Mál nr. 27/2013
Þriðjudaginn 21. apríl 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 18. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. desember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 22. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. mars 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. mars 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með tölvupósti 2. apríl 2013.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1946. Hann er framfærsluskyldur við þrjú börn sín á grunnskólaaldri en börnin búa ekki hjá honum. Hann býr í leiguhúsnæði að B stað við sveitarfélagið C. Eignin var áður í eigu kæranda en hann afsalaði henni til X ehf. árið 2009 en félagið var í hans eigu. Kærandi seldi síðan allt hlutafé félagsins til þriðja manns skömmu síðar.
Kærandi er endurskoðandi og hefur verið með eigin atvinnurekstur. Hann er að mestu hættur rekstri enda með skerta starfsorku auk þess að vera kominn á ellilífeyrisaldur. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans nema 142.778 krónum.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 161.871.721 króna og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003 til 2008. Kærandi hefur einnig gengist í umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar.
Kærandi rekur skuldasöfnun sína til skuldsettra hlutabréfakaupa á árunum 2003 til 2007.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 27. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. desember 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála taki ákvörðun umboðsmanns skuldara til endurúrskurðar og úrskurði kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns skuldara að stærstur hluti skulda hans sé vegna atvinnurekstrar. Hið rétta sé að skuldirnar stafi af hlutabréfakaupum en kærandi hafi talið að með kaupum á hlutabréfum í Spron og Straumi-Burðarási hf. væri hann að tryggja sér betri lífeyri til framtíðar. Einu skuldir kæranda sem stafi frá atvinnurekstri sé yfirdráttarskuld við Landsbankann að fjárhæð um 11.000.000 króna en þar af séu vextir um 3.000.000 króna.
Kærandi kveðst vera ¼ aðili að Y ehf. en umboðsmaður skuldara telji kæranda í ábyrgðarskuldbindingum vegna félagsins. Að sögn kæranda munu ekki falla á hann neinar ábyrgðir vegna Y ehf. vegna þess að þær séu fulltryggðar af öðrum. Kærandi kveður persónulegar skuldir sínar sem ekki tengist atvinnu alls 78.945.543 krónur og ábyrgðarskuldir vegna Z ehf. 15.900.000 krónur. Kærandi gangi út frá því að lánasamningar hans í erlendri mynt við Spron og Landsbankann séu ólögmætir. Hann hafi ávallt ritað á frestanir og endursamninga með fyrirvara um betri rétt.
Embætti umboðsmanns skuldara telji að skuldasöfnun kæranda vegna hlutabréfakaupa hafi verið um 100.000.000 króna á árunum 2003 til 2007. Þetta sé rangt. Á þessum tíma hafi kærandi skuldað Spron 20.000.000 króna og Búnaðarbankanum 20.000.000 króna. Kærandi bendi á að á þessum tíma hafi hlutabréfaeign verið á móti skuldum miðað við skráð gengi bréfanna.
Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns skuldara að hann hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan og óheiðarlegan hátt í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi telji sig ekki hafa farið óvarlega í fjármálum enda eigi alhæfing umboðsmanns skuldara við þorra þjóðarinnar sem átt hafi viðskipti með hlutabréf.
Að mati kæranda bendi umboðsmaður skuldara ekki á hvað hafi verið óheiðarlegt af hans hálfu. Hann telji að hlutabréfakaup í skráðum félögum sé sparnaðarform en ekki áhættufjárfesting. Að baki hlutafé sé regluverk samfélagsins sem eigi að vera í lagi en kærandi telji að embætti umboðsmanns skuldara geti ekki gert ríkari kröfur til hans en annarra sem hafi trúað því að fyrrnefnt regluverk samfélagsins væri í lagi. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggi ekki á efni málsins og þar séu rangfærslur og rangar staðhæfingar. Kærandi telur málsmeðferð embættisins hafa byggst á því að vefengja og tortryggja aðgerðir hans í aðdraganda umsóknar hans um greiðsluaðlögun.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Af greinargerð kæranda og ódagsettu svarbréfi hans við bréfi embættis umboðsmanns skuldara frá 26. júlí 2012 verði ráðið að á árunum 2003 til 2007 hafi kærandi ráðist í skuldsett kaup á hlutabréfum í Spron, Straumi-Burðarási hf., Hunter Flemming Ltd. og DeCode. Samanlögð fjárhæð lána sem kærandi hafi tekið vegna kaupa á hlutum í þremur fyrstnefndu félögunum hafi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum numið 94.150.000 krónum. Ekki liggi fyrir upplýsingar um fjárhæð láns sem kærandi hafi tekið vegna kaupa í DeCode en samkvæmt greinargerð kæranda hafi hann keypt hluti í félaginu fyrir 12.700.000 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka séu eftirstöðvar láns vegna kaupanna 8.387.575 krónur. Þyki samkvæmt þessu ljóst að samanlögð fjárhæð lána sem kærandi hafi tekið vegna kaupa á hlutum í þessum fjórum félögum hafi numið um 100.000.000 króna. Lánin hafi verið tryggð með veði í hlutunum og tryggingabréfum sem þinglýst hafi verið á fasteignirnar að B stað og D götu nr. 11.
Af skattframtölum kæranda megi sjá í krónum fjárhagsstöðu hans á árunum 2005 til 2008:
2005 | 2006 | 2007 | 2008 | |
Meðaltekjur á mán. (nettó)* | 354.433 | 236.837 | 865.586 | 190.931 |
Eignir | 37.220.000 | 40.744.050 | 75.044.159 | 80.905.336 |
*Þar með taldar fjármagnstekjur.
Tekjur kæranda á fyrrnefndu tímabili hafi að mestu leyti verið launatekjur, tekjur vegna reiknaðs endurgjalds í sjálfstæðum atvinnurekstri og söluhagnaður af hlutabréfum. Tekjuaukning kæranda á árinu 2007 sé vegna hlutabréfahagnaðar.
Þær eignir sem greini í töflunni að ofan séu auk nefndra hlutabréfa helmingshlutur í fasteigninni að D götu nr. 11, fasteignin að B stað og 12,6% eignarhlutur í jörðinni að F 1 frá árinu 2006.
Auk skulda kæranda vegna fyrrnefndra hlutabréfakaupa hafi kærandi verið skuldari að láni hjá Íbúðarlánasjóði sem hafi numið um 7.000.000 króna á tímabilinu.
Á árunum 2004 til 2005 hafi kærandi einnig gengist í eftirtaldar ábyrgðir fyrir sameignarfélög:
Félag | Ár | Fjárhæð í krónum |
Z sf. | 2004 | 11.000.000 |
Y sf. | 2004 | 38.000.000 |
Z sf. | 2005 | 7.500.000 |
Samtals | 56.500.000 |
Það sé mat umboðsmanns skuldara að kaup á hlutabréfum feli almennt í sér verulega fjárhagslega áhættu. Þannig geti miklar og ófyrirsjáanlegar sveiflur orðið á verðmæti hlutabréfa bæði vegna þróunar á mörkuðum með eignirnar og gengi félaga sem fjárfest sé í en til þess geti komið að fjárfestingin verði verðlítil eða jafnvel verðlaus. Til að hlutabréfakaup geti samræmst fjárhagsstöðu einstaklings þegar til þeirra sé stofnað þurfi fjárhagsstaða viðkomandi að hafa verið þannig að hann hafi mátt við því að tapa að miklu leyti því fé sem hann hafi varið til kaupanna. Þegar ráðist sé í skuldsett hlutabréfakaup sé áhættan töluvert meiri en þegar bréf séu keypt fyrir sparnað. Sé keypt fyrir lánsfé þurfi arðsemi af fjárfestingunni að vera svo mikil að hún standi undir fjármagnskostnaði. Að öðrum kosti geti lántaki setið uppi með verulegar skuldir vegna viðskiptanna.
Á tímabilinu 2003 til 2007 hafi verðmæti fasteigna kæranda verið á bilinu 40.000.000 króna til 50.000.000 króna. Skuldir kæranda vegna fasteignakaupa hafi numið um 7.000.000 króna auk þess sem ábyrgðarskuldbindingar hans fyrir sameignarfélög hafi numið 56.500.000 krónum. Þá hafi kærandi tekið um 100.000.000 króna að láni vegna hlutabréfakaupa sinna á umræddu tímabili. Tekjur kæranda hafi að mestu leyti verið hefðbundnar launatekjur fyrir utan söluhagnað af hlutabréfum á árinu 2007. Að virtum tekjum kæranda, framfærslukostnaði, skuldsetningu vegna húsnæðiskaupa og persónulegum ábyrgðum fyrir sameignarfélög á nefndu árabili þyki ljóst að fjárhagsstaða kæranda hafi ekki verið með þeim hætti að réttlætt gæti mikla skuldasöfnun vegna hlutafjárkaupa né þá fjárhagslegu áhættu sem í því hafi falist. Þannig verði ekki séð að kærandi hefði getað greitt af eftirstandandi skuldum ef til þess kæmi að fjárfestingar hans töpuðust að miklu leyti. Umboðsmaður skuldara telji því að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Um framkvæmd við beitingu c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi meðal annars vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 26/2011 og 56/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri til skoðunar til hvaða þátta fjárhagsvandræði kæranda verði fyrst og fremst rakin, þ.e. hvort þau verði að stærstum hluta rakin til skuldbindinga sem tengist eðlilegum heimilisrekstri. Þá sé ljóst af umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga að ekki sé ætlun löggjafans að þeir sem fyrst og fremst eigi í greiðsluerfiðleikum vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði. Víða megi lesa úr frumvarpi til laganna vilja löggjafans til að takmarka gildissvið laganna við heimilisrekstur. Þannig segi meðal annars í fimmta kafla greinargerðar með frumvarpi til lge. að lagt sé til að fylgst verði náið með þróun þessa úrræðis til að tryggja að löggjöfin þjóni því markmiði að gera einstaklingum en ekki atvinnurekstri kleift að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.
Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 hafi verið fjallað um þýðingu þess að hátt hlutfall skuldbindinga stafi frá atvinnurekstri við mat á því hvort óhæfilegt þætti að veita heimild til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Í málsatvikalýsingu úrskurðarins sé eftirfarandi lýsing á skuldastöðu kæranda í málinu: „Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt gögnum málsins 80.203.528 krónur en að auki eru ábyrgðarskuldbindingar sem fallnar eru á hana sem nema 175.651.016 krónum. Ábyrgðarskuldbindingarnar eru allar vegna reksturs kæranda á eigin félögum og eru þær um 68,65% af heildarskuldum hennar.“
Í niðurstöðukafla úrskurðarins taki kærunefndin til sérstakrar skoðunar þýðingu hlutfalls atvinnuskuldbindinga en þar segi meðal annars: „Þá er þess enn fremur að gæta að tæplega 70% af skuldbindingum kæranda stafa frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.“
Telja verði samkvæmt því sem rakið hafi verið að virtu eðli og fjárhæðum skulda kæranda og fjárfestinga hans, að greiðsluerfiðleikar hans verði fyrst og fremst raktir til skuldasöfnunar hans í tengslum við verulega fjárhagslega áhættusaman atvinnurekstur sem hafi falist í skuldsettum hlutabréfakaupum og ábyrgðarskuldbindingum fyrir fyrirtæki í hans eigu. Þegar þetta sé virt, sú fjárhagslega áhætta sem almennt felist í slíkum fjárfestingum og tekjur og fjárhagsstaða kæranda að öðru leyti á því tímabili er hann hafi ráðist í tilgreindar fjárfestingar, sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Fullyrðingar kæranda um ranga skuldastöðu vegna innborgana og óvissu sem ríki um gildi gengistryggðra lánasamninga hans breyti ekki þeim forsendum sem ákvörðun um synjun á heimild til greiðsluaðlögunar byggist á, enda miði embættið við upphaflegar fjárhæðir lána og þann tíma er til skuldbindinganna var stofnað.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála taki ákvörðun umboðsmanns skuldara til endurúrskurðar og úrskurði kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi fallist hún á kröfur kæranda í málinu. Af því leiðir að umboðsmanni skuldara ber að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c- lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2004 til 2010 í krónum:
2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | |
Meðaltekjur á mán. (nettó)* | 201.635 | 354.433 | 236.837 | 865.586 | 388.388 | 190.931 | 153.291 |
Eignir alls | 51.556.709 | 52.300.895 | 77.973.867 | 109.952.570 | 108.137.705 | 1.555.792 | 807.805 |
· Fasteignir | 29.170.500 | 37.227.000 | 40.744.050 | 75.044.159 | 80.905.336 | 130.366 | 130.366 |
· Bifreiðar o.fl. | 4.308.500 | 1.266.000 | 6.503.000 | 5.466.000 | 4.136.000 | ||
· Innlend verðbréf og kröfur | 7.002.371 | 4.662.519 | 265.136 | ||||
· Hrein eign samkvæmt Efnahagsreikningi | 1.489.901 | 2.196.465 | 2.829.193 | 3.087.373 | 244.996 | 939.825 | |
· Hlutir í félögum | 9.585.437 | 11.611.430 | 27.897.624 | 21.692.519 | 21.603.183 | 69.181 | 62.283 |
· Bankainnstæður | 1.248.190 | 416.420 | 350.020 | ||||
Skuldir | 24.661.655 | 29.868.704 | 58.034.164 | 81.903.419 | 85.757.096 | 54.789.690 | 133.093.570 |
Nettó eignastaða | 26.895.054 | 22.432.191 | 19.939.703 | 28.049.151 | 22.380.609 | -53.233.898 | -132.285.765 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga | 49.000.000 | 55.500.000 | 55.500.000 | 56.500.000 | 56.500.000 | 56.500.000 | 56.500.000 |
*Ráðstöfunartekjur kæranda, þ.m.t. fjármagnstekjur.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | 2012 | frá | |||
Íbúðarlánasjóður | 1998 | Veðskuldabréf | 6.035.000 | 8.055.094 | 2011 |
Arion banki | 2003 | Skuldabréf | 15.000.000 | 16.315.404 | |
Íslandsbanki | 2006 | Bílalán | 3.166.931 | 2.682.191 | 2011 |
Arion banki | 2006 | Erlent lán | 25.000.000 | 68.699.698 | 2010 |
Landsbankinn* | 2007 | Erlent lán | 32.000.000 | 48.233.032 | 2010 |
Arion banki | 2008 | Erlent lán | 22.150.000 | 8.063.801 | |
Tollstjóri | 2010 | Opinber gjöld | 294.297 | 2010 | |
Arion banki | 2010 | Yfirdráttur | 9.044.777 | 2010 | |
Landsbankinn | 2011 | Yfirdráttur | 472.387 | ||
Landsbankinn | 2011 | Greiðslukort | 11.040 | 2011 | |
Alls | 103.351.931 | 161.871.721 |
*Kærandi kveðst hafa greitt lánið 25. maí 2007 en það samræmist ekki fyrirliggjandi gögnum. Kærandi undirritaði skilmálabreytingu vegna lánsins 11. ágúst 2009.
Þá hefur kærandi gengist í eftirtaldar sjálfskuldarábyrgðir fyrir lögaðila:
Kröfuhafi | Útgefið | Skuldari | Tegund | Upphafleg |
fjárhæð í krónum | ||||
Landsbankinn | 2004 | Z sf. | Ábyrgðaryfirlýsing | 11.000.000 |
Íslandsbanki | 2004 | Y sf. | Kaupleigusamningur | 19.000.000 |
Íslandsbanki | 2004 | Y sf. | Kaupleigusamningu | 19.000.000 |
Landsbankinn | 2005 | Z sf. | Ábyrgðaryfirlýsing | 2.500.000 |
Landsbankinn | 2005 | Z sf. | Ábyrgðaryfirlýsing | 4.000.000 |
Landsbankinn | 2007 | Y sf. | Ábyrgðaryfirlýsing | 1.000.000 |
Alls | 56.500.000 |
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þar eru taldar upp mögulegar ástæður synjunar sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.
Á árinu 2006 tók kærandi erlent lán samtals að fjárhæð 25.000.000 króna vegna hlutabréfakaupa. Um var að ræða 5 mánaða kúlulán sem tryggt var með veði í keyptum bréfum en lánið var síðar framlengt. Á árinu 2007 tók kærandi tveggja ára erlent kúlulán einnig til hlutabréfakaupa og var það að fjárhæð 32.000.000 króna. Á árinu 2008 tók kærandi enn erlent lán til hlutabréfakaupa og að þessu sinni að fjárhæð 22.150.000 krónur. Sé við þetta miðað voru lántökur kæranda vegna hlutabréfakaupa á árunum 2006 til 2008 samtals 79.150.000 krónur. Þessar skuldir komu til viðbótar við þáverandi skuldir kæranda sem voru skuldabréfalán frá 2003 og íbúðarlán frá 1998. Benda gögn málsins til þess að kærandi hafi tekist á hendur skuldbindingar vegna framangreindra lána í trausti þess að hagnaður af hlutabréfaviðskiptum hans yrði nægilegur til að greiða allan fjármagnskostnað vegna þeirra.
Á árunum 2004, 2005 og 2007 tókst kærandi á hendur ábyrgðarskuldbindingar alls að fjárhæð 56.500.000 krónur fyrir lögaðila eins og gerð er grein fyrir hér að framan. Voru ábyrgðarskuldbindingarnar á bilinu rúmar 22.000.000 króna til rúmar 33.000.000 króna umfram nettó eignir kæranda á þeim tíma er kærandi tókst þær á hendur. Kærandi ber því við að engar ábyrgðarskuldbindingar muni falla á hann vegna Y ehf. þar sem þær séu fulltryggðar af öðrum, en kærandi hefur ekki sýnt fram á það með gögnum. Í ljósi þessa er það mat kærunefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi ekki gefið honum tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir þeim skuldum sem hann ábyrgðist. Samkvæmt því telur kærunefndin að kærandi hafi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu á árunum 2004, 2005 og 2007 en ábyrgðarskuldbindingar hans voru svo háar að afar litlar líkur voru á því að hann gæti greitt þær, myndi á þær reyna.
Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar
skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist á árunum 2004, 2005 og 2007 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að framan. Í máli þessu eru að minnsta kosti 25,8% skulda kæranda vegna sjálfskuldarábyrgða en á þeim tíma er hann stofnaði til ábyrgðarskuldanna voru launatekjur hans ekki háar.
Þá verður einnig að líta til þess að allar ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Þegar allt framanritað er virt telur kærunefndin að með því að takast á hendur nefndar skuldbindingar, lán og ábyrgðarskuldbindingar, hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir