Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 48/2012

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. apríl 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 9. maí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1963 og býr með tveimur uppkomnum börnum sínum í eigin húsnæði að B götu nr. 28 í sveitarfélaginu C Um er að ræða 230 fermetra raðhús. Kærandi er menntaður viðskiptafræðingur en hann er nú atvinnulaus. Einu tekjur hans eru barnabætur að fjárhæð 21.143 krónur á mánuði.

Að mati kæranda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika hans til íbúðarkaupa á árinu 2007 og erfiðleika í rekstri hlutafélagsins X á árinu 2008 en félagið var með starfsemi sína í gegnum dótturfélag í Frakklandi. Kærandi hafi átt 30% hlut í félaginu auk þess að stýra rekstri þess. Kærandi flutti frá Frakklandi til Íslands á árinu 2006 og keypti húsnæði 2007. Hafi hann fjármagnað kaupin að hluta með láni sem var til helminga verðtryggt íslenskt lán og gengistryggt lán, en eigið fé hans í húsnæðinu hafi verið um 17% við kaupin. Hafi tekjuforsendur verið traustar á þessum tíma. Þegar halla fór undan fæti í rekstri X hf. á árinu 2008 hafi persónulegur hagur kæranda einnig versnað og hafi hann orðið tekjulaus. Hafi það, ásamt hækkunum á skuldum kæranda, leitt til þeirra fjárhagserfiðleika sem kærandi glími nú við.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 89.689.005 krónur en þar af falla 909.447 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Einnig hvíla á kæranda ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 2.500.000 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2006 til 2007 og 2009 til 2010.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 27. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara. Skilja verður það svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Að mati kæranda fást þær forsendur sem liggja til grundvallar synjun umboðsmanns skuldara ekki staðist. Ákvörðunina verði að endurskoða í ljósi þess sem átt hafi sér stað frá því að umsókn kæranda var lögð fram hjá umboðsmanni skuldara.

Ekki sé unnt að leggja mat á raunverulega skuld kæranda við Dróma vegna þess að réttir útreikningar á skuldinni liggi ekki fyrir. Skuldastaða kæranda liggi því ekki fyrir.

Kærandi telur beinlínis rangt að hann kunni að verða gerður ábyrgur vegna vörsluskattskulda X hf. Hafi kærandi rætt þetta við eigin lögmann, skiptastjóra X hf. og alla kröfuhafa. Eðli máls og atvik séu slík að ekki þyki ástæða til að gera kæranda ábyrgan. Ekki sé því um neina þá áhættu að ræða sem umboðsmaður skuldara telji.

Loks taki kærandi fram að jafnvel þótt hann þyrfti að axla umrædda ábyrgð yrðu fleiri ábyrgir en hann.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á X hf. þar sem kærandi hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra og stjórnarmanns. Hluti nefndra skattskulda sé staðgreiðsla launagreiðanda og tryggingagjalds. Beri kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu þessara skatta samkvæmt 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 þar til kröfur fyrnist en almennur fyrningarfrestur sé fjögur ár samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Vegna vanskilanna gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

X hf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota í september 2011 og skiptum hafi lokið 14. mars 2012 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Af gögnum tollstjóra verði ráðið að X hf. hafi skuldað staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 3.646.425 krónur. Þar af byggist 2.912.328 krónur á álagningu og 734.097 krónur á áætlun. Þá hafi hvílt á félaginu virðisaukaskattskuld að fjárhæð 1.378.912 krónur en gera verði fyrirvara við þá fjárhæð þar sem hún byggi á áætlun. Einnig hafi félagið skuldað staðgreiðslu tryggingagjalds að fjárhæð 2.619.553 krónur. Vanskil á því varði við g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sem kveði á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldir séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarn að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Vísi umboðsmaður skuldara til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 13/2011, 17/2011 og 25/2011 í þessu sambandi. Samtals nemi hin ógreiddu opinberu gjöld sem leitt hafi til synjunar á greiðsluaðlögun 5.531.881 krónu.

Fjárhagur kæranda sé erfiður. Heildarskuldir hans nemi 89.689.005 krónum en að auki hvíli á honum ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 2.500.000 krónur.

Frá mars 2011 hafi launatekjur kæranda verið litlar sem engar. Einu tekjur hans í dag séu barnabætur sem nemi 21.143 krónum á mánuði. Eignir kæranda séu fasteign að B götu nr. 28 í sveitarfélaginu C að verðmæti 38.850.000 krónur samkvæmt fasteignamati og bifhjól að verðmæti 650.261 króna. Því verði að telja eignir kæranda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni hjá X hf. til að standa skil á vörslusköttum og þeirra sekta sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir skattskuldanna verulega háar í ljósi neikvæðrar eignastöðu, lágra tekna og erfiðrar fjárhagsstöðu. Þyki þess vegna ófært að líta svo á að skuldbindingarnar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Umboðsmaður reki einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar. Í umfjöllun um einstaklinga í atvinnurekstri í frumvarpi því er varð að lge. segi að það sé ekki vilji löggjafans „að einstaklingar sem fyrst og fremst eiga í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði“. Í ummælum kæranda komi fram að hann telji að fjárhagserfiðleika sína fyrst og fremst rekja til starfsemi X hf.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi er varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í X hf. á því tímabili sem hér skiptir máli. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á staðgreiðslu launagreiðanda að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur og getur kærunefndin því ekki miðað úrlausn sína við annað en að skyldur kæranda sem framkvæmdastjóra félagsins á tímabilinu hafi verið í samræmi við það. Eiga ofangreind ákvæði samkvæmt því við um kæranda sem einn af fyrirsvarsmönnum X hf. Skiptir hér engu máli þó að það kunni að vera mat kröfuhafa og skiptastjóra X hf. að kærandi muni ekki þurfa að axla nefnda ábyrgð enda er forræði slíkra mála hjá skattyfirvöldum og eftir atvikum dómstólum.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Samkvæmt gögnum málsins er vörsluskattskuld X hf. 2.912.328 krónur og byggist sú fjárhæð á álagningu á félagið. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 49.000.000 króna. Jafnvel þótt skuldir hans við Dróma lækki umtalsvert við endurútreikning er engum vafa undirorpið að skuldir kæranda eru meiri en eignir. Einnig liggur fyrir að kærandi er tekjulaus. Skuldir vegna ógreiddra vörsluskatta X hf. nema alls 2.912.328 krónum sem telja verður mjög háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 3,25% af heildarskuldum kæranda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með framangreindri háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kæranda að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta