Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 3/2010

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 30. nóvember 2010 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B, dags. 29. nóvember 2010. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 18. nóvember 2010 um að synja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Ákvörðun umboðsmanns barst kærendum 22. nóvember s.á.

Með bréfi, dags. 3. desember 2010, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara og barst hún með bréfi, dags. 23. desember 2010.

Greinargerð umboðsmanns var send kærendum 27. desember 2010, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi, dags. 11. janúar 2011.

 

I.

Málsatvik

Kærendur lýsa atvikum málsins þannig að þau hafi búið við erfiðan fjárhag í talsverðan tíma. Upphaf þess megi rekja til þess tíma þegar annar kærenda, B, flutti aftur til landsins eftir nám erlendis. Hún hafi tekið lán vegna flutninganna auk þess sem hún hafi ráðist í framkvæmdir á íbúð sem hún hafði á leigu. Haustið 2007 hafi kærendur fest kaup á fasteign sinni að C nr. 98 í sveitarfélaginu D og tekið lán fyrir kaupunum. Á þeim tíma hafi kærendur verið bæði í fullri vinnu og talið sig geta staðið við skuldbindingar sínar. B varð barnshafandi í árslok 2007 og hafi átt við veikindi að stríða á meðgöngu sem hafi leitt til talsverðrar tekjuskerðingar á árunum 2007 og 2008. Eftir að fæðingarorlofi lauk hafi hún sagt upp starfi sínu í sveitarfélaginu E í von um að fá starf nær heimili þeirra í sveitarfélaginu D, en það hafi ekki gengið eftir. Til þess að reyna að rétta við fjárhag þeirra hafi B tekið yfir nokkra bílalánasamninga í þeirri von að geta selt bílana síðar með hagnaði. Það hafi heldur ekki gengið eftir. A hafi einnig þurft að þola tekjuskerðingu á sama tíma vegna yfirvinnubanns.

Í kjölfar þessa hafi kærendur leitað til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem ráðlagði þeim að reyna að semja við lánadrottna sína. Fóru þau þá í greiðsluerfiðleikamat hjá Glitni. Að því loknu hafi þeim verið tilkynnt að þau stæðust ekki greiðslumat bankans og fengju því ekki úrlausn þar. A hafi misst starf sitt um áramótin 2008–2009 en fengið annað starf í sveitarfélaginu E en hafi þurft að segja því upp síðar vegna lágra launa og mikils eldsneytiskostnaðar. Hann hafi þá hafið störf hjá fyrirtækinu X en var sagt upp störfum þar í febrúar 2010 vegna veikinda. Hann hafi átt við tiltekin veikindi að stríða síðan árið 1987 en veikindi hans hafi versnað í kjölfar fjárhagsörðugleika þeirra.

Þann 6. október 2010 hafi kærendur skilað inn sameiginlegri umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga til umboðsmanns skuldara. Umboðsmaður taldi umsóknina fullbúna þann 15. nóvember 2010. Í ákvörðun umboðsmanns kemur fram að heildarskuldir þeirra nemi 78.398.612 krónum. Þar af eru vanskil og gjaldfallnar kröfur rúmlega 40.000.000 króna. Helsta eign kærenda er fasteignin C nr. 98 í sveitarfélaginu D en fasteignamat hennar er um 23.000.000 króna. Þá eiga kærendur bifreið sem metin er á 750.000 kr.

Um samspil tekna og skuldbindinga síðastliðin fjögur ár segir í ákvörðun umboðsmanns að tekjur kærenda árið 2006 hafi verið 530.185 krónur á mánuði. Í ákvörðun umboðsmanns er talað um nettótekjur og er átt við meðaltal á mánuði samanlagðra tekna kærenda, ásamt barnabótum og vaxtabótum, samkvæmt skattframtali að frádregnum skattgreiðslum og iðgjöldum í lífeyrissjóð. Það ár taki þau skuldabréfalán hjá Landsbankanum að fjárhæð 775.000 krónur. Sama ár gjaldfalli tvær kröfur, annars vegar frá Símanum og hins vegar ofgreiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá hafi kærendur keypt þrjár bifreiðir það ár.

Árið 2007 hafi mánaðarlegar tekjur kærenda verið 515.363 krónur en það ár hafi þau tekið fimm ný lán; þrjú veðskuldabréf frá Íslandsbanka vegna kaupa á C nr. 98, samtals að fjárhæð 20.815.000 krónur, skuldabréfalán að fjárhæð 1.000.000 króna hjá Íslandsbanka, vegna uppsafnaðra yfirdrátta, og loks annað lán hjá sama banka fjárhæð 4.800.000 króna vegna endursamningar og lengingar eldri lána.

Árið 2008 hafi mánaðarlegar tekjur kærenda verið 502.632 krónur. Það ár hafi þau tekið 935.980 króna skuldabréfalán hjá S24 og yfirtekið tvo bílasamninga, annars vegar hjá SP fjármögnun að fjárhæð 3.681.822 krónur og hins vegar hjá Lýsingu hf. að fjárhæð 1.039.363 krónur. Á því ári gjaldféllu sex kröfur, þar af þrjár vegna húsnæðiskaupa.

Árið 2009 hafi mánaðarlegar tekjur kærenda verið 475.007 krónur. Á því ári hafi þau stofnað til fimm nýrra skuldbindinga. Í fyrsta lagi hafi þau tekið yfir tvo bílasamninga, annars vegar frá Avant að fjárhæð 4.678.086 krónur og hins vegar frá Lýsingu að fjárhæð 1.390.192 krónur. Þá tóku þau tvö staðgreiðslulán hjá Borgun sem samtals námu 112.038 krónum. og skuldabréfalán vegna raðgreiðslusamnings hjá Valitor að fjárhæð 46.506 krónur. Á árinu seldu þau eina bifreið og keyptu aðra.

Áætlaðar mánaðarlegar tekjur ársins 2010 eru 462.479 krónur samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns. Í umsókn kærenda kemur fram að þau eigi fjögur börn undir 18 ára aldri sem búi á heimili þeirra auk þess eigi A eitt barn frá fyrra hjónabandi sem búi hjá móður sinni. Mánaðarleg útgjöld til heimilisins eru talin vera 395.916 krónur, að frátöldum afborgunum af íbúðarlánum. Því sé geta þeirra til afborgana af lánum um 66.500 krónur á mánuði.

Umboðsmaður skuldara synjar kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar. Ákvörðun hans byggist á því að hann telur að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem þau voru greinilega ófær um að standa við þær auk þess sem yfirtaka bílalána í ágóðaskyni hafi falið í sér verulega fjárhaglega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra. Þá telur umboðsmaður að kærendur hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt, einkum á árunum 2008 og 2009 þar sem þau hafi á því tímabili bæði stofnað til nýrra skuldbindinga og greitt af yngri lánum á meðan eldri lán voru í vanskilum á sama tíma. Í ákvörðun umboðsmanns er yfirlit yfir allar kröfur á hendur kærendum, alls 29, ásamt upplýsingum um elsta ógreidda gjalddaga, fjárhæð vanskila og gjaldfallinna krafna og heildarfjárhæð hverrar kröfu. Af þeim sökum þótti umboðsmanni óhæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010.

  

II.

Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að fallist verði á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun og til vara að fallist verði á umsókn A um greiðsluaðlögun.

Telja kærendur í fyrsta lagi að ekki hafi verið gætt að andmælarétti þeirra við meðferð umsóknarinnar og að hvorki hafi verið haft samband við kærendur né umboðsmann þeirra meðan umsókn þeirra var til skoðunar.

Í öðru lagi halda kærendur fram að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé byggð á röngum forsendum að því er ráðstöfunartekjur þeirra varðar. Segir í kærunni að heildartekjur þeirra hafi verið 523.513 krónur árið 2006, 519.757 krónur árið 2007, 458.262 krónur árið 2008 og 485.026 krónur árið 2009. Þá mótmæla kærendur því mati umboðsmanns að tekjuskerðingin sem þau urðu fyrir á framangreindu tímabili sé ekki veruleg. Benda kærendur á að þegar litið sé til hækkana á vísitölu neysluverðs sé rauntekjuskerðing tekna þeirra nærri 50% en ekki tæp 11% eins og haldið er fram í ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Í þriðja lagi gera kærendur athugasemd við það að umboðsmaður skuldara telji bifreiðakaup annars kærenda, B óskynsamleg. Verði að meta þessi viðskipti út frá þeim aðstæðum sem voru uppi á þeim tíma sem þau fóru fram. Þá hafi stjórnvöld haldið því fram að gengi krónunnar væri of veikt skráð og að það myndi styrkjast fljótlega. Því hafi B reynt að hagnast með því að taka yfir bílasamninga í þeirri von að geta selt bílana síðar með hagnaði. Það hafi síðan ekki gengið eftir og því hafi hún setið eftir með meiri skuldbindingar en áður. Einnig mótmæla kærendur því mati umboðsmanns skuldara að það hafi verið ámælisverð hegðun af hálfu kærenda að láta hjá líða að greiða af gjaldföllnum skuldum sínum á sama tíma og kærendur tókust á hendur nýjar skuldbindingar og stóðu í skilum með þær. Hér hafi verið um að ræða örvæntingafulla tilraun til að afla tekna. Verði að meta aðgerðir kærenda út frá forsendum sem fyrir hendi voru á þeim tíma sem ákvarðanir þeirra voru teknar.

Í fjórða lagi telja kærendur að það að meta stöðu þeirra saman og að gera þeim að leggja inn sameiginlega umsókn sé brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hafi umboðsmaður skuldara lagt að jöfnu aðgerðir kærenda með því að láta A líða fyrir bifreiðakaup B, sem umboðsmaður hafi talið ámælisverð. Kærendur segjast hafa lagt inn tvær umsóknir til umboðsmanns skuldara en starfsmaður umboðsmanns hafi tjáð þeim að þau yrðu að leggja inn sameiginlega umsókn en það væri verklagsregla hjá umboðsmanni að hjón og sambúðarfólk skyldu sækja um greiðsluaðlögun sameiginlega.

Í fimmta lagi telja kærendur að framfærsluviðmið það sem umboðsmaður skuldara leggi til grundvallar í málinu sé rangt þar sem miðað sé við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara áætlar en ekki reikninga frá kærendum sem sýni fram á raunverulegan framfærslukostnað þeirra.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun hans frá 18. nóvember sl. verði staðfest. Í greinargerð sinni vísar hann til þess að í 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, komi fram að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þar séu talin upp í sjö liðum atriði sem líta skuli til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita greiðsluaðlögun. Telur umboðsmaður ljóst eins og málum var háttað að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma þegar þau voru greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Er það mat umboðsmanns að yfirtaka annars kæranda á bílasamningum í ágóðaskyni hafi falið í sér verulega fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra en gögn málsins benda ekki til þess að þessi bílaviðskipti hafi leitt til verðmætasköpunar fyrir kærendur. Að mati umboðsmanns skuldara hafi þau einnig á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt, einkum á árunum 2008–2009, en á þeim tíma stofnuðu kærendur til nýrra skuldbindinga og greiddu af þeim í stað þess að greiða kröfur sem voru þá þegar gjaldfallnar. Að þessu virtu taldi umboðsmaður að óhæfilegt væri að veita kærendum greiðsluaðlögun. Hann vísar til gagna málsins og segir ljóst að skuldasöfnun umsækjenda megi einna helst rekja til ámælisverðrar háttsemi þeirra sjálfra. Á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laganna hafi honum því borið lagaleg skylda til að synja umsókninni.

Umboðsmaður skuldara mótmælir þeirri fullyrðingu kærenda að ekki hafi verið haft samband við þau við vinnslu umsóknarinnar og ekki gætt að andmælarétti kærenda. Þvert á móti hafi kærendur verið í talsverðum samskiptum við umboðsmann skuldara og í málaskrá embættisins sé að finna a.m.k. 14 tölvupósta frá B.

Þá bendir umboðsmaður skuldara á að í 4. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga sé nákvæmlega tilgreint hvað skuli koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun og henni skuli fylgja gögn til staðfestingar upplýsingunum. Skuldari eigi rétt á endurgjaldslausri aðstoð umboðsmanns skuldara við að semja umsókn og afla gagna í samræmi við ákvæði laganna. Umboðsmaður skuldara fari ávallt fram á að umsækjendur láti fylgja með umsókn ítarlega greinargerð um aðstæður sínar. Starfsmenn umboðsmanns skuldara aðstoði umsækjendur við samningu greinargerðarinnar og bendi þeim á atriði sem þarfnast gætu nánari skýringa með hliðsjón af þeim aðstæðum sem taldar eru upp í 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hafi umsókn kærenda verið metin fullbúin þann 15. nóvember 2010 en þann 11. nóvember 2010 sendu kærendur fyrrnefndan tölvupóst til starfsmanns umboðsmanns skuldara þar sem fram kemur að þau samþykki greinargerð þá sem starfsmaður embættisins hafði aðstoðað þau við að útbúa.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, komi fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því, enda liggi rökstudd afstaða hans ekki þegar fyrir í gögnum máls eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þegar mál hefst að frumkvæði aðila sjálfs nái andmælarétturinn ekki til upplýsinga sem aðili máls hefur sjálfur komið á framfæri við stjórnvaldið eða það hefur aflað frá honum meðan málið er til meðferðar. Telur umboðsmaður skuldara að afstaða kærenda hafi legið fyrir í málinu og því óþarft að veita andmælarétt sérstaklega enda hafi gögn sem umboðsmaður skuldara aflaði einungis staðfest þær upplýsingar sem borist höfðu frá kærendum.

Með vísan til þeirrar málsástæðu kærenda að meðaltekjur fyrri ára hafi verið ranglega reiknaðar sendi umboðsmaður skuldara leiðrétta útreikninga en komst að þeirri niðurstöðu að um óverulegar breytingar sé að ræða sem ekki hafi áhrif á efnislega niðurstöðu umboðsmanns í málinu.

Varðandi framfærsluviðmið það sem notast er við í ákvörðuninni vísar umboðsmaður til þess að í 4. mgr. 16. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga komi fram að umsjónarmaður með greiðsluaðlögun skuli notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Hafi því verið notast við bráðabirgðaneysluviðmið umboðsmanns skuldara við vinnslu umsóknar kærenda. Heimilt sé þó að óska eftir breytingum á tilgreiningu framfærslukostnaðar telji umsækjandi hann vera hærri hjá sér en slíkar breytingar geta einar og sér ekki komið í veg fyrir að umsækjandi fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

 

IV.

Niðurstaða

Umboðsmaður skuldara byggir ákvörðun sína um synjun á umsókn kærenda um greiðsluaðlögun á ákvæðum b-, c- og f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem nú er fallið úr gildi, en ákvæðið kom inn í lögin með lögum nr. 24/2009 þar sem lögfest voru í fyrsta skipti ákvæði um greiðsluaðlögun.

Þótt 2. mgr. 6. gr. sé að mestu leyti samhljóða framangreindu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti er ekki sjálfgefið að beiting þeirra skuli vera með sama hætti. Leiðir það í fyrsta lagi af því markmiði laganna um greiðsluaðlögun einstaklinga að þeim er ætlað að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, svo sem segir í 1. gr. laganna. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að með þeim eigi að festa í lög sértækar reglur til að færa raunvirði fjárkrafna að veruleikanum og jafnframt að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins. Þá segir jafnframt í athugasemdunum að þótt sú breyting sem gerð var á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., með lögfestingu X. kafla a um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar, hafi um margt reynst vel hafi það verið gagnrýnt að lögin taki um of mið af skuldaskilaréttinum og hagsmunum kröfuhafa og að skilyrði til greiðsluaðlögunar samkvæmt þeim séu of ströng. Loks er í greinargerðinni lögð áhersla á þjóðfélagslegt mikilvægi löggjafarinnar þar sem hún muni hraða endurreisn efnahagslífsins með því að auðvelda endurskipulagningu fjárhags einstaklinga.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi sem þar eru tíundaðar í fimm liðum. Í 2. mgr. sömu greinar er til viðbótar við skilyrði 1. mgr. kveðið á um heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli taka sérstakt tillit til þeirra atriða sem talin eru upp í liðum a–g.

Á meðan 1. mgr. 6. gr. laganna kveður á um tiltekin skilyrði þess að veitt verði heimild til greiðsluaðlögunar, er í 2. mgr. sömu greinar einungis um að ræða heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, þyki það óhæfilegt að veita slíka heimild. Þannig er 2. mgr. 6. gr. heimildarákvæði sem leggur þá skyldu á herðar umboðsmanni skuldara að meta sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig hvort aðstæður séu með þeim hætti að talið verði óhæfilegt að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Við það mat skuli hann taka tillit til þeirra atriða sem tilgreind eru í stafliðum a–g.

Orðalag 63. gr. d laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, var nokkuð annað. Í 1. mgr. 63. gr. d sagði að héraðsdómari gæti hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef eitthvert þeirra atriða sem talin voru 1.–6. tölul. greinarinnar ættu við. Af því sem fram kemur í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 24/2009 má ráða að litið hafi verið svo á að greinin fæli í sér upptalningu á frekari skilyrðum sem skuldari þyrfti að fullnægja til að fá heimild til greiðsluaðlögunar. Þannig virðist hafa verið gengið út frá því að héraðsdómari hafnaði beiðni um greiðsluaðlögun væri eitthvert þeirra atriða fyrir hendi sem í greininni voru talin.

Af því leiðir sem að framan segir, um markmið hinna nýju laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og breyttu orðalagi ákvæðisins, að skýra beri ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga á þann veg að mat umboðsmanns skuldara geti eftir atvikum orðið annað og vægara en leiða má af fordæmum Hæstaréttar í málum sem varða beitingu 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna. Segir einnig í athugasemdum við ákvæði 6. gr. í frumvarpi til laga nr. 101/2010 að ekki sé gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni séu til. Miða skuli eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar er komin á og dómvenju en jafnframt hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hljóti vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.

Með tilliti til markmiðs laganna og framangreindra ummæla í athugasemdum við frumvarpið, ásamt samanburði við eldra ákvæði í gjaldþrotalögunum, er ljóst að ákvörðun um synjun á heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. verður að byggja á heildstæðu mati á aðstæðum umsækjanda, endi falli háttsemi hans ekki undir þau tilvik þar sem umboðsmanni er skylt að synja um slíka heimild skv. 1. mgr. 6. gr. Þegar um matskennda synjunarheimild eins og 2. mgr. 6. gr. er að ræða er því ekki nægjanlegt að heimfæra háttsemi umsækjenda undir eitt eða fleiri tilvik sem talin eru upp í greininni til þess að heimildinni verði beitt.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara í þessu máli ber með sér að leitast hafi verið við að staðreyna hvort aðstæður séu með þeim hætti að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, með síðari breytingum. Niðurstaða umboðsmanns skuldara er sú að kærendur hafi í fyrsta lagi stofnað til skulda á þeim tíma þegar þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og telur umboðsmaður upp í því sambandi lántökur kærenda og stöðu vanskila á árunum 2006–2010. Í öðru lagi telur umboðsmaður að yfirtaka kærenda á bílalánum í ágóðaskyni hafi falið í sér verulega fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma þegar til þeirra var stofnað. Þá telur umboðsmaður í þriðja lagi að kærendur hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast var unnt þar sem þau hafi um tíma staðið í skilum með yngri bílalán á sama tíma og eldri lán hafi verið í vanskilum. Með vísan til b-, c- og f-liðar 2. mgr. 6. gr. telur umboðsmaður því óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar og hafnar beiðni þeirra þar að lútandi.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar frá 23. desember sl. er að finna nánari rökstuðning fyrir ákvörðun hans um að hafna umsókn kærenda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli framangreindra töluliða 2. mgr. 6. gr. án þess að gerð sé nánari grein fyrir því mati umboðsmanns sem ákvæðið áskilur. Þvert á móti segir í greinargerðinni að umboðsmaður skuldara líti svo á að honum hafi borið lagaleg skylda til þess að hafna umsókn kærenda þar sem ástæður skuldasöfnunar kærenda megi einna helst rekja til ámælisverðrar háttsemi þeirra sjálfra. Svo sem að framan er rakið er í 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga ekki um að ræða lagalega skyldu til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar jafnvel þótt einhver þeirra atriða sem talin eru í 2. mgr. 6. gr. eigi við um aðstæður umsækjanda. Þvert á móti ber umboðsmanni skuldara að leggja sjálfstætt mat á það í hverju tilviki fyrir sig hvort þau atriði leiði til þess að óhæfilegt þyki að veita heimildina.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara eru tíundaðar heildarskuldir kærenda, tekjur þeirra árin 2007–2009, sundurliðað til hvaða skulda var stofnað á hverju ári og gerð grein fyrir bílaviðskiptum kærenda á fyrrnefndum árum. Hins vegar eru ýmis atriði sem varða forsendur ákvörðunar hans óljós og ekki með glöggum hætti unnt að sjá af gögnum málsins hvaða upplýsingar voru lagðar til grundvallar ákvörðun umboðsmanns. Þannig er til dæmis hvorki að finna í ákvörðun hans né greinargerð kærenda með umsókn þeirra upplýsingar um umsamda eða raunverulega greiðslubyrði lána þannig að sjá megi af þeim á hvenær þau urðu ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Þetta er þó forsenda þess að meta megi hvort og þá hvenær talið sé að kærendur hafi greinilega orðið ófær um að standa við frekari skuldbindingar. Þá er í greinargerð kærenda með umsókn þeirra til umboðsmanns bæði vísað til greiðslugetu þeirra og skuldayfirlits án þess að þessi gögn fylgi með greinargerðinni sjálfri. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá kærendum, dagsettur 11. nóvember 2010, þar sem þau lýsa því yfir að þau samþykki þá greinargerð sem liggi fyrir í málinu og muni undirrita hana og senda umboðsmanni. Hin vegar er hvergi í gögnum málsins að finna greinargerð sem undirrituð er 11. nóvember 2010 eða síðar. Greinargerð kærenda sem fylgdi umsókn þeirra um greiðsluaðlögun er dagsett 15. október 2010 og getur því tæplega verið sú sem tölvupósturinn vísar til. Í ljósi rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara og andmælaréttar kærenda er nauðsynlegt að þessi gögn liggi með skýrum hætti fyrir sem hluti af umsókn aðila eða eftir atvikum í öðrum gögnum sem ljóst er að kærendur hafi getað kynnt sér.

Ummæli umboðsmanns skuldara í greinargerð hans, ásamt ófullnægjandi upplýsingum um forsendur ákvörðunar hans, bera með sér að umboðsmaður hafi ekki með réttum hætti lagt mat á það hvort óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, með síðari breytingum. Verður af þessari ástæðu að fella hina kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna umsókn A og B um heimild til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

  

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta