Mál nr. 72/2013
Fimmtudaginn 26. mars 2015
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 28. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 13. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. júní 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 19. júlí 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 19. mars 2014.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1966 og 1967. Þau búa ásamt syni sínum í eigin 101 fermetra íbúð að Naustabryggju 16 í Reykjavík.
Kærandi A er öryrki og fær örorkubætur að fjárhæð 142.689 krónur á mánuði. Kærandi B starfar hjá X hf. og eru mánaðarleg laun hans 527.285 krónur að meðaltali. Bótagreiðslur nema 38.135 krónum á mánuði.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til húsnæðiskaupa, tekjulækkunar og veikinda.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 114.320.854 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2004 til 2009.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 2. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júlí 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. nóvember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í bréfi umsjónarmanns kom fram að drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir kærendur hefði verið unnið í samráði við þau. Samkvæmt drögunum hefði verið gert ráð fyrir að mánaðarleg greiðslugeta kærenda væri 247.547 krónur. Hefðu kærendur notið frestunar greiðslna frá 2. nóvember 2010 þegar umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var móttekin eða í rúmlega 23 mánuði. Sé miðað við fyrrnefnda greiðslugetu geri ýtrasta áætlun ráð fyrir því að kærendur hefðu getað lagt til hliðar 5.693.581 krónu. Þau hafi þó aðeins lagt fyrir 310.000 krónur á tímabilinu.
Þegar atvik málsins hafi farið að benda til þess að kærendur hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi umsjónarmaður óskað eftir skýringum og gögnum frá kærendum um hvers vegna þau hafi ekki lagt meira fyrir. Í kjölfarið hafi kærendur lagt fram reikninga vegna ýmissa útgjalda, svo sem kaupa á bílavarahlutum og –viðgerðum, heimilistækjum, tannlæknaþjónustu o.fl. Samtals nemi þessir reikningar 734.540 krónum. Einnig hafi kærendur vísað til þess að annað þeirra sé á kostnaðarsömu matarræði vegna veikinda og þau hafi þurft að kaupa sérstök húsgögn vegna veikindanna. Þá eigi þau uppkominn son sem glími við vímuefnavanda. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessu. Bendi umsjónarmaður á að neysluviðmið umboðsmanns skuldara, sem stuðst sé við þegar mat sé lagt á greiðslugetu, geri ráð fyrir kostnaði við rekstur bifreiðar og læknisþjónustu.
Með tölvupósti 6. nóvember 2012 hafi kærendum verið gefinn lokafrestur til að koma að frekari gögnum eða skýringum. Hvorki hafi borist viðbótar gögn né skýringar frá þeim. Jafnvel þó að tekið væri tillit til framlagðra reikninga kæranda hefðu þau átt að geta lagt fyrir 4.959.041 krónu. Þar sem að kærendur hafi ekki lagt til hliðar nema 310.000 krónur telji umsjónarmaður að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því fór hann þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 3. apríl 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust engin svör frá kærendum.
Með bréfi til kærenda 10. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt.
Kærendur vísa til þess að umboðsmaður skuldara hafi hafnað beiðni þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í lagaákvæðinu komi fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari „leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða“. Kærendur hafi greint umsjónarmanni frá því að þau hafi gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna veikinda kæranda A. Þurfi hún að vera á sérstöku mataræði vegna veikindanna og einnig hafi þurft að kaupa sérstök húsgögn fyrir hana. Elsti sonur kærenda sem sé 22 ára hafi verið greindur með geðraskanir og hafi verið í vímuefnaneyslu. Frá því að kærendur sóttu um greiðsluaðlögun á árinu 2010 hafi þau þurft að framfleyta honum en hann hafi verið sviptur sjálfræði tímabundið og dvalið á geðdeild. Viðunandi úrræði frá hinu opinbera hafi ekki fengist.
Kærendur telja að túlka verði a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. rúmri lögskýringu og með hagsmuni skuldara að leiðarljósi enda liggi fyrir að lge. séu beinlínis sett með það að markmiði að greiða úr skuldavanda einstaklinga. Þar sem kærendur hafi að miklu leyti þurft að framfleyta elsta syni sínum þau ár sem um ræði vegna úrræðaleysis hins opinbera verði að teljast sanngjarnt og eðlilegt að tekið sé tillit til framfærslukostnaðar vegna þess. Líti kærendur þannig á að sonur þeirra falli undir hugtakið „fjölskylda“ í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Af þessum ástæðum telja kærendur rétt að miðað sé við neysluviðmið velferðarráðuneytisins við mat á því hver nauðsynlegur framfærslukostnaður þeirra sé enda verði að telja að þau neysluviðmið gefi mun réttari mynd af raunverulegum neysluviðmiðunum heldur en neysluviðmið umboðsmanns skuldara.
Þar sem kærendur hafi meira eða minna verið knúin til þess að sjá fyrir veikum syni sínum verði að telja rétt að framfærsla sé miðuð við þrjá fullorðna einstaklinga og eitt barn. Miðað við þessar forsendur liggi fyrir að mánaðarleg útgjöld kærenda séu 547.392 krónur en ekki 334.627 krónur líkt og umboðsmaður skuldara haldi fram. Miðað við 27 mánuði sé framfærslukostnaður umboðsmanns skuldara vanmetinn um 5.744.655 krónur (547.392 krónur – 334.627 krónur = 212.765 krónur x 27 mánuðir = 5.744.655 krónur).
Einnig liggi fyrir töluverð útgjöld kærenda vegna lækniskostnaðar en lögð hafi verið fram gögn vegna 734.530 króna. Þá hafi kærendur lagt til hliðar 310.000 krónur sem séu inni á bankareikningi. Með kæru sé einnig lögð fram gögn til stuðnings útgjöldum að fjárhæð um 250.000 krónur. Alls nemi þetta 7.039.185 krónum (5.744.655 krónur + 734.530 krónur + 310.000 krónur + 250.000 krónur = 7.039.185 krónur). Umsjónarmaður miði við að kærendur hafi lagt til hliðar 7.178.863 krónur. Að öllu þessu virtu megi sjá að kærendur hafi af fremsta megni reynt að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem hafi verið umfram það sem þau hafi haft til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Kærendur bendi einnig á það sem fram komi í greinargerð með a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að skilyrði þess að ákvæðið eigi við þau sé að þau hafi augljóslega vikið frá skyldum sínum með vísvitandi hætti. Kærendur hafni því að þau hafi sýnt slíka háttsemi af sér og sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á umboðsmanni skuldara.
Kærendur hafna málsástæðum og röksemdum umboðsmanns skuldara sem röngum og fara fram á að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála fallist á röksemdir þeirra.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 19. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.
Fyrir liggi að kærendur hafi leitað greiðsluaðlögunar 2. nóvember 2010. Á þeim degi hafi frestun greiðslna hafist samkvæmt 11. gr. lge. Á sama tíma hafi skyldur kærenda samkvæmt 12. gr. lge. orðið virkar. Frestun greiðslna kærenda, svonefnt greiðsluskjól, hafi staðið yfir frá 2. nóvember 2010 eða í 27 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 28. febrúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá 1. desember 2010 og út febrúarmánuð 2013 í krónum:
Launatekjur 1. desember 2010 til 28. febrúar 2013 að frádregnum skatti | 18.834.668 |
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 | 508.428 |
Endurgreiðsla ofgreiddra opinberra gjalda 2011 og 2012 | 124.056 |
Samtals | 19.467.152 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 721.006 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 334.627 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 386.379 |
Samtals greiðslugeta í 27 mánuði | 10.432.223 |
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 721.006 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 334.627 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað marsmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 10.432.233 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 386.379 krónur á mánuði í 27 mánuði.
Kærendur hafi lagt fram reikninga til umsjónarmanns vegna ýmis konar óvæntra útgjalda svo sem bifreiðaviðgerða, kaupa á bílavarahlutum, heimilistækjum og tannlæknaþjónustu. Samanlögð fjárhæð framlagðra reikninga nemi 734.540 krónum samkvæmt bréfi umsjónarmanns. Þá hafi kærendur að sögn lagt fyrir 310.000 krónur inn á bankareikning. Að teknu tilliti til þessa standi eftir 9.387.683 krónur sem kærendur hafi átt að leggja til hliðar en hafi ekki útskýrt hvernig hafi verið varið.
Að sögn umsjónarmanns hafi kærendur vísað til þess að þau hafi þurft að styðja fjárhagslega við tvö uppkomin börn sín sem glími við veikindi. Ekki hafi verið lögð fram gögn þessu til stuðnings. Telja verði að lagaheimildir skorti til að fjárhagslegur stuðningur við lögráða börn eða önnur ættmenni verði talinn til heimilisþarfa í skilningi 1. mgr. 12. gr. lge.
Þrátt fyrir beiðni þess efnis hafi engin gögn borist frá kærendum sem veitt gætu skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir það sem þeim hafi borið að gera. Sé því óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins varð ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kærenda þess efnis að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 19. nóvember 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Fór hann þess jafnframt á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 10. maí 2013.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 9.387.683 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 2. nóvember 2010 til 10. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 386.379 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram kvittanir vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð tæplega 1.000.000 króna en þar er meðal annars um að ræða lyfjakostnað. Þá kveðast kærendur hafa lagt til hliðar 310.000 krónur.
Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kostnaður vegna veikinda kæranda A hafi verið mikill og einnig hafi kærendur orðið að sjá fyrir fullorðnum syni sínum sem glími við mikla erfiðleika og veikindi. Einnig telji kærendur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara of lág. Benda kærendur á að mun eðlilegra hefði verið að byggja á neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins sem geri ráð fyrir hærri framfærslukostnaði.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:
Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður | |
Nettótekjur B | 445.906 |
Nettótekjur A | 161.596 |
Nettótekjur alls | 607.502 |
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: Tólf mánuðir | |
Nettótekjur B | 5.938.800 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 494.900 |
Nettótekjur A | 1.838.449 |
Nettómánaðartekjur A að meðaltali | 153.204 |
Nettótekjur alls | 7.777.249 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 648.104 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: Tólf mánuðir | |
Nettótekjur B | 7.135.302 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 594.609 |
Nettótekjur A | 1.903.022 |
Nettómánaðartekjur A að meðaltali | 158.585 |
Nettótekjur alls | 9.038.324 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 753.194 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: Fjórir mánuðir | |
Nettótekjur B | 2.335.419 |
Nettómánaðartekjur B að meðaltali | 583.855 |
Nettótekjur A | 649.573 |
Nettómánaðartekjur A að meðaltali | 162.393 |
Nettótekjur alls | 2.984.992 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 746.248 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 20.408.067 |
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 703.726 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2013: 29 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 20.408.067 |
Bótagreiðslur | 605.828 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 21.013.895 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 724.617 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 334.627 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 389.990 |
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli x 389.990 | 11.309.712 |
Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 734.540 krónur. Fyrir kærunefndina hafa kærendur lagt fram kvittanir vegna læknis- og lyfjakostnaðar að fjárhæð 236.417 krónur. Samtals eru þetta 970.957 krónur og fellst kærunefndin á að sú fjárhæð teljist nauðsynlegur og ófyrirséður kostnaður kærenda. Einnig hafa kærendur lagt fyrir kærunefndina kvittanir vegna greiðslu á brunatryggingu. Tryggingar eru innfaldar í framfærslukostnaði umboðsmanns skuldara og teljast því ekki til óvænts kostnaðar. Þá hafa kærendur lagt fram kvittanir vegna kaupa á vegabréfi og varningi frá Nýherja. Nema framangreind útgjöld alls 154.700 krónum en kærendur hafa ekki sýnt fram á að þau hafi verið nauðsynleg til að kærendur gætu séð sér og fjölskyldu sinni farborða. Verður því ekki tekið tillit til þeirra þegar skylda kærenda til að leggja fyrir er reiknuð út. Þá hafa kærendur ekki sýnt fram á 310.000 króna inneign á bankareikningi og er því ekki unnt að taka tillit til þess.
Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.
Við útreikninga og mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum í greiðsluskjóli ber samkvæmt meginreglunni í 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Eru því ekki lagaskilyrði til að fallast á sjónarmið kærenda um að miða hefði átt framfærslukostnað þeirra við neysluviðmið velferðarráðuneytisins.
Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 970.957 krónur hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 10.338.755 krónur á tímabili greiðsluskjóls.
Kærendur telja að við útreikning framfærslukostnaðar beri að taka tillit til þess að þau hafi þurft að sjá fyrir uppkomnum syni sínum vegna mikilla og langvarandi veikinda hans. Samkvæmt framfærsluútreikningi umboðsmanns skuldara voru mánaðarleg útgjöld kærenda að hámarki 334.627 krónur fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Sé gert ráð fyrir framfærslukostnaði vegna uppkomins sonar kærenda má samkvæmt sömu forsendum miða við að framfærslukostnaður hafi verið að hámarki um 440.000 krónur á mánuði. Sé gengið út frá sömu upplýsingum og fyrr en að breyttu breytanda hefði greiðslugeta kærenda átt að vera þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 30.apríl 2013: 29 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 20.408.067 |
Bótagreiðslur | 605.828 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 21.013.895 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 724.617 |
Mánaðarleg útgjöld þriggja fullorðinna og eins barns | 440.000 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | 284.617 |
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli x 284.617 | 8.253.895 |
Óvæntur kostnaður | 970.957 |
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli | 7.282.938 |
Af þessu má glögglega sjá að jafnvel þótt tekið yrði tillit til kostnaðar kærenda við að sjá fyrir uppkomnum syni sínum hefðu þau átt að geta lagt fyrir 7.282.938 krónur á tímabili greiðsluskjóls.
Í 4. mgr. 16. gr. lge. er miðað við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum að dugi til að sjá honum og heimilisfólki hans farborða og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu við samkvæmt lögum. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um það hvort sonur kærenda var til heimilis hjá þeim þann tíma sem hér skiptir máli eða að hve miklu leyti hann gat framfleytt sér sjálfur. Að þessu virtu er ekki unnt að taka tillit til framfærslukostnaðar sonar kærenda við mat á skyldum þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt þessu telur kærunefndin að staðfesta beri þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau leituðu greiðsluaðlögunar.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir