Mál nr. 53/2013
Fimmtudaginn 16. apríl 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.
Þann 2. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. mars 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 9. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. apríl 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 22. apríl 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina.
Greinargerð kæranda barst 2. september 2013 og framhaldsgreinargerð með bréfi 16. september 2013. Engar frekari athugasemdir bárust.
Með tölvupósti 10. apríl 2015 innti kærunefndin kæranda eftir því hvort afstaða hans til sölu á fasteignum hans hefði breyst frá töku hinnar kærðu ákvörðunar, svo sem óskað var eftir í framhaldsgreinargerð kæranda. Ekkert svar barst frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1960 og er viðskiptafræðingur að mennt. Hann býr í eigin fasteign að B götu nr. 24 í sveitarfélaginu C. Ráðstöfunartekjur kæranda eru samtals að meðaltali 255.588 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts. Þar af eru leigutekjur að fjárhæð 103.200 krónur á mánuði vegna útleigu efri hæðar fasteignarinnar að B götu nr. 24.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 34.353.560 krónur og nema eignir hans samtals 49.135.823 krónum. Á meðal eigna kæranda eru fjórar fasteignir, þ.e. tvær íbúðir að B götu nr. 24 í sveitarfélaginu C auk tveggja lóða í sveitarfélaginu D. Veðkröfur nema samtals 32.534.871 krónu.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. febrúar 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun lagði umsjónarmaður til að fasteignir kæranda, þ.e. báðar íbúðir að B götu nr. 24 í sveitarfélaginu C auk lóðanna tveggja í sveitarfélaginu D, yrðu seldar í samræmi við 1. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns veittu ráðstöfunartekjur kæranda ekki svigrúm til að hann gæti staðið undir afborgunum af eignunum. Taldi umsjónarmaður kæranda ekki hafa sinnt skyldum þeim er á honum hvíldu samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. og lagði hann því til, með bréfi 5. október 2012, að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 1. mgr. 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 10. október 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar.
Kærandi svaraði bréfi umboðsmanns 24. október 2012 og kvað aðra íbúðina að B götu nr. 24 í sölumeðferð í samráði við umsjónarmann. Fór kærandi þar fram á að öllum aðgerðum yrði frestað fram á næsta ár en þá stefndi hann á að komast aftur út á vinnumarkað. Með tölvupósti 12. desember 2012 tjáði kærandi umboðsmanni skuldara að hann hygðist leigja út aðra íbúðina ásamt bílskúr auk þess sem hann gerði grein fyrir láni sem hann hefði fengið hjá móður sinni til að greiða kostnað vegna viðhalds á fasteigninni. Var kærandi beðinn um gögn er sýndu fram á þessar ráðstafanir, en að sögn umboðsmanns skuldara bárust þau gögn ekki.
Með bréfi 29. janúar 2013 tilkynnti umboðsmaður skuldara kæranda um hugsanlega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem eignir hans væru umtalsvert meiri en skuldir. Því væri ekki víst að hann væri í varanlegum greiðsluerfiðleikum, þar sem ekki lægi fyrir að hann hefði reynt að selja eignir til þess að freista þess að lækka skuldir sínar. Kærandi svaraði erindinu 7. febrúar og kvaðst hafa reynt að selja fasteignir sínar en hann hafi ekki getað selt eignirnar á ásættanlegu verði.
Með ákvörðun 20. mars 2013 (ranglega dagsettri 19. janúar 2013) voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge. sbr. 15. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er vísað til 1. gr. lge. þar sem markmið laganna er tilgreint. Fer kærandi fram á að samið verði við kröfuhafa um afborganir sem nemi hæfilegri leigu á húsnæði til 1-3 ára og að samið verði við kröfuhafa um afskriftir á lánum. Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Árið 2007 hafi kærandi tekið tvö lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð u.þ.b. 21.000.000 króna. Hafi hann talið það óhætt á sínum tíma enda hafi hann þá verið ríkisstarfsmaður í fullu starfi, nánar tiltekið sem sérfræðingur á skattstofu Reykjavíkur, þar sem hann hafi unnið frá árinu 1986.
Í mars 2008 hafi kærandi hætt á skattstofunni eftir 22 ára starf og ákveðið að hefja sjálfstæðan rekstur. Eftir bankahrunið hafi sjálfstæðum rekstri hans verið sjálfhætt að mestu vegna verkefnaskorts. Auk þess hafi veikindi er hrjáð hefðu kæranda frá tvítugsaldri farið að ágerast. Ástæður fjárhagsvandræða kæranda segir hann því óheppni og veikinda.
Gerir kærandi athugasemd við þrönga túlkun á lögum um greiðsluaðlögun í hinni kærðu ákvörðun. Umboðsmaður skuldara telji augljóslega að kærandi og aðrir í sömu stöðu þurfi ekki að eiga eigið húsnæði en geti selt og farið út á leigumarkað. Hvað kæranda varði sé þó augljóslega hagstæðara fyrir hann að búa í núverandi húsnæði fremur en að leigja dýrt húsnæði á almennum markaði.
Segir kærandi að umboðsmaður taki fram að eignir kæranda umfram skuldir séu 13.176.440 krónur, sem „bendi sérstaklega til þess að umsækjandi sé í tímabundnum greiðsluvanda, en ekki í viðvarandi skulda- og greiðsluvanda“. Ekki verði annað lesið út úr þessum orðum umboðsmanns en að hann telji að eðlilegt söluverð fasteigna sé fasteignamatsverð. Þessi afstaða embættisins breytist þó síðar þegar hann reyni að tala húsnæði kæranda niður.
Kærandi greinir frá því að húsið að B götu nr. 24 hafi verið málað að utan til þess að gera það söluvænlegra. Þetta hafi umboðsmanni skuldara verið kunnugt um en kosið að láta sem hann vissi það ekki.
Kærandi kveður misræmi í málflutningi umboðsmanns að því er varðar aðra íbúð hans. Í einni athugasemd segi embættið að íbúðin sé nánast fokheld en í annarri athugasemd sé viðurkennt að íbúðin sé í útleigu. Hið rétta sé að íbúðin hafi öll verið endurnýjuð, skipt hafi verið um öll gólfefni, íbúðin máluð og skipt um eldhúsinnréttingu. Hvað hina íbúðina varði séu þar öll gólfefni nýleg, nema í eldhúsi, og búið að skipta um fjóra glugga og gler. Baðherbergið hafi verið endurnýjað á sínum tíma, holræsalagnir séu nýjar svo og rafmagn í öllu húsinu.
Í hinni kærðu ákvörðun segi að gögn hafi ekki borist frá kæranda til stuðnings því sem fram komi um útleigu íbúðar kæranda og framkvæmdir á fasteign hans. Þetta sé ekki rétt. Kærandi hafi sent umrædd gögn til embættisins með tölvupósti 17. desember 2012. Gögn þessi hafi verið afrit af húsaleigusamningi og kostnaður vegna viðgerðar á pípulögn að fjárhæð 330.000 krónur. Kærandi hafi hins vegar ekki haft tiltæk gögn vegna málningar hússins að utan að fjárhæð 70.000 krónur og vegna steypuvinnu að fjárhæð 170.000 krónur. Ýmislegt hafi verið gert utanhúss. Skipt hafi verið um allt efni í heimreið, nýtt þak og járn sett á báða bílskúra og vegleg girðing sett upp í kringum allt húsið. Kostnaður vegna þessa hafi verið í kringum 3.000.000 - 4.000.000 króna á sínum tíma. Ljóst sé því að ásett verð á efri hæð hússins, 19.900.000 krónur, þ.e. fasteignamatsverð, sé mjög sanngjarnt verð.
Telur kærandi augljóst að málflutningur umboðsmanns skuldara varðandi húsið í heild sinni hafi þann tilgang einan að sýna fram á að húsið sé lítils sem einskis virði og ekki meira virði en sem nemi áhvílandi veðskuldum.
Í hinni kærðu ákvörðun sé tekið fram að engin gögn liggi fyrir um framtíðartekjur kæranda. Þetta sé rétt enda hafi ekki verið óskað eftir neinum gögnum þar að lútandi eða kærandi spurður út í fyrirsjáanlegar launatekjur. Umboðsmaður hafi vitað að kærandi var í meðferð við vefjagigt. Á meðan á henni stæði væri ekki ætlast til þess að hann væri í vinnu.Eftir meðferðina ætti að vera auðveldara fyrir kæranda að fara út á vinnumarkaðinn. Ljóst sé því að þær tekjur sem umboðsmaður miði við í ákvörðun sinni, þ.e. atvinnuleysisbætur eða sambærileg fjárhæð, muni að líkindum vera of lágar. Þar fyrir utan sé kærandi að hefja rekstur að nýju.
Í greinargerð sinni til kærunefndarinnar óskaði kærandi eftir því að málinu yrði frestað fram á mitt ár 2014 vegna óvissu um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu skuldara. Í framhaldsgreinargerð til kærunefndarinnar óskaði kærandi eftir því að haft yrði samband við hann áður en úrskurðað yrði í málinu af hálfu kærunefndarinnar og afstaða hans til sölu fasteignanna könnuð að nýju.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá komi fram í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður sbr. 15. gr. lge.
Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. frumvarps til lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun lýkur. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.
Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Segir enn fremur að fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu, en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign. Ljóst sé að slík ráðstöfun yrði aðeins til örfárra mánaða, með fyrirvara um fyrirsjáanlega hækkun á tekjum kæranda.
Samkvæmt meðfylgjandi greiðsluáætlun séu áætluð heildarútgjöld kæranda á mánuði vegna framfærslu og rekstrar tveggja fasteigna samtals 178.888 krónur. Miðað við útborgaðar tekjur kæranda, sem nemi 152.388 krónum, auk leigutekjur að fjárhæð 103.200 krónur, sé greiðslugeta hans jákvæð um 76.700 krónur í mánuði hverjum. Sé gert ráð fyrir því að önnur fasteign kæranda verði seld verði að taka mið af útborguðum tekjum hans án framangreindra leigutekna og nemi heildartekjur hans þá 152.388 krónum á mánuði. Yrði greiðslugeta hans þá neikvæð um 26.500 krónur á mánuði. Heildarútgjöld myndu þó lækka þar sem kærandi myndi þá einungis greiða rekstrarkostnað vegna einnar fasteignar í stað tveggja. Sé miðað við helming núverandi rekstrarkostnaðar yrði greiðslugeta kæranda neikvæð um u.þ.b. 2.500 krónur á mánuði. Ljóst sé að greiðslugeta kæranda þyrfti að hækka umtalsvert til þess að hann gæti staðið straum af afborgunum veðkrafna um fyrirsjáanlega framtíð. Þá sé ljóst að kærandi hafi ekki nægjanlegar tekjur til þess að standa undir mánaðarlegum leigugreiðslum af fasteign, yrði miðað við 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega eign samkvæmt áskilnaði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge.
Ekki liggi fyrir að tekjur kæranda muni aukast á næstunni en kærandi hafi verið atvinnulaus frá árinu 2009. Kærandi sé nú í endurhæfingu vegna gigtarsjúkdóms með endurkomu á vinnumarkað í huga, en fái nú atvinnuleysisbætur. Ekkert liggi fyrir um að kærandi muni fá atvinnu eftir endurhæfingu. Einnig þyki ljóst af gögnum málsins og þeim upplýsingum er liggi fyrir um tekjur kæranda að núverandi tekjur hans nægi ekki til að standa undir mánaðarlegum greiðslum þeirra fasteignaveðlána sem á fasteign hans hvíli samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.
Kærandi hafi ekki talið hagsmunum sínum betur borgið með sölu beggja íbúða enda væri nægilegt að selja aðra þeirra, auk lóðanna tveggja, til þess að leysa fjárhagsvanda hans. Hafi kærandi talið nauðsynlegt að fresta öllum aðgerðum fram á næsta ár (2014) og myndi staða hans skýrast þá. Í samskiptum sínum við embætti umboðsmanns skuldara hafi kærandi aðspurður lýst vilja sínum til að selja fasteignir samkvæmt 13. gr. lge. en einungis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.e. að fasteignir hans yrðu seldar á fasteignamatsverði. Hafi kærandi lýst því yfir að hann væri ekki reiðubúinn til að selja fasteignir sínar á lægra verði. Samkvæmt mati fasteignasala séu fasteignir kæranda að B götu nr. 24 í afar slæmu ásigkomulagi og nær útilokað að svo hátt verði fáist fyrir eignirnar.
Telji embættið að ekki sé unnt að fallast á þau skilyrði sem kærandi hafi sett fyrir sölu fasteignanna enda sé ekki gert ráð fyrir því í 13. gr. lge. að skuldari geti bundið sölu fasteigna skilyrðum með þessum hætti. Sé kveðið á um það í 2. mgr. að eignir skuli seldar með þeim hætti að sem hæst verð fáist fyrir þær. Verði því að telja að með því að setja umrædd skilyrði hafi kærandi lagst gegn sölu eignanna í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge. þar sem ekki sé kveðið á um það í ákvæðinu að heimilt sé að samþykkja sölu fasteignar með skilyrðum. Kveði ákvæði 13. gr. lge. skýrt á um að umsjónarmaður skuli taka ákvörðun um sölu eigna samkvæmt 1. mgr. og framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Þrátt fyrir fjárhagsstöðu kæranda hafi hann lagst gegn ákvörðun umsjónarmanns um að fasteignir hans verði seldar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Telji umboðsmaður skuldara að ekki sé unnt að fallast á skilyrðin.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga.
Kærandi hafi lagt fyrir kærunefndina upplýsingar um endurnýjun og viðgerðir á fasteignum sínum til þess að sýna fram á verðmæti þeirra samkvæmt fasteignamati, en hluti þessara upplýsinga hafi legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. gr. laganna sé fjallað um hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. geti einstaklingur, sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 2. gr. sé skýrt nánar hvenær einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar samkvæmt lögunum. Í V. hluta almennra athugasemda við frumvarp til lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og að hafna beri umsókn sé greiðslugeta til staðar jafnvel þó eiginfjárstaða skuldara sé neikvæð. Í athugasemdum við 2. gr. laganna komi fram að skuldari skuli leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar ef mögulegt sé, áður en hann sæki um greiðsluaðlögun.
Samkvæmt yfirliti yfir eignir og skuldir kæranda séu eignir hans, sé miðað við virði þeirra samkvæmt fasteignamati, samtals 14.782.263 umfram skuldir. Þyki því einsýnt að sé verðmæti eigna kæranda rétt áætlað samkvæmt fasteignamati teljist kærandi ekki vera í varanlegum greiðsluerfiðleikum, enda gæti hann þá selt eignir sínar og þannig gert upp allar skuldir og átt tæplega 15.000.000 aukreitis.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er þess krafist að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda er byggð á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin. Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara, í samræmi við 5. mgr. 13. gr. lge., að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana getur skuldari kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.
Í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils þykir rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er, svo sem fram kemur í athugasemdum við 13. gr. lge. í frumvarpi til laganna. Í 13. gr. laganna er umsjónarmanni veitt heimild til þess, að vel athuguðu máli, að krefja skuldara um að afhenda til sölu þær eignir sem umsjónarmaður telur af sanngirnisástæðum, með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum, að skuldari geti verið án.
Í a-lið 1. mgr. 21. lge. kemur fram að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum. Slíkar fastar mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi.
Í máli þessu er ekki er deilt um fjárhæð ráðstöfunartekna kæranda en gengið er út frá því að hann hafi að jafnaði 255.588 krónur í tekjur á mánuði, svo sem fram kemur í greiðsluáætlun þeirri er ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er greiðslugeta kæranda því um 76.700 krónur á mánuði sé miðað við almenna framfærsluþörf einhleyps einstaklings.
Af gögnum málsins verður því ekki séð að kærandi geti með nokkru móti staðið undir greiðslu leiguverðs af fasteigninni samkvæmt 21. gr. lge. Greiðslugeta kæranda, þ.e. um 76.700 krónur á mánuði, er umtalsvert lægri en ætla má að leiguverð á sambærilegri eign væri. Miðað við upplýsingar úr leigugagnagrunni Þjóðskrár má gera ráð fyrir að leiga fyrir sambærilega eign á almennum markaði væri ekki lægri en 200.000 krónur á mánuði. Jafnvel þótt á því yrði byggt að fyrir hendi væru sérstakar og tímabundnar ástæður sem mæli með því að kærandi greiði 60% af hæfilegu leiguverði verður að teljast ljóst að greiðslugeta kæranda hrekkur ekki til greiðslu á 60% áætlaðrar leigu fyrir sambærilegt húsnæði á almennum markaði.
Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Eggert Óskarsson