Mál nr. 60/2012
Mánudaginn 17. febrúar 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 7. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. febrúar 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.
Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. apríl 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 26. apríl 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 5. nóvember 2012.
Með bréfi 6. nóvember 2012 var óskað eftir athugasemdum umboðsmanns skuldara. Með tölvupósti 19. desember 2012 upplýsti umboðsmaður skuldara að ekki væri ástæða til frekari athugasemda af hans hálfu.
I. Málsatvik
Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 7. apríl 2011. Kærandi er einstæð móðir fædd árið 1973. Hún fluttist búferlum til Danmerkur í ágúst 2011 ásamt tveimur dætrum sínum. Kærandi leigir húsnæði en hún á fasteign á B götu nr.14 í sveitarfélaginlu C og býr sonur hennar í íbúðinni. Kærandi er viðskiptafræðingur að mennt en starfar í Danmörku við umönnun.
Að mati kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hennar til atvinnuleysis og tekjulækkunar. Kærandi hafi á árinu 2007 að loknu námi fjárfest í íbúð á 100% láni. Hún hafi fengið góða vinnu eftir nám og vel getað staðið við skuldbindingar sínar. Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafi hún misst starfið en fengið annað starf á töluvert lægri launum. Það starf hafi hún misst árið 2011. Hún hafi verið í atvinnuleit síðan og brugðið á það ráð að fara til Danmerkur til að auka atvinnumöguleika sína.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 33.842.872 krónur og þar af falla 9.245.156 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru tilkomnar vegna námslána. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2002, 2006‒2007 og 2009.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að hún uppfyllti ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Að sögn kæranda hafi það verið betra fyrir hana og lánardrottna að hún leitaði atvinnutækifæra erlendis. Hún hafi verið atvinnulaus á Íslandi en sé nú í fullu starfi í Danmörku og geti því framfleytt sér og börnum sínum. Hún hafi leigutekjur af íbúð sinni upp á 100.000 krónur á mánuði en sú fjárhæð sé ætluð til að greiða inn á skuldir kæranda. Þetta væri ekki möguleiki væri kærandi enn atvinnulaus á Íslandi. Kærandi ætli sér að vera í Danmörku í tvö ár til viðbótar vegna náms. Hún vilji auka möguleika sína til starfs á Íslandi og bæta sig í tungumáli sem sé mikilvægt þar sem hún hafi nýlokið námi í alþjóðaviðskiptum. Kærandi muni ljúka námi við tungumálaskóla í Danmörku í desember 2012 og muni hún þá sækja framhaldsnám sem muni veita henni gráðu í dönsku sem muni nýtast henni. Kærandi telur að hún muni ekki vera í Danmörku til frambúðar, heldur bara til að auka möguleika hennar til betra lífs á Íslandi.
Verði ekki hægt að samþykkja umsókn hennar um greiðsluaðlögun þá telur kærandi að hún verði að flytja aftur til Íslands og fara á bætur sem næmu 150.000 krónum. Hún mundi þá tapa leigutekjum af íbúð sinni. Kærandi fær ekki séð að það yrði þá mikið eftir til að borga skuldir.
Í greinargerð kæranda 5. nóvember 2012 kemur fram að þegar hún hafi misst vinnu sína á Íslandi hafi hún haft samband við embætti umboðsmanns skuldara og kannað hvort henni væri óhætt að leita sér atvinnu erlendis. Kærandi hafi verið hvött til að leita sér atvinnu erlendis og sagt að það myndi ekki hafa áhrif á mál hennar hjá embættinu. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hún sé nú komin með fullt starf og ráðningarsamning til tveggja ára.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Tekið sé fram að víkja megi frá skilyrðinu við tvenns konar aðstæður sem lýst sé annars vegar í a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. og hins vegar í b-lið 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið komi fram að víkja megi frá skilyrðinu ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi flust búferlum til Danmerkur með breytingu á lögheimili 8. ágúst 2011. Hún hafi nýtt E-303 vottorð til atvinnuleitar þegar ekki hafi gengið eftir að fá starf á Íslandi. Hún hafi fyrstu þrjá mánuði fengið atvinnuleysisbætur frá Íslandi en sé núna komin með hlutastarf við umönnun og hún bindi vonir við að fá fullt starf. Á meðan njóti hún félagslegrar aðstoðar. Að auki sé kærandi í dönskunámi með vinnu til að auka atvinnumöguleika sína enn frekar. Kæranda sé með ótímabundinn leigusamning í Danmörku sem sé uppsegjanlegur af hennar hálfu. Innt eftir svörum um lengd tímabils sem hún hafi markað sér að vera erlendis svari hún því til að hún reikni með að vera erlendis í tvö ár. Sonur hennar búi í íbúð hennar á Íslandi og hafi hingað til ekki greitt leigu. Að sögn kæranda standi þó til að gera við hann leigusamning til tveggja ára.
Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verði ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tíman í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“
Samkvæmt því sem fram komi í gögnum kæranda sé hún í hlutastarfi og geri sér vonir um að fá fullt starf. Hún hafi komið sér fyrir í Danmörku ásamt dætrum sínum. Þrátt fyrir ítrekaða beiðni hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem styðji tímabundna búsetu erlendis vegna atvinnu. Þá hafi ekki verið lögð fram gögn í málinu sem sýna fram á að um tímabundna búsetu sé að ræða vegna náms eða veikinda. Þar sem 4. mgr. 2. gr. lge. sé undantekning frá meginreglunni verði að gera þær kröfur til kæranda að hún skýri með fullnægjandi hætti aðstæður tímabundinnar búsetu erlendis og leggi fram viðeigandi gögn því til stuðnings.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat umboðsmanns að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.
Í viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara 13. apríl 2012 kemur fram að kærandi færi fram þau sjónarmið að með því að vera búsett í Danmörku aukist möguleikar hennar til að geta staðið í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar og aukið atvinnutækifæri sín til frambúðar með viðbótarnámi í dönsku. Embætti umboðsmanns skuldara sé ekki heimilt að líta til þessara sjónarmiða þegar ekki liggi fyrir, með skýrum hætti að búseta kæranda erlendis sé tímabundin, enda sé embættinu skylt að synja um greiðsluaðlögun þegar svo stendur á samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi eigi lögheimili og búi og starfi í Danmörku. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hennar sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögum synjað.
Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda í Danmörku sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.
Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum. Þá telur nefndin ekki fullnægjandi í þessu sambandi að skuldari lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.
Í tilviki kæranda liggur fyrir að hún býr nú í Danmörku og hefur verið með skráð lögheimili þar síðan 8. ágúst 2011. Kærandi hefur þar fasta atvinnu og kveðst í kæru huga að frekara námi í Danmörku. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi ekki sýnt fram á að búseta hennar sé tímabundin í skilningi laganna.
Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir