Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 97/2014

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 97/2014

Föstudaginn 9. júní 2017

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 23. mars 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála beiðni A og B, um endurupptöku máls nr. 97/2014. Er þess farið á leit að mál kærenda, sem til lykta var leitt með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 22. desember 2016, verði tekið til meðferðar á ný á þeim grundvelli að úrskurðurinn hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015, sem gildi tóku 1. janúar 2016, tók úrskurðarnefndin við störfum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Málinu er því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

I. Málsatvik og kæruefni

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 og var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 4. maí 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. ágúst 2014 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ástæða þess var sú að fjárhagur kærenda var talinn of óljós til að unnt væri að leggja heildarmat á hann og þar sem kærendur hefðu keypt og selt X bifreiðar á tímabili frestunar greiðslna án samráðs við umsjónarmann.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) 5. september 2014 og kröfðust kærendur þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði felld úr gildi.

Af hálfu kærenda kom fram að kærandi B hefði í áratugi stundað kaup og sölu bifreiða og fasteigna til viðgerða og endursölu. Eftir hrunið 2008 hafi viðskipti kæranda með bifreiðar dregist saman en haldið áfram í litlum mæli. Þessi starfsemi hafi skilað kærendum litlu en hafi þó staðið undir sér að öllu leyti og reyndar verið afþreying um leið. Umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi verið upplýstur um að kærandi B hafi stundað þessa atvinnu. Kærendur kváðust hafa lagt fram öll gögn sem óskað hafi verið eftir um kaup og sölu bifreiða ásamt útreikningum á hagnaði. Þetta hafi umboðsmaður skuldara hunsað en sett fram órökstuddar fullyrðingar um að kærandi B hefði haft af þessu hagnað að fjárhæð 1.193.000 krónur.

Þann 22. desember 2016 var úrskurðað í málinu. Þar kemur fram að það sé mat kærunefndarinnar að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn sem styðji frásögn þeirra um kaup og sölu bifreiða á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Þannig verði að telja að ekki sé fyrir hendi nauðsynleg heildarmynd af fjárhag þeirra og fjárhagurinn því óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Einnig taldi kærunefndin að með sölu framangreindra bifreiða, án samráðs og heimildar umsjónarmanns, hefðu kærendur brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með kaupum á bifreiðunum hefðu kærendur enn fremur ráðstafað fjármunum þannig að þau hefðu brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara var því staðfest.

Í endurupptökubeiðni kærenda til úrskurðarnefndarinnar kemur meðal annars fram að kærandi B hafi starfað við að lagfæra bifreiðar til endursölu. Þetta hafi hann gert með viðskiptafélaga sínum sem hafi lagt fram fjármuni og vinnu eftir þörfum gegn því að fá helming söluhagnaðar á móti kæranda B. Þeim söluhagnaði sem komið hafi í hlut hans hafi verið ráðstafað í þágu heimilis kærenda. Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi gert of ríkar kröfur til þeirra varðandi gagnaöflun. Þá vísa þau enn fremur til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4278/2004 og 7182/2012.

Með endurupptökubeiðni lögðu kærendur fram töluverðan fjölda gagna. Meðal þeirra eru afsöl vegna X bifreiða, upplýsingar um eigendaferil X bifreiða og afrit reikninga. Í endurupptökubeiðni kærenda er því haldið fram að með framlagningu þessara skjala fáist skýrari mynd af fjárhag þeirra og greiðslugetu og því sé hægt að leggja viðhlítandi mat á fjárhagsstöðu þeirra.

II. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaganna á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun í máli hans hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins, en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skipta við úrlausn þess.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Í tilviki kærenda óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum og gögnum um viðskipti kæranda B með tilteknar bifreiðar. Í svari kærenda kváðust þau hafa sent umsjónarmanni gögn samkvæmt beiðni þar um, svo sem kaupsamninga, sölusamninga og kostnaðarnótur. Í bréfi umboðsmanns skuldara kemur fram að embættið telji að af svörum kærenda megi álykta að kærandi B hafi haft með höndum kaup og sölu bifreiða í hagnaðarskyni. Hann hafi þó hvorki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um tekjur sínar vegna sölu bifreiðanna né upplýsingar um útgjöld vegna kaupa þeirra. Af þessum ástæðum taldi umboðsmaður skuldara að ekki væri fyrir hendi nauðsynleg heildarmynd af fjárhag kærenda og teldist fjárhagur þeirra því óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. Einnig taldi umboðsmaður að með sölu framangreindra bifreiða hefðu kærendur látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla og þar með brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með kaupum á bifreiðunum hefðu kærendur enn fremur ráðstafað fjármunum með þeim hætti að þau hefðu brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara með úrskurði 22. desember 2016.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7182/2012 segir: „Það ræður ekki úrslitum um hvort skilyrðum ákvæðisins [1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga] sé fullnægt hvort fyrri málsmeðferð stjórnvalds hafi verið ólögmæt eða hvort rekja megi ástæðu þess til atvika er varða borgarann. Af orðalagi ákvæðisins verður að mínu viti dregin sú ályktun að nægilegt sé að fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar sem telja má að hefðu haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Hér verður sem endranær að hafa í huga að stjórnvaldsákvarðanir eiga að vera reistar á réttum málsatvikum.“

Þau gögn sem kærendur hafa lagt fram varða meðal annars kaup- og söluverð þeirra bifreiða sem kærandi B hefur átt viðskipti með á tímabili greiðsluskjóls. Þannig er möguleiki á því að gögnin séu að einhverju marki upplýsandi um atvinnu og tekjur kærenda á tímabilinu. Því gætu þau orðið til þess að varpa ljósi á fjárhag kærenda þannig að hann teljist nægilega glöggur til að unnt sé að leggja heildarmat á hann. Verður því að telja að framangreind gögn gætu haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Úrskurður kærunefndarinnar um að staðfesta ákvörðun umboðsmanns skuldara var, að því leyti sem rakið hefur verið, byggður á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru því fyrir hendi skilyrði til að endurupptaka málið samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þessa er fallist á beiðni A og B um endurupptöku á máli nr. 97/2014.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni A og B til úrskurðarnefndar velferðarmála um að endurupptaka mál nr. 97/2014 er samþykkt.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta