Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 45/2013

Fimmtudaginn 16. apríl 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson. 

Þann 15. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 16. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. apríl 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 8. maí 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina.

Greinargerð kæranda barst með bréfi 21. maí 2013. Var greinargerðin ásamt viðbótargögnum send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 22. maí 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 23. maí 2013 tilkynnti umboðsmaður skuldara að embættið myndi ekki aðhafast frekar í málinu.


I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. janúar 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum hans. Með bréfi 14. ágúst 2012 tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara að afstaða kæranda kæmi í veg fyrir fyrirhugaða sölu fasteignar hans samkvæmt 1. og 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Því teldi umsjónarmaðurinn rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge. Taldi umsjónarmaðurinn ekki líkur á að greiðslugeta kæranda dygði til að mæta mánaðarlegum afborgunum vegna fasteignaveðlána og að fyrirsjáanlegt væri að greiðslugeta kæranda minnkaði þar sem kærandi ætti von á endurkröfu ofgreiddra bóta frá Tryggingastofnun. Þá væru tekjur kæranda samkvæmt greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun lægri en árið á undan.

Með bréfi 30. ágúst 2012 gaf umboðsmaður skuldara kæranda kost á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn. Svar kæranda barst embættinu 17. september 2012. Þar kom meðal annars fram að kærandi teldi umsjónarmann hafa vanreiknað tekjur þær er kærandi hefði af atvinnu sinni, en þær næmu nokkrum tugum þúsunda í hverjum mánuði. Taldi kærandi einnig að misskilningur hefði orðið varðandi endurkröfu Tryggingastofnunar vegna greiðsludreifingar er kæmi til framkvæmda á árinu 2013. Í svarinu sagði kærandi enn fremur að breytingar hefðu orðið á högum hans þar sem dóttir hans og tengdasonur væru flutt inn á heimili hans og myndu taka þátt í mánaðarlegum útgjöldum vegna heimilisrekstrar.

Með tölvupósti 10. september 2012 óskaði umboðsmaður skuldara eftir því að kærandi legði fram gögn er sýndu fram á tekjur hans er ekki kæmu fram á staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra. Var kærandi auk þess beðinn um að leiðrétta greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun, teldi hann hana ekki rétta. Þá var lagt fyrir kæranda að skila inn afriti af leigusamningi við dóttur sína og tengdason, svo unnt væri að reikna út greiðslugetu kæranda. Kærandi svaraði erindinu 17. september 2012 en svarinu fylgdu ekki umbeðin gögn.

Með ákvörðun 18. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda niður.


II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki  kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi telur sig hafa greiðslugetu til þess að geta haldið fasteign sinni. Húsaleigusamning við dóttur sína og tengdason geti kærandi lagt fram hvenær sem óskað væri og niðurstöðu varðandi mál kæranda hjá Trygginga­stofnun væri að vænta innan skamms.


III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé  tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður, sbr. 15. gr. lge.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir árið 2012 hafi kærandi haft 2.642.828 krónur í heildartekjur að frádregnum skatti það ár, en þær tekjur séu að stórum hluta vegna endurgreiðslu á örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Auk þess hafi kærandi fengið 400.000 krónur í vaxtabætur og 200.000 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Þar sem kærandi hafi ekki lagt fram frekari gögn er sýni fram á hærri tekjur verði lagt til grundvallar að hann hafi alls haft 3.242.828 krónur í tekjur hið minnsta, eða samtals 270.236 krónur á mánuði að meðaltali. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld vegna framfærslu kæranda hafi verið um 153.072 krónur árið 2012. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir janúarmánuð 2013 fyrir barnlausan einstakling. Með tilliti til áðurnefndra útreikninga skuli gengið út frá því að kærandi hefði að öllu óbreyttu átt að hafa greiðslugetu að fjárhæð 117.164 krónur á mánuði árið 2012.

Á árinu 2013 sé áætlað að kærandi fái töluvert lægri örorkulífeyri en árið á undan, samkvæmt greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun, eða alls 1.010.731 krónu. Sé gert ráð fyrir því að kærandi fái 400.000 krónur í vaxtabætur og 200.000 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, verði lagt til grundvallar að hann muni hafa alls 1.610.731 krónu í tekjur hið minnsta, eða samtals 134.228 krónur á mánuði að meðaltali. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld vegna framfærslu kæranda verði um 153.072 krónur árið 2013. Tekið sé mið af nýjasta framfærsluviðmiði til að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum og minniháttar útgjöldum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á það með haldbærum hætti að ástæða sé til að víkja frá þeim viðmiðum þrátt fyrir yfirlýsingar hans um að dóttir hans og tengdasonur muni taka þátt í heimilisrekstrinum. Með tilliti til fyrrnefndra útreikninga skuli gengið út frá því að kærandi muni að öllu óbreyttu hafa neikvæða greiðslugetu um 18.844 krónur.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að haldi skuldari eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíli á skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Segir enn fremur að fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðar­greiðslu, en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign. Ljóst sé að slík ráðstöfun yrði aðeins til örfárra mánaða, með fyrirvara um fyrirsjáanlega hækkun á tekjum kæranda.

Að mati umsjónarmanns sé mánaðarleg greiðslubyrði af veðkröfum um 92.700 krónur. Ljóst þyki af gögnum málsins og þeim upplýsingum er fyrir liggi um tekjur kæranda að núverandi tekjur hans nægi ekki til að greiða af veðlánum þeim sem á fasteign hans hvíli. Þá verði ekki talið að sérstakar eða tímabundnar aðstæður réttlæti að kærandi greiði lægri mánaðargreiðslu en a-liður 1. mgr. 21. gr. lge. mæli fyrir um.

Kærandi hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á fyrirsjáanlegar breytingar á reglulegum tekjum sínum og engar breytingar séu fyrirsjáanlegar með tilliti til heilsu hans. Þrátt fyrir það hafi kærandi lagst gegn ákvörðun umsjónarmanns um að fasteign hans verði seld, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. 5. gr. 13. gr. laganna.

Hvað andmæli kæranda varðar sé við töku stjórnvaldsákvörðunar ekki fært að byggja á öðru en því sem fyrir liggi í málinu á þeim tíma sem ákvörðun sé tekin. Í kæru til kærunefndarinnar taki kærandi fram að hann geti lagt fyrir kærunefndina húsaleigusamning og að niðurstöðu í máli hans hjá Tryggingastofnun Ríkisins sé að vænta bráðlega. Umræddar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar og hafi því ekki áhrif á gildi hennar með afturvirkum hætti. Ekki þyki fært að miða greiðslugetu kæranda við aðrar fjárhæðir en byggja megi á með gögnum og framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.


IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda er byggð á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin. Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara, í samræmi við 5. mgr. 13. gr. lge., að greiðsluaðlögunar­umleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar­umleitana getur skuldari kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og skal þá tímabil greiðsluaðlögunarumleitana standa þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir.

Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn hefst tímabundin frestun greiðslna, sbr. 11. gr. lge. Synji umboðsmaður skuldara um heimild til greiðslu­aðlögunar fellur tímabundin frestun greiðslna niður þegar kærufrestur skv. 3. mgr. 7. gr. laganna er liðinn, sbr. II. ákvæði til bráðabirgða í lge. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist tímabundin frestun greiðslna þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir, sbr. sama ákvæði.

Hin kærða ákvörðun er dagsett 18. janúar 2013. Í samræmi við II. ákvæði til bráðabirgða í lge. felldi umboðsmaður skuldara tímabundna frestun greiðslna niður tveimur vikum síðar, eða hinn 1. febrúar 2013. Með bréfi 15. apríl 2013 tilkynnti kærunefndin umboðsmanni skuldara að réttaráhrif ákvörðunar embættisins skyldu miðast við 1. mars 2013 þegar kæranda barst ákvörðun umboðsmanns skuldara. Því hefði kæran sem barst 15. mars 2013 borist innan kærufrests.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá fluttist eignarhald á fasteigninni að B götu nr. 24 yfir til Arion banka hf. 2. apríl 2013. Hinn 13. febrúar 2015 var fasteignin seld aftur. Liggur því fyrir að fasteignin er ekki lengur í eigu kæranda. Eru forsendur hinnar kærðu ákvörðunar því brostnar og verður hún því felld úr gildi.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir A niður er felld úr gildi.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta