunum 2005 til 2008. Í fyrsta lagi geri þau athugasemdir við að umboðsmaður skuldara hafi verðmetið fasteign þeirra að H götu nr. 6 á fasteignamati árið 2005 en ekki á söluverði sem hafi verið ríflega 26.000.000 krónum hærra en fasteignamatið. Þá telji kærendur að hlutabréfaeign þeirra hafi verið að verðmæti 100.000.000 króna árið 2005 en ekki 460.000 krónur eins og umboðsmaður miði við. Af þessu leiði að eignastaða kærenda hafi verið jákvæð um 132.609.254 krónur árið 2005 en ekki 2.509.257 krónur eins og umboðsmaður gangi út frá.

Með vísan til þess sem segi um árið 2005 telji kærendur að eignastaða þeirra hafi verið jákvæð um 117.916.498 krónur í lok ársins 2006 en ekki neikvæð um 18.910.083 krónur eins og umboðsmaður skuldara telji. Einnig hafi eignastaða þeirra verið jákvæð um 86.678.703 krónur í lok árs 2007 en ekki neikvæð um 31.740.373 krónur. Að auki fari embættið rangt með skuldastöðu kærenda sem breyti fjárhag þeirra mjög á umræddu tímabili. Hafi þetta átt sér stað vegna þess að embættið hafi synjað kærendum um frest til að leggja fram gögn sem skiptu máli í þessu sambandi.

Samkvæmt 5. gr. lge. hvíli rannsóknarskylda á umboðsmanni skuldara. Sú skylda sé einkum rík í ljósi þeirra hagsmuna sem um sé fjallað í greiðsluaðlögunarmálum. Embætti umboðsmanns hafi synjað kærendum um frest til að leggja fram gögn. Embættið hafi talið að 15 dagar væru ríflegir til að leggja fram frekari gögn en það telji kærendur sérkennilegt þar sem málið hafi legið hjá umboðsmanni fyrir þann tíma í tæplega eitt og hálft ár. Virtist málshraðinn á þessum tíma hafa skipt meira máli en vönduð málsmeðferð og frekari gagnaöflun en kærendur hafi sérstaklega tekið fram að umrædd gögn væru hjá endurskoðanda sem væri í fríi og því væri ekki hægt að nálgast þau innan þess frests er umboðsmaður hafði gefið. Umboðsmaður hafi ekki tekið tillit til þessarar beiðni kærenda.

Embætti umboðsmanns skuldara hafi síðar fallist á sjónarmið og athugasemdir kærenda að því er varði verðmæti eigna, þ.e. að miða skuli við markaðsverð eigna þegar eignastaða sé metin svo framarlega sem fyrir liggi gögn sem staðfesti það. Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar sé miðað við fasteignamatsverð fasteigna og nafnverð hlutabréfa. Kærendur telji að tilgangur rannsóknarreglu 5. gr. lge. sé að ganga úr skugga um raunverulegt verðmæti eigna skuldara. Það eigi sérstaklega við þegar skuldari hafi sjálfur bent á þetta misræmi. Einnig vísi umboðsmaður til fjárhæða ólögmætra lána sem ef til vill hafi verið leiðréttar til lækkunar. Leiði þetta til ósanngjarnrar og ólögmætrar niðurstöðu og sé í ósamræmi við anda og tilgang lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 14. september 2012 hafi kærendur verið beðin um margvísleg gögn. Hafi þeim verið gefinn einnar viku frestur til að afla þeirra ella kynni umsókn þeirra að vera synjað, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Fresturinn hafi verið mjög stuttur en auk þess sé frests ekki getið í lagaákvæðinu. Kærendur telji að hér hafi verið um valdníðslu að ræða. Eðlilegra hefði verið að gefa ríflegan frest í samræmi við umfang þeirra gagna sem óskað hafi verið eftir.

Að því er varði verðmæti á hlutafjáreign kærenda sé um að ræða einkahlutafélagið Z ehf. sem hafi verið í eigu kæranda B. Það félag hafi átt 100% hlut í Þ ehf. sem hafi meðal annars átt ⅓ hlut í Y ehf. Samkvæmt kaupsamningi frá 27. júní 2007 hafi Þ ehf. keypt út meðeigendur sína en í samningnum hafi allt hlutafé Y ehf. verið metið á 300.000.000 króna. Sé þetta grundvöllur að verðmati kærenda á hlutafjáreign sinni. Þótt Y ehf. hafi síðar orðið gjaldþrota tengist það ekki verðmæti félagsins árið 2007. Hefði embætti umboðsmanns gefið kærendum kost á að skila gögnum og leggja fram andmæli hefði þetta atriði getað legið fyrir. Gefi það augaleið að þessi staðreynd hafi haft mikil áhrif á fjárhag kærenda. Með kæru leggi kærendur fram gögn þessu til staðfestingar.

Umboðsmaður skuldara hafi hafnað staðhæfingu kærenda um verðmæti B götu nr. 103 en kærendur telji eignina hafa verið 90.000.000 króna virði. Hefði umboðsmaður fallist á umbeðinn frest hefði kærendum gefist tími til að útvega verðmat fasteignarinnar frá 7. ágúst 2008. Samkvæmt verðmatinu sé eignin metin á 110.000.000 króna.

Hefði umboðsmaður skuldara sinnt rannsóknarskyldu sinni hefði komið í ljós að skuldir vegna parhússins að F götu nr. 4 og 6 hefðu ekki tilheyrt kærendum. Kærendur hafi keypt húsið árið 2007 og selt það sama ár til V ehf. Skuldir þessar séu kærendum óviðkomandi enda hafi kaupandinn yfirtekið þær samkvæmt kaupsamningnum. Á þeim tíma hafi legið fyrir að verðmæti eignarinnar hafi verið mun meira en áhvílandi skuldir. Því sé ekki hægt að halda því fram að um verulega fjárhagslega áhættu kærenda hafi verið að ræða með skuldbindingum vegna parhússins. Ekki hafi reynst unnt að nafnbreyta skuldunum þar sem um hafi verið að ræða lán í erlendri mynt sem hafi þrefaldast við gengisfall íslensku krónunnar árið 2008. Umboðsmaður færi 28.000.000 króna vegna þessara lána á skuldayfirlit kærenda en það séu eftirstöðvar lánanna árið 2011 eftir að eignin hafi verið seld, söluandvirðið gengið til lækkunar skuldarinnar og lánið leiðrétt. Að mati kærenda hefði embætti umboðsmanns hvorki kynnt sér málið né skilið málsatvik. Leiði það til þess að skuldastaða kærenda sé rangt tilgreind og fjárhagur þeirra þar með, en eignastaða kærenda hafi verið jákvæð á árunum 2005 til 2008.

Umboðsmaður skuldara styðji niðurstöðu sína einnig við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Kærendur geri athugasemd við að nefnd lagatilvísun sé talin eiga við um kæranda A enda sé ekki að sjá að hún tengist viðkomandi skattskuldum. Það sem eigi við um kæranda B eigi ekki endilega við um kæranda A.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi með ákvörðun sinni um synjun brotið gróflega gegn lögmæltum andmælarétti kærenda. Þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla niðurstöðu umboðsmanns á viðeigandi hátt. Í bréfi umboðsmanns frá 9. nóvember 2012 sé gerð grein fyrir lagasjónarmiðum að baki b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Hvergi sé minnst á hugsanlega beitingu d-liðar. Í bréfi 23. febrúar 2012 sé ákvæði d-liðar nefnt gagnvart báðum kærendum. Þrátt fyrir að kærandi A tengist hvorki Y ehf. né X ehf. sé þáttur hennar í ákvörðun umboðsmanns ekki aðgreindur. Í bréfinu frá 23. febrúar 2012 biðji umboðsmaður um tilteknar upplýsingar og nefni að ákveðin atvik geti leitt til synjunar. Gögnin hafi verið send embættinu. Í bréfinu frá 9. nóvember 2012 sé hvergi að finna tilvísun í d-lið. Hafi kærendum því engan veginn getað verið ljóst að til stæði að beita þeim staflið til grundvallar synjun.

Að mati kærenda hafi umboðsmaður skuldara ekki gert tilraun til að fjalla um tímamark skattskulda þeirra félaga sem um ræði. X ehf. hafi orðið gjaldþrota eftir að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi verið lögð fram. Umboðsmaður hefði átt að skoða bæði félögin, svo sem fjárhag þeirra, á hve löngum tíma skattskuldir mynduðust o.fl. Kærandi B hafi ekki verið eini eigandi og ábyrgðarmaður þeirra. Jafnvel þótt staðfest verði að umræddar skuldir séu til staðar sé engan veginn víst að til þeirra hafi verið stofnað með skaðabótaskyldri eða refsiverðri háttsemi enda hafi engin slík mál tengd nefndum félögum verið höfðuð á hendur kæranda B. Að því er varði Y ehf. hafi það félag verið í umfangsmiklum rekstri og ekki hafi orðið vanskil á vörslusköttum fyrr en undir lok á rekstri þess.

Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. hafi umboðsmaður skuldara kveðið að „[á]kvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hefur þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011, þar sem kærunefndin vísaði til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009.“ Þessi tilvísun umboðsmanns eigi engan veginn við í þessu máli þar sem um gjörólík mál sé að ræða. Í þessu máli nemi skuldir samkvæmt álagningu um 4.000.000 króna. Sú fjárhæð sé einungis brot af fjárhag kærenda. Í tilvitnuðum úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi vörsluskattar nánast verið jafnháir þeirri fjárhæð sem kærendur skulduðu. Það sé því fráleitt og í raun villandi að bera þessi mál saman. Stafliðir a–d í 2. mgr. 6. gr. lge. séu vísireglur um hvernig meta skuli hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Í d-lið sé það sett sem skilyrði að viðkomandi skuldbinding nemi einhverju miðað við fjárhag skuldarans í heild. Kærendur telji það því rangfærslu þegar umboðsmaður skuldara vísi til þess í hinum kærða úrskurði að í d-lið 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt b-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt skattframtölum vegna áranna 2006 til 2009 og gögnum málsins hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi á árunum 2005 til 2008 í krónum:

 

Tekjuár 2005 2006 2007 2008
Framfærslutekjur* alls á mán. 335.834 238.761 765.959 639.697
Eignir 33.000.021 72.318.437 146.719.330 127.562.017
H gata nr. 6 (fasteignamat) 27.340.000 29.940.000    
B gata nr. 103 (fasteignamat)   32.150.000 57.940.000 57.940.000
Bifreiðir 3.000.021 5.900.018 14.401.755 11.452.549
Hjólhýsi/hús í Tyrklandi 2.200.000 2.200.000 11.825.000  
Innstæður í bönkum     1.041.415 38.989.468
Verðbréf og kröfur     59.911.651 18.000.000
Hlutabréf (nafnvirði) 460.000 2.128.419 1.599.509 1.180.000
Skuldir 30.490.764 91.228.520 178.459.703 303.736.178
Skuldir vegna íbúðarhúsnæðis 13.073.094 62.835.916 63.685.126 147.888.009
Aðrar skuldir 17.417.670 28.392.604 114.774.577 155.848.169
Nettóeignastaða 2.509.257 -18.910.083 -31.740.373 -176.174.161

*Samanlagðar mánaðarlegar tekjur að meðtöldum bótum eftir frádrátt skatts.

 

Árið 2006 hafi kærendur keypt fasteignina að B götu nr. 103. Kaupverð hafi verið 46.045.000 krónur samkvæmt skattframtali og 47.468.596 krónur samkvæmt húsbyggingarskýrslu.

Árið 2007 hafi kærendur selt fasteign sína að H götu nr. 6. Söluverð hafi verið 55.000.000 króna og söluhagnaður 41.059.500 krónur sem að sögn kærenda hafi verið ráðstafað til kaupa á B götu. Að auki hafi kærendur keypt helmingshluta í parhúsi að F götu nr. 4 og 6, sveitarfélaginu G, þetta ár en eignin hafi síðar verið seld félaginu V ehf. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo hafi kærandi B verið stjórnarmaður í félaginu og kærandi A verið varamaður og framkvæmdastjóri.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum ábyrgðarbréf þar sem tilkynnt hafi verið að til skoðunar væri að synja umsókn þeirra með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Sérstaklega hafi verið vísað til mikillar skuldasöfnunar kærenda, eignastöðu og tekna með tilliti til framfærslukostnaðar og afborgana af skuldum. Kærendur hafi svarað og gert athugasemdir við framsetningu embættis umboðsmanns skuldara á eignastöðu þeirra og fjárhag. Að mati kærenda hafi fjárhagsstaða þeirra verið þessi í krónum:

 

Tekjuár 2005 2006 2007
Eignir 163.100.018 209.145.018 275.138.406
H gata nr. 6 55.000.000 55.000.000  
B gata nr. 103   46.045.000 90.000.000
Bifreiðir og hjólhýsi 8.100.018 8.100.018 16.601.755
Hjólhýsi/hús í Tyrklandi     9.625.000
Innstæður í bönkum     58.911.651
Hlutabréf 100.000.000 100.000.000 100.000.000
Skuldir 30.490.764 91.228.520 178.459.703
Nettóeignastaða 132.609.254 117.916.498 96.678.703

 

Embætti umboðsmanns skuldara hafi fallist á það með kærendum að rétt sé að miða við matsverð eigna svo framarlega sem fyrir hendi séu gögn er staðfesti það verð. Fyrir liggi að söluverð fasteignarinnar að H götu nr. 6 hafi verið 55.000.000 króna og kaupverð eignarinnar að B götu nr. 103 hafi verið 46.045.000 krónur. Fallist embættið því á að miðað sé við þessi verð við mat á eignastöðu kærenda. Embættið geti á hinn bóginn ekki fallist á að raunverulegt markaðsverð hlutabréfa kærenda hafi verið 100.000.000 króna í lok árs 2005, 2006 og 2007. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á þetta verð og verði því að miða við nafnverð eins og það komi fram á skattframtölum. Þá hafi kærendur ekki lagt fram nein gögn er styðji þá fullyrðingu þeirra að verðmæti fasteignarinnar að B götu nr. 103 hafi verið 90.000.000 króna árið 2007. Sé tekið mið af þessu hafi eignastaða kærenda verið jákvæð um 30.169.257 krónur í lok árs 2005, jákvæð um 20.044.917 krónur í lok árs 2006 en neikvæð um 32.740.373 krónur í lok árs 2007.

Að öllu framangreindu virtu telji umboðsmaður skuldara að fyrirliggjandi gögn sýni að mikil skuldasöfnun kærenda hafi átt sér stað á sama tíma og tekjur kærenda hefðu aldrei getað staðið undir framfærslu fjögurra manna fjölskyldu, rekstri fasteigna og bifreiða kærenda og afborgunum af áhvílandi veðskuldum. Að mati embættisins hafi kærendur því stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað.

Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geti til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 þar sem kærunefndin hafi vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009.

Í 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 geti meðal annars verið lögð refsing við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo sé kærandi B framkvæmdastjóri, meðstjórnandi og prókúruhafi Y ehf. og framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. Á grundvelli 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 hafi hann stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu vörsluskatta og annarra opinberra gjalda.

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra hvíli á Y ehf. skuldir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda. Skuld vegna staðgreiðslu launagreiðanda nemi 4.409.742 krónum en þar af sé höfuðstóll 2.583.482 krónur. Sá hluti skuldanna sem byggist á álagningu ríkisskattstjóra nemi 1.131.938 krónum. Virðisaukaskattskuld nemi 9.515.534 krónum en þar af sé höfuðstóll 5.872.381 króna og 2.747.633 krónur byggist á álagningu. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra hvíli á X ehf. skuldir vegna staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 5.950.107 krónur en þar af sé höfuðstóll 4.522.333 krónur og byggist 2.856.305 krónur á álagningu.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið sent ábyrgðarbréf 23. febrúar 2012 þar sem tilkynnt hafi verið að til skoðunar væri að synja umsókn þeirra meðal annars með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hafi verið vísað til framangreindra skulda Y ehf. og X ehf. auk skulda annarra opinberra gjalda hjá félögum þar sem kærendur séu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar. Í svari kærenda hafi meðal annars komið fram að Y ehf. og X ehf. væru í gjaldþrotaskiptameðferð.

Af fjárhagsyfirliti og greinargerð kærenda verði ráðið að heildarskuldir þeirra séu 179.575.266 krónur og ábyrgðarskuldir um 78.301.705 krónur að meðtöldu tryggingarbréfi að fjárhæð 57.233.000 krónur sem hvíli á fasteign þeirra. Eignir þeirra séu að fjárhæð 76.527.938 krónur og því sé eignastaða þeirra neikvæð um 103.047.328 krónur. Skuldir gætu þó verði lægri þar sem óvíst sé um endurútreikning gengislána. Taka verði tillit til þess að kærandi A sé námsmaður og taki námslán og kærandi B atvinnulaus.

Ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda B sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra í báðum fyrrnefndum félögum til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir skattskuldanna þó nokkuð háar í ljósi fjárhags kærenda.

Á umsækjendum um greiðsluaðlögun hvíli skylda til að afla nauðsynlegra gagna, sérstaklega þeirra gagna sem ekki sé á færi annarra en þeirra sjálfra að afla enda mikilvægt að þeir taki virkan þátt í að varpa ljósi á fjárhag sinn. Einnig sé gerð krafa um að umsækjendur bregðist eins fljótt við og kostur sé í ljósi þess að þeir njóti sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar. Því sé ekki tekin afstaða til nýrra gagna sem fylgi kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála enda hafi kærendum gefist nægilegt tækifæri til að sýna fram á virði eigna sinna við málsmeðferð hjá umboðsmanni skuldara.

Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að staða kæranda B sé látin ráða úrslitum um niðurstöðu í máli kæranda A án röksemda. Kærendur leituðu sameiginlega greiðsluaðlögunar, eins og þeim er heimilt að gera samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge., en virðast þrátt fyrir það telja að afgreiða eigi mál þeirra sérstaklega og óháð stöðu meðumsækjanda. Í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að heimildin til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda A kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda B. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hún leiti ein greiðsluaðlögunar en úrlausn í máli þessu er óháð því hvort til þess kemur.

Kærendur telja umboðsmann skuldara ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni en hún kemur fram í 5. gr. lge. Í lagagreininni er auk rannsóknarskyldu ákvæði um að umboðsmaður skuldara hafi heimild til að krefjast þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum. Virðast kærendur einkum gera athugasemdir við það hvernig embætti umboðsmanns skuldara metur fjárhagsstöðu þeirra. Í því sambandi telja kærendur hlutabréfaeign sína hafa verið 100.000.000 króna virði á árunum 2005 til 2008 en umboðsmaður miðar við nafnverð bréfanna 460.000 krónur.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 9. nóvember 2012 voru rakin ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. og tekið fram að þau gætu leitt til synjunar á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun. Voru tekjur þeirra, eignir og skuldir tíundaðar. Þá var óskað eftir því að kærendur legðu fram gögn er sýndu að þau hefðu ekki stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, að þau hefðu ekki hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og að þau hefðu ekki tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Einnig var óskað eftir gögnum sem sýndu fram á hvernig þau hygðust standa við skuldbindingar sínar. Kærendur svöruðu með bréfi 28. nóvember 2012 þar sem þau mótmæltu verðmati umboðsmanns skuldara á eignum og tiltóku það verðmæti sem þau töldu vera rétt á þeim. Kærendur lögðu ekki fram gögn er styddu fullyrðingar þeirra um verðmæti eigna sinna. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge. verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Verður með engu móti fallist á að það sé hlutverk umboðsmanns skuldara að staðreyna markaðsverðmæti eigna umsækjenda um greiðsluaðlögun á þann hátt sem kærendur telja að hann eigi að gera, enda samrýmist það ekki því hlutverki sem embættinu er ætlað að hafa að lögum. Með vísan til þessa telur kærunefndin að kærendum hafi sjálfum borið að sýna fram á verðmæti eigna sinna, hafi þau talið þær verðmeiri en skattframtöl áranna 2005 til 2007 gáfu til kynna. Fallist verður á með kærendum að vikufrestur sem þeim var veittur til að gefa skýringar og afla ganga samkvæmt bréfi umboðsmanns skuldara 14. september 2012 hafi verið skammur en telja verður að það hafi þó ekki leitt til réttarspjalla.

Í ofangreindu ljósi er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns skuldara hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til b-, c- og d-liða.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í lagaákvæðinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars á grundvelli þeirra ákvæða.

Samkvæmt skattframtölum og gögnum málsins var fjárhagsstaða kærenda eftirfarandi árin 2005 til 2010 í krónum:

 

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur* á mán. (nettó) 335.834 285.347 765.959 639.697 889.739 425.117
Eignir alls 33.000.021 111.273.437 154.986.916 133.941.193 90.638.538 92.519.976
· H gata nr. 6 27.340.000 55.000.000        
· B gata nr. 103*   46.045.000 64.319.176 64.319.176 64.319.176 64.319.176
· Hús í Tyrklandi     9.625.000      
· Aðrar fasteignir           3.214.997
· Bifreiðir 3.000.021 5.900.018 14.401.755 11.452.549
 
· Hjólhýsi 2.200.000 2.200.000 2.200.000      
· Hlutir í félögum o.fl.** 460.000 2.128.419 4.487.919 1.180.000    
· Verðbréf og kröfur     58.911.651 18.000.000
172.872
· Bankainnstæður     1.041.415 38.989.468 26.319.362 24.812.931
Skuldir 30.490.764 91.228.520 178.459.703 303.736.178 319.525.886 333.263.904
Nettóeignastaða 2.509.257 20.044.917 -23.472.787 -169.794.985 -228.887.348 -240.743.928

*Fært á kaupverði árið 2006 og samkvæmt stofnkostnaði 2007–2010.

**Skráð hlutabréf færð á kaupverði en óskráð hlutabréf á nafnverði.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Trygging Upphafleg Staða Vanskil
        fjárhæð 2012 frá
Landsbankinn 2006 Erlent lán - 4.300.000 6.713.546 2011
Arion banki 2007 Erlent lán - 60.000.000 54.100.477 2011
Byr 2007 Skuldabréf Sjálfskuldarábyrgð 6.172.000 12.524.626 2009
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent lán F gata nr. 4 og 6 16.745.224 14.010.107 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2008 Erlent lán F gata nr. 4 og 6 8.868.704 14.017.216 2010
Lýsing 2008 Bílasamningur Range Rover 16.808.856 3.920.625 2009
Reykjavíkurborg 2008–2010 Fasteignagjöld B gata nr. 103 649.969 934.861 2008–2010
Íslandsbanki 2009–2011 Greiðslukort - 743.294 1.062.906 2009–2011
Lýsing 2009 Bílasamningur Mercedes Benz 3.819.000 2.303.374 2009
Arion banki 2009 Greiðslukort -   1.453.637 2009
Arion banki 2009 Yfirdráttur -   1.896.757 2009
Arion banki 2009 Yfirdráttur -   1.969.180 2009
Byr 2011 Yfirdráttur -   1.799.729 2011
Byr 2011 Skuldabréf   53.712.377 55.745.080 2011
Spron 2011 Skuldabréf - 3.874.667 3.941.639 2011
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld - 257.876 262.443 2011
Ýmsir 2008–2011 Reikningar   1.799.869 2.606.190 2008–2011
    Alls   177.751.836 179.262.393  

 

Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og þannig hafi þau tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhag þeirra.

Á árinu 2006 tókst kærandi B á hendur skuld samkvæmt lánasamningi í erlendum myntum að fjárhæð 4.300.000 krónur. Greiðslubyrði lánsins í upphafi var um 23.000 krónur á mánuði. Á þessum tíma voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda 285.347 krónur og nettóeignastaða samkvæmt framansögðu jákvæð um rúmar 20.000.000 króna.

Á árinu 2007 tókust kærendur á hendur skuldir samtals að fjárhæð 82.917.224 krónur. Var greiðslubyrði þeirra um 1.850.000 krónur á mánuði. Meðal þessara lána var lán að höfuðstólsfjárhæð 6.172.000 krónur, það var afborgunarlaust fram í janúar 2009, en greiðslur af því eru ekki taldar með í fyrrnefndri greiðslubyrði. Þá tóku kærendur lán að fjárhæð 16.745.224 krónur og voru fyrstu afborganir þess einungis vegna vaxta og um 50.000 krónur á mánuði í byrjun. Þriðja lánið var með reglulegum afborgunum. Tekjur kærenda á árinu 2007 voru að meðaltali 765.959 krónur á mánuði. Samkvæmt framangreindu var greiðslubyrði lána kærenda ríflega 1.000.000 króna hærri á mánuði en mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra.

Samkvæmt framangreindu yfirliti yfir eigir kærenda og skuldir árið 2007 var eignastaða þeirra neikvæð um 23.472.787 krónur. Er þá miðað við að verðmæti B götu nr. 103 sé samkvæmt stofnkostnaði eins og kærendur gera grein fyrir í skattframtali vegna þess árs. Er ekkert í gögnum málsins sem styður fullyrðingu kærenda um að verðmæti eignarinnar hafi verið 90.000.000 króna og verður ekki á því byggt. Þá er gert ráð fyrir því að verðmæti hlutafjáreignar kærenda sé 4.487.919 krónur miðað við að skráð hlutabréf séu metin á kaupverði en hlutafjáreign í einkahlutafélögum metin á nafnverði. Kærendur telja hlutafjáreign sína hafa verið að verðmæti 100.000.000 króna allt frá árinu 2005. Félagið Z ehf., sem var í eigu kæranda B, átti tæpan þriðjung í Y ehf. Kærendur byggja verðmat á hlutafjáreign sinni að mestu á kaupsamningi sem gerður var um alla hluti í Y ehf. í júní 2007 en samkvæmt honum var kaupverðið 300.000.000 króna. Meðal seljenda var Z ehf. en kaupverðið var meðal annars greitt með auknu hlutafé í Z ehf. Samkvæmt þessu voru kærendur sjálf ekki meðal eigenda Y ehf. heldur félag í eigu kæranda B, þ.e. Z ehf. Á skattframtali var hlutur kærenda í Z ehf. talinn að verðmæti 500.000 krónur. Kærendur hafa ekki lagt fram neinar upplýsingar um fjárhag Z ehf. fyrir kærunefndina eins og þeim var heimilt að gera. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að verðmæti þess félags hafi verið meira en greinir í skattframtölum og hefur kærunefndin því ekki forsendur til annars en að miða við skattframtöl kærenda.

Að teknu tilliti til alls þessa er það mat kærunefndarinnar að á árinu 2007 hafi kærendur stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi B tók ásamt öðrum manni tvö lán vegna kaupa á parhúsi við F götu nr. 4 og 6 í sveitarfélaginu G. Annað lánið er tilgreint hér að framan og var að fjárhæð 16.745.224 krónur en hitt lánið var tekið árið 2008 og var að fjárhæð 8.868.704 krónur eða samtals að fjárhæð 25.613.928 krónur. Fyrsta afborgun af höfuðstól beggja lánanna skyldi vera 2. júlí 2008 og síðan mánaðarlega eftir það. Samkvæmt gögnum málsins var hin mánaðarlega höfuðstólsafborgun alls að fjárhæð um 940.000 krónur. Virðast kærendur hafa gert ráð fyrir því að söluverð og eftir atvikum söluhagnaður parhúsanna myndi nægja til að greiða lánin en útilokað var að launatekjur þeirra eða sala eigna myndi hrökkva til afborgunar af lánunum. Það er mat kærunefndarinnar að með stofnun þessara skulda hafi kærendur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra, á þeirra tíma sem til fjárhagsskuldbindinga vegna F götu nr. 4 og 6 var stofnað, í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.

Umsókn kærenda barst umboðsmanni skuldara 28. júní 2011. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 23. febrúar 2012 var óskað eftir upplýsingum frá þeim. Í bréfinu var meðal annars gerð grein fyrir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og tekið fram að samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 gæti legið refsing við því að skila ekki virðisaukaskatti á lögmæltum tíma. Var síðan tiltekið að kærendur hefðu verið framkvæmdastjórar, prókúruhafar og stjórnarmenn í sjö tilteknum félögum þar á meðal Y ehf. og X ehf. Að því er Y ehf. varðar kom fram að samkvæmt gögnum frá tollstjóra væri vangoldinn virðisaukaskattur 8.684.042 krónur frá árinu 2008 og vangoldin staðgreiðsla launagreiðanda 4.034.892 krónur frá árunum 2008 og 2009. Byggðust þessar fjárhæðir að hluta til á áætlunum. Að því er varðaði Xehf. væri skuld vegna virðisaukaskatts 204.627 krónur, fjárhæðin byggðist á áætlun og væri frá 2011. Skuld vegna staðgreiðslu launagreiðanda væri frá 2010 og 2011, byggðist að mestu á áætlun og næmi 5.456.973 krónum. Kærandi B bæri ábyrgð á greiðslu þessara skulda samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 þar sem hann hefði verið fyrirsvarsmaður félaganna er til skuldanna var stofnað. Í lok bréfsins kom fram að þess væri óskað að kærendur staðfestu við umboðsmann skuldara innan þriggja daga ef þau teldu álagðan virðisaukaskatt endurspegla rétta skattskyldu félaganna. Ella var skorað á kærendur að óska þess við ríkisskattstjóra innan 15 daga að skuld vegna virðisaukaskatts yrði endurákvörðuð og skila staðfestingu þar að lútandi til umboðsmanns skuldara. Loks kom fram í bréfinu að ef áætlun ríkisskattstjóra endurspeglaði ekki rétta skattskyldu en kærendur myndu ekki hlutast til um endurálagningu gæti það varðað synjun á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Síðan segir: „Í framangreindri lagagrein kemur fram að umboðsmaður skuldara skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hlutist þið ekki til við það að skila inn skjali frá ríkisskattstjóra um móttöku hans á gögnum til leiðréttingar á áætlun getur það einnig varðað synjun á umsókn ykkar með vísan til áðurnefnds b-liðs[sic] 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.“

Svar kærenda barst með bréfi 23. mars 2012. Í bréfinu kom fram að kærendur teldu álagningu ríkisskattstjóra ekki endurspegla rétta skattskyldu félaganna og þau hafi þegar hafið vinnu við að afla nauðsynlegra gagna til að hægt væri að óska endurálagningar. Y ehf. og X ehf. séu gjaldþrota en kærendur muni snúa sér til skiptastjóra varðandi nauðsynleg gögn. Óskað var eftir að umboðsmaður skuldara veitti kærendum frekari frest til að afla og leggja fram viðbótargögn varðandi málið. Loks greindu kærendur frá því að þau hefðu þegar óskað eftir viðtali og aðstoð hjá umboðsmanni skuldara.

Með bréfi 14. september 2012 óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum og gögnum frá kærendum varðandi tilteknar skuldir, tekjur, ökutæki og fleira. Ekki var óskað upplýsinga um vörsluskatta fyrrgreindra félaga. Kærendur svöruðu með ódagsettu bréfi þar sem meðal annars kom fram að gögn vegna hluta fyrirspurna umboðsmanns væru hjá endurskoðanda sem væri í fríi næstu fjórar vikur. Hægt væri að afhenda umboðsmanni gögnin eftir þann tíma væri þess óskað.

Með bréfi 9. nóvember 2012 sendi umboðsmaður skuldara kærendum enn bréf. Þar var vísað til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. og fjárhagur kærenda á tímabilinu 2005 til 2008 rakinn. Gerð var grein fyrir eignum, skuldum og tekjum á tímabilinu og skorað á þau að leggja fram gögn er sýndu fram á að þau hefðu ekki stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og að þau hafi ekki hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Var kærendum gefinn 15 daga frestur til þess að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum.

Kærendur svöruðu með bréfi 28. nóvember 2012. Komu þar meðal annars fram mótmæli við verðmati umboðsmanns á eignum þeirra. Engin gögn voru lögð fram en kærendur áskildu sér tveggja vikna frest til að „afla umbeðinna gagna [...] ef þess verður óskað“.

Eins og sjá má af framangreindu sendi umboðsmaður skuldara kærendum þrjú bréf þar sem þeim var boðið að gæta andmælaréttar síns. Fyrsta bréfið var sent 23. febrúar 2012 og varðaði meðal annars hugsanlega synjun á umsókn vegna vörsluskattskulda félaga þeirra samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Annað bréfið var sent rúmum sex mánuðum síðar eða 14. september 2012 en þar var óskað eftir að kærendur legðu fram tiltekin gögn. Tekið var fram í bréfinu að bærust gögnin ekki yrði umsókn synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þriðja og síðasta bréfið var svo sent tæpum tveimur mánuðum síðar eða 9. nóvember 2012 og þar var gerð grein fyrir hugsanlegri synjun á umsókn vegna ámælisverðrar háttsemi og áhættu í fjármálum samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Þannig liðu rúmir átta mánuðir á milli fyrsta og síðasta bréfsins.

Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar eða gögn um samskipti kærenda og umboðsmanns skuldara varðandi vörsluskattskuldir eftir 23. mars 2012. Verður því að líta þannig á að alls hafi liðið rúmir átta mánuðir frá því að kærendum var fyrst boðið að nýta andmælarétt sinn með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og þar til þeim var aftur boðið að nýta andmælaréttinn og þá með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Kærunefndin fellst á að liðið hafi of langur tími á milli greindra bréfa en engu að síður hafi andmælaréttar kærenda vegna d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verið gætt með bréfi umboðsmanns skuldara 23. febrúar 2012.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í ákvörðun sinni og varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru neðangreindar skuldir félaga sem kærandi B var í forsvari fyrir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda í krónum:

 

  Upphafleg fjárhæð Fjárhæð sept. 2012
X ehf.    
 staðgreiðsla launagreiðanda 2010 1.801.594 2.512.169
 staðgreiðsla launagreiðanda 2011 2.720.739 3.437.938
virðisaukaskattur 2011 425.266 519.545
X ehf. alls 3.146.005 3.957.483
     
Y ehf.    
staðgreiðsla launagreiðanda 2008 1.773.558 3.046.321
staðgreiðsla launagreiðanda 2009 809.924 1.363.151
virðisaukaskattur 2008 5.872.381 9.515.534
Y ehf. alls 8.455.863 13.925.006
     
Samtals 11.601.868 17.882.489

 

Fyrir liggur samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi B stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félaganna Y ehf. og X ehf. Hvíldi því á honum sú skylda fyrirsvarsmanns félags, sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrirsvarsmaður félags skal einnig hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda B sem fyrirvarsmann X ehf. og Y ehf.

Að því er varðar ofangreindar vörsluskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskulda X ehf. og Y ehf. alls 11.601.868 krónur og heildarskuldin nemur alls 17.882.489 krónum með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi B bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.  

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um rúmlega 103.000.000 króna og tekjur þeirra nema alls 414.688 krónum á mánuði að meðaltali. Skuldir sem B hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nema 17.882.489 krónum með vöxtum eða 9,95% af heildarskuldum kærenda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi B hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta