Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 38/2013

Fimmtudaginn 13. ágúst 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 11. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. febrúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 16. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. maí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1980. Hún býr ásamt dóttur sinni í 120 fermetra leiguíbúð að B götu nr. 14 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er í fullu starfi hjá X. Mánaðarlegar tekjur kæranda eftir greiðslu skatta eru samtals 177.881 króna. Þar að auki fær hún mánaðarlega alls 129.090 krónur vegna meðlags, barna-, vaxta- og húsaleigubóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

Að mati kæranda má rekja fjárhagsvandræði hennar til atvinnuleysis og sambúðarslita.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 22. júní 2011 eru 96.648.820 krónur. Til skuldanna var aðallega stofnað á árinu 2007.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 15. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júní 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. október 2012 var tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge.

Í ljós hafi komið samkvæmt gögnum frá Arion banka hf. að kærandi hefði í tvígang á þriggja mánaða tímabili farið til útlanda. Auk þess kvað umsjónarmaður að ráða mætti af gögnum málsins að 577.426 krónum, sem greiddar hefðu verið til kæranda við álagningu ríkisskattstjóra 1. ágúst 2012, virtist hafa verið ráðstafað umfram það sem hún hafi þurft til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærandi hafði áður upplýst að hún hafi ekki getað lagt neina fjármuni til hliðar á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Með þessu hafi umsjónarmaður talið að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að auki taldi umsjónarmaður að óljóst væri hvort kærandi byggi ein eða væri í sambúð og þar með hvort hún væri eini framfærandi heimilisins. Því væri vafa undirorpið hvort kærandi uppfyllti skilyrði 4. gr. lge. um þau atriði sem þyrftu að koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun en þær upplýsingar tækju bæði til skuldarans og þeirra sem teldust til heimilis með honum. Af þessu leiddi að fjárhagur kæranda væri í raun óljós með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. lge. Því lagði umsjónarmaður það til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.

Með bréfum umboðsmanns skuldara til kæranda 26. nóvember 2012 og 13. febrúar 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Sneri andmælaréttur kæranda í fyrra bréfinu að a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en í seinna bréfinu einnig að c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi svaraði ekki bréfum umboðsmanns skuldara.

Með bréfi til kæranda 28. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar hvorki byggða á réttum forsendum né þeim gögnum sem fram þurfi að koma svo endanlegur úrskurður geti gengið í málinu.

Ein forsenda fyrir ákvörðun umboðsmanns skuldara sé að fyrrum sambýlismaður kæranda hafi ekki greitt henni húsaleigu fyrir D götu nr. 12 í sveitarfélaginu E. Kærandi kveður dóttur sína búa hjá sambýlismanninum fyrrverandi í eigninni og því hafi kærandi reynt að leysa málið með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Kærandi vinni nú að því að fyrrum sambýlismaður hennar greiði eðlilega leigu fyrir afnot af eigninni. Þá skuldi kærandi fasteignagjöld af eigninni en það tengist framangreindum leigugreiðslum með beinum hætti. Geri kærandi ráð fyrir að þessi mál leysist samhliða.

Kærandi kveður ljóst að hún uppfylli ekki öll skilyrði til greiðsluaðlögunar en framangreind atriði séu tilkomin þar sem ekki hafi tekist að selja fasteignina.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í c-lið 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærandi sé skráð eigandi fasteignar að D götu nr. 12 í sveitarfélaginu E en um sé að ræða 258 fermetra einbýlishús. Að sögn kæranda búi fyrrverandi sambýlismaður hennar í eigninni, en greiði kæranda ekki leigu fyrir afnotin. Kærandi greiði hins vegar sjálf leigu vegna þeirrar íbúðar sem hún búi í. Sé miðað við tölur þjóðskrár frá 21. nóvember 2012 um leiguverð íbúðarhúsnæðis með 4–5 herbergjum í sveitarfélaginu E megi gera ráð fyrir að leigutekjur kæranda hefðu getað numið á bilinu 250.000–300.000 krónum á mánuði.

Vegna þeirra skyldna sem kveðið sé á um í c-lið 12. gr. lge. hafi kæranda borið að innheimta sanngjarnar leigugreiðslur vegna afnota af fasteigninni. Með því að láta undir höfuð leggjast að krefja fyrrverandi sambýlismann sinn um leigugreiðslur, sem samsvari eðlilegu leiguverði fyrir sambærilega eign eða raunafborgunum fasteignaveðlána og lögveða, hafi kærandi í raun orðið af fjármunum sem gagnast hefðu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 12. gr. lge.

Að því er varði stofnun nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls liggi fyrir samkvæmt gögnum málsins að kærandi hafi lengi vanrækt að greiða fasteignagjöld. Í 25. gr. laga um þinglýsingar nr. 39/1978 segi að sá er þinglýsingarbók nefni eiganda á hverjum tíma hafi eignarheimild á fasteign. Í 12. gr. reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005 segi að eigandi skuli greiða fasteignaskattinn. Kærandi sé þinglýstur eigandi umræddrar húseignar og beri henni því að standa skil á fasteignagjöldum. Samtals séu ógreidd fasteignagjöld 1.005.639 krónur og þar af hafi 703.985 krónur fallið til á meðan greiðsluaðlögunar hafi verið leitað. Með þessu megi ætla að kærandi hafi stofnað til nýrrar skuldar í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. c-og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 30. október 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 28. febrúar 2013 á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kæranda hafi borið að innheimta leigu vegna afnota fyrrverandi sambýlismanns hennar af fasteign kæranda að D götu nr. 12 í sveitarfélaginu E. Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteignagjöldum í greiðsluskjóli. Kærandi fellst á að hafa sýnt af sér þessa háttsemi en kveðst vinna að lausn málsins.

Svo sem rakið hefur verið er skuldurum óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. Með því að láta hjá líða að innheimta leigu fyrir fasteign sína á á 25 mánaða tímabili greiðsluskjóls, þ.e. frá 1. janúar 2011 til 31. janúar 2013, telst kærandi hafa brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þær tekjur sem kærandi hefði fengið vegna útleigu eignarinnar hefði hún átt að leggja fyrir til að nýta sem greiðslu til kröfuhafa við samning um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ekki staðið skil á greiðslu fasteignagjalda af fasteign sinni að höfuðstóls fjárhæð 662.739 krónur sem til féllu eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt, þ.e. á tímabilinu 1. janúar 2011 til 31. janúar 2013, enda nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og er þar með fallist á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Þar sem kærandi hefur með vísan til þess sem að framan er rakið brugðist skyldum sínum samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi þar með borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta