Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 58/2013

Miðvikudagurinn 26. júní 2013

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 18. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., sem tilkynnt var með bréfi 3. apríl 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 22. ágúst 2011. Þann 7. september 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var sent kröfuhöfum í desember 2011. Mótmæli bárust frá kröfuhöfum þar sem gerðar voru athugasemdir við að kærandi hefði ekki lagt til hliðar hluta af launum eða öðrum tekjum það fé sem var umfram það sem hún þurfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða Í kjölfarið var ákveðið að reyna að selja fasteign kæranda og var ætlunin að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar í framhaldi af því. Að mati umsjónarmanns fór kærandi ekki að fyrirmælum hans um sölu á fasteigninni. Umsjónarmaður tilkynnti síðan með bréfi, dags. 3. apríl 2013, að hann hefði tekið ákvörðun um að mæla gegn nauðasamningnum og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna íbúðarhúsnæðis.

II.Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns komi fram að eftir að kröfuhöfum hafi verið sent frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi hafi mótmæli borist frá Landsbankanum. Samkvæmt frumvarpinu hafi kærandi átt að geta greitt 70.000 krónur á mánuði eftir framfærslukostnað en hún hafi verið í greiðsluskjóli í 19 mánuði. Að mati bankans bæri að vísa kæranda úr greiðsluaðlögun á grundvelli 12. gr. lge., sbr. 15. gr. sömu laga þar sem hún hefði ekki lagt til hliðar af tekjum sínum það fé sem var umfram það sem hún þyrfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Sambærileg mótmæli hafi einnig borist frá Íslandsbanka.

Skýringar kæranda hafi verið þær að 19 ára dóttir hennar hafi verið á framfæri hennar vegna náms. Kærandi hafi því ekki ekki átt neinn afgang af tekjum sínum og þar af leiðandi ekki getað lagt til hliðar eins og kröfuhafar héldu fram að hún hefði átt að gera. Umsjónarmaður hafi fallist á skýringar kæranda, en ekki sé augljóst af orðalagi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. hve víðtæk þessi skylda sé eða hvernig hún sé afmörkuð í einstökum tilfellum. Þá sé ekki kveðið á um hvernig afmarka eigi framfærslu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana í tilvitnuðu lagaákvæði. Í ljósi mótmæla kröfuhafa sé því mögulegt að kærandi hafi brotið gegn ákvæðinu, þó mat umsjónarmanns hafi verið að það hefði kærandi ekki gert miðað við aðstæður á þeim tíma. Umsjónarmaður hafi ekki náð að jafna ágreining við kröfuhafa um þetta atriði þrátt fyrir umleitanir. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að reyna að selja fasteign kæranda og leita nauðasamnings skv. 18. gr. lge. þegar eignin væri seld. Tilgangurinn með því hafi verið sá að ná eftirstöðvum fasteignaveðskulda umfram söluverð undir nauðasamninginn.

Kærandi hafi óskað þess við umsjónarmann að C, löggiltur fasteignasali á fasteignasölunni X myndi annast söluna og samþykkti umsjónarmaður þá tilhögun. Umsjónarmaður hafi í kjölfarið sent fasteignasala tölvupóst þann 30. nóvember 2012 þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á því að hann samþykkti að taka fasteign kæranda í sölumeðferð. Staðfesting fasteignasala þess efnis hafi borist umsjónarmanni samdægurs. Kærandi kvaðst mundu hafa samband við fasteignasala fljótt og láta setja eignina á söluskrá. Umsjónarmaður hafi tekið sérstaklega fram við kæranda og fasteignasala að ferlið þyrfti að ganga hratt fyrir sig ef leita ætti nauðasamninga í kjölfarið.

Við eftirgrennslan umsjónarmanns þann 11. mars 2013 hafi komið í ljós að ekki var búið að skrá eignina til sölu. Þann 3. apríl 2013 hafi umsjónarmaður aftur athugað með framgang málsins en þá hafi fasteignasali sagt að eignin væri væntanleg á sölu á næstu dögum.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að kærandi hafi ekki farið að fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eign sinni með því að hafa enn ekki skráð hana til sölu fjórum mánuðum eftir að ákveðið hafi verið að selja hana. Kærandi hafi því brugðist skyldum sínum skv. 13. gr. lge, enda viðhaldist skyldur kæranda samkvæmt ákvæðum laganna eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að leita nauðasamnings. Því hafi umsjónarmaður séð sig tilneyddan til að mæla gegn því að nauðasamningur komist á.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru komi fram að Landsbanki og Íslandsbanki hafi mótmælt frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings þar sem kæranda hafi ekki tekist leggja til hliðar af lágum launum sínum. Kærandi hafi upplýst að hún hafi ekki getað lagt neitt til hliðar þar sem hún hafi haft dóttur sína á fullu framfæri á meðan hún hafi stundað nám við menntaskóla.

Umsjónarmaður hafi fallist á þessi rök og samkomulag náðst um að setja íbúð kæranda í sölumeðferð hjá X. Eignina væri hægt að selja fljótt og um leið og því væri lokið gæti kærandi leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar vegna eftirstöðva fasteignalána sinna. Kærandi hafi tekið ákvörðun í samráði við fasteignasalann um að lagfæra ýmislegt í íbúðinni áður en hún yrði sett á sölu í þeim tilgangi að gera hana söluvænlegri og auka líkurnar á því að sem hæst verð fengist fyrir hana. Sonur kæranda hafi aðstoðað hana við lagfæringarnar en sökum mikils vinnuálags hafi hann ekki haft eins mikinn tíma og kærandi hafi reiknað með. Lagfæringarnar hafi því dregist á langinn öfugt við það sem kærandi hafi gert ráð fyrir. Kærandi hafi verið í sambandi við fasteignasalann öðru hvoru til að hann gæti fylgst með framvindunni. Kærandi hafi verið orðin mjög óróleg vegna þessa dráttar en fasteignasalinn hafi látið kæranda vita þegar umsjónarmaður hafi grennslast fyrir um hvort íbúðin væri komin í sölu.

Um miðjan mars hafi íbúðin verið sett í sölumeðferð í skamman tíma en tekin af sölu til að láta taka betri myndir af eigninni. Það hafi verið gert og íbúðin sett aftur í sölu nokkrum dögum síðar.

Kærandi kveðst ekki hafa ætlað að draga málið á langinn heldur ætlað að gera íbúðina vænlegri til sölu og stuðla að því að sem hæst verð fengist fyrir hana. Kærandi taki fram að hún sé mjög ósátt við ákvörðun umsjónarmanns og þá sérstaklega þar sem hann hafi ekki sett henni tímamörk um hvenær íbúðin þyrfti að vera komin í sölumeðferð. Þá hafi umsjónarmaður allan tímann fylgst með framgangi málsins og hafi verið í sambandi við fasteignasalann. Einnig hafi umsjónarmaður vitað að íbúðin myndi fara í sölumeðferð í mars eða í síðasta lagi í byrjun apríl. Engu að síður hafi hann tekið ákvörðun í málinu þann 3. apríl 2013. Í ljósi mikilla og góðra samskipta við umsjónarmann telji kærandi að hann hefði átt að láta sig vita um fyrirætlanir sínar í stað þess að ljúka málinu á þennan hátt.

Kærandi krefjist þess að umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði tekin aftur til meðferðar svo hægt verði að ljúka málinu þannig að nauðasamningur verði gerður, íbúð hennar seld og málið leyst á farsælan hátt kröfuhöfum og kæranda til hagsbóta.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns er tekin á grundvelli 18. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns byggist á 13. gr. lge. þar sem kærandi hafi ekki farið að fyrirmælum hans um sölu á íbúð kæranda. Kærandi hafnar þessu og bendir á að henni hafi ekki verið sett nein tímamörk og að það hafi tekið tíma að koma íbúðinni í gott ástand svo að sem hæst verði fengist fyrir hana. Þá telur kærandi að umsjónarmaður hefði átt að upplýsa hana um að hann hygðist taka ákvörðun þess efnis að ljúka málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli eignir sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduástæðum að skuldari geti verið án. Þá kemur fram í 2. mgr. 13. gr. lge. að eignir skuli selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Í 5. mgr. 13. gr. lge. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 15. gr. lge.

Eins og framan greinir skal umsjónarmaður mæla með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana við umboðsmann skuldara samkvæmt 15. gr. lge. fari skuldari ekki eftir fyrirmælum hans skv. 13. gr. lge. Ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir er í höndum umboðsmanns skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Með vísan til þess ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til meðferðar umboðsmanns skuldara.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er felld úr gildi og málinu vísað til umboðsmanns skuldara til lögmæltrar meðferðar.

 

Lára Sverrisdóttir

          Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta