Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 117/2013

Fimmtudaginn 13. ágúst 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. júlí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 15. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. ágúst 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust með bréfi 19. mars 2014.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1967. Hann er einhleypur og barnlaus og býr í eigin 100 fermetra íbúð að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er menntaður á sviði markaðsmála og auglýsingagerðar. Hann er verktaki hjá X og eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans 195.274 krónur vegna launa og vaxtabóta.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis og hækkunar á lánum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 57.564.750 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júlí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. október 2012 óskaði umsjónarmaður þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður greindi frá því að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda hefði fyrst verið lagt fyrir kröfuhafa 16. ágúst 2012. Landsbankinn hafi hafnað samningnum og talið að vísa bæri kæranda úr greiðsluaðlögun á grundvelli 12. gr., sbr. 15. gr. lge., þar sem kærandi hefði ekki lagt til hliðar hluta af launum eða öðrum tekjum sínum. Í kjölfarið hafi kærandi ritað greinargerð um ástæður þess að hann hafi ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Greinargerðin ásamt nýju frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir kæranda hafi verið lögð fyrir kröfuhafa 24. september 2012. Bankinn hafi einnig hafnað því frumvarpi.

Kærandi hafi notið tímabundinnar frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 30. desember 2010 eða í um 21 mánuð. Á því tímabili hafi kærandi ekki lagt neitt til hliðar. Eini fyrirliggjandi sparnaður kæranda sé söluverðmæti bifreiðar er hann hafi selt í september 2012 fyrir 565.000 krónur. Í upphafi tímabilsins hafi kærandi verið atvinnulaus og því með lágar tekjur. Á haustmánuðum 2011 hafi kærandi fengið starf sem verktaki.

Á þeim tíma er fyrra frumvarpið hafi verið lagt fram hafi tekjur kæranda verið um 250.000 krónur á mánuði, áætlaður framfærslukostnaður 135.010 krónur og greiðslugeta því 105.000 krónur á mánuði. Þegar síðara frumvarpið hafi verið lagt fram hafi tekjurnar verið um 310.000 krónur, áætlaður framfærslukostnaður 168.801 króna og greiðslugeta 125.000 krónur. Kærandi hafi þó ekkert lagt fyrir á 21 mánaðar tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Samkvæmt þessu hafi umsjónarmaður talið ljóst að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Var þess því óskað að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 15. október 2012 af þessu tilefni þar sem honum var boðið að leggja fram frekari gögn og láta álit sitt í ljós. Í svari kæranda 25. október sama ár kemur fram að tekjur hans hafi verið mjög óstöðugar undanfarin fjögur ár en þar af hefði hann verið atvinnulaus fyrstu tvö árin. Hann hefði fengið lán frá ættingjum sínum þar sem atvinnuleysisbætur hefðu ekki dugað. Þegar kærandi hefði farið að hafa tekjur hefði hann borgað ættingjum sínum til baka og reynt að lifa eðlilegu lífi. Að mati kæranda setji Landsbankinn fram tölur sem ekki séu í neinu samræmi við aðstæður kæranda og vísi til lagaákvæða sem erfitt sé að tengja við veruleikann, þó lifi kærandi fábrotnu lífi og leyfi sér fátt. Nú fyrst sé kærandi kominn með öruggar tekjur og geti skipulagt fjármál sín fram í tímann. Heildarlaun hans séu um 400.000 krónur.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 10. júní 2013 var kæranda enn gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í svari kæranda 28. júní 2013 kemur fram að hann hafi þegið laun frá einkahlutafélaginu Mörkun ehf. og reiknað sér endurgjald vegna þeirrar vinnu. Kærandi hafi haft óreglulegar tekjur frá janúar 2011 til loka ágúst 2012. Á tímabili hafi verið óljóst hvort allar greiðslur félagsins til kæranda skyldu taldar til launa eða láns í skattalegum skilningi en þetta sé skýringin á því að ósamræmi sem sé á milli gagna Landsbankans og staðgreiðsluskrár ríkisskattstjóra. Nú hyggist kærandi bæta úr þessu þar sem endanlega hafi orðið ljóst að telja bæri greiðslurnar til launa. Réttar tekjur kæranda á tímabilinu 1. janúar 2011 til ágústloka 2012 hefðu samkvæmt þessu verið 4.705.300 krónur. Hann muni koma leiðréttingu þessa efnis sem allra fyrst til ríkisskattstjóra. Kærandi telur með vísan til þessa að óvissa í þessum efnum sé ekki til staðar líkt og Landsbankinn haldi fram.

Raunveruleg útgjöld kæranda séu 223.031 króna á mánuði samkvæmt neysluviðmiði velferðarráðuneytisins. Þau útgjöld sem þar komi fram séu raunveruleg útgjöld kæranda. Telja verði að þrátt fyrir 4. mgr. 16. gr. lge., þar sem fram komi að umboðsmaður skuldara skuli notast við framfærsluviðmið er hann setji, liggi fyrir að líta verði á hvert tilvik fyrir sig og meta hvort eðlilegt sé og réttlátt að framfærslukostnaður sé hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um. Þá hafi kærandi sýnt fram á óvænt útgjöld vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 528.520 krónur og viðgerðar á bíl að fjárhæð 159.000 krónur. Kærandi leggi áherslu á að gengið sé út frá neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins þegar raunveruleg útgjöld hans séu metin. Að því er varði sparnað kæranda hafi umsjónarmaður gert grein fyrir því að hann nemi 565.000 krónum.

Embætti umboðsmanns skuldara sendi kæranda tölvupóst 5. júlí 2013 þar sem kæranda var gefinn kostur á að framvísa gögnum um breyttar tekjur, kvittunum vegna óvænts kostnaðar og gögnum er staðfesti sparnað. Hafi frestur til að skila gögnunum verið veittur til 10. júlí. Engin svör hafi borist frá kæranda.

Með bréfi til kæranda 11. júlí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann þess að umsókn sín um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa verði samþykkt.

Umboðsmaður skuldara byggi niðurfellingu sína á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem fram komi að synja beri umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Byggist afstaða umboðsmanns í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið framvísað kvittunum vegna óvænts kostnaðar vegna tannlækninga og viðgerðar á bifreið, í öðru lagi á því að fjárhæð sparnaðar hafi ekki verið staðfest og í þriðja lagi á því að ekki hafi verið lögð fram hjá ríkisskattstjóra leiðrétting vegna breytinga á tekjum á tímabilinu 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2012.

Í greinargerð með ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsinga sem honum einum sé unnt að afla eða gefa. Tekið sé fram að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 36/2011 komi fram að við mat á því hvað teljist nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara sé rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Um þetta segi meðal annars í úrskurði nefndarinnar: „Í 4. gr. er talið upp í ellefu liðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun, auk þess sem henni skuli fylgja gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum. Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlegrar þróunar hennar til framtíðar.“

Í því máli sem hér um ræði hafi umboðsmaður skuldara ekki að neinu leyti vísað til þess hvaða atriði 4. gr. lge. kærandi hafi ekki uppfyllt. Til þess að kærandi geti notið fulls andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri umboðsmanni að vísa til þess hvaða atriði sem varði synjun um greiðsluaðlögun kærandi hafi ekki uppfyllt. Það hafi embættið ekki gert.

Ákvörðun umboðsmanns sé sem fyrr segi meðal annars byggð á því að embættinu hafi ekki borist kvittanir vegna óvæntra útgjalda kæranda. Í svari kæranda frá 28. júní 2013 hafi verið greint frá því að um væri að ræða tannlækna- og bifreiðakostnað. Kærandi hafi ekki haldið utan um þessa reikninga og hafi tilkynnt embættinu símleiðis að reikningar væru ekki til staðar. Að því er varði sparnað vísi kærandi til gagna frá umsjónarmanni þar sem staðfest hafi verið að sparnaður hefði verið 565.000 krónur á tímabilinu 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2012. Kærandi hafi þegar greint umboðsmanni frá því að tekjur á tímabilinu hafi verið hærri en hann hafi áður talið eða 4.705.300 krónur. Kærandi hafi einnig upplýst embættið um að ríkisskattstjóra yrði tilkynnt um þessar breytingar við fyrstu hentugleika.

Með vísan til þessa liggi fyrir að kærandi hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði 4. gr. lge. og lagt fram þau gögn sem nauðsynleg séu og krafa sé gerð um að liggi fyrir til þess að umboðsmaður skuldara geti tekið upplýsta ákvörðun í málinu. Jafnframt liggi fyrir að kæranda hafi ekki einum verið unnt að afla allra umræddra gagna í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. enda hefði umboðsmaður haft heimild til að kalla eftir og meta þau gögn sem um ræddi á grundvelli heimildar sinnar til gagnaöflunar. Þar sem kærandi hafi lagt fram öll nauðsynleg gögn hafi umboðsmanni borið að taka efnislega og rökstudda ákvörðun í málinu en ekki synja beiðni kæranda sökum gagnaskorts.

Samkvæmt því sem rakið hafi verið hafi embætti umboðsmanns skuldara ekki verið stætt á að hafna umsókn kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. enda hafði kærandi orðið við beiðni embættisins um að afla þeirra gagna sem honum var einum unnt að afla eða gefa, sbr. áskilnað ákvæðisins.

Með vísan til þess sem fram hafi komið sé ákvörðun umboðsmanns skuldara harðlega mótmælt. Mæli sanngirnis- og réttlætissjónarmið með því að umsókn kæranda verði tekin til greina.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 78/2012 sé fjallað um b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þar segi að ákvæðið eigi við þegar skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða skýringa sem honum sé einum unnt að afla eða gefa. Kærandi hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns um að sýna fram á breyttar tekjur sínar með haldbærum gögnum. Skuldurum í greiðsluskjóli séu settar ákveðnar skorður um ráðstöfun fjár sem safnist fyrir í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. Í fyrsta lagi sé þeim gert skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslu. Í öðru lagi sé þeim skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Vegna óglöggrar myndar af fjárhag kæranda sé ekki mögulegt að leggja mat á það hvort hann hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma er ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni hafi kæranda gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn samkvæmt ákvæðum 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt. Ekki þyki fært að miða útgjöld kæranda við hærri fjárhæð en byggja megi á með gögnum og framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Þá hafi kærandi hvorki framvísað gögnum um þau óvæntu útgjöld sem hann vísi til né lagt fram haldbær gögn um sparnað í greiðsluskjóli.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann þess að umsókn sín um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa verði samþykkt.

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kæranda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Í 4. gr. lge. er greint frá því hvaða gögn og upplýsingar þurfi að liggja fyrir þegar óskað er greiðsluaðlögunar. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun þurfi að koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skal greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Kærandi telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki að neinu leyti vísað til þess hvaða atriði 4. gr. lge. kærandi hafi ekki uppfyllt en það beri embættinu að gera til þess að kærandi geti notið fulls andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 10. júní 2013 var kæranda gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og leggja fram frekari gögn. Í bréfinu segir meðal annars: „Frekari gögn verða að varpa ljósi á tekjur þær sem ekki er að finna í staðgreiðsluskrá RSK en hafa verið lagðar inn á launareikning umsækjanda.“ Einnig sendi embættið tölvupóst til kæranda 5. júlí 2013 en þar segir: „Við vinnslu máls sem umsjónarmaður hafði vísað til [...] niðurfellingar hjá embættinu hefur þér nú í tvígang verið gefinn kostur á að skila inn gögnum vegna óglöggrar myndar á fjárhag. Embættinu hafa enn ekki borist marktæk gögn vegna þessa.“ Síðar segir: „Þá hefur verið óljóst hverjar tekjur þínar á tímabilinu 1. janúar 2011 – 1. ágúst 2012 hafa verið en nú hefur þú staðfest að þær eru hærri en áður hafði verið gefið upp. Í svörum frá þér [...] er nú sagt að þú hyggist bæta þar úr og senda inn leiðréttingu til ríkisskattstjóra. Hér með er óskað eftir staðfestingu á að slík leiðrétting hafi verið lögð fyrir hjá RSK.“

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var kæranda með allnákvæmum hætti gerð grein fyrir því hvaða atriði skorti til að glögg mynd fengist af fjárhag hans samkvæmt lge. Fullyrðingar kæranda um annað eiga sér enga stoð í gögnum málsins. Samkvæmt því telur kærunefndin að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi að þessu leyti verið í samræmi við lögbundinn andmælarétt kæranda.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Mat embættisins er að ekki liggi fyrir hverjar tekjur kæranda hafi raunverulega verið á tímabilinu 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2012. Kærandi hefur greint frá því að tekjur hans á tímabilinu hafi verið 4.705.300 krónur en það er ekki í samræmi við staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Af fyrirliggjandi upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sem kærunefndin aflaði undir rekstri málsins verður séð að tekjur kæranda hafa verið þessar á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

 

Jan.–des. 2011 1.192.441
Jan.–des. 2012 2.388.553
Jan.–júní 2013 1.882.286
Samtals 5.463.280

Á tímabilinu 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2012 voru tekjur hans þessar í krónum:

Jan.–des. 2011 1.192.441
Jan.–ágúst 2012 1.220.196
Samtals 2.412.637

 

Af þessu má sjá að kærandi hefur ekki látið gera boðaða leiðréttingu á tekjum sínum og þar með hefur hann ekki sýnt fram á að hafa haft þær tekjur sem hann heldur fram. Í málinu liggur þó fyrir að kærandi hefur auk launa fengið greiðslur inn á launareikning sinn alls að fjárhæð 2.520.000 krónur á tímabilinu 23. maí 2011 til 25. ágúst 2012. Greiðandi er Y ehf. en kærandi hefur unnið í verktöku á vegum þess félags.

Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki lagt fram þau gögn er nauðsynleg eru til að sýna fram á hverjar eru raunverulegar tekjur hans en kærandi hefur ekki orðið við óskum um skýringar með viðhlítandi hætti. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggist greiðsluaðlögun að hluta til á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur kæranda liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á greiðslugetu hans eða hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa sem verður að liggja til grundvallar samningi um greiðsluaðlögun.

Þegar framanritað er virt verður að telja að kærandi hafi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar, eins og honum er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skorti því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta