Mál nr. 118/2013
Fimmtudaginn 27. ágúst 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 25. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 9. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. ágúst 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. ágúst 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærandi lagði fram gögn sem voru send umboðsmanni skuldara með bréfi 12. september 2013. Engar frekari athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1979 og býr ásamt tveimur börnum sínum í leiguhúsnæði að B götu nr. 11 í sveitarfélaginu C.
Kærandi er í starfsendurhæfingu og fær auk endurhæfingalífeyris barnabætur, húsaleigubætur, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, mæðralaun og meðlag. Alls hefur hún til ráðstöfunar að meðaltali 332.330 krónur á mánuði.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 12.032.520 krónur og ábyrgðarskuldbindingar 6.356.563 krónur.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til sambúðarslita og efnahagshruns.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. mars 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 11. apríl 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður sendi kæranda ábyrgðarbréf 18. febrúar 2013 á skráð lögheimili hennar. Áður höfðu verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að hafa símasamband við kæranda en uppgefið símanúmer hafi ekki verið í notkun. Kærandi hafi ekki verið skráð fyrir öðru símanúmeri og hún hafi ekki gefið upp netfang. Með bréfinu hafi kæranda verið veittur fimmtán daga frestur til að hafa samband við umsjónarmann til að unnt væri að hefja vinnu við frumvarp til greiðsluaðlögunar. Jafnframt hafi kæranda verið bent á að yrði það ekki gert sæi umsjónarmaður sér ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að ekki hefði náðst að vinna við gerð frumvarps í samráði við skuldara eins og 1. mgr. 16. gr. lge. mælti fyrir um. Myndi það varða niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 15. gr. lge.
Fram kemur að kærandi hafi sent umboðsmanni skuldara tölvupóst 22. febrúar 2013 þar sem hún staðfesti heimilisfang sitt og gaf upp nýtt símanúmer og netfang. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður haft samband við kæranda símleiðis og tilkynnt henni að vinna við mál hennar væri hafin. Henni yrði sendur tölvupóstur með beiðni um tilteknar upplýsingar sem henni bæri að veita svo unnt yrði að halda vinnu við málið áfram. Sama dag sendi umsjónarmaður kæranda tölvupóst þar sem henni var veittur frestur til 27. febrúar 2013 til að framvísa umbeðnum upplýsingum og gögnum. Kærandi hafi lagt upplýsingarnar fram. Í kjölfarið hafi kærandi verið boðuð á fund umsjónarmanns 15. mars 2013. Þann dag hafi kærandi haft samband og óskað eftir öðrum tíma sem hafi verið ákveðinn 20. mars 2013. Þann dag hafi kærandi enn haft samband og greint frá því að hún kæmist ekki á fundinn. Nýr fundur hafi þá verið ákveðinn 21. mars og þá hafi kærandi mætt. Á fundinum hafi verið farið yfir skyldur skuldara í greiðsluaðlögun. Kærandi sé þinglýstur eigandi sumarhúss en húsið hafi hún fengið í arf árið 2006. Umsjónarmaður hafi gert kæranda grein fyrir því að hún yrði að mæla fyrir um sölu sumarhússins þar sem greiðslugeta hennar væri neikvæð og upplýst væri af gögnum málsins að hún gæti sannanlega ekki staðið undir greiðslu lögboðinna gjalda af sumarhúsinu. Á sumarhúsinu hvíli handhafaskuldabréf að fjárhæð 7.000.000 króna. Hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda um skuldabréfið, þ.e. hver væri handhafi þess, hverjar væru afborganir þess og hvernig krafan væri komin til. Kærandi hafi greint frá því að hún sjálf væri handhafi bréfsins en barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður hafi látið útbúa bréfið þegar hún hafi erft sumarhúsið. Hann geymdi bréfið fyrir kæranda. Um væri að ræða málamyndagerning og engin skuld vegna bréfsins væri til staðar. Niðurstaða fundarins hafi verið sú að kærandi hafi fengið frest til 4. apríl 2013 eða í tvær vikur til að láta aflýsa handhafabréfinu af eigninni og taka ákvörðun um sölu sumarhússins. Kærandi hafi verið upplýst um að ekkert yrði gert án samráðs við hana og tómlæti af hennar hálfu gæti leitt til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana. Sama dag hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem ofangreindur tveggja vikna frestur hafi verið ítrekaður. Ekkert hafði heyrst frá kæranda 4. apríl og því hafi umsjónarmaður sent henni tölvupóst þann dag og ítrekað að fresturinn rynni út í lok dags. Ekkert hafi heyrst frá kæranda þann dag og því hafi verið reynt að hafa samband við kæranda símleiðis 5. apríl án árangurs. Umsjónarmaður hefði ekki enn náð til kæranda 8. apríl og hefði henni því enn verið sendur tölvupóstur þar sem lokafrestur hafi verið veittur til 10. apríl. Í tölvupóstinum hafi verið ítrekað að frumvarp til greiðsluaðlögunar bæri að vinna í samráði við skuldara og mikilvægt væri því að kærandi svaraði tölvupóstum og símtölum ella gætu greiðsluaðlögunarumleitanir verið felldar niður. Kærandi hafi einnig verið upplýst um að ef ekki bærist svar innan frestsins sæi umsjónarmaður sér ekki annað fært en að senda tilkynningu til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. Umsjónarmaður hafi tvívegis reynt að ná símasambandi við kæranda 8. apríl til að fylgja tölvupóstinum eftir en án árangurs. Kærandi hafði enn ekki haft samband við umsjónarmann 23. apríl 2013 og því hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að ekki hefði verið unnt að vinna að gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar í samráði við skuldara eins og 16. gr. lge. áskilji.
Sendi umboðsmaður skuldara kæranda bréf 3. maí 2013 en fram kemur að bréfið hafi bæði verið sent í ábyrgðarpósti og með tölvupósti. Þar var kæranda kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Engin svör hafi borist frá kæranda.
Með bréfi til kæranda 6. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar þess að fá annað tækifæri vegna málsins. Verður að skilja það á þann veg að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar verði felld úr gildi.
Kærandi kveðst eiga við mikil veikindi að stríða sem hamli henni í samskiptum en það sé ástæða þess að hún hafi ekki haft samskipti við umsjónarmann sinn. Kærandi hafi nú fengið stuðningsmann sem aðstoða muni hana með samskipti.
Kærandi hafi greinst með geðhvarfasýki og hafi það hamlað henni mjög við daglegt líf. Hafi kærandi meðal annars dvalið á geðdeild Landspítalans og sótt meðferð til geðlæknis svo sem framlagt vottorð sýni.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í 1. mgr. 16. gr. lge. segi að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara.
Í máli þessu hafi gengið erfiðlega að fá kæranda til samstarfs við gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar. Kærandi hafi síðast mætt til fundar við umsjónarmann 21. mars 2013. Á fundinum hafi umsjónarmaður upplýst kæranda um að hún yrði að mæla fyrir um sölu á sumarhúsi sínu, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. Henni hafi verið veittur frestur til þess að ákveða hvaða fasteignasali hún vildi að annaðist sölu eignarinnar. Engin svör hafi borist frá kæranda og ekki hafi reynst unnt að ná sambandi við hana.
Leggja verði þær skyldur á kæranda að hún hafi samráð við umsjónarmann um gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar. Kærandi hafi ekki svarað bréfi embættis umboðsmanns skuldara 3. maí 2013 en bréfið hafi einnig verið sent kæranda í tölvupósti 29. maí 2013 á uppgefið netfang.
Hafi því ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.
Í máli þessu telur umsjónarmaður að skort hafi á samstarfsvilja kæranda. Kærandi hafi ekki orðið við tilmælum umsjónarmanns um að láta aflýsa veðskuldabréfi af sumarhúsi sínu en bréfið hafi verið gefið út til handhafa og kærandi hafi sjálf upplýst að um málamyndagerning væri að ræða. Einnig hafi kærandi látið hjá líða að mæla fyrir um sölu sumarhússins en það hafi verið nauðsynlegt til að greiðsluaðlögunarumleitanir næðu fram að ganga. Af þessum ástæðum hafi umsjónarmaður beint því til umboðsmanns skuldara að rétt væri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður og hafi umboðsmaður gert það með ákvörðun 6. júní 2013.
Kærandi hefur greint frá því að veikindi hafi hamlað því að hún gæti átt samskipti. Því til stuðnings lagði hún fram læknisvottorð og vottorð frá iðjuþjálfa en samkvæmt þeim glímir kærandi við áfengissýki og geðhvarfasýki. Einnig gaf hún þriðja aðila umboð til að annast mál sitt fyrir kærunefndinni. Í umboðinu var ekki greint frá heimilisfangi, símanúmeri eða netfangi umboðsmanns. Hvorki kærandi né umboðsmaður hennar hafa látið málið til sín taka fyrir kærunefndinni.
Í málinu liggur fyrir að kærandi á sumarhús og að áhvílandi veðbönd eru til málamynda. Kærandi býr ekki í húsinu. Fasteignamat eignarinnar miðað við árið 2015 er 5.135.000 krónur og brunabótamat 11.750.000 krónur. Samkvæmt þessu getur andvirði sumarhússins gagnast kröfuhöfum sem greiðsla við gerð greiðsluaðlögunarsamnings. Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni lýsti kærandi því yfir að hún sjálf væri handhafi veðskuldabréfs sem hvíldi á sumarhúsinu en barnsfaðir hennar geymdi bréfið fyrir hana. Leiðir af þessu að það var ekki á færi annarra en kæranda sjálfrar að hlutast til um að láta aflýsa handhafaskuldabréfinu af sumarhúsinu og mæla í framhaldi fyrir um sölu þess en umsjónarmaður hafði, á grundvelli 1. mgr. 13. gr. lge., óskað eftir því að kærandi gerði það. Kærandi sinnti ekki þessari beiðni umsjónarmanns þrátt fyrir ítrekaða fresti. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og verður að telja að sala sumarhússins hafi verið nauðsynleg til að koma á slíkum samningi. Þegar framanritað er virt verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kæranda í málinu.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir