Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 52/2013

Miðvikudagurinn 26. júní 2013

 

A og B

gegn

skipuðum umsjónarmanni C hrl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 2. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C hrl., sem tilkynnt var með bréfi, 25. mars 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Þann 15. september 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda.  9. október 2012 var frumvarp sent til kröfuhafa.

Samkvæmt þeim málavöxtum sem tilgreindir eru í ákvörðun umsjónarmanns höfnuðu Landsbankinn og Íslandsbanki frumvarpinu. Þá bárust athugasemdir frá öðrum kröfuhöfum við því. Umsjónarmanni hafi ekki tekist að miðla málum og því hafi frjálsir samningar ekki tekist.

Með yfirlýsingu kærenda, dags. 8. mars 2013, lýstu kærendur því yfir við umsjónarmann að þau vildu leita nauðasamnings um greiðsluaðlögun og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi, dags. 25. mars 2013, ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna íbúðarhúsnæðis.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar kærenda hafi verið gert ráð fyrir að mánaðarleg greiðslugeta þeirra umfram framfærslukostnað væri 150.000 krónur. Kærendur hafi notið frestunar greiðslna síðan 6. janúar 2011 eða í 22 mánuði. Sé miðað við þessa fjárhæð geri ýtrasta áætlun ráð fyrir að kærendur hefðu á þessu tímabili getað lagt fyrir samtals 3.300.000 krónur. Kærendur hafi ekki lagt neitt fyrir á tímabilinu. Kröfuhafar hafi gert athugasemdir við þetta og talið að brotið hafi verið gegn 12. gr. lge. Auk þess hafi einn kröfuhafi bent á það að kærandinn, A, hafi sent Western Union greiðslur að fjárhæð 841.281 króna á tíma greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt skýringum kærenda hafi þau greitt afborganir af bílaláni sonar síns og greitt tryggingar o.fl. af bifreiðinni D á greiðsluaðlögunartímanum, alls að fjárhæð 846.301 króna. Að sögn kærenda hafi þau tekið yfir rekstur bifreiðarinnar en bílasamningurinn hafi alla tíð verið á nafni sonar þeirra. Greiðslubyrði vegna bifreiðarinnar hafi verið hærri en kærendur hafi búist við og þau m.a. greitt 152.275 krónur til að koma í veg fyrir að þau yrðu svipt umráðum bifreiðarinnar. Að mati umsjónarmanns geti þessi háttsemi fallið undir d-lið 1. mgr. 12. gr. lge., enda ljóst að háttsemin hafi skaðað hagsmuni lánadrottna.

Þá beri kærendur fyrir sig að tekjur þeirra hafi ekki verið stöðugar. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum sjálfum hafi nettó tekjur þeirra frá X lækkað á tímabili greiðsluaðlögunar um tæpar 25.000 krónur og hafi árið 2012 verið að meðaltali 420.047 krónur á mánuði. Þá hafi kærendur greitt kostnað vegna bifreiðaviðgerða að fjárhæð 180.000 krónur, auk kostnaðar við viðgerð á íbúð sinni að fjárhæð 750.000 krónur. Einnig bera kærendur því við að þau hafi ráðstafað sparnaði sínum til að byggja upp atvinnurekstur sinn og skýra greiðslur til Western Union, alls að fjárhæð 841.281 króna, með því að þær hafi tengst atvinnu þeirra.

Að mati umsjónarmanns bendi framangreint til þess að kærendur hafi brugðist skyldum sínum skv. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en ljóst sé að sparnaður sé ekki í samræmi við framangreindar áætlanir. Við mat á greiðslugetu kærenda hafi ekki annað verið fært en að styðjast við neysluviðmið embættis umboðsmanns skuldara. Þá verði ekki séð að þau óvenjulegu og sérstöku útgjöld sem kærendur hafi vísað til geti skýrt að ekkert hafi verið lagt fyrir á greiðsluaðlögunartímanum. Sú tekjulækkun sem vísað hafi verið til í skýringum kærenda hafi ekki verið mikil, samkvæmt framlögðu frumvarpi, þar sem launtekjur kærenda hafi verið áætlaðar 444.917 krónur á mánuði. Skýringar kærenda hafi því verið ófullnægjandi og réttlæti ekki að peningar hafi ekki verið lagðir fyrir á greiðsluaðlögunartímanum.

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra nemi heildarskuldir kærenda við embættið umtalsvert hærri fjárhæð en þegar kröfum var upphaflega lýst og skulda kærendur virðisaukaskatt meðal annars fyrir árið 2011. Í ljósi þess og með vísan til þess sem að framan greinir telji umsjónarmaður ekki unnt að mæla með nauðasamningum, enda ekki ljóst hvort kærendur geti staðið við nauðasamning þann sem þau hafi óskað eftir.

Að öllu framangreindu virtu hafi það verið niðurstaða umsjónarmanns með vísan til. 18. gr. lge. að mæla gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæmist á.

III. Sjónarmið kærenda

Í kæru segir að kærendur hafi verið í greiðsluskjóli síðan 6. janúar 2011 en þau hafi fyrst leitað aðstoðar í janúar 2008 eða um ári eftir að krabbameinsmeðferð kæranda Jóhönnu lauk. Kærendum hafi verið vísað frá á þeim forsendum að þau væri með sjálfstæðan rekstur. Í lok mars 2013, eftir allan þennan tíma og tilheyrandi óvissu, hafi kærendur fengið þær upplýsingar að kröfuhafar hafi lagst gegn samningi þeirra um greiðsluaðlögun og að umsjónarmaður hafi mælt gegn nauðasamningum. Kærendur séu afar ósátt við gang mála og allan þann tíma sem málið hafi tekið. Þau eigi erfitt með að skilja þessa ákvörðun nú og telja það vænni kost að semja en að þau endi í gjaldþroti.

Kærendur geri í fyrsta lagi athugasemd við það sem fram komi í ákvörðun umsjónarmanns um áætlaðan sparnað þeirra. Kærendur hafi ekki getað sparað neitt og séu skýringar þess margvíslegar. Laun þeirra hjá X hafi lækkað á köflum vegna samdráttar í sölu á meðan allur framfærslukostnaður hafi hækkað.  Ekki hafi verið auðvelt að fá aukavinnu þótt þau hafi fengið slíka vinnu öðru hverju en það hafi dugað skammt Þessir þættir hafi bitnað á sparnaði þeirra, auk þess sem óvænt útgjöld hafi sett strik í reikninginn, til dæmis vegna viðgerðar á húsi og bifreið. Þá hafi kærandi B ekki gengið heil til skógar, en hún hafi þurft á aðstoð sjúkraþjálfara og sálfræðings að halda Allt kosti þetta peninga en sé eflaust á bannlista sem kærendur hafi ekki getað fylgt endalaust.

Kærendur bendi á að þau hafi átt erfitt með að fóta sig allt frá því kærandinn B varð veik. Síðastliðin sjö ár hafi því reynst þeim erfið og ástandið dregið úr þeim allt sjálfstraust. Óvissa um gang mála hafi ekki hjálpað til en kærendur hafi lagt mikið á sig og reynt að byggja upp rekstur sinn eftir fremstu getu. Nú séu þau samt ráðþrota og við það að gefast upp.

Þá bendi kærendur á að SP fjármögnun hafi tekið bifreið þeirra. Þau hafi þá farið að greiða af bifreið sonar þeirra sem þau hafi strangt til tekið ekki mátt gera. Án vafa hafi þetta verið vanhugsað af þeirra hálfu en þau hafi bráðvantað bíl og ekki mátt leigja eða kaupa bíl. Þetta hafi verið gert til bráðabirgða og öllum í hag að mati kærenda. Bifreiðinni hafi síðan verið skilað til Landsbankans og kærendur keypt aðra bifreið fyrir 250.000 krónur. Eflaust hafi þau ekki mátt kaupa hana en þau hafi þurft að sækja vinnu, sækja vörur og fara á milli staða. Aðrir samgöngumátar hafi einfaldlega ekki gengið upp.

Í öðru lagi geri kærendur athugasemdir við það sem fram komi í ákvörðun umsjónarmanns um að þau hafi innt af hendi fjármuni í tengslum við viðskipt sín í Asíu og Afríku í gegnum Western Union. Kærendur beri því við að dreifingaraðili frá vestur Afríku sem var á þeirra vegum sem hafi í þrígang sent peningagreiðslur í nafni kærenda til ættingja sinna. Greiðslur kærenda hafi verið vegna næringarklúbbs sem þau hafi rekið ásamt dreifingaraðila í Víetnam. Einnig hafi kærendur sent peninga til að greiða leigu á herbergjum í Víetnam, Kambódíu og Ghana svo og vegna vörukaupa á X næringarvörum. Kærendur hafi fengið heildsölu- og umboðslaun með vinnu sinni frá Asíu og Afríku en tilraun þeirra til að vinna þaðan hafi ef til vill ekki staðist væntingar að öllu leyti. Þetta hafi verið örvæntingafull leið til að reyna að finna öryggi og fótfestu og sé alls ekki að fullu reynd.

Í þriðja lagi geri kærendur athugasemdir vegna skulda hjá embætti tollstjóra. Kærendur taki fram þau séu meðvituð um hana en þeim hafi skilist að þessum skuldum ætti að bæta inn í greiðsluaðlögunarsamning og tímabil greiðsluaðlögunar yrði lengt í þrjú ár.

Kærendur leggi áherslu á og óska þess að þau fái fyrirgreiðslu ella sjái þau ekki fram á annað en gjaldþrot. Þau bendi á að þau séu fædd 1957, eigi 4 börn og 5 barnabörn og það sé þeim erfitt að vera í þessari stöðu á þessum aldri. Aðstæður í bankakerfinu, sala á fasteign á röngum tíma, veikindi, hrunið og allur sá tími sem farið hafi í að vinna úr máli þeirra, auk fleiri þátta, hafi leitt til þess að þau séu í þessari stöðu núna.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge., sbr. a- og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á byggist á því að kærendur hafi í fyrsta lagi brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Í öðru lagi telur umsjónarmaður að kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. með því að greiða af bílasamningi sonar síns.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að einungis sé heimilt að víkja frá því að leggja fyrir umframfé sé nauðsynlegt að ráðstafa því til framfærslu. Jafnframt kemur fram í c-lið 1. mgr. 12. gr. að á meðan skuldari leiti greiðsluaðlögunar sé honum skylt að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt skýringum kærenda hafa þau meðal annars varið því fé sem leggja átti til hliðar í afborganir af bifreið sonar síns, viðgerð á bifreið, tryggingar af bifreið og viðgerð á íbúð sinni. Samtals nema þessar greiðslur 1.776.301 krónur. Einnig hafa þau greitt leigu á herbergjum í Víetnam, Kambódíu og Ghana í tengslum við viðskipti sín með X vörur.

Eins og áður segir eru skuldurum settar ákveðnar skorður á því hvernig ráðstafa skuli því umframfé sem safnast fyrir í greiðsluskjóli. Kærendum var í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem var umfram framfærslu og í öðru lagi var þeim skylt að ráðstafa ekki fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Kærendur hafa ekki sýnt fram á nauðsyn þess að stofna til þeirra fjárútláta sem þau hafa tilgreint.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C hrl., um að mæla gegn nauðasamningi A og B er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

           Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta