Mál nr. 80/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 80/2017
Föstudaginn 9. júní 2017
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 24. febrúar 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. febrúar 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 30. mars 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. apríl 2017.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 10. apríl 2017 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust. Hinn 8. júní 2017 var úrskurðarnefndin upplýst um að kærandi B hefði látist X 2017.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi A er fæddur 1943 en kærandi B er nýlega látin. Þau voru gift og bjuggu í leiguhúsnæði en áttu íbúð að C.
Að sögn kærenda má meðal annars rekja fjárhagserfiðleika þeirra til íbúðarkaupa og ábyrgðarskuldbindinga.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 19. janúar 2017 eru 52.684.540 krónur.
Kærendur sóttu um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 30. júlí 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. október sama ár var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.
Með bréfi 17. mars 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður þar sem kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar á tíma greiðsluaðlögunarumleitana og voru þær felldar niður í framhaldi þess með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. maí 2014. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem hnekkti ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 22. september 2016. Mál kærenda barst því umboðsmanni til meðferðar á ný.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 19. janúar 2017 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki á ný ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge).
Með bréfi 10. febrúar 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður öðru sinni með vísan til 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur óska eftir því að umboðsmaður skuldara endurskoði ákvörðun sína. Skilja verður þetta svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara, um að fella niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar, verði felld úr gildi.
Kærendur segja rétt að þau hafi stofnað til skulda eftir að þau komust í greiðsluskjól. Fyrir því séu ýmsar ástæður svo sem veikindi kæranda B. Veikindi hennar hafi leitt til þess að kærendur hafi orðið að flytja úr eigin fasteign í leiguhúsnæði. Þau hafi því þurft að greiða kostnað af eigin íbúð samhliða húsaleigu en það hafi leitt til þess að svona fór.
Kærendur kveðast hafa reynt að greiða upp skuldir eða gera greiðslusamninga um þær. Þau þurfi aðstoð umboðsmanns skuldara við að selja fasteign sína en fái þau hana ekki muni bankarnir innleysa eignina. Við þær aðstæður ættu þau ekki annan kost en að óska gjaldþrotaskipta en það vilji kærendur ekki. Þau vanti því aðstoð við að gera samninga við kröfuhafa, ef til vill með niðurfellingu skulda að einhverju marki.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja beri skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað geti hagsmuni lánardrottna.
Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segi að í umsókn skuli liggja fyrir hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann, ef þörf krefji, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.
Í greinargerð frumvarps til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. að upptalning í ákvæðinu sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Hins vegar sé ljóst að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og skuli umboðsmaður aðstoða skuldara við það, auk þess sem embættið geti aflað upplýsinga sjálft með heimild frá skuldara. Þá segi að í einhverjum tilvikum verði eflaust ómögulegt eða erfitt fyrir umboðsmann að nálgast gögn og sé það því á ábyrgð skuldarans að afla þeirra.
Kærendur hafi notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá því að umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn þeirra um greiðsluaðlögun 16. október 2012. Samanlagðar ráðstöfunartekjur kærenda á tímabili greiðsluskjóls, þ.e. frá nóvember 2012 til nóvember 2016, séu alls 21.823.715 krónur að meðtöldum lífeyristekjum og húsaleigubótum. Upplýsingarnar séu fengnar úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og frá sveitarfélagi. Upplýsingar um leigutekjur hafi komið frá kærendum sjálfum en þau hafi upplýst að hafa fengið leigutekjur frá 1. desember 2016:
Tekjur | jan. - nóv. | 2015 | 2014 | 2013 | nóv. - des. | Tekjur alls |
2016 | 2012 | |||||
Tekjur úr rekstri skv. framtali | 5.376.815 | 5.544.272 | 5.322.688 | 4.740.407 | 771.088 | 21.755.270 |
Húsaleigubætur | 59.334 | 9.111 | 68.445 | |||
Leigutekjur e. skatt | 0 | |||||
Samtals | 5.436.149 | 5.553.383 | 5.322.688 | 4.740.407 | 771.088 | 21.823.715 |
Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hf. og Arion banka hf. hafi velta á bankareikningum kærenda alls verið 31.005.746 krónur frá byrjun árs 2013 til desember 2016. Launatekjur og húsaleigubætur hafi á sama tíma verið 21.052.627 krónur, sbr. neðangreinda töflu:
Velta á bankareikningum | 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | Alls | ||
H | Arion banki | X | 2.146.155 | 5.527.611 | 5.421.484 | 4.263.496 | |
H | Arion banki | X | 450.000 | ||||
H | Arion banki | X | 130.000 | ||||
H | Íslandsbanki | X | 4.188.000 | ||||
M | Íslandsbanki | X | 2.454.000 | 2.262.000 | 2.181.000 | 1.982.000 | |
H/M | Velta alls | 8.788.155 | 7.789.611 | 8.052.484 | 6.375.496 | 31.005.746 | |
H/M | Tekjur e. skatt jan. 2013 - nóv. 2016 | 5.436.149 | 5.553.383 | 5.322.688 | 4.740.407 | 21.052.627 | |
H/M | Velta á bankareikningum umfram tekjur | 9.953.119 |
Samkvæmt framangreindu hafi innborganir á bankareikninga kærenda verið 9.953.119 krónur umfram uppgefnar tekjur þeirra og bætur á tímabilinu janúar 2013 til desember 2016. Fyrstu tveir mánuðir greiðsluskjóls, þ.e. nóvember og desember 2012, séu ekki reiknaðir með þar sem embættið fái upplýsingar um ársveltu á bankareikningum en ekki veltu tiltekinna mánaða.
Til að unnt sé að gera raunhæfan samning um greiðsluaðlögun þurfi fyrirliggjandi gögn um fjárhag kærenda að endurspegla raunverulega stöðu þeirra. Ljóst þurfi að vera hverjar ráðstöfunartekjur séu og þar með geta kærenda til að greiða af skuldbindingum sínum. Upplýsingar um tekjur sem ekki séu taldar fram á staðgreiðsluskrá verði að telja þess eðlis að það sé eingöngu á færi kærenda sjálfra að veita upplýsingar um þær. Þar sem kærendur hafi ekki upplýst um hvað valdi misræmi í uppgefnum tekjum og innborgunum á bankareikninga þeirra þyki fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhag kærenda óglöggar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Kærandi A hafi greint frá því í samtali við starfsmann umboðsmanns skuldara 7. desember 2016 að fasteignin að C, hefði staðið auð frá því að kærendur fluttu í leiguhúsnæði í X 2014. Eignin hefði þó verið í útleigu frá X 2016. Við skoðun á málinu hafi komið í ljós að kærendur hefðu leitað til umboðsmanns skuldara í september 2015 í tengslum við yfirvofandi nauðungarsölu á C. Í samskiptum við embættið á þeim tíma hafi komið fram að eignin væri í útleigu en að leigan væri ekki gefin upp til skatts. Að sögn kærenda hafi þau viljað forða nauðungarsölunni svo að þau misstu ekki leigutekjur. Því sé ekki samræmi í þeim upplýsingum sem kærendur hafi gefið. Embættið vísi í þessu samhengi til d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar veiti skuldarar rangar eða villandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu. Umboðsmaður telur að upplýsingar um leigutekjur falli hér undir.
Að því er varði skyldur kærenda á tíma greiðsluaðlögunarumleitana sé vísað til 12. gr. lge. Kærendum hafi borið að uppfylla þessar skyldur frá 16. október 2012 er þeim var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður vísi í fyrsta lagi um það til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um að skuldari eigi að leggja til hliðar það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu, sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.
Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 414.638 krónur á mánuði á árinu 2016. Útgjöld kærenda hafi verið breytileg á tímabili greiðsluskjóls þar sem þau hafi búið í eigin húsnæði í upphafi tímabilsins en flutt í leiguhúsnæði í júní 2014. Samkvæmt skattframtölum hafi sú fjárhæð sem kærendur greiddu í húsaleigu verið 130.000 krónur á mánuði á árinu 2014, 155.000 krónur á árinu 2015 og samkvæmt upplýsingum frá kærendum sjálfum hafi þau greitt 170.000 krónur á mánuði á árinu 2016. Við mat á útgjöldum vegna framfærslu sé tekið mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í desember 2016 fyrir hjón, auk upplýsinga um annan framfærslukostnað samkvæmt upplýsingum frá kærendum sjálfum. Kærendum sé veitt svigrúm í útreikningunum með því að miða við nýjustu viðmið allt tímabilið í stað þess að nota eldri viðmið.
Upplýsingar um laun kærenda byggist á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og framtölum eftir atvikum. Upplýsingar um aðrar tekjur þeirra byggist á framtölum eða öðrum opinberum gögnum. Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 49 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2012 til 30. nóvember 2016. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur alls haft 21.823.715 krónur í tekjur á þessu tímabili, sbr. töflu að framan, og hafi átt að geta lagt fyrir 5.196.453 krónur. Útreikningur sé eftirfarandi:
Framfærslukostnaður | (244.638*49) | 11.987.262 |
Leiga jún. - des. 2014 | (130.000*7) | 910.000 |
Leiga 2015 | (155.000*12) | 1.860.000 |
Leiga jan. - nóv. 2016 | (170.000*11) | 1.870.000 |
Framfærslukostnaður alls | 16.627.262 | |
Tekjur alls | 21.823.715 | |
Framfærslukostnaður alls | 16.627.262 | |
Áætlaður sparnaður | 5.196.453 |
Kærandi A hafi greint frá því í samtali við starfsmann umboðsmanns skuldara 7. desember 2016 að kærendur ættu engan sparnað þar sem þau hefðu þurft að greiða húsaleigu auk rekstrarkostnaðar af tveimur fasteignum. Í útreikningum hér að framan hafi verið tekið tillit til þess að kærendur séu á leigumarkaði, greiði hita og rafmagn vegna leiguhúsnæðis og fasteignagjöld af eigin fasteign. Kærendum hafi verið bent á að yfirfara útgjöld sem embættið miði við en hafi hvorki gert athugasemdir við þau né sýnt fram á að raunútgjöld þeirra væru hærri en þau sem embættið miði við.
Við mat mögulegum sparnaði kærenda hafi ekki verið tekið tillit til þess að þau hafi hugsanlega haft hærri ráðstöfunartekjur en að ofan greini þar sem velta á bankareikningum þeirra hafi verið verulega umfram það sem opinber gögn gefi til kynna að þau hafi haft í tekjur.
Að mati umboðsmanns skuldara verði að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hefðu átt að geta lagt til hliðar að minnsta kosti 5.196.453 krónur á tímabili greiðsluskjóls en ekki liggi fyrir að þau eigi neinn sparnað.
Þá vísi umboðsmaður skuldara í öðru lagi til d-liðar 12. gr. lge. um að á tímabili greiðsluskjóls megi skuldari ekki stofna til nýrra skulda. Komið hafi í ljós að á því tímabili hafi kærendur stofnað til nýrra skulda að fjárhæð 413.320 krónur. Um sé að ræða neðangreindar skuldir:
Nýjar skuldir eftir að frestun greiðslna hófst 22.10.2012 | |||
H | 2015 og 2016 Arion banki | Kreditkort | 1.300 |
M | 2013 og 2015 Síminn | Reikningur | 120.362 |
H | 2016 Sjúkrabílasjóður Rauða krossins | Reikningur | 13.623 |
H | 2014 - 2016 Heilbrigðisstofnun D | Reikningur | 31.295 |
H | 2015 Íslandspóstur | Reikningur | 6.958 |
M | 2016 Bílastæðasjóður Rvk | Sekt | 8.316 |
M | 2014 og 2015 Landspítali | Reikningur | 13.681 |
M | 2013 Landspítali | Reikningur | 16.122 |
M | 2013 - 2016 Tollstjóri | Þing- og sv.sj. | 66.815 |
H | 2012 - 2016 Tollstjóri | Þing- og sv.sj. | 113.371 |
H | 2016 Tollstjóri | Dómsekt | 10.000 |
H | 2013 og 2014 Tollstjóri | Gjöld póst og fjar. | 11.477 |
Alls: | 413.320 |
Samkvæmt upplýsingum um tekjur og útgjöld kærenda, sem raktar hafi verið hér að framan, hafi greiðslugeta kærenda verið jákvæð á tímabili greiðsluskjóls. Því verði ekki séð hvers vegna þau hafi stofnað til vanskila með ofangreindar kröfur en að mati umboðsmanns skuldara hefði kærendum átt að vera ljóst að með þeim væru þau að brjóta gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli.
Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá þyki kærendur hafa veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu. Enn fremur teljist þau hafa brotið í bága við skyldur sínar í greiðsluskjóli með því að leggja ekki til hliðar og með því að stofna til nýrra vanskila á tímabilinu.
Af framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi embættið ekki átt annars kost en að fella greiðsluaðlögunarheimildir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar er þó gert ráð fyrir að kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. í stað þess að hafa brotið gegn c-lið sama lagaákvæðis sem tilgreindur er án skýringa í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði staðfest með vísan til forsendna.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr. og a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. laganna.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hér er gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt í og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Loks segir í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Umboðsmaður skuldara telur að fjárhagur kærenda sé óglöggur þar sem velta á bankareikningum þeirra hefur verið tæpum 10.000.000 króna meiri en uppgefnar tekjur á því fjögurra ára tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls frá 2013 til 2016. Umboðsmaður greinir frá því að kærendur hafi ekki útskýrt þetta misræmi en ljóst þurfi að vera hverjar ráðstöfunartekjur kærenda séu til að meta hvað þau geti greitt af skuldbindingum sínum. Upplýsingarnar verði að telja þess eðlis að ekki sé á færi annarra en kærenda að afla þeirra. Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 19. janúar 2017 segir að fáist ekki viðunandi skýringar á þessu misræmi verði ekki hjá því komist að telja fjárhag kærenda óglöggan og greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði þá felldar niður.
Um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál er mælt fyrir í 5. gr. lge. Ákvæðið styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál.
Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja það grundvallaratriði þegar sótt er um greiðsluaðlögun að staðreyna upplýsingar um fjárhag viðkomandi skuldara eftir því sem unnt er. Í greiðsluaðlögunarmálum getur verið óljóst hverra gagna þarf að afla til að fá nægilega skýra mynd af fjárhag skuldara. Í máli þessu liggur á hinn bóginn nákvæmlega fyrir hvaða gögn umboðsmaður taldi nauðsynleg til að kanna hvort fjárhagur kærenda teldist óglöggur. Við þessar aðstæður gat umboðsmaður skuldara aðeins fullnægt rannsóknarreglunni með því að skora á kærendur að framvísa fyrrnefndum reikningsyfirlitum eða gefa umboðsmanni umboð til þess að afla þeirra. Í málinu liggur ekki fyrir að hann hafi gert það. Má raunar geta þess að í þeim málum sem komið hafa fyrir úrskurðarnefndina, og áður kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, hefur umboðsmaður skuldara almennt aflað bankayfirlita þegar þeirra er þörf, sbr. til dæmis úrskurð í máli nr. 157/2016 frá 26. október 2016.
Samkvæmt þessu er það mat úrskurðarnefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi ekki kannað, eða reynt að kanna, óljós atriði í fjárhag kærenda með þeim hætti að hægt væri að slá því föstu að fjárhagurinn væri óskýr í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Eins og málið liggur fyrir telur úrskurðarnefndin þar af leiðandi ekki unnt að fullyrða að fjárhagur kærenda hafi verið óskýr í skilningi lagaákvæðisins.
Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi veitt misvísandi upplýsingar um útleigu á fasteign sinni við C. Kærandi A hafi greint frá því í desember 2016 að eignin hefði verið í útleigu frá X 2016 en fram að þeim tíma staðið auð frá því að kærendur fluttu í leiguhúsnæði í X 2014. Á hinn bóginn hefðu kærendur leitað til umboðsmanns skuldara í september 2015 vegna yfirvofandi nauðungarsölu á eigninni. Í samskiptum kærenda við embættið á þeim tíma hefði komið fram að eignin væri í útleigu en leigan væri ekki gefin upp til skatts. Kærendur hafi viljað forða nauðungarsölunni svo að þau misstu ekki leigutekjurnar. Að mati umboðsmanns hafi kærendur með þessu veitt villandi eða misvísandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu, þ.e. leigutekjur. Um þetta misræmi í upplýsingagjöf hefðu kærendur ekki tjáð sig.
Að áliti úrskurðarnefndarinnar fór umboðsmaður skuldara ekki að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við töku hinnar kærðu ákvörðunar þegar embættið gekk út frá því að kærendur leigðu enn fasteign sína á svörtum markaði þó að þau hefðu gert það í X 2015. Rétt hefði verið að skoða þetta atriði á þann hátt sem hægt var, svo sem með því að yfirfara bankareikninga þeirra, skoða hver greiddi veitureikninga o.þ.h. Hér eiga við sömu sjónarmið og rakin voru að framan um hvort fjárhagur kærenda hafi verið nægilega glöggur og vísast til þeirrar umfjöllunar. Úrskurðarnefndin telur því ekki unnt að slá því föstu að kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Þá byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar það fé sem þeim bar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.
Að mati umboðsmanns skuldara vantaði 5.196.453 krónur upp á sparnað kærenda á tímabili greiðsluskjóls, þ.e. eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, nánar tiltekið fyrir tímabilið 16. október 2012 til 30. nóvember 2016. Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja til hliðar.
Samkvæmt fyrirliggjandi launaupplýsingum Ríkisskattstjóra hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili*:
Tímabilið 1. nóvember 2012 til 31. desember 2012: Tveir mánuðir | |
Nettótekjur A | 476.476 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 238.238 |
Nettótekjur B | 294.612 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 147.306 |
Nettótekjur alls | 771.088 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 385.544 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 2.911.858 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 242.655 |
Nettótekjur B | 1.828.549 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 152.379 |
Nettótekjur alls | 4.740.407 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 395.034 |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 3.375.471 |
Nettó mánaðartekjur Aað meðaltali | 281.289 |
Nettótekjur B | 1.947.217 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 162.268 |
Nettótekjur alls | 5.322.688 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 443.557 |
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 3.536.475 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 294.706 |
NettótekjurB | 2.007.797 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 167.316 |
Nettótekjur alls | 5.544.272 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 462.023 |
Tímabilið 1. janúar 2016 til 30. nóvember 2016: Ellefu mánuðir | |
Nettótekjur A | 3.442.382 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 312.944 |
Nettótekjur B | 1.934.433 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 175.858 |
Nettótekjur alls | 5.376.815 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 488.801 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 21.755.270 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 443.985 |
*Í málinu er ekki upplýst um ráðstöfunartekjur fyrir desember 2016 og janúar 2017 en greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður 10. febrúar 2017. Í samræmi við þetta er hér byggt á tekjum til 30. nóvember 2016.
Sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. nóvember 2012 til 30. nóvember 2016: 49 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 21.755.270 |
Húsaleigubætur, sbr. ákvörðun umboðsmanns skuldara | 68.445 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 21.823.715 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 445.382 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 414.638 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði að meðaltali | 30.744 |
Alls sparnaður í 49 mánuði í greiðsluskjóli x 30.744 | 1.506.453 |
Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 1.506.453 krónur á tímabilinu. Kærendur hafa ekki sýnt fram á neinn sparnað.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur hafa ekki sýnt fram á nein óvænt útgjöld í greiðsluskjóli.
Þegar umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt fengu kærendur sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum skuldara í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að skuldurum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þau þyrftu til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Einnig fylgdi með skjal sem bar heitið „Umsókn vegna greiðsluaðlögunar. Almennar upplýsingar.“ Þar var meðal annars yfirlit yfir tekjur, framfærslukostnað og þá fjárhæð sem kærendur hefðu átt að hafa aflögu miðað við þáverandi forsendur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til framangreinds, að þeim hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Það hafa þau ekki gert í samræmi við þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt lagaákvæðinu, sbr. framangreinda útreikninga.
Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls.
Loks byggir umboðsmaður skuldara á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnuðu kærendur til neðangreindra skulda á tímabili greiðsluskjóls í krónum:
Skuld | Fjárhæð |
Kreditkort | 191.961 |
Stöðvunarbrot | 8.316 |
Landspítali | 29.803 |
Tollstjóri | 252.381 |
Samtals: | 482.461 |
Að því er varðar skuld gagnvart Landspítala hefur þegar verið tekið tillit til lækniskostnaðar í þeim framfærslukostnaði sem umboðsmaður skuldari reiknaði fyrir kærendur. Aðrar ofangreindar skuldir teljast ekki vegna nauðsynlegra útgjalda eða óvænts framfærslukostnaðar í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafa þannig að mati úrskurðarnefndarinnar stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr. sbr., a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal