Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 44/2012

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. febrúar 2012 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 24. febrúar 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 27. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 22. mars 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1983. Þau eru í sambúð í eigin húsnæði að C götu nr. 21 í sveitarfélaginu D ásamt tveimur börnum sínum.

Kærandi A er menntaður málari og starfar sem verktaki hjá málarameistara. Kærandi B starfaði sem stuðningsfulltrúi en hefur nýlega misst starfið. Hún þiggur nú atvinnuleysisbætur.

Laun kæranda A eru 250.000 krónur á mánuði. Útborgaðar atvinnuleysisbætur kæranda B eru 161.523 krónur á mánuði. Kærendur fá mánaðarlega 50.000 krónur í vaxtabætur, 32.904 krónur í barnabætur og 21.657 krónur í meðlag. Aðrar tekjur nema 12.244 krónum. Eignir kærenda eru fyrrgreind fasteign sem talin er 18.350.000 krónur að verðmæti og bifreið sem metin er á 250.000 krónur.

Fjárhagserfiðleika kærenda má að þeirra sögn rekja til ábyrgðarskuldar sem þau hafi tekið á sig, óstöðugrar atvinnu þeirra beggja og hækkandi afborgana af lánum. Öll lán þeirra nema eitt eru í skilum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. febrúar 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Í framhaldinu var þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Með bréfum til umboðsmanns skuldara 17. október og 10. nóvember 2011 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að gætu komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimiluð, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Væri það mat umsjónarmanns að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á meðan greiðsluaðlögunarferli stóð yfir. Hafi kærendur verið í nokkra mánuði í greiðsluskjóli og á þeim tíma hafi þeim ítrekað verið bent á skyldu sína til að leggja til hliðar af tekjum sínum. Mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir að kostnaður við framfærslu hafi verið greiddur sé 249.039 krónur en þau hafi ekkert lagt fyrir. Hafi kærandi B misst vinnu sína og verið tekjulaus um tíma en hafi síðar þegið atvinnuleysisbætur. Sé útreikningur greiðslugetu við það miðaður. Meti umsjónarmaður það svo að óhjákvæmilegt sé að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar þar sem ekki verði litið fram hjá því að engir fjármunir hafi verið lagðir til hliðar þrátt fyrir mikla greiðslugetu. Hafi einnig komið í ljós að kærendur hafi greitt af lífeyrissjóðsláni sínu á meðan þau hafi verið í greiðsluskjóli.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 18.575.170 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. febrúar 2012 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru eru ekki settar fram neinar kröfur en skilja verður málatilbúnað kærenda þannig að þau mótmæli ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild þeirra til greiðsluaðlögunar og krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Greini kærendur frá því að þau hafi greitt inn á lífeyrissjóðslán sitt í greiðsluskjóli vegna tilmæla frá starfsmanni sjóðsins. Sé lánið með lánsveði hjá foreldrum kæranda B sem hafi ekki trúað því að kærendur væru í greiðsluskjóli. Hafi verið lagt mjög hart að þeim að greiða af láninu og hafi foreldrar kæranda B meðal annars látið hjá líða að heimsækja barnabörn sín vikum saman.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Við mat á umsókn um greiðsluaðlögun ber umboðsmanni skuldara að líta til þeirra atriða sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðunin sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið sömu greinar segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. febrúar 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þeim hafi í framhaldinu verið skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Hafi umsjónarmaður óskað eftir því að kærendur gerðu grein fyrir því hvað þau hefðu lagt til hliðar af launum sínum á tímabilinu sem frestun greiðslna hafði staðið yfir og hvort skyldum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hefði verið fullnægt. Hinn 3. ágúst 2011 hafi kærendur tekið 159.746 krónur út af reikningi kæranda B og greitt inn á lán sitt hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. febrúar 2011 hafi kærendum verið sent fylgiskjal þar sem fram komi hverjar séu skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Í sama fylgiskjali sé gerð grein fyrir tilkynningarskyldu umsjónarmanns ef hann telji skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. Hafi kærendum því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga fjármunum sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar. Kærendum hafi einnig verið kunnugt um að þeim væri ekki heimilt að greiða inn á skuldir sínar á meðan frestun greiðslna stæði yfir eða frá 18. október 2010.

Með bréfum umsjónarmanns kærenda til umboðsmanns skuldara 17. október og 10. nóvember 2011 hafi hann tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mættu að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Umsjónarmaður hafi því lagt til við embættið að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. 12. gr. lge., þar sem kærendur hefðu ekki lagt til hliðar af tekjum samkvæmt a-lið 12. gr. lge. á þeim tíma sem frestun greiðslna hefði staðið yfir. Hafi það verið mat umsjónarmanns að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 15. gr. lge.

Embætti umboðsmanns skuldara hafi sent kærendum bréf 17. nóvember 2011 þar sem þeim hafi verið boðið að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður.

Skýringar kærenda hafi borist umboðsmanni skuldara með ódagsettu bréfi. Þar komi fram að þau hafi meðal annars varið sparnaði sínum til að greiða 159.746 krónur inn á lán sitt hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þau hafi veitt þá skýringu að þrýst hafi verið á þau að greiða inn á lánið þar sem um hafi verið að ræða lánsveð hjá foreldrum kæranda B. Einnig hafi tekjur kæranda B lækkað töluvert. Hún hafi verið tekjulaus í þrjá mánuði á árinu 2011 og nú séu mánaðartekjur hennar aðeins 55.182 krónur að jafnaði.

Nokkur óvissa hafi ríkt um fjárhag kærenda á liðnum mánuðum og geti það að einhverju leyti skýrt skerta getu kærenda til að leggja fyrir fé. Við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum verði ekki horft fram hjá greiðslu þeirra af nefndu lífeyrissjóðsláni en það feli í sér meiri háttar brot á skyldum skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Með greiðslu inn á lánið hafi kærendur mismunað kröfuhöfum sínum á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir með þeim afleiðingum að þegar hafi hallað á aðra lánardrottna í greiðsluaðlögunarumleitunum.

Umboðsmaður skuldara telji því að ákvæði a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. eigi við um kærendur og hafi þau því ekki lengur uppfyllt skilyrði laganna um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Hafi heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verið felld niður með ákvörðun 7. febrúar 2012.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. ber skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá kemur fram í c-lið ákvæðisins að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Það liggur fyrir að kærendur hafa ekki lagt til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem þörf er á til að sjá þeim og fjölskyldu þeirra farborða. Komið hefur í ljós að sparnaði sínum að fjárhæð 159.746 krónur hafa þau ráðstafað til greiðslu af lán sínu hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fer þetta í bága við fyrirmæli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. Við þær aðstæður skal umsjónarmaður samkvæmt 2. mgr., þ.e. þegar hann telur að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr., óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar­umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. Er ákvörðunin því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta