Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 126/2012

Miðvikudagurinn 21. júní 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 10. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 29. júní 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 18. júlí 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 22. ágúst 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. ágúst 2012, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi er 57 ára og býr ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni og syni þeirra í 319 fermetra eigin húsnæði. Sonur kæranda er fatlaður og er húsnæðið að miklu leyti hannað með tilliti til þarfa hans.

Í umsókn kæranda kemur fram að hann starfar sem bílasali. Hann hefur sjálfur keypt og selt bíla, auk þess sem hann hefur fjárfest í sumarhúsum og sumarhúsalóðum til endursölu. Þá hefur kærandi verið í samstarfi við son sinn um veitingarekstur. Að sögn kæranda má í fyrsta lagi rekja skuldavanda hans til ársins 2008 þegar sala bifreiða hafi dregist saman. Hann hafi keypt bíla sem honum tókst ekki að selja og á þeim hafi hvílt bílalán sem hafi hækkað umfram verðmæti bílanna. Hann hafi því setið uppi með lán sem í kjölfarið fóru í vanskil. Einnig reki kærandi skuldavanda sinn til fjárfestinga sem hafi falist í kaupum á sumarhúsalóðum og sumarhúsum árið 2007. Til að fjármagna þessi kaup hafi kærandi tekið erlend lán sem hafi hækkað í kjölfar efnahagshrunsins. Kæranda hafi hvorki tekist að selja sumarhúsin né lóðirnar eins og ætlunin hafi verið og því setið uppi með miklar skuldir. Loks rekur kærandi skuldavanda sinn að miklu leyti til ábyrgða á lánum sem hann hafi gengist undir þegar hann aðstoðaði son sinn við veitingarekstur. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi veitingareksturinn dregist saman og ábyrgðir vegna lána fallið á kæranda og son hans.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 417.870.728 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 og 2008 vegna bifreiðakaupa, kaupa á sumarhúsum og sumarhúsalóðum og veitingareksturs.

Skuldir kæranda eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi fimm skuldabréf hjá Íslandsbanka samtals að fjárhæð 218.936.170 krónur, upphaflega samtals að fjárhæð 90.900.000 krónur. Í öðru lagi yfirdráttarskuldir hjá Íslandsbanka að fjárhæð 118.565.671 króna. Í þriðja lagi veðkröfur hjá Íbúðalánasjóði, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Íslandsbanka, samtals að fjárhæð 29.100.408 krónur, upphaflega að samtals að fjárhæð 17.297.648 krónur. Í fjórða lagi skuldir vegna kreditkorta hjá Íslandsbanka, samtals að fjárhæð 9.071.929 krónur. Í fimmta lagi níu bílasamningar og bílalán hjá fjármögnunarfyrirtækjum samtals að fjárhæð 31.532.148 krónur. Aðrar skuldir kæranda eru samtals að fjárhæð 10.664.402 krónur.

Tekjur kæranda síðastliðin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2007 námu tekjur kæranda að frádregnum sköttum 87.418 krónum að meðaltali á mánuði, árið 2008 námu þær 128.875 krónum að meðaltali á mánuði, árið 2009 námu þær 97.231 króna að meðaltali á mánuði og árið 2010 námu þær 108.699 að meðaltali á mánuði.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 17. maí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 8. maí 2012, var umsókn hans hafnað með vísan til heildarfjárhæðar skulda og neikvæðrar eignastöðu kæranda, en í ljósi þessa þætti óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst ekki sammála því sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara að greiðslugeta sín hafi ekki verið til staðar þegar lán voru tekin. Það sé rétt ef litið sé á málið þannig að kærandi hafi ætlað að eiga eignirnar. Það hafi hann ekki ætlað að gera heldur hugðist hann endurselja þær með hagnaði. Þetta hafi kærandi gert til fjölda ára. Í ljósi þess telji kærandi að ekki sé hægt að líta svo á að hann hafi farið óvarlega í fjárfestingum. Kærandi hafi ekki reiknað með þeim ósköpum sem dundu yfir árið 2008 en þá hafi allar forsendur breyst. Kærandi hafni því ákvörðun umboðsmanns skuldara og óskar þess að málið verði tekið upp aftur með hliðsjón af þeim skýringum sem lagðar eru fram með kærunni.

Kærandi bendir á að stærsta krafan sé frá Íslandsbanka en hann hafi átt í viðræðum við bankann um að yfirtaka sumarhúsalóðirnar og fella niður kröfur tengdar þeim. Við það falli niður stærsti hluti krafna á hendur kæranda. Kærandi leggi til að hann fái rými til að semja við Íslandsbanka. Þá hafi hann skilað bifreiðum og selt dýrasta bílinn með samþykki umboðsmanns skuldara. Þar með hafi viðkomandi kröfur fallið niður.

Kærandi telji að það hafi verið mistök af sinni hálfu að geta ekki um tekjur fyrrum eiginkonu sinnar í umsókn um greiðsluaðlögun en tekjur hennar séu um 370.000 krónur á mánuði. Þetta séu tekjur sem nýttar séu til að reka heimilið og borga af húsnæði þeirra í sveitafélaginu B. Kærandi hafi allan tímann lagt upp með að fá að halda þeirri eign og telji hann að hægt sé að sýna fram á að hann hafi greiðslugetu til þess. Húsið sé sérútbúið með þarfir sonar þeirra í huga, en hann sé fatlaður og þurfi á miklum stuðningi og séraðstoð að halda .

Kærandi bendir á að skuldir við Íbúðalánasjóð og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins séu ekki á hans vegum eins og fram hafi komið í greinargerð kæranda. Kærandi hafi tekið þær yfir þegar bróðir hans lenti í erfiðleikum fyrir nokkrum árum síðan. Kærandi hafi greitt af lánunum og verið sé að vinna að því að koma þeim aftur yfir á nafn bróður kæranda.

Eftir standi skuldir við Landsbankann, Lýsingu og Vörð sem séu að hluta til eftirstöðvar lána sem hækkað hafi mikið við hrunið og eins eftir að fyrirtækin leystu til sín bifreiðar kæranda á undirverði. Kærandi fari fram á niðurfellingu þessara krafna að hluta eða að öllu leyti.

Kærandi álíti að ef málið sé skoðað út frá framangreindum forsendum sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu að það sé grundvöllur til að ljúka málinu með samningum.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 8. maí 2012, kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Fram komi í 2. mgr. 6. gr. lge. að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á því sé sérstaklega litið til þeirra atriða sem talin séu upp í a-g-liðum ákvæðisins, sem öll eiga það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Á grundvelli b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun sé stofnað til skulda á þeim tíma sem skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Af skuldayfirliti með umsókn megi ráða að kærandi hafi stofnað til allnokkurra skuldbindinga á síðustu árum, einkum árin 2007 og 2008. Samanlögð fjárhæð nýrra lána sem kærandi tók árið 2007 var 54.528.875 krónur. Árið 2008 tók kærandi ný lán að fjárhæð 69.967.955 krónur.

Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir tekjuárið 2007 voru mánaðarlegar meðaltekjur hans 87.418 krónur. Heildargreiðslur kæranda vegna íbúðarhúsnæðis á árinu námu 2.120.234 krónum, eða 176.686 krónur að meðaltali á mánuði. Fjárhæðin taki ekki mið af afborgunum þeirra lána sem kærandi tók árið 2007 og megi því ætla að greiðslubyrði hans hafi hækkað umtalsvert síðla árs 2007. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður kæranda numið að lágmarki 70.400 krónum miðað við vísitölureiknuð neysluviðmið fyrir árið 2007.

Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir tekjuárið 2008 voru mánaðarlegar meðaltekjur hans 128.875 krónur. Heildargreiðslur kæranda vegna íbúðarhúsnæðis á árinu námu 2.240.886 krónum, eða 186.740 krónum að meðaltali á mánuði. Fjárhæðin taki hvorki mið af afborgunum þeirra lána sem kærandi tók árið 2008, né af afborgunum lána sem tekin voru árið 2007. Því megi ætla að þegar gjalddagar lánanna hafi runnið upp hafi greiðslubyrði kæranda hækkað töluvert. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara hefur framfærslukostnaður kæranda numið að lágmarki 80.000 krónum miðað við vísitölureiknuð neysluviðmið fyrir árið 2008. Viðmiðin 2007 og 2008 gera ekki ráð fyrir kostnaði við tryggingar en gera má ráð fyrir að kærandi hafi einnig þurft að greiða þær.

Með vísan til framangreinds og samkvæmt gögnum málsins sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki getað mætt hefðbundnum útgjöldum vegna heimilishalds og staðið undir framfærslu allt frá árinu 2007. Í svari kæranda við andmælabréfi, dags. 14. júní 2012, hafi komið fram að kærandi hafi notað söluhagnað af bifreiðaviðskiptum sínum til að greiða upp lán og til heimilishalds. Í skattframtölum kæranda komi þó hvorki fram hagnaður af sölu bifreiða né tekjur vegna atvinnurekstrar. Engin gögn styðja því frásögn kæranda.

Að þessu virtu og með hliðsjón af öllum atvikum málsins, umfangi og eðli skuldbindinga og ráðstafana kæranda, sé það mat umboðsmanns skuldara að þær skuldbindingar sem hann tókst á hendur árin 2007 og 2008, hafi verið umfram eðlilega áhættutöku og að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Mat umboðsmanns skuldara sé því að óhæfilegt hafi verið að veita kæranda greiðsluaðlögun og beri því að synja honum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 22. ágúst 2012, komi fram að um framkvæmd í málum er varða b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. megi vísa til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 11/2011, nr. 17/2011 og nr. 23/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri  tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem umsækjendur um greiðsluaðlögun stofna til skuldbindinga, og ef ljóst þykir að þeir hafi ekki getað staðið við þær skuldbindingar þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Hin kærða ákvörðun byggi á heildarmati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem lágu fyrir.

Þá verði einnig ráðið af úrskurði kærunefndarinnar frá 12. mars. 2012 í máli nr. 18/2011 að við mat samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. sé miðað við hátterni og stöðu skuldara á þeim tíma er til skuldanna var stofnað. Þegar svo háttar til að fjárhagserfiðleikar skuldara stafi af háttsemi sem lýst sé í framangreindum stafliðum hafi það almennt ekki áhrif á matið samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. að kröfur séu lækkaðar eða felldar niður.

Í greinargerðinni geri umboðsmaður skuldara athugasemdir við rök kæranda þess efnis að gera verði ráð fyrir tekjum fyrrum eiginkonu hans og núverandi sambýliskonu við heimilisrekstur og afborganir af húsnæði þeirra. Með vísan til þess mats sem fari fram samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. skipti núverandi samanlagðar tekjur hans og fyrrverandi eiginkonu hans ekki máli, enda hafi skýringar kæranda sjálfs ekki bent til annars en að hann sjálfur hafi átt að standa undir skuldbindingum sínum með eigin tekjum og eignum á því tímabili sem hafi verið til skoðunar þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hvorki skýringar kæranda né gögn málsins gefi tilefni til þess að endurskoða það mat sem farið hafi fram.

Hvað varði skuldir við Íbúðalánasjóð og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem kærandi telji ekki á sínum vegum, verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi tekið lánin og sé eigandi þess veðs sem standi til tryggingar kröfunum. Útilokað verði að teljast að við greiðsluaðlögunarumleitanir yrði litið öðruvísi á en að kærandi væri eigandi eignarinnar og skuldari að umræddum kröfum.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., einkum með tilliti til b- og c-liða ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt b-lið skal við mat á því taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og samkvæmt c-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Umboðsmaður skuldara bendir á að skuldbindingar þær er kærandi stofnaði til árin 2007 og 2008 hafi ekki verið í neinu samræmi við greiðslugetu hans. Þegar gögn málsins séu metin í heild sé það mat umboðsmanns skuldara að með þeirri miklu skuldasöfnun sem þar komi fram hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Á þeim grundvelli tók umboðsmaður skuldara ákvörðun um að óhæfilegt þætti að veita umsækjanda heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsókninni því synjað með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge.

Í gögnum málsins kemur fram að tekjur kæranda hafi verið að meðaltali 87.418 krónur á mánuði árið 2007. Einnig kemur fram að sama ár hafi kærandi tekið lán samtals að fjárhæð 54.528.876 krónur. Mánaðarlegar tekjur kæranda árið 2008 voru samkvæmt gögnum málsins að meðaltali 128.875 krónur en sama ár tók kærandi lán samtals að fjárhæð 69.967.955 krónur.

Á sama tíma og kærandi tók á sig umtalsverðar skuldbindingar á árunum 2007-2008, voru tekjur hans lægri en afborganir af lánum, óháð öðrum útgjöldum, svo sem framfærslu- og húsnæðiskostnaði. Þegar litið er til þess er hafið yfir vafa að kærandi var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. á framangreindum tíma. Í málinu hefur komið fram að kærandi hafði þegar tekið níu bílalán vegna atvinnu sinnar sem bílasali þegar hann tókst á hendur auknar fjárfestingar með kaupum á sumarhúsum og sumarhúsalóðum, auk þess sem hann gekkst undir ábyrgðarskuldbindingar vegna veitingarekstur sonar síns. Með skuldasöfnun þessari verður því enn fremur að telja að kærandi hafi hagað fjármálum sínum með þeim hætti sem getið er í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

           Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta