Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 90/2013

Fimmtudaginn 21. apríl 2015

 

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. júlí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 15. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust með bréfi 17. mars 2014. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 21. mars 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdur bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1980. Þau eru í hjúskap og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin 117,4 fermetra fasteign að C götu nr. 30 í sveitarfélaginu D.  

Kærendur eru bæði 75% öryrkjar. Mánaðarlegar meðaltekjur kærenda eru 477.914 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til vankunnáttu í fjármálum, veikinda þeirra beggja og mistaka sem hafi átt sér stað í greiðsluþjónustu viðskiptabanka þeirra.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 33.151.344 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árinu 2008 vegna fasteignakaupa.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 18. nóvember 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Sagði umsjónarmaður sig frá málinu og var nýr umsjónarmaður þá skipaður. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 25. júlí 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil á grundvelli a-, c-, og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. og 2. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að á símafundi 12. júlí 2012 hefði kærandi A tilkynnt umsjónarmanni að kærendur hefðu selt bifreiðina E fyrir 250.000 krónur og keypt aðra bifreið í staðinn. Kaup á nýjum bíl hefðu verið fjármögnuð með söluandvirði E og 150.000 krónum sem kærendur hefðu sjálf lagt til í peningum. Þá hefði kærandi B fengið 300.000 krónu styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærendur hafi greint frá því að bifreiðaskiptin hefðu verið gerð í sparnaðarskyni. Hefði eldri bifreiðin verið orðin dýr í rekstri vegna viðhalds- og bensínkostnaðar. Kærendur hafi talið nýju bifreiðina ódýrari í rekstri.

Umsjónarmaður telji líkur á að ráðstöfun kærenda á bifreiðinni E, án heimildar frá eða samráðs við umsjónarmann, varði við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fram komi að ekki skuli láta af hendi eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Kunni að vera um að ræða ráðstöfun sem skaðað hafi hagsmuni lánardrottna. Þá kunni kaup kærenda á annarri bifreið, án heimildar umsjónarmanns, að varða við a-, c- og/eða d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Einnig geti ráðstöfun kærenda á 150.000 krónum af fé sínu varðað við a- eða d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Loks geti sú háttsemi að leggja fram 150.000 krónur og að sækja um, fá og ráðstafa 300.000 krónu styrk frá Tryggingastofnun ríkisins, í stað þess að leggja þessa fjármuni til hliðar, varðað við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sala bifreiðarinnar E hafi ekki farið fram samkvæmt 13. gr. lge. Kunni þetta að varða við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá taki umsjónarmaður fram að fyrir nefndan símafund hefðu kærendur tilkynnt umsjónarmanni að þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu hefðu þau ekki náð að leggja til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls. Hafi það fyrst verið með tilkynningu um fyrrgreind bifreiðakaup að umsjónarmaður hafi fengið vitneskju um að kærendur hefðu lagt til hliðar 150.000 krónur.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 16. ágúst 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kærenda barst með ódagsettu bréfi. Kom þar fram að kærendum hefðu aldrei verið kynnt þau lagaákvæði sem þau teldust hafa brotið gegn. Hefðu kærendur borið bifreiðakaup sín undir fyrri umsjónarmann sem hefði talið þau í lagi. Einnig hefðu þau látið fyrri umsjónarmann vita um að þau hefðu ekki lagt til hliðar og hefðu ekki verið gerðar athugasemdir við það. Hefðu kærendur því ekki talið að þau væru að gera neitt sem þeim væri óheimilt. Þegar nýr umsjónarmaður hefði komið að málinu hefði komið í ljós að það sem kærendur hefðu gert í góðri trú hefði verið rangt.

Kærendum hefði ekki tekist að leggja til hliðar. Hafi þau þurft að ráðast í framkvæmdir á baðherbergi af hreinlætis- og heilsufarsástæðum. Hafi flætt upp úr niðurfalli og allt á baðherberginu hefði verið ónýtt, mygla komin á milli veggja og lagnir ónýtar. Hafi þurft að rífa allt út úr baðherberginu þannig að það hefði á endanum verið fokhelt. Endurbæturnar hefðu verið gerðar eins ódýrar og mögulegt var. Þá hefðu kærendur þurft að kaupa nýtt rúm þar sem það gamla hefði verið ónýtt. Hefði rúmið verið valið til að endast og með slæma heilsu kærenda í huga enda væru þau bæði sjúklingar og öryrkjar. Elsti sonur kærenda væri mikið veikur. Þyrftu þau oft og reglulega að sækja þjónustu fyrir hann til Reykjavíkur með tilheyrandi bensínkostnaði. Á tveggja mánaða tímabili hafi þurft að fara með hann daglega til Reykjavíkur og hafi bensínkostnaður við hverja ferð verið um 9.000 krónur og bensínkostnaður yfir mánuðinn hafi farið yfir 200.000 krónur. Þá eigi yngri synir kærenda einnig við veikindi að stríða og þurfi að sækja mikla læknisþjónustu til Reykjavíkur. Kærendur hafi staðið frammi fyrir því að bensínkostnaður hafi verið orðinn hærri en kostnaður við matarinnkaup. Einnig hafi viðgerðarkostnaður verið mikill en kærendur hafi afhent fyrrum umsjónarmanni kvittanir vegna viðgerða og varahluta. Vegna slæmrar andlegrar og líkamlegrar heilsu kæranda B hafi hún fengið 300.000 krónu styrk til bílakaupa frá Tryggingastofnun en bíll væri henni nauðsynlegur. Hefði fyrri umsjónarmaður vitað um bílastyrkinn. Nýr bíll hafi verið keyptur til þess að lækka viðhalds- og bensínkostnað enda hefði kostnaður vegna bensíns lækkað um ¾ með nýja bílnum og viðhaldskostnaður hefði enginn verið. Kærendur hafi greitt 150.000 krónur af ráðstöfunartekjum sínum við kaup á nýja bílnum. Hefði þetta verið nauðsynlegt til að fá góðan bíl en ella hefðu umræddar 150.000 krónur farið í viðgerðarkostnað á fyrri bíl þeirra.

Varðandi bílastyrk frá Tryggingastofnun ríkisins hafi kærendur tekið fram að styrkurinn hefði verið greiddur út eftir að bíllinn hefði verið keyptur og því ekki mögulegt að leggja þessa fjármuni til hliðar.

Af hálfu umboðsmanns skuldara kom fram að starfsmaður embættisins hefði haft samband við kærendur símleiðis 18. apríl 2013 og leiðbeint þeim um að þau þyrftu að styðja fyrrgreind útgjöld með gögnum. Kærendur hafi ekki lagt fram umbeðin gögn.

Með bréfi til kærenda 3. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a–liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að mál þeirra verði tekið upp aftur og unnið út frá réttum gögnum, meðal annars þeim gögnum sem afhent hafi verið fyrri umsjónarmanni. Enn fremur krefjast þau þess að fyrir þeim sem skuldurum sé borin virðing og að þau fái mannlega þjónustu hjá umboðsmanni skuldara. Loks gera kærendur kröfu um að tekið sé tillit til veikinda og aðstæðna á heimilinu. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur segja að þeim hafi aldrei verið kynntar neinar reglur. Hafi framkvæmdir á baðherbergi verið gerðar í samráði við fyrri umsjónarmann sem fengið hafi allar kvittanir. Einnig hafi fyrri umsjónarmaður fengið kvittun vegna kaupa kærenda á rúmi. Hafi kærendum síðan verið tilkynnt að fyrri umsjónarmaður hefði málið ekki lengur og þau fengið nýjan umsjónarmann sem hefði öll gögn. Síðar hefði komið í ljós að nýji umsjónarmaðurinn hefði ekki haft þau gögn er sýndu fram á ástæður þess að kærendur hefðu ekki lagt fé til hliðar. Hafi kærendur farið á fund hjá embætti umboðsmanns skuldara þar sem fram hefði komið að embættið myndi hlutast til um að útvega þau gögn sem fyrri umsjónarmaður hefði ekki skilað. Hafi það ekki verið gert.

Einnig hafi embætti umboðsmanns skuldara óskað eftir vottorðum vegna veikinda sona kærenda. Þar sem mikil veikindi hafi verið á heimilinu á þessum tíma hafi kærendum ekki gefist tími til að útvega umbeðin vottorð.

Að mati kærenda hafi embætti umboðsmanns skuldara ekki tekið tillit til þess að kærendur hafi ekki getað útvegað gögn sem þau hafi ekki, þ.e. gögn sem hafi verið afhent fyrri umsjónarmanni. Kærendur telja sig hafa fengið villandi upplýsingar við meðferð málsins. Einnig telja þau vinnubrögð í málinu hafa verið ófagleg og mistök hafi verð gerð við málsmeðferðina. Þá gera kærendur athugasemd við langan málsmeðferðartíma.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 18. nóvember 2010 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í 28 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 30. apríl 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. janúar 2011 til 30. apríl 2013 að frádregnum skatti 16.775.708
Samtals 16.775.708
Mánaðarlegar meðaltekjur 599.132
Framfærslukostnaður á mánuði 432.894
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 166.238
Samtals greiðslugeta í 28 mánuði 4.654.676

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi greint frá því að framfærslukostnaður þeirra hafi verið töluvert meiri en greiðsluáætlun geri ráð fyrir vegna kostnaðar við ferðir á milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur. Kærendur hafi þó ekki lagt fram gögn sem styðji þetta þó að þeim hafi verið gefinn kostur á því bæði í bréfi og símtali. Þá hafi kærendur ekki getað lagt fram gögn vegna framkvæmda á baðherbergi í íbúð þeirra en kveðast hafa afhent fyrri umsjónarmanni gögn vegna þessa. Ekki hafi verið hægt að nálgast þessi gögn.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 432.894 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað aprílmánaðar 2013 fyrir hjón með þrjú börn. Jafnframt sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 4.654.676 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 166.238 krónur á mánuði í 28 mánuði.

Umsjónarmaður hafi greint frá því að kærendur hefðu fengið 300.000 krónu styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun ríkisins. Styðji skattframtal kæranda B þetta. Kærendur hafi einnig lagt 150.000 krónur af eigin fé til bílakaupanna. Þyki rétt að sú fjárhæð sem kærendur hafi átt að leggja fyrir á tíma greiðsluskjóls lækki í samræmi við þetta. Hefði sparnaður þeirra því átt að nema 4.204.676 krónum.

Kærendur hafi hvorki afhent umsjónarmanni né umboðsmanni skuldara gögn er sýni fram á það hvers vegna þau hafi ekki lagt fé til hliðar í greiðsluskjóli. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Skilaði umsjónarmaður málinu og var nýr umsjónarmaður þá skipaður. Tilkynnti hann með bréfi til umboðsmanns skuldara 25. júlí 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum meðal annars samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Taldi umsjónarmaður því að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 3. júní 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 4.654.676 krónur frá 1. janúar 2011 til 30. apríl 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 166.238 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 450.000 krónur sem komi til frádráttar fyrrnefndum 4.654.676 krónum. Eigi sparnaður þeirra því að nema 4.204.676 krónum.

Kærendur kveðast ekki hafa lagt fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í fyrsta lagi sé það vegna þess að þau hafi orðið fyrir miklum eldsneytiskostnaði við akstur á milli D og Reykjavíkur en sá kostnaður hafi verið nauðsynlegur þar sem um hafi verið að ræða ferðir vegna sjúkrahúsdvalar og viðvarandi veikinda sona þeirra. Í öðru lagi hafi kærendur þurft að endurnýja baðherbergi á heimili sínu þar sem aðstæður þar hafi verið orðnar heilsuspillandi. Í þriðja lagi hafi þau þurft að kaupa nýtt rúm en það hafi verið nauðsynlegt vegna heilsufars þeirra. Kveðast kærendur hafa eytt fyrrnefndum fjármunum í samráði við og með samþykki fyrri umsjónarmanns en þau hafi afhent honum allar kvittanir. Umsjónarmaður skuldara segir kærendur ekki hafa lagt fram gögn sem sýni fram á ráðstöfun þeirra á umræddum peningum. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segir um gögnin: „Þau segja hins vegar í andmælum sínum að þau hafi skilað gögnum þess efnis til fyrri umsjónarmanns þeirra. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna hefur ekki verið hægt að nálgast þau gögn. Umsækjendur hafa hins vegar ekki sagt neitt til um það hvað mikið fé fór í umræddar framkvæmdir og því er ómögulegt að áætla þá upphæð.“

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Eins og mál þetta liggur fyrir var það einn meginþáttur í rannsókn umboðsmanns skuldara að leggja mat á hvort kærendur hefðu uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar fé á tímabili greiðsluskjóls. Væri sú ekki raunin bar umboðsmanni að kanna hvort kærendur hefðu þurft að eyða fé, og þá hve miklu fé, vegna óvænts kostnaðar sem til féll á tímabili greiðsluskjóls og væri nauðsynlegur til að kærendur hefðu getað séð sér og fjölskyldu sinni farborða.

Ekki verður annað ráðið af atvikum málsins og fyrirliggjandi gögnum en að kærendur hafi afhent fyrri umsjónarmanni sínum kvittanir vegna þeirra óvæntu útgjalda sem þau urðu fyrir í greiðsluskjólinu og var umfram framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Kvittanir þessar eru ekki meðal gagna málsins en af málatilbúnaði umboðsmanns skuldara verður ekki annað ráðið en að þær séu enn hjá fyrri umsjónarmanni. Að þessu leyti er óupplýst í málinu hve miklum fjármunum, umfram kostnað samkvæmt framfærsluviðmiði, kærendur ráðstöfuðu á tímabili greiðsluskjóls. Ekki liggur heldur fyrir með óyggjandi hætti hvernig þessum fjármunum var ráðstafað. Skortir því á að þessar staðreyndir málsins hafi legið nægilega skýrar fyrir við ákvarðanatöku hjá umboðsmanni skuldara. Hefur samkvæmt því ekki verið upplýst um hvort kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Verður að telja nefndar upplýsingar forsendu fyrir því að málið teljist nægilega rannsakað en heimild til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. byggist á því að unnt sé að sýna fram á að kærendur hafi brugðist skyldum um sparnað. Að mati kærunefndarinnar hefur embætti umboðsmanns skuldara því ekki upplýst málið að því marki sem nauðsynlegt er.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda A og B hafi verið felldar niður án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta