Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 61/2011

Föstudagurinn 11. janúar 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 27. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. september 2011, þar sem umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 29. september 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, sem barst með bréfi, dags. 14. október 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. október 2011, og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 17. febrúar 2011. Var umsóknin tekin til vinnslu í september 2011. Samkvæmt umsókninni er kærandi einhleypur og greiðir meðlag með þremur börnum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 14. september 2011, var umsókn hans um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hefur átt við erfiðleika að glíma í einkalífi sínu. Því til stuðnings er vísað í vottorð frá C lækni. Í vottorðinu kemur fram að farið sé fram á ívilnun og aðlögun fyrir kæranda. Kærandi hafi á árum áður átt við mikinn vanda að stríða og ánetjast fíkniefnum. Hann hafi getað haldið sig frá þeim í langan tíma, aflað sér menntunar og starfsreynslu. Í vottorðinu, dags. 27. september 2011, kemur síðan fram að kærandi hafi fallið síðastliðið vor og engin góð lausn sé í sjónmáli. Hann hafi meðal annars fengið ívilnun hjá Velferðarsviði sveitarfélagsins C.

Í kæru kemur jafnframt fram að kærandi hafi misst vinnu sína vegna breytinga á vinnustað og hafi síðan glímt við þunglyndi og óreglu. Kærandi fer fram á að haldið verði áfram með hans mál.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 2. gr. lge.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að kærandi hafi ekki skilað inn greinargerð með umsókn sinni um heimild til greiðsluaðlögunar. Honum hafi verið send beiðni um greinargerð með tölvupósti þann 20. júlí 2011 og var hann þá jafnframt upplýstur um að bærist hún ekki innan þriggja virkra daga frá dagsetningu tölvupósts gæti það leitt til þess að umsókn hans yrði synjað. Í tölvupóstinum var jafnframt tilgreind vefsíða með nákvæmum leiðbeiningum um gerð greinargerðar.

Kæranda hafi síðan verið send ítrekun á fyrrgreindri beiðni með ábyrgðarpósti sem hann móttók þann 19. ágúst 2011 og var hann upplýstur um að bærust umbeðin gögn ekki innan viku frá móttöku bréfs yrði umsókn hans synjað vegna ónógra gagna. Þann 5. september 2011 hafi verið hringt í kæranda og tilgreind beiðni ítrekuð munnlega. Þann 6. september hafi kærandi hringt og kvaðst ætla að skila inn greinargerð á næstu dögum og sama dag var honum sendur tölvupóstur þess efnis að hann hefði móttekið fyrrgreindan ábyrgðarpóst þann 19. ágúst og nú vantaði einungis greinargerð frá honum til þess að unnt væri að ljúka máli hans.

Samkvæmt framangreindu hafi kærandi ítrekað verið upplýstur um að til þess að unnt væri að afgreiða umsókn hans yrði hann að skila inn greinargerð og var hann jafnframt upplýstur um leiðbeiningar um gerð hennar. Þrátt fyrir það hafi kærandi ekki skilað inn greinargerð til umboðsmanns. Upplýsingar þær sem umboðsmaður óskaði eftir séu þess eðlis að það er ekki á færi annarra en kæranda sjálfs að leggja þær fram. Þessi gögn séu jafnframt nauðsynleg til að unnt sé að leggja mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði laga til þess að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður telur ljóst að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Fer umboðsmaður fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun, sem tekin var á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., en þar er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt ákvæðinu skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér um að ræða skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í lögunum að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Af gögnum málsins er ljóst að talsvert vantar upp á upplýsingagjöf kæranda, t.a.m. hefur kærandi ekki látið umboðsmanni skuldara í té greinargerð um aðstæður sínar. Umboðsmaður skuldara óskaði ítrekað eftir greinargerðinni án þess að kærandi hafi orðið við þeirri beiðni. Ljóst er að það er ekki á færi annarra og nauðsynlegt til afgreiðslu umsóknar. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hefur kærandi hvorki gefið skýringar á því hvers vegna hann ekki hafi lagt fram umbeðin gögn né heldur bætt úr þessum ágalla á umsókn sinni.

Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefa því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta