Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 79/2013

Fimmtudaginn 9. apríl 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 13. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. júní 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 19. júlí 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með ódagsettu bréfi. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 6. ágúst 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1975 og 1981. Þau eru í hjúskap og búa ásamt barni sínu í eigin 200,6 fermetra fasteign að C götu nr. 7 í sveitarfélaginu D.  

Kærandi B er kennari. Kærandi A starfar hjá X ehf. Mánaðarlegar meðtaltekjur kærenda eru 448.283 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til ársins 2008. Það ár hafi þau keypt núverandi fasteign en ekki tekist að selja fyrri eign. Kærandi B hafi orðið atvinnulaus haustið 2009 og á sama tíma hafi laun kæranda A lækkað.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 66.633.532 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2004, 2005 og 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 14. janúar 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 10. apríl 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu ekkert lagt til hliðar á greiðsluaðlögunartímabilinu en þau hefðu verið í greiðsluskjóli frá febrúar 2012. Meðaltekjur kærenda frá september 2012 þar til í febrúar 2013 séu 593.000 krónur á mánuði en við útreikning á meðaltekjum þeirra væri miðað við upplýsingar frá ríkisskattstjóra. Samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara sé mánaðarlegur framfærslukostnaður kærenda 330.631 króna. Samkvæmt því hefðu kærendur átt að leggja til hliðar um 262.369 krónur á mánuði (593.000 – 330.631). Þar sem kærendur hefðu verið í greiðsluskjóli í tæpa 13 mánuði hefðu þau átt að vera búin að leggja til hliðar 3.384.797 krónur á tímabilinu. Hafi kærendur gefið þær skýringar að mikill kostnaður hefði fallið til vegna viðgerða á bíl og einnig hefðu þau farið í glasafrjóvgun sem hefði verið kostnaðarsöm. Kærendur hafi látið umsjónarmanni í té kvittanir vegna þessa að fjárhæð um 1.000.000 króna. Þrátt fyrir að umsjónarmaður tæki þessar skýringar til greina hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.384.797 krónur.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 7. maí 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Með svari kærenda 23. maí sama ár voru lögð fram ný gögn um mánaðarleg útgjöld.

Með bréfi til kærenda 28. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða umboðsmann skuldara ekki taka tillit til þess að framfærslukostnaður þeirra sé hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir en þau framfærsluviðmið séu úrelt.

Framfærslukostnaður kærenda sé í fyrsta lagi hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns vegna þess að þau eigi tvær fasteignir og greiði rekstrargjöld og viðhaldskostnað vegna þeirra beggja. Hvorug eignin hafi verið í útleigu. Í öðru lagi sé ekki tekið tillit til þess að kærendur reki tvær bifreiðar. Í upphafi hafi þau átt einn dýran bíl og annan ódýrari en nú eigi þau tvo ódýra bíla. Kærendur þurfi báða bílana til að sækja vinnu. Í þriðja lagi sé ekki gert ráð fyrir stofnkostnaði við að eignast barn en kærendur hafi eignast barn fljótlega eftir að þau komust í greiðsluskjól. Í fjórða lagi sé ekki tekið tillit til raunhæfs kostnaðar vegna kaupa á skóm og fötum. Í fimmta lagi sé ekki tekið tillit til vinnutaps kæranda A vegna meiðsla og veikinda. Í sjötta lagi sé ekki tekið tillit til tæknifrjóvgana og kostnaðar sem þeim fylgi. Kærendur glími við ófrjósemi og hafi þurft að fara í nokkrar meðferðir á tímabili greiðsluskjóls. Samhliða hafi fallið til ýmiss kostnaður, svo sem vegna lyfja, ferða, þjónustu sálfræðings og vinnutaps. Ófrjósemi sé sjúkdómur en ekki val.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 28. febrúar 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 14. janúar 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Einnig hafi skyldur skuldara tekið gildi á þeim degi. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í 26 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. mars 2011 til 30. apríl 2013. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. mars 2011 til 30. apríl 2013 að frádregnum skatti 13.619.603
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 (nettó) 666.860
Barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2012 (nettó) 11.341
Samtals 14.297.804
Mánaðarlegar meðaltekjur 549.916
Framfærslukostnaður á mánuði 356.827
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 193.089
Samtals greiðslugeta í 26 mánuði 5.020.302

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan og hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og stýrist af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli sé þeim að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem skuldarar geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 549.916 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 356.827 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Einnig sé tekið tillit til nýrra upplýsinga frá kærendum, svo sem um kostnað vegna dagvistunar og orkukostnað. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað aprílmánaðar 2013 fyrir hjón með eitt barn og gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 5.020.328 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 193.089 krónur á mánuði í 26 mánuði. Við útreikningana hafi verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tímabilinu og sé miðað við meðaltal heildartekna.

Kærendur hafi lagt til hliðar 425.754 krónur. Einnig hafi þau lagt fram gögn um aukinn nauðsynlegan kostnað vegna viðgerða á bifreið að fjárhæð 140.534 krónur. Komi þessar fjárhæðir til frádráttar þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli sínu.

Þá hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna lækniskostnaðar að fjárhæð 206.942 krónur frá því að frestun greiðslna hófst. Fram hafi komið hjá kærendum að lækniskostnaðurinn sé í raun töluvert hærri einkum vegna sjúkraþjálfunar og sálfræðimeðferða sem þau eigi ekki kvittanir fyrir. Í framfærsluviðmiðum sé gert ráð fyrir útgjöldum vegna læknisþjónustu og lyfja að fjárhæð 395.148 krónur fyrir sama tímabil og hafi kærendur því ekki sýnt fram á aukinn kostnað vegna þessa. Þessu til viðbótar hafi kærendur lagt fram kvittanir um mánaðarlegan kostnað vegna síma, Netsins og sjónvarps en framfærsluviðmið geri ráð fyrir þessum kostnaði undir liðunum samskipti og tómstundir. Enn fremur tiltaki kærendur aukinn kostnað þar sem þau reki tvær bifreiðar en í framfærsluviðmiðum sé gert ráð fyrir 50.156 krónum á mánuði í samgöngukostnað sem feli meðal annars í sér rekstur bifreiðar. Loks hafi kærendur lagt fram kvittanir fyrir kostnaði að fjárhæð 630.089 krónur vegna glasafrjóvgunar. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að einungis sé heimilt að víkja frá því að leggja fyrir umframfé ef nauðsynlegt sé að ráðstafa því til framfærslu. Ekki sé unnt að líta þannig á að glasafrjóvgun sé nauðsynlegur kostnaður vegna framfærslu.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með virka umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslu og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 10. apríl 2013 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Taldi hann því rétt að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 28. maí 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 5.020.328 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 14. janúar 2011 til 28. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 193.089 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar og kvittanir vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 140.534 króna auk þess sem þau hafi lagt 425.754 krónur inn á bankareikning. Alls nemi þetta 566.288 krónum sem komi til frádráttar fyrrnefndum 5.020.328 krónum.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu úrelt, raunverulegur framfærslukostnaður þeirra sé 506.945 krónur og laun 508.000 krónur. Ekki sé tekið tillit til kostnaðar sem þau hafi orðið fyrir vegna þess að þau reki tvær fasteignir og tvo bíla, hafi eignast barn á tímabilinu, kostnaðar í tengslum við tæknifrjóvganir og raunhæfs kostnaðar vegna kaupa á skóm og fötum. Þá sé ekki tekið tillit til vinnutaps kæranda A vegna meiðsla og veikinda.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: 11 mánuðir
Nettótekjur A 3.964.748
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 330.396
Nettótekjur B 1.449.426
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 120.786
Nettótekjur alls 5.414.174
Mánaðartekjur alls að meðaltali 451.181


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 4.572.277
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 381.023
Nettótekjur B 2.102.249
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 175.187
Nettótekjur alls 6.674.526
Mánaðartekjur alls að meðaltali 556.211

 



Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: Fjórir mánuðir
Nettótekjur A 1.414.331
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 353.583
Nettótekjur B 664.037
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 166.009
Nettótekjur alls 2.078.368
Mánaðartekjur alls að meðaltali 519.592


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 14.167.068
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 524.706

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 30. apríl 2013: 27 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 14.167.068
Bótagreiðslur (nettó) 187.841
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 14.354.909
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 531.663
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 356.827
Greiðslugeta kæranda á mánuði 174.836
Alls sparnaður í 27 mánuði í greiðsluskjóli x 174.836 4.720.580

 

Samkvæmt þessu hafa kærendur átt að leggja fyrir 4.720.580 krónur á 27 mánaða tímabili greiðsluskjóls.

 

Fyrir kærunefndina hafa kærendur lagt fram reikninga vegna útgjalda að fjárhæð 1.414.147 krónur sem sundurliðast svo:

 

Útgjaldaliður Fjárhæð
Viðgerðir/varahlutir fyrir bíl 141.043
Tæknifrjóvgun 668.771
Lyf 83.443
Sími/Net 30.607
Leikskóli 70.270
Vatn/hiti/rafmagn 56.145
Húsfélag 9.100
Kírópraktor 23.400
Tryggingar 242.197
Vatns- og fráveitugjöld 89.171
Samtals 1.414.147

 

Af ofangreindum útgjaldaliðum eru lyfja-, síma- og samskiptakostnaður, leikskólagjöld og rekstrarkostnaður vegna fasteigna innifaldar í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Er því ekki unnt að taka tillit til þessa þegar reiknað er út hver sparnaður kærenda hefði átt að vera í greiðsluskjóli.

Eftir stendur kostnaður vegna bílaviðgerða og -varahluta og tæknifrjóvgunar alls að fjárhæð tæplega 810.000 krónur. Eðli málsins samkvæmt er ekki gert ráð fyrir kostnaði við tæknifrjóvgun í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Þá gera framfærsluviðmiðin ráð fyrir rekstri á einum bíl en fyrir liggur að kærendur eiga tvo bíla. Ekki hefur verið upplýst um hvort nefndur kostnaður er að einhverju leyti vegna beggja bílanna. Þó er ljóst að jafnvel þótt fallist væri á að taka tillit til kostnaðar að fjárhæð um 810.000 krónur skortir enn verulega upp á að kærendur hafi lagt til hliðar svo sem þeim bar í greiðsluskjólinu.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Jafnvel þótt tekið sé tillit til fyrrgreindra útgjalda að fjárhæð um 810.000 krónur hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 3.900.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls en sparnaður þeirra er 425.754 krónur.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta